sunnudagur, janúar 30, 2005 

Crap

Það ætlar að ganga illa að koma sér upp í Grímsvötn. Reynt um helgina, en svona fór um sjóferð þá. Ekki svo út í hött að tala um sjóferð!

Ítarlegri ferðasaga verður svo rituð þegar Skáldið hefur náð upp töpuðum svefni. Það verður einhvern tímann seinna í vikunni...

laugardagur, janúar 22, 2005 

Duglegur strákur!

Titill þessa bloggs er hálfgert rangnefni, því Skáldið hefur verið allt annað en duglegt að blogga, en á móti kemur að það hefur verið duglegt við ýmislegt annað. Að frátöldum áramótauppgjörum og almennu dissi í garð aumingjabloggara (sem Skáldið stefndi hraðbyri í að líkjast) hefur Skáldið engar fregnir af sér fært síðan í byrjun mánaðar, og voru þær á þá lund á Skáldið hefði tekið sótt eina mikla. Eitt og annað hefur gerst síðan þá:

Síðast fréttist af Jarlaskáldinu sunnudaginn 9. janúar, og bar það sig þá enn aumlega eftir fimm daga flensufjör. Flensan entist einhverja daga í viðbót, og í raun var Skáldið ekki orðið almennilega heilt heilsu fyrr en nokkuð var liðið á næstu viku. Ekki minnist Jarlaskáldið þess að hafa veikst svo illa áður, en á móti kemur að Skáldið státar ekki af góðu minni varðandi eigið líf og athafnir, þó það geti munað ómerkilegustu hluti sem engu máli skipta í tonnatali. But anyways...

Laugardaginn 15. janúar þóttist Jarlaskáldið loks hafa öðlast heilsu til að bæta í afrekaskrána, og í þeim tilgangi hélt það einmitt upp í Bláfjöll árla morguns þann daginn ásamt Vigni nokkrum Jónssyni á Lilla. Tilgangurinn var eins og ætla mætti að brúka skíði ellegar bretti og gekk það bærilega þó veður (þoka og gekk á með skúrum) og færi (lala) hafi ekki verið upp á hið allra besta. Í hópinn bættust einnig hin nýgiftu Andrésson og frú auk hinnar ógiftu (so far) Dýrleifar. Fínasta ferð alveg, en betra var í vændum...
...þó ekki sé beint átt við kvöldið. Það fór eins og oft áður í ólifnað og djammirí, hittingur hjá Stebbanum og síðar hjónunum um kvöldið, og síðla nætur héldu hinir örvæntingarfyllri á lendur skemmtanalífsins, og héldu þar til fram undir morgun, án merkjanlegs árangurs...

Hvað meira? Jú, það var víst sunnudagur þarna, lítt eftirminnilegur, þó Skáldið hafi asnast til að vaka fram eftir öllu til að horfa á Gullhnöttinn. Tímasóun.

Mánudagur, að venju án stórafreka, og smáafreka ef út í það er farið. Ekkert nýtt þar.

Þriðjudagur, jú, þar gerðist eitthvað aðeins meira, Skáldið ók eitt síns liðs eftir vinnu upp í Skálafell og eyddi þar nokkrum tímum í snilldarfæri og prýðilegu veðri á brettinu sínu. Fínt, ekki síst með heimsókn á KFC á leiðinni heim.

Miðvikudagur, Skáldið gerði ekkert, horfði á Bráðavaktina og á sama tíma mun sá "sorgaratburður" hafa gerst að M.R. datt út úr Gettu betur. Síðan þá hafa nánast allir þeir sem Jarlaskáldið hefur mætt á förnum vegi minnst á úrslit þessi og búist við að það geti ekki á sér heilu tekið vegna þessa "sorgaratburðar". En vitiði hvað, Jarlaskáldinu er skítsama!

Fimmtudagur, og Skáldið lét plata sig á skíði þriðja sinni í sömu viku, nú ásamt þeim VJ og Perrranum, og sá Perrinn um akstur. Áfangastaður var Bláfjöll, og var færi og veður til sóma, en fólksmergð fullmikil. Þrælgaman að vanda, víða farið um svæðið en nokkur vonbrigði að Fram-svæðið var lokað, enda besta brekkan þar. Undir lokin hittum við þá Togga og Lillebror og renndum okkur síðustu ferðinar með þeim. Það reyndist síðan ágætt að við rákumst á þá, því þegar við komum að bílnum hans Snorra (perra) og ætluðum heim fannst bíllykillinn hvergi þrátt fyrir mikla leit. Ágætt að Toggi var á Patta og gat skutlað öllum heim, þó Skáldið sæi soldið eftir gleraugunum sínum sem voru læst inni í bíl Perrans...

Síðan hefur fátt gerst, nema að Skáldið hefur endurheimt gleraugu sín. Sem var gott...

Lítum fram á veg. Um næstu helgi mun Jarlaskáldið ef veðurguðir lofa halda á Vatnajökul og freista þess að ljúka því sem ekki tókst fyrir rúmu ári síðan. Svo er ýmislegt annað á dagskrá. Eftir rúman mánuð hyggst Skáldið venju samkvæmt heimsækja höfuðstað Norðurlands, Agureyrish, og skíða ef veður leyfir, og drekka, hvað sem allt veður segir. Þess ber að geta að enn eru laus pláss í för þá fyrir gjafvaxta snótir á viðeigandi aldri. Tæpum mánuði síðar verður svo förin mikla. Meira um það síðar...

Ó, Blöndahl, hvernig meikum við Ítalíu án þín?

þriðjudagur, janúar 18, 2005 

Bætist í Dauðraríkið

Tveir bloggarar hafa safnast til feðra sinna. Kötturinn lét af þeirri iðju um daginn og hans nýi sess því væntanlega varanlegur. Pervertinn aftur á móti sem barmaði sér svo óskaplega síðast þegar hann var settur í Dauðraríkið á sér viðreisnar von, ef hann lætur af nærri tveggja mánaða aumingjaskap og drullast til að skrifa eitthvað.
Svo þarf nú frænkan að fara að passa sig...

mánudagur, janúar 17, 2005 

Ársuppgjör 2004 - fjórði hluti - október-desember

Þá er komið að því, fjórði og síðasti hluti ársuppgjörsins, og grunar Skáldið að eitthvað fljótar verði farið yfir sögu að þessu sinni en oft áður. Hvað sem því veldur...

Október
Október fór rólega af stað, allavega greina heimildir ekki frá miklum afrekum fyrstu helgi þess mánaðar. Strax aðra helgi októbermánaðar dró síðan til tíðinda, því þá var haldin hin árlega La Grande Buffe veisla. Var það mikil veisla og góð, matur frábær og skemmtiatriði ekki mikið síðri. Opinn Ólsen er furðulega gefandi spil.
Jarlaskáldið hélt sig í þéttbýlinu næstu tvær vikurnar, og ekki voru þær ýkja tíðindamiklar. Á þessum tíma fór Skáldið í teiti til Manna, ammili til Mumma og hóf störf að nýju hjá fyrirtæki því er þá hét Norðurljós, en heitir núna eitthvað allt annað. Sunnudaginn 24. október fagnaði Jarlaskáldið svo 21 árs ammili sínu (sjöunda árið í röð) en tók reyndar forskot á sæluna og bauð nokkrum drykkjurútum til veislu kveldið áður. Hún var að mestu skrílslátalaus.
Síðasta helgi októbermánaðar var án efa hin eftirminnilegasta í þeim mánuði, og á eflaust eftir að endast alllengi í minninu. Þá fór Skáldið í mikinn jeppatúr sem endaði í allsherjarvitleysu. Engu að síður helvíti gaman, a.m.k. í minningunni.

Nóvember
Fjandinn hafi það, en svo virðist sem Jarlaskáldið hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut allan nóvembermánuð. Það lét það a.m.k. alveg vera að bregða sér út fyrir bæjarmörkin, en var reyndar þeim mun duglegra að kanna lendur skemmtanalífsins. Hluta nóvembermánaðar var Jarlaskáldið algerlega án "parental supervision" þegar gömlu brugðu sér út fyrir landssteinana, en nýtti samt ekki tækifærið til að halda villtar veislur. Það reyndi jú, en það mættu bara þrír. Í nóvembermánuði gerðist það að Skáldið hóf að venja komur sínar á þann gamla kynvillingastað 22, sakir illra áhrifa klækjakvendis nokkurs, og hefur ekki enn látið af þeim ljóta sið. Kynvillingarnir eru reyndar löngu farnir annað.
Annars gerði Jarlaskáldið ekkert af sér í nóvember, sem þarft þykir að nefna. Þetta hefur verið ljóti mánuðurinn.

Desember
Það fór eitthvað aðeins að lagast ástandið í desember, enda annað erfitt. Strax fyrstu helgina mætti Skáldið á jólahlaðborð í vinnunni og hélt síðar það kvöld á dansleik á Nasa með sómapiltunum í Sálinni hans Jóns míns. Það var prýðilegasta kvöld, eða nótt öllu heldur.
Hvað svo? Næstu tvær vikurnar voru haldnir reglulegir fundir, og var fundarefnið skipulagning 18. desember, en þá var Magnús nokkur Andrésson tekinn og steggjaður. Það var fjörugur dagur svo ekki sé meira sagt, af virðingu við hlutaðeigandi verður ekki frekar farið út í það.
Stuttu eftir þetta komu jól líkt og lög gera ráð fyrir, og síðan áramót. Í millitíðinni lenti Jarlaskáldið líka í wannabe-celebapartíi. Jarlaskáldið kvaddi árið á heimaslóðum, og lýkur þar pistli.

Það verður að viðurkennast að síðasti ársfjórðungur 2004 var þeirra daprastur, líkt og kannski oft áður. Það er bara einhvern veginn alltaf þannig að maður gerir ekkert af viti vikum saman á þessum árstíma. Að vísu var október ágætur með tveim flottum ferðalögum og svo að sjálfsögðu ammili, nóvember var með eindæmum aðgerðalítill og desember sömuleiðis fyrir utan eitt steggjapartí og svo hefðbundið jólastúss. Ekki svo að skilja að þetta hafi verið eitt allsherjarþunglyndi, bara talsvert rólegra en t.d. mánuðirnir á undan. Einkunnin verður því ekki alslæm:

Einkunn október-desember 2004: 7.3.

Einkunnir eru því sem hér segir

Janúar-mars: 8.3.
Apríl-júní: 8.5.
Júlí-september: 9.1.
Október-desember: 7.3.

Samkvæmt útreikiningum færustu stærðfræðinga ætti þetta að gefa oss meðaleinkunn sem hljóðar upp á 8.3 fyrir árið 2004. Það er ekki svo slæmt, er það?

mánudagur, janúar 10, 2005 

Ársuppgjör 2004 - þriðji hluti - júlí-september

Jessöríbob, ársuppgjörið heldur áfram og nú er komið að þriðja ársfjórðungi. Það er óhætt að segja að þar hafi ýmislegt gerst...

Júlí
Júlímánuður var eins og oft áður ansi þéttskipaður, ferðalög og djammerí hverja helgi. Strax 2. júlí lá leiðin í Mörkina í hina árlegu FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Sú ferð var reyndar með nokkuð breyttu sniði frá hinu venjulega, í stað Blautbolagils var haldið í Smástrákagilið, og þó svo að þar hafi verið feiknastuð var ekki laust við að örlaði á eilitlum söknuði hjá reyndustu köppum. Blautbolagil 2005!
Í vikunni eftir Mörkina gerði Skáldið góðan hlut, pantaði sér flugfar til Eyja um verslunarmannahelgina. Meira um það síðar.
Strax helgina eftir brá Skáldið aftur landi undir dekk, að þessu sinni í norðurátt, og endaði það ferðalag í Húsafelli. Þar skemmti það sér í rigningunni ásamt fimm VÍN-verjum, einum Danna djús og fullt af öðru liði. Jú, svo var Johnsen á svæðinu! Og Vilhjámsson!
Stuttu eftir heimkomu úr þeirri för pantaði Jarlaskáldið ferð til Selva, en nú eru einmitt bara 68 dagar í hana. Það voru góð kaup.
Helgina 16.-18. júlí lagði Skáldið enn og aftur í víking, að þessu sinni ásamt þeim Vigni og Stefáni. Föstudagsnóttinni eyddum við í Mörkinni í mestu rólegheitum, en keyrðum svo Fjallabakið upp í Þjórsárdal daginn eftir og hittum þar fullt af liði og gerðum skurk. Blöndudalur og Adolf bættust þar í hópinn, og stunduðu þau aðalfundarstörfin ekkert síður en aðrir. Þarna var bongóblíða á sunnudeginum...
Næstu helgi var engin undantekning gerð, enn og aftur lagt í hann og að þessu sinni vítt og breitt um uppsveitir Árnessýslu á ófáum tryllitækjum. Gist var að Hlöðuvöllum aðfararnótt laugardagsins, en síðan ekinn línuvegur í austurátt uns áfangastað var loks náð í Þjórsárdalnum, líkt og helgina áður. Þar var síðan fámenn en góðmenn afmælisveisla Vignis haldin, einungis karlmenn á svæðinu, uns ein fröken mætti um miðnætti. Djúsinn stóðst sitt inntökupróf með sóma.
Vikuna eftir þessa för fylgdist Jarlaskáldið einkar vel með veðurspám. Þær voru ekki nógu góðar, því Skáldið átti pantað flug til Vestmannaeyja á fimmtudeginum og aftur heim 4 dögum síðar. Miðvikudaginn 28. júlí komust þeir búsbræður með flugi en þegar Skáldið ætlaði að gera slíkt hið sama var ófært. Jarlaskáldið dó ekki ráðalaust, sem frægt er orðið, lét skutla sér til Þorlákshafnar og sigldi síðan með Gubbólfi í haugasjó til fyrirheitna landsins. Síðustu þrír dagar júlímánaðar 2004 munu sko lifa ansi lengi í minningunni...

Ágúst
...og ekkert síður tveir fyrstu dagar ágústmánaðar, því Skáldið var enn statt á Þjóðhátíð í Eyjum og hefur hvorki fyrr né síðar skemmt sér betur á íslenskri grundu, þrátt fyrir ýmis skakkaföll sem ALGJÖR ÓÞARFI er að telja upp hér. Snilld, snilld, snilld! Allir á Þjóðhátíð 2005!
Vikunni eftir Eyjar var eðlilega varið í það að koma líkamanum í eðlilegt ástand, og helginni svo varið í tveimur partíum þar sem afrek Eyjaferðar voru aðallega rifjuð upp, við mismikla gleði. Um svipað leyti brast svo á einhver rosalegasta hitabylgja sem sögur fara af á skerinu og entist hún vikuna næstu og rúmlega það, en sú vika var einmitt sú síðasta sem Skáldið starfaði hjá Norðurljósum.
Skáldið var s.s. orðið atvinnulaust föstudaginn 13. ágúst og til að fagna því skellti það sér auðvitað á djammið. Daginn eftir skelltum við Stebbalingur okkur síðan upp í Laugar til að, jú, lauga okkur. Alltaf gaman í Laugum, ekki síst þegar maður hittir tadsjiksk beib. (Svona á í alvöru að skrifa þetta)
Skáldið var ekki lengi í paradís, strax á mánudeginum eftir þessa helgi var því boðin vinna að nýju frá nóvember hjá Norðurljósum, og til að fylla upp í gatið fékk það vinnu hjá bændum þangað til. Æði. Helgina eftir var svo svokölluð Menningarnótt, og var Jarlaskáldið líkt og aðrir góðir þegnar einkar ómenningarlegt þá ágætu nótt...
Enn var ein helgi eftir af ágúst og um leið sumri, og ekki gat Skáldið hugsað sér að eyða henni í borgarsollinum. Það gerði það heldur ekki, skellti sér í bústað í Svignaskarði ásamt fleira góðu fólki. Var það fínasta ferð, framan af allavega, eða þar til Skáldinu tókst að slasa sig svo vel að örin sjást enn. Ojæja, maður býr ekki til ommelettu án þess að brjóta egg.

September
Einhverra hluta vegna er það þannig að 1. september á hverju ári hættir maður að gera nokkurn skapaðan hlut. Þannig var það 2002, og 2003, og aftur 2004. Eða svona allt að því. Sjáum til.
September fór allavega rólega af stað, Skáldið greri sára sinna eftir síðustu stórátök sumarsins en stóð þó upp úr bælinu til að kynna sér skemmtanalíf sveitavargsins á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Sú för var þó eingöngu í rannsóknarskyni, engin tilraun gerð til að taka þátt.
Helgin eftir var sennilega sú viðburðamesta í mánuðinum, en þá gerði Skáldið furðulega hluti; það gerði sér tvisvar för á Hvanneyri! Fyrra skiptið var á laugardeginum, fyllerísferð með vinnunni þar sem Skáldið var merkilegt nokk ekki mjög drúnk, og svo daginn eftir barnaammili hjá Hrafnhildi og Elvari. Hvort tveggja ágætis skemmtanir, þó ólíkar væru.
Þann 15. september skiptust Dabbi og Dóri á stólum. Þyrfti ekki að fara að segja þeim frá því? Og kannski Mogganum í leiðinni?
Eitthvað meira í september? Jú, þann 19. september sá Skáldið Anchorman. Það var góður dagur. Síðustu helgina í september hugðist svo einhver hópur fara í Mörkina, en þegar til kom urðu það aðeins þrír, sem urðu síðan sakir vatnsveðurs frá að hverfa og enduðu uppi við Hagavatn í takmörkuðu stuði. Ekki greina heimildir frá meiru í september.

Jahá, svona var það víst. Líkt og áður var hamingjunni misskipt í þessum ársfjórðungi, júlí og ágúst voru meira og minna snilld, september ekki eins mikil snilld. September er reyndar löglega afsakaður, það er yfirleitt lítt spennandi mánuður. Júlí var alveg brilliant, útilegur hverja helgi og nær alltaf í fínu veðri, og náði gleðin hámarki um mánaðamótin júlí-ágúst á Þjóðhátíð. Ágúst var síðan fínn líka, alltaf eitthvað að gera og ekki má gleyma veðrinu sem var rétt rúmlega gott. Eina sem finna má að var að mæting var stundum ekki nógu góð hjá fólki, þeir taka það til sín sem eiga.
Að öllu þessu skoðuðu er ekki annað hægt en að gefa þessum ársfjórðungi góða einkunn:

Einkunn júlí-september 2004: 9.1.

sunnudagur, janúar 09, 2005 

Djö!

Skáldið er enn á lífi, en ekki mikið meira en það. Þessi bévítans pest er greinilega ekkert á því að yfirgefa svæðið þótt það sé löngu búið að vísa henni út. Miðað við það magn af drasli sem Skáldið hefur sett ofan í sig til að vinna bug á pestinni er einnig ljóst að Róbert Wessman og félagar þurfa ekki að örvænta um sinn hag á næstunni. Ekki að það drasl allt virki nokkuð...

föstudagur, janúar 07, 2005 

Nú er það svart!

Ekki er það gott ástandið á Jarlaskáldinu núna, 39 stiga hiti, hálsbólga, beinverkir, leiðindi. Jamm, ef hér verður ekkert uppfært á næstunni þá þýðir það að Skáldið meikaði það ekki. Vonum samt hið besta...

þriðjudagur, janúar 04, 2005 

Ársuppgjör 2004 - annar hluti - apríl-júní

Þá er komið að öðrum hluta í ársuppgjörinu, vika síðan fyrsti pistillinn var birtur, vonandi líður minna en vika í þann næsta, en Jarlaskáldinu til varnar var nóg annað að gera liðna viku en að sitja við skriftir. Fyrsti árfjórðungur 2004 fékk eftir hávísindalegar mælingar einkunnnina 8,3 og það þrátt fyrir að stærstur hluti tímabilsins hafi verið tóm leiðindi. Margt sem Ítalíuferðir geta bætt. Nú er að sjá hvernig öðrum ársfjórðungi reiðir af:

Apríl
Það fór að koma aukinn ferðahugur í Jarlaskáldið þegar sól tók að hækka á lofti er leið á vorið og Eyjólfur því heldur að hressast. Reyndar eyddi Skáldið fyrstu helgi aprílmánaðar að mestu innan borgarmarkanna, Jarlaskáldið gerði einkar víðreist um skemmtistaði borgarinnar eftir nokkra fjarveru á þeim slóðum og endaði m.a. eitt kvöldið á slysavarðstofu með myndarlega skeinu. Hún greri. Einnig fjárfesti Skáldið í nýjum síma þessa helgi og hefur ótrúlegt en satt ekki týnt honum enn! Sá var búinn myndavél, og var óspart brúkaður næstu mánuðina. Í sunnnudagsþynnkunni var svo fyrsta ferðalag annars ársfjórðungs, stutt að vísu, fór með meðreiðarsveinunum algengustu í bað í Reykjadal. Ekki seinasta utandyrabaðferðin það árið...
Önnur helgi aprílmánaðar var páskahelgin og þá var ýmislegt bardúsað. Á miðvikudagskvöldinu var litið í bæinn örstutta stund, á skírdag brugðið sér í bíltúr austur fyrir fjall og kíkt í sund á Flúðum, að morgni föstudagsins langa haldið í Mörkina við fimmta mann og gist eina nótt, alltaf gaman að kíkja þangað og athuga með bekkinn og árnar og margt fleira. Laugardags- og sunnudagskvöld leit Skáldið við í teitum og brá sér einnig í bíltúr norður fyrir fjall á páskadag. Ansi víða komið við þessa löngu helgi, en helst þótti tíðindum sæta að Skáldið sá hvergi neina timburmenn. Those were the days!
Eftir páskana gerðist fátt sem til tíðinda þótti í drjúga stund, Skáldið lét sadískan tannlækni sinn fylla eina tannrót sína stuttu eftir páska og var bæði sakir blankheita (ekki ókeypis sú aðgerð) og eðlislægrar leti rólegt næstu vikuna. Miðvikudaginn 21. apríl greip loks ferðahugurinn Skáldið að nýju, var það síðast dagur vetrar og að venju var þeim tímamótum fagnað með því að fara í útilegu og skíðaferð hvort tveggja í einu, einkar viðeigandi á mótum veturs og sumars. Arnarstapi og Snæfellsjökull urðu að vanda fyrir valinu, góðmennt og góðviðrasamt og fínasta ferð. Að vanda.
Ekki kom Jarlaskáldið miklu meira í verk í apríl 2004 sem fært var til bókar, nema...

Maí
...fyrsta hluta ferðar þeirrar er næst er getið, því vissulega hófst hún síðasta daga aprílmánaðar þó veigamestur hluti hennar hafi verið í maí, og því fjallað um hana þar. Var sú ferð líkt og margar aðrar hefðbundin (óglöggum lesendum til skýringar verða ferðir hefðbundnar við það að verða endurteknar, þó ekki sé nema einu sinni), labbitúr á Hekluna með skíðaplanka á bakinu og skíðað niður ef veður leyfir. Veðrið var reyndar ekki alveg á því að leyfa það að þessu sinni, ferðlangarnir fjórir þurftu frá að hverfa í ríflega 1000 metra hæð og snælduvitlausu veðri, en skíðuðu a.m.k. það sem þá var búið að ganga.
Annarri helgi maímánaðar eyddi Skáldið heimavið, sem var þónokkuð algengt fyrri part árs, en þriðju helginni var varið í enn eina hefðbundnu iðjuna, Júróvisjónpartí, að þessu sinni í Logafoldinni, og veðjaði Skáldið að sjálfsögðu á réttan hest sem var Ruslana blessunin. Eitthvað var nú djammið það kvöldið.
Í vikunni eftir Júró var svokallaður uppstigningardagur, og þótt fæstir viti hvert pointið er með honum þýddi það frí í vinnunni og nýttu nokkrir VÍN-verjar hann til þess að heimsækja Þórsmörkina ástkæru. Ágætasta ferð, þó ekki hafi hún verið hin æsilegasta. Leikar áttu eftir að æsast síðar...
...og það ekki miklu síðar, því síðustu helgina í maí, hvítasunnuhelgi, fór Skáldið ásamt fjórum öðrum í hreint frábæra ferð um suðurhluta Vestfjarða. Það voru meiri ólukkans greyin sem misstu af þeirri ferð, sem lengi verður í minnum höfð.

Júní
Júní fór prýðilega af stað, því strax helgina eftir Vestfjarðavíkinginn var haldið í Kerlingarfjöllin, gengið á Snækoll og skíðað niður. Þar endaði einnig Morgunblaðshöllin líf sitt, blessuð sé minning hennar.
Í vikunni eftir þá ferð fékk Jarlaskáldið hin ágætustu tíðindi; það var ráðið til starfa hjá Baugsveldinu, sem prófarkarlesari í sumarafleysingum. Allt skárra en helvítis mjólkin. Það reyndar þýddi að nokkurt hlé var gert á ferðalögum, þó næstu helgi hafi verið varið í bænum af öðrum ástæðum. Skáldið leit við í útskrift hjá Kidda, komst ekki mikið lengra...
Helgina á eftir héldu margir til Mývatns, en Skáldið sat heima og sinnti nýfenginni vinnu sinni, ekki sérlega gott career-move að taka sér frí fyrstu helgarvaktina. Helgina þar á eftir var svo plönuð (hefðbundin) gönguferð um Fimmvörðuháls, en þá tóku veðurfræðingar í taumana, spáðu bálviðri svo ferðalangar týndu hver af öðrum tölunni uns eftir stóðu tveir: Skáldið og Stebbinn. Létum við veðurspá lítið á oss fá, fórum reyndar bara í Mörkina á Willa í stað þess að ganga og létum það engan mátt úr okkur draga að veður var snælduvitlaust, hvað þá þegar kviknaði í Willa á leiðinni. Helgin heppnaðist síðan bara ágætlega, fjölgaði í hópnum á laugardeginum og komin rjómablíða á sunnudeginum. Og lýkur þar júnímánuði...

Einkunn:

Það má segja að heildarsvipur annars ársfjórðungs hafi verið annar og jafnari en þess fyrsta. Vissulega var ekki endalaust fun, fun, fun en þó leið aldrei langt á milli þess að Skáldið fann sér eitthvað skemmtilegt að gera, og margar ferðirnar voru stórskemmtilegar, ekki síst Vestfjarðavíkingurinn sem var hrein snilld. Á móti kemur að Skáldið var meira og minna staurblankt allan tímann, þó horft hafi til betri tíma undir lokin. Svo að niðurstaðan er...:

Einkunn apríl-júní 2004: 8.5.

mánudagur, janúar 03, 2005 

Ágætis byrjun

Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaskáldið er ekki á leið til Ítalíu eftir 9 daga eins og það ætti í venjulegu árferði að gera, heldur þarf það að bíða heila 75 daga til að komast á þær ágætu slóðir. Fjárinn. Það er sem sagt ekkert sérlega skemmtilegt í kortunum á næstunni, en helgin sem leið var helvíti góð. Rifjum upp...

Fyrst á mælendaskrá er fimmtudagskvöldið 30. desember. Þá brá Jarlaskáldið sér ásamt þeim Eyjólfi og Stefáni í bæjarferð, nánar tiltekið á veitingahúsið Thorvaldsen, en þangað hafði Pétur nokkur boðið okkur á Þorláksmessu í tilefni afmælis hans. Eftir nokkra leit var okkur vísað þar í einkasal og tekið fagnandi með veigum góðum. Var gleðin í upphafi góðmenn en vart fjölmenn. Það breyttist fljótlega þegar semi-celebinn Jamie Kennedy mætti á svæðið með sitt entourage, sem voru einkum útlendingar, grúppíur og FM-hnakkar. Ekki kipptum við okkur mikið upp við þetta, löptum bara á okkar fría öli og ypptum síðan bara öxlum þegar wannabe-celebinn Eli Roth bættist í hópinn með annan eins fjölda af hnökkum og grúppíum í eftirdragi. Hurfu þessir ágætu herramenn síðan á brott þónokkru síðar en skildu flesta hnakkana eftir, svo að um eittleytið létum við okkur einnig hverfa úr þeim slæma félagsskap enda ölið hvort eð er búið. Pétri skal þó þakkað kærlega fyrir góða veislu, sem og Sigurgeiri fyrir að skutla hersingunni heim.

Gamlársdagur... var eitthvað gert þá? Jú, Skáldið beið í ofvæni eftir óveðrinu sem aldrei kom almennilega, át kalkún og drakk rauðvín og gersigraði öðru sinni skyldmenni og venslafólk í Popppunktsspilinu. Um tíuleytið sprengdi það býsnin öll af flugeldum fyrir litla frændann sem horfði hugaður út um stofugluggann á lætin. Rétt fyrir skaup tók Skáldið svo til fótanna og hélt upp í Réttarsel þar sem Stefán var staddur ásamt stórfjölskyldunni og hafði boðið Skáldinu að horfa á Skaupið í almennilegu sjónvarpi. Skaupið var alveg hið bærilegasta, ekki síst eftir ósköpin í fyrra.
Í kringum miðnætti horfði Skáldið eins og kannski fleiri á skoteldadýrðina, fékk sér aðeins meira neðan í því en hélt svo ásamt áðurnefndum Stefáni og Öldu bílstjóra í teiti hjá Odda, sem var hin rólegasta þrátt fyrir skrílslæti ákveðinna gesta. Upp úr þrjú lá svo leiðin í Kópavog í öllu villtari gleðskap, en Skáldið staldraði stutt við þar, var komið heim fyrir fjögur, enda ágætis dagskrá framundan daginn eftir. Stefán kom víst heim allmiklu seinna...

...og sást það ágætlega á honum þegar hann mætti prúðbúinn í Kleifarselið um þrjúleytið daginn eftir. Þaðan lá leið okkar í Seljakirkju, en þangað hafði hvorugur okkar komið síðan, ja, hvenær fermdust við? Ekki var það trúræknin sem dró okkur á þessar fornu slóðir, fjandans fjarri því, heldur hafði okkur og öðrum verið boðið að verða viðstaddir hjónavígslu þeirra Andréssonar og frúar. Sögðu bæði já til allrar hamingju, og það tvisvar hvort um sig, og bundust svo handjárnum um ókomna tíð. Jarlaskáldið náði með herkjum að halda aftur af tárunum, enda sentímental mjög.
Frá heimahögunum lá leiðin í Hringtorgabæinn Hafnarfjörð, og ótrúlegt en satt rötuðu velflestir gestir í Oddfellow-húsið hvar veisla mikil brúðhjónunum til heiðurs var haldin. VÍN-verjar röðuðu sér við eitt borðið og þeim til mikillar gleði var Ragnheiður Blöndahl frammistöðustúlka og átti hún ófáar heimsóknirnar að því borði áður en kvöldið var úti. Blöndudalur bróðir hennar sá hins vegar um veislustjórn og fórst það ágætlega úr hendi. Í boði var alls kyns gúmmulaði og hægt að skola því niður með ýmsustu drykkjum. Ekki skorið við nögl, ónei. Skemmtiatriðin voru líka fín, ræður hæfilega langar og flestar ágætlega fyndnar, þó misfyndnar væru. Bæði vinir brúðguma og brúðar voru með myndasýningar, auk þess sem sýnt var myndband frá sögulegu steggjapartíi brúðgumans. Allt vakti þetta mikla lukku, ekki síður en spurningakeppni sem Skáldið sá um að hluta í félagi við stúlkur nokkrar, þar sem ættingar brúðhjónanna fengu að spreyta sig á spurningum um þau. Annað liðið vann. Auk þessa söng Brynhildur Guðjónsdóttir í hlutverki Edith Piaf, ansi flott það, og svo var örugglega e-ð fleira sem Skáldið ekki man í svipinn.
Að skemmtidagskrá lokinni var djammað að rammíslenskum sið, þó fólk hafi farið misgeyst. Brúðhjónin hurfu út í buskann þegar líða tók á kvöld en ekki stöðvaði gleðin við það. Það kom fáum á óvart að VÍN-verjar voru með síðustu mönnum til að yfirgefa pleisið og var þaðan haldið til Snorra og Katýar og stuðinu haldið áfram, meðal annars sungið, dansað og reyktir vindlar. Um þrjúleytið héldu hinir hörðustu svo í bæinn og það er bæði gömul saga og ný...

Sunnudagurinn var ekki sá besti...

Mánudagurinn ekki heldur...

Að lokum vill Jarlaskáldið þakka kærlega fyrir sig, þetta var hin mesta skemmtun. Jafnvel spurning um að endurtaka þetta einhvern daginn, þó vonandi með öðrum leikendum í burðarhlutverkum. Pant ekki!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates