« Home | Hnyttin fyrirsögn   Nöjnöjnöj, allt að gerast hj... » | Leti Það hlýtur nú bara að fara að koma að því að... » | Blogga? Var í Mörkinni, er á leið til Eyja, og í ... » |   Stebbalingur að skoða ofan í húddið hjá Magga... » | » | » | » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » 

þriðjudagur, júlí 27, 2004 

Skáldið skuldar
 
Jæja, það er orðið official, Jarlaskáldið er orðið aumingjabloggari. Þetta hefst upp úr því að eyða átta tímum á dag með aumingjabloggaranum eina sanna. Smitandi andskoti. Nú eru þrjár ferðasögur sem bíða þess að verða færðar á prent, það er að segja ef einhverjum dytti í hug að prenta vitleysuna út, t.d. til að hafa með á kamarinn.  Þetta er vonandi skemmtilegri lesning  en að lesa utan á sjampóbrúsa (sem menn hafa játað að hafa gert), þó innihaldslýsing sjampóbrúsa hafi óneitanlega meira upplýsingagildi. Og jú, er í sumum tilvikum skemmtilegri. Jawohl.
Spurning að reyna að grynnka eitthvað á þessum ferðasögubunka. Þá er reyndar spurning hve langt aftur í tímann minnir dugar, þar sem Skáldið hefur ekki enn látið verða af því að kaupa nýjan minniskubb í hausinn á sér.  Sjáum til...

FERÐASAGA 1: HÚSAFELL
 
Samkvæmt dagatali gerist ferðasaga þessi dagana 10.-11. júlí á því herrans ári núna. Föstudaginn 9. júlí kíkti Skáldið reyndar í bæinn en var á bíl og því frá litlu að segja, en daginn eftir var ráðgert að bregða sér út fyrir bæjarmörkin eins og eina nótt og varð Húsafell fyrir valinu að þessu sinni, enda staðurinn þekktur fyrir góða þjónustu og liðlegheit eða kannski bara ekki. Það er önnur saga. Í ferð þessari voru auk Jarlaskálds þeir Stefán og Blöndudalur á Lilla og Vignir og Gústi á Hispa. Lagt var af stað í eftirmiðdaginn og eknir Uxahryggir og Kaldidalur bæði til að stytta leiðina og gera pínku jeppó úr þessu. Ekki gerðist margt markvert á þeirri ferð, en þegar í Húsafell var komið var meiningin að rugla saman reitum við nema úr rafmagninu í Tækniskólanum og sýndu þeir Vignir og Gústi undraverða takta við að finna ekki tjaldstæðið þeirra.  Það fannst að lokum og þótti Tækniskælingum kúnstugt að sjá þessa fimm spjátrunga tjalda fimm tjöldum og þótti bjartsýni ríkjandi hjá mönnum. Þess má geta að auk ýmislegs annars eiga fimmmenningar þessir það sameiginlegt að vera á ofanverðum þrítugsaldri, einhleypir og búa hjá mömmu sinni. Jájá.
Ekki var veðrið upp á marga fiska, rigningarsuddi með köflum svo við komum okkur fljótlega fyrir í partýtjaldi og kom á daginn að suma þekkti maður fyrir og aðrir reyndust einnig viðræðugóðir. Best þekkti Skáldið fyrir Danna djús, sem brallaði ýmsan óskundann með Jarlaskáldinu á gagnfræðaskólaárunum, og sýndi Djúsinn því eðla félagi V.Í.N.  strax mikinn áhuga enda allir í peysunum góðu.  Hve mikill sá áhugi var átti eftir að koma betur í ljós.
Ekki er hægt að segja að mikið hafi verið brugðið út af vananum þó selskapurinn væri nýr af nálinni, reyndar bættist Toggi í hópinn með enn eitt tjaldið, en svo var ket grillað og öl drukkið og skemmtun almenn. Upp úr níu lá leiðin á varðeldinn þar sem sjálfur Árni Johnsen tók upphitun fyrir brekkusöng og eftir það var að sjálfsögðu ekki aftur snúið, vitleysisgangur fram eftir nóttu, Skáldið fór í bælið um fimmleytið, sumir héldu áfram til tíu morguninn eftir.  Idol-Simmi var hress eins og myndin fyrir neðan ber með sér, en litlum sögum fer af hressleika þegar menn risu á fætur um og eftir hádegi. Sem betur fer var Skáldið við ágæta heilsu enda farið sér að engu óðslega um nóttina þar sem það þurfti að bruna heim á undan öðrum til að mæta til vinnu um fjögurleytið. Aldeilis sem það var gaman þar.

Jæja, þetta gengur bara vel, ein ferðasaga búin og tvær eftir. Spurning að rumpa bara af annarri, fyrst maður er kominn í stuð. Jájá, Skáldið leggur sig bara í vinnunni á morgun ef þetta dregst eitthvað fram á nótt...

FERÐASAGA 2 : ÞÓRSMÖRK-FJALLABAK-ÞJÓRSÁRDALUR

Næsta ferðasaga fjallar um atburði daganna 16.-18. júlí á þessu hinu sama ári núna. Höfðu verið uppi hugmyndir um að halda austur í Þakgil og þaðan yfir Fjallabak og enda í Þjórsárdal á hátíð mikilli en vegna dræmrar þátttöku voru það Jarlaskáldið, Stefán og Vignir sem héldu af stað á föstudagskvöldinu með stefnuna svo frumlega á Þórsmörk. Ekki verður sagt að margt hafi borið til tíðinda framan af þeirri ferð, við Seljalandsfoss náðum við í skottið á systur Vignis ásamt fjölskyldu á fögrum Land Rover sem ætlunin var að eyða nóttinni með í Mörkinni (fjölskyldunni þ.e., ekki Land Rovernum, þó það hefði örugglega líka verið ágætt). Við Seljalandsfoss hittum við einnig vinnuveitanda Stebbans á stórum jeppa með heimsins stærsta hjólhýsistrailer í eftirdragi. Slef.
Áfram var haldið inn í Mörk og það slysalaust að sjálfsögðu, fundum við svo prýðilegasta tjaldstæði inni í skógi og komum upp tjöldum, þ.á m. risastóru partýtjaldi þannig að þeir fáu dropar sem féllu niður gerðu okkur litla skráveifu. Sannast sagna var kvöld þetta með rólegasta móti, Skáldið gerði smá tilraun til að bulla í útlendingum en annars var bara spjallað og farið í háttinn í fyrra fallinu. Lognið á undan storminum myndi einhver kannski segja.
Á fætur fóru menn daginn eftir og allir hressir að vanda, enda veður orðið hið prýðilegasta. Kvöddum við fljótlega samkomuna og héldum út úr Mörkinni, en gramdist það talsvert á leiðinni út hve mörgum flottum kvenkostum við mættum á leið í hina áttina. Ojæja. Til að gera smá jeppó úr dæminu var ákveðið að fara bókstaflega Fjallabaksleið upp í Þjórsárdal, fyrst upp í Fljótshlíð en svo fram hjá Þríhyrningi inn á Fjallabak syðra allt þar til við beygðum út af til vinstri og ókum meðfram Vatnafjöllum austanverðum norður í átt að Heklu og síðan norður fyrir hana þangað til við komum að Dómadalsleið sem við fylgdum að lokum vestur að Landvegi. Þaðan tókum við stystu leið yfir Þjórsá í trássi við gildandi lög og reglur á svæðinu og síðan beinustu leið niður að tjaldstæðinu góða í Þjórsárdal. Þar var fyrir her manna sem Skáldið þekkti misvel, en sumir virtust þó þekkja Skáldið ágætlega. Kom þá í ljós að hlutfall gamalla Selskælinga var óvenju hátt og skýrði kunnugleikana. Aftur þótti það merkilegt að við þrír værum mættir með þrjú tjöld og þótti bjartsýni. Þó var ekki nógu bjart upp að líta, fengum á okkur góða dembu rétt eftir að við renndum í hlaðið en annars var veðrið að mestu til friðs á laugardagskvöldinu. Ekki svo löngu eftir komu okkar bættist í hópinn, Blöndudalur með Öldu í farteskinu og allt gott um það að segja. Ekki var fyrir nýbreytninni að fara þetta kvöldið frekar en oft áður, ket var grillað og öl drukkið, bullað í fólki og fleira í þeim dúr. Skáldið fór með fyrri fleyunum í háttinn, og var sú ákvörðun í mesta lagi hálfmeðvituð.
Þegar Skáldið byrjaði að rumska daginn eftir tók það strax eftir tveimur hlutum; annars vegar hafði einhver kona tekið hús á Skáldi um nóttina og gert 75% af svefnplássi þess að sýnu og hins vegar var nánast ekkert loft í tjaldinu. Hvort tveggja varð þess valdandi að Skáldið notaði þá litlu krafta sem það hafði til að skríða út og lá næstu tímana hreyfingarlítið í 20 stiga hita og glampandi sól. Þó var heilsa þess betri en rekkjunautsins, sem meikaði ekki einu sinni sólina og lagðist í skugga bak við bíl. Sumt fólk kann einfaldlega ekki að fara með áfengi.
Eins og vanalega braust flótti í tjaldbúa fljótlega upp úr hádegi, flesta aðra en V.Í.N.-verja þ.e.a.s., sem lágu sem fastast og létu sig bakast í sólinni (fyrir utan heilsulausa rekkjunautinn). Ekki svo oft sem hún sýnir sig að maður nýti það ekki. Um fjögurleytið var loks drattast af stað og keyrt niður að Árnesi þar sem ruslfæði var torgað með mismiklum herkjum en síðan haldið í sund. Að því loknu var haldið heim og þegar þangað var komið sór Skáldið þess dýran eið að endurtaka þetta aldrei aftur. Hve lengi stóð það við það? Gefum því 5 daga. Sagan af því verður annars að bíða betri tíma, nóg í bili...



Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates