« Home | Músík ársins » | 10 ár » | Músík ársins » | Músík ársins » | 2009 » | Árið 2008 í myndum » | Lilli er látinn » | París » | Lance Armstrong » | St. Anton » 

sunnudagur, desember 30, 2012 

2012

Árið 2012 var viðburðaríkt, enda degi lengra en mörg önnur ár. Rifjum upp í stuttu máli og nokkrum myndum:


Árið byrjaði að vanda við flugeldaskotfimi.


Annars virðist fátt markvert hafa gerst framan af árinu. En af myndum að dæma virðist hafa snjóað nokkuð duglega á þeim tíma.


Svo mjög að það þurfti jafnvel að senda frúna út að moka svo Kian kæmist í stæðið.


Seinni hluta febrúarmánaðar gerðum við skötuhjú víðreist um tvö Norðurlandanna. Fyrst var flogið til Köben, og dvalið þar í eina nótt.


Þaðan tókum við lest yfir Stóra- og Litlabeltið og enduðum hjá Telmu systur Þóreyjar og hennar familíu í Árósum, þar sem við gistum í góðu yfirlæti nokkra daga og skemmtum okkur vel.


Heimsóttum t.d. listasafnið.


Frá Jótlandi lá leiðin norður til Noregs, þar sem við vorum nokkra daga hjá Haffa, Sunnu og Krúza í Drammen.


Fín nettenging í Noregi.


Einn daginn fórum við í skoðunarferð um Osló og hittum þar Kjarra, Laufeyju og familíu.


Það er hægt að ganga upp á óperuhúsið í Osló. Ekki er mælt með því að reyna það á Hörpunni.


Undir lok Noregsdvalarinnar kom svo Óli til okkar og borðaði með okkur elg. Svo keyptum við okkur heimsins dýrasta bjór á Gardermoen á leiðinni heim. Hann var ágætur, en ekki peninganna virði.


Mars og apríl voru að miklu leyti helgaðir flutningum í vinnunni. Að flytja eitt stykki filmusafn er meira en að segja það.


Það fóru ófáir hektarar af regnskógum í pappakassana sem við notuðum.


Og um páskana fluttum við svo á nýjan stað í Skaftahlíðinni, og komumst þá að því að það vinna talsvert margir hjá þessu fyrirtæki.


Svo kom vor, og þá var gott að eiga pall sem vísar í suður.


Í byrjun maí fögnuðu pabbi og bróðir Þóreyjar sameiginlegu 75 ára afmæli (50+25), og þar dugði ekkert minnna en þrír Elvisar. Gott partí.


Vignir og Helga buðu okkur líka í bústað í maí, þar sem við gerðum ágæta tilraun til að týnast inni í skógi. Tókst ekki.


Stuttu síðar var öll deildin í vinnunni send á námskeið í borð- og mannasiðum. Það virðist ekki hafa dugað.


Í lok júní var skipulögð Laugavegsganga, svo það veitti ekkert af því að fara í nokkrar undirbúningsgöngur. Fyrst var rölt upp Skálafellið.


Næst röltum við 25 km leið frá Þingvöllum um Gagnheiði, norður fyrir Botnssúlur og niður í Botnsdal. Alltaf var sama blíðan.


Og síðasta undirbúningsgangan var upp á Móskarðahnúka, þar sem blés aðeins á toppnum. Þá er bara að hlýja sér.


Það var ekki bara gengið, það gafst líka tími til að skella sér í gamaldags útilegu. Um miðjan júní kíktum við á Apavatn ásamt fjölmörgum öðrum.


Svo kom loks að stóru göngunni, Landmannalaugar-Þórsmörk á þrem dögum. Bongóblíða allan tímann, og frábærir ferðafélagar.


Sumir elduðu kjötsúpu ofan í allan hópinn, án þess að nokkrum yrði meint af. Vel gert hjá mér.


Í byrjun júlí héldu Skrímslamennin ókeypis tónleika í Hljómskálagarðinum. Það var svo sem ekkert merkilegt, en nógu góð ástæða til að birta þessa mynd.


Og skömmu síðar komu litlu frændurnir heim frá Danaveldi, Benedikt Nói...


...og Aron Daði ofurtöffari.


Um miðjan mánuðinn var Brink-ættarmótið haldið annað árið í röð. Á meðan sumir æfðu sig fyrir maraþon með 25 km æfingu í Hvalfirði leiddu aðrir ættingja upp að Glym og til baka.


Og auðvitað var boðið upp á sérbruggað í liðið. Þetta er fólk sem kann að skemmta sér.


Í lok júlí var svo komið að ferðalaginu mikla, tveggja vikna rúntur kringum Ísland með viðkomu hingað og þangað. Fyrst var það bústaður í Borgarfirði, þar sem Jarlaskáldið reyndi í fyrsta sinn að veiða lax. Fór heim með öngul í rassi.


Því næst var brullaup Kjartans og Laufeyjar í Skagafirði, þar sem Dengsi fór á kostum sem veislustjóri, næstum jafnmiklum kostum og Geirmundur á skemmtaranum.


Næst vörðum við nótt á Agureyri, borðuðum á Greifanum, drukkum Kalda og gistum á hóteli eins og fínt fólk.


Það er kannski ekki alltaf jafngott veður á Agueyri og heimamenn vilja meina, en þarna var það gott.


Næst lá leiðin í Aðaldalinn, þar sem við þáðum gistingu í þrjár nætur hjá Vigni og Helgu í bústað, og skoðuðum okkar næsta umhverfi, eins og þennan ágæta veitingastað á Húsavík.


Einn daginn keyrðum við upp að Dettifossi...


...og þau okkar sem ekki voru ólétt gengu frá Hólmatungum niður í Hljóðakletta.


Frá Aðaldalnum lá leiðin á Vopnafjörð, með viðkomu í Ásbyrgi.


Á Vopnafirði dugði ekkert annað en hótel undir konuna.


Og þar prófuðum við líka nýja sundlaug. Hún fær meðmæli.


Kian stóð sig eins og hetja alla leiðina.


Hellisheiði eystri er eitthvað sem allir þurfa að prófa að keyra. Helst í svona góðu veðri.


Frá Vopnafirði fórum við í enn einn bústaðinn, í þetta sinn nálægt Egilsstöðum, þar sem stærstur hluti familíunnar mætti.


Kvöldin fóru í móhítógerð og spilamennsku. Sequence sérstaklega vinsælt.


Kíktum á Seyðisfjörð. Frekar huggulegur bær.


Og upp á Kárahnjúka. Hvað sem mönnum finnst um ágæti hennar er þetta nokkuð mögnuð framkvæmd.


Við Skriðuklaustur var brugðið á leik.


Þórey fékkst loksins til að drekka koníak. Það dugði ekkert slor til þess.


Og síðasti dagurinn fór í 750 km akstur heim, fimmtánda bongóblíðudaginn í röð, eða hvað sem það var.


Jarlaskáldið hljóp Reykjavíkurmaraþon um miðjan ágúst. Nokkuð sprækur fyrir hlaup.




Fjári þreyttur eftir hlaup, en þetta verður endurtekið.


Í september fjölgaði á heimilinu. Kisan Kleópatra flutti inn, og sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Hún er ágæt, og hefur reynt að borga leigu með því að færa okkur fugla, en mætt litlum skilningi.


Í október varð Jarlaskáldið 35 ára. Þá var slegið upp veislu.


Alda og Gunnar kíktu líka á klakann, og buðu okkur nokkrum í bústað. Það endaði með minni ósköpum en oft áður.


Í nóvember hittist vinnan í "haustgrilli, nema að það var hvorki haust né grillað. Sem er frekar grillað.


Í desember komu svo frændurnir aftur frá Danmörku, og urðu fagnaðarfundir eins og sjá má.


Ekki að spyrja að bræðrakærleiknum.


Jólum var fagnað á Háaleitisbraut, og þar var pakkafjöld.


Og ef að líkum lætur endar þetta ár á svipuðum slóðum og það síðasta endaði hjá þessu ágæta fólki. Ólíkt því sem Mayarnir spáðu. Ég er farinn að halda að þeir hafi verið full of shit. Áramótaheitið í ár verður einfalt. Gera meira af því sem er skemmtilegt, og minna af því sem er leiðinlegt. Og þar með segjum við þetta gott.

Takk innilega fyrir samveruna á árinu sem er að líða :-)
Kv. Helga T. og co

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates