þriðjudagur, desember 31, 2002 

Allt búið

Þá er þetta árið senn búið (frumlegur), og við tekur nýtt ár (enn frumlegra). Þetta ár hefur verið eitt af þeim ágætari í lífi Jarlaskáldsins, a.m.k. á topp fimm. Annars óskar Jarlaskáldið lesendum og öðrum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og allur sá pakki, og endar þetta með því að tilnefna hálfvita, skussa, skíthæl og fífl ársins 2002, en það er merkilegt nokk allt sami maðurinn:

Sturla Böðvarsson

Hann er ótvíræður sigurvegari.

mánudagur, desember 30, 2002 

„Enginn helvítis öræfaótti hér!“

Jarlaskáldið gerði víðreist um helgina, og voru ekki færri en fjögur krummaskuð sótt heim. Byrjum á því fyrsta:

Á föstudagskvöldið var Skáldinu boðið í innflutningspartý hjá þeim sæmdarhjónaleysum Eyfa og Ríkeyju. Þakkir eiga þau skildar fyrir gott reisugilli, vel var veitt og Skáldið fór sátt heim. Eða svo minnir það...

Á laugardagsmorguninn var Skáldið vakið fyrir allar aldir, eða um tvöleytið, og var ekki laust við að gærkvöldið væri enn eitthvað að vefjast fyrir Skáldinu. Var þar á ferð Magnús nokkur frá Þverbrekku, sem hermdi upp á Jarlaskáldið loforð um að halda til öræfa í félagi við fleiri góða menn. Fyrir kraftaverk og heitbænir öðlaðist Skáldið styrk til að standa við loforðið, og réttum tveimur tímum síðar var það komið um borð í Willys jeppa Stefáns frá Logafold, hver skartaði 38 þumlunga gúmmítúttum negldum (jeppinn, ekki Stefán!), sem sló nokkuð á öræfaóttann. Ekki voru fleiri um borð í Willysnum, en með Magnúsi í 4-Runner jeppa hans voru frænka hans Helga og tveir menn Skáldinu ókunnugir, er reyndust heita Haukur og Ingó, prýðispiltar báðir tveir. Var stefnan sett á skála á Hlöðuvöllum við Hlöðufell, og reiknaðist Skáldinu til að lending yrði á níunda tímanum. En það varð nú aldeilis ekki svo!

Byrjað var á því að birgja sig upp af votu og þurru, og var bjartsýnin slík að keypt voru einnota grill og hamborgarar. Því næst ekið sem leið lá til Þingvalla, upp að Uxahryggjum og áleiðis að Kaldadal uns komið var að afleggjaranum inn á Haukadalsheiði. Þar var beygt inn, og enn sem komið er aðeins snjóföl á slóðanum, andskotann var maður að taka þessi skíði með! Átti það eftir að breytast eins og allt annað í ferðinni. Eftir því sem lengra var ekið inn á Haukadalsheiðina jókst alltaf snjórinn, en þó ekkert til vandræða, þurftum bara að kippa Magnúsi upp úr sköflum einu sinni eða tvisvar. Gekk því ferðin eins og í sögu, og voru ferðalangar komnir að afleggjaranum inn að Hlöðufelli á níunda tímanum, og aðeins spölkorn eftir samkvæmt kortinu. En þá tóku leikar að æsast. Fyrst varð á vegi okkar brekka ein allbrött, glerhál og full af snjó. Eftir ítrekaðar tilraunir við hana, og eftir að hafa hleypt úr dekkjum og heitið á Óðin og fleiri góða Æsi fundum við hjáleið, sem reyndist síðan hið mesta forað. Til að gera langa sögu stutta tók það ferðalanga á annan tíma að komast fram hjá hindrun þessari. En eins og í öllum góðum sögum var þetta bara byrjunin. Við tók enn meiri snjór, og fyrst byrjaði Magnús að festa sig reglulega, og síðan báðir bílarnir. Til að gera þetta enn skemmtilegra byrjaði að blása allkröftuglega og skafa, og útlitið því ekki byrlegt. Að vísu hætti að blása jafnsnögglega og það byrjaði og datt á dúnalogn, skrýtin þessi veðrátta, en þegar ferðalangar voru loksins komnir þangað sem þeir töldu vera áfangastað, þegar klukkan var að nálgast miðnætti, fannst enginn slóði sem leiða myndi að skálanum. Voru því góð ráð dýr. Eftir nokkra reikistefnu og ljóst varð að skálinn fyndist tæplega var ákveðið að halda för bara áfram. Áfram var því fetaður slóðinn, enn festu menn sig reglulega, mikið gaman, mikið fjör, mikið voru menn svangir, en loks birtist sæmilegur slóði svo kílómetrahraðinn komst á annan tuginn, og endaði hann niðri á Lyngdalsheiði. Það var s.s. ca. búið að keyra hringinn í kringum Skjaldbreið. Var þá næsta mál á dagskrá að finna sér næturgistingu, enda klukkan orðin ca. tvö. Fyrst var reynt við sumarbústað í eigu skyldmenna þeirr Magnúsar og Helgu, en þar var komið að rammlæstu hliði. Úr varð að gista á Selfossi.

(Nú súpa dyggir lesendur eflaust hveljur. Jarlaskáldið, sá maður sem lengst hefur gengið í því að níða Selfoss og allt sem selfysskt er og ata það auri, leggst svo lágt að eiga þar næturgistingu! Sér til málsbóta vill Jarlaskáldið taka fram að það átti einskis annars úrkosti, nema þá að labba heim. Auk þess voru þetta örugglega aðfluttir Selfyssingar sem gist var hjá, a.m.k. var hvorki strípur, eipkött, træbaltattú né Hondu Civic með spoiler að sjá á staðnum. Málið var að foreldrar áðurnefnds Hauks bjuggu á staðnum og voru svo almennilegir að skjóta skjólshúsi yfir ferðalangana. Auk þess buðu þeir öllu liðinu í staðgóðan morgunverð (hangikjöt er jú staðgott!), og eiga miklar þakkir skildar fyrir. Kannski var þetta fólk bara undantekningin sem sannar regluna.)

Á Selfossi fékk liðið loksins að éta, og sýndi Jarlaskáldið löngu gleymda takta í hamborgarasteikingum. Stórkostlegt hvað Season-All getur bjargað öllum mat! Auk þess var nokkrum ölkollum stútað, og þykir það með seinna móti að byrja á slíku um hálfþrjú að nóttu til. Ekki entust menn enda lengi, þó sýnu síst Magnús sem setti ný glæsileg heimsmet bæði í því að sofna hratt og í háværum hrotum, sem vöktu m.a.s. hann sjálfan. Þegar lagt var af stað að nýju hafði bæst einn ferðalangur í hópinn, Níels að nafni, og var hann á Hilux-pallbíl. Var ákveðið að gera atlögu að Hveravöllum og bregða sér þar í pottinn, og jafnvel klára Kjölinn ef sá gállinn yrði á liðinu. Var ferðin upp á Hveravelli heldur tíðindalítil, a.m.k. sé miðað við daginn áður, og tókst engum að festa sig, enda hefði það orðið afrek í snjóleysinu á Kili. Voru ferðalangar komnir upp á Hveravelli á fjórða tímanum, og var byrjað á því að kæla pottinn, og fá sér í gogginn. Að áti loknu var potturinn orðinn passlegur, en þar eð kvendi var með í för var umferð í Heimsmeistaramótinu í sprellahlaupi frestað, þess í stað fékk stúlkan að sjá íðilfagra karlmannslíkamana á brókinni.

Ekki þótti tækt að fara sömu leið til baka og því aðeins eitt að gera, keyra norður í land. Var ferðin sú jafnvel enn tíðindaminni, enda beinn og breiður vegur alla leið, þökk sé Landsvirkjun, og endaði hún á Blönduósi, þriðja krummaskuðinu þessa helgi (Kópavogur, Selfoss, Blönduós). Þaðan var það bara þjóðvegur númer eitt, með smákjaftstoppi í Staðarskála og bensínstoppi í Borgarnesi (krummaskuð 4), og heim voru ferðalangar komnir um tíu, lúnir en glaðir. Ekki amaleg helgi þetta!

Ps. Einnota grillin eru enn á Selfossi, ónotuð.

fimmtudagur, desember 26, 2002 

Jólin jólin alstaðar

Þá er þessi geðveiki að verða búin - í bili. Gott er það. Eins gott að þetta er bara einu sinni á ári, ólíkt því sem Hrafnhildur vinkona Jarlaskáldsins söng um hér um árið. Gott er þó að fá gjafir. Uppskeran var ágæt þetta árið hjá Skáldinu. Fékk m.a. snjóbrettabuxur frá þeim gömlu, nauðsynlegt fyrir Ítalíu. Einnig peysu frá litlu systur, sem er sú eina í familíunni sem hefur einhvern fatasmekk. Stóri bróðir kom einnig sterkur inn með DVD-disk, Fight Club var það heillin. Kannski maður fari að kaupa DVD-spilara við færitæki. Stóra systir gaf Skáldinu diskinn Rímur og rapp, sá diskur er enn á skilorði. Litli bróðir, Hagnaðurinn, ásamt frú kom þó einna sterkastur inn þetta árið. Nýi safndiskurinn með Megasi var það þetta árið, og grunar Skáldið að safndiskarnir þeir þrír muni einoka geislaspilarann næstu vikurnar. Hvílík snilld! Einnig fékk Skáldið Freistingar með Ný Dönsk, og ekki má gleyma nýju plötunni með Johnny Cash, sem gamli maðurinn fékk, en Jarlaskáldið mun ef að líkum lætur eigna sér. Sæmileg uppskera þetta!

Framundan er svo meira fjör, líkast til jeppatúr um helgina, og svo má gera ráð fyrir ágætis húllumhæi um áramótin. Ekki komið á hreint hvað Skáldið gerir, en gera má ráð fyrir að þar verði eigi lítið gaman. Skemmtið þið ykkur líka vel!

sunnudagur, desember 22, 2002 

Helgarbloggið góða

Eitt og annað í gangi, oseiseijú, byrjum á byrjuninni.

Jarlaskáldið fékk að hætta fyrr í vinnunni á föstudaginn, eða um tvöleytið, og notaði tækifærið til að moka út úr þeim sorphaugi sem eitt sinn var herbergi þess. Við moksturinn fannst margt skemmtilegt, m.a. fundust fornar hljóðsnældur sem innihéldu snilld á borð við útvarpsþáttinn Heimsendi (m.a. hið goðsagnakennda leikrit Hótel Volkswagen), urmul af Radíusflugum, og eldgamla pistla úr þættinum Sætt og sóðalegt sem Páll Óskar samdi fyrir ca. tíu árum. How time goes by! Maður ætti kannski að hreinsa út oftar, aldrei að vita hvað finnst.
Ekki var mikið á seyði á föstudagskvöldið, raunar ekki rassgat, Jarlaskáldið eyddi tímanum í að horfa á gamla Friends-þætti, heldur sorglegt það. Gekk Skáldið því til náða í fyrra fallinu, enda vinna daginn eftir, en eins og hefð er komin fyrir þá sjaldan Jarlaskáldið lyftir sér ekki upp um helgar var það vakið með símhringingum djammara, í þetta sinn þeirra Gunnars og Lilju, og kann Jarlaskáldið þeim bestu þakkir fyrir.
Vaknaði Jarlaskáldið fyrir allar aldir á laugardaginn til þess að mæta í vinnuna, og afrekaði það að afgreiða tvær pantanir á sex tímum, sæmilegt það! Að vísu voru þær samanlegt vel á annan tug tonna, ekki það að sú stærð segi hinum venjulega lesanda mikið.
Eftir vinnu fór Skáldið í Kringluna og hitti þar fyrir áðurnefndan Gunnar, þunnan mjög, auk aumingjabloggarans. Þrátt fyrir gefin loforð þeirra um að engin tilraun til jólagjafakaupa yrði gerð var byrjað á því að arka inn í ******** og kaupa þar ****** handa ****** (það væri nú ljótt að eyðileggja sörpræsið fyrir einhverjum). Sem betur fer varð næsti viðkomustaður Subway, annars hefði Skáldið bara farið heim í fýlu! Að sjálfsögðu verslaði Jarlaskáldið ekki neinar jólagjafir, enda enn þrír dagar til jóla, ekkert óþarfa stress í gangi á þeim bænum frekar en fyrri daginn.
Um kvöldið horfði Jarlaskáldið á úrslit Popppunkts, og var harla ánægt með úrslit, sem því þóttu fyllilega verðskulduð. Þó svíður Skáldinu enn nokkuð að drengjsveitinni Hlégesti skuli ekki hafa verið boðin þátttaka, þeir piltar hefðu rúllað þessu upp! Félagi Magnús frá Þverbrekku gerði vart við sig í miðju áhorfi, og var Jarlaskáldið boðað í Bryggjuhverfið, strákapartý hjá Togga. Þangað mætti Skáldið ásamt áðurnefndum Magnúsi og þeim Stefáni Twist og Dengsa. Ekki voru fleiri í teiti þessari, utan húsráðanda. Tókst húsráðanda að æsa upp spenning Ítalíufara að suðumarki með því að sýna þeim ógrynni mynda af skíðasvæðinu þar auk korta. Mikið djöfulli helvíti á þetta eftir að vera gaman!
Var haldið niður í bæ heldur snemma miðað við þennan hóp, og stefnan eins og venjulega tekin á Hverfisbarinn. Á leiðinni þangað tók Jarlaskáldið létta kennslustund í fasteignaklifri, og varð Stjórnarráðið fyrir valinu að þessu sinni. Hitti einnig þá bræður Skúla og Mumma, Mummi nýkominn heim frá Minnasóti, voru þeir nokkuð sælir að sjá. Þegar að Hverfisbarnum var komið blasti við röð ein svo stór að enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Var því ákveðið, a.m.k. af sumum, að líta við á Celtic Cross. Var þar margt góðra gesta, m.a. hitti Skáldið félaga Guðjón ásamt frú, Einar skálaglamm, og ritstjórn Deiglunnar. Eru það vænstu drengir, þrátt fyrir allt. Ákvað Jarlaskáldið að gera aðra atlögu að Hverfisbarnum þegar í ljós kom að félagar þess hefðu farið þangað. Ekki hafði röðin styst nema síður sé, og sá Skáldið því þann kost vænstan að fara bara fremst í röðina, við furðulítil mótmæli þeirra sem þar voru, í raun var skáldinu tekið með kostum og kynjum. Ekki var vistin þar góð að öðru leyti, slíkur var troðningurinn í röðinni að Jarlaskáldið var farið að sjá fyrir sér annan Hillsborough-harmleik um tíma. Sem betur fer komst það inn um síðir, en ber nú vistarinnar merki með fallegum marblettum á bakinu eftir keðjuna sem umlykur röðina.
Þegar inn var komið fann Skáldið félaga sína, reyndar höfðu þeir Toggi og Dengsi helst úr lestinni, og hafði félagi Magnús tekið sér stöðu inni á klósetti og bauð/skipaði mönnum þar í nefið. Vældi hann svo í eiganda staðarins um að fá celebapassa, en allt kom fyrir ekki. Eftir klósettvistina þustu menn út á dansgólfið og hafa önnur eins tilþrif og þeir félagar sýndu vart sést áður. Var beibstandardinn með besta móti þetta kvöldið, gaman gaman. Hitti Jarlaskáldið m.a. gamla bekkjarsystur sína úr tólf ára bekk, Gunnhildi að nafni, sem bjó síðast er Skáldið vissi í Keflavík. Til allrar óhamingju var hún í félagsskap Keflvíkinga, allra karlkyns, og voru þeir heldur óhressir með þá athygli er stúlkan sýndi Jarlaskáldinu, við mikla kátínu þess. Ekki reyndi Jarlaskáldið að landa þessum feng, ómögulegt að leggja lag sitt við sveitavarginn! Félagi Stefán spurði allar stúlkur hvort þær væru haldnar öræfaótta, miðað við árangur ætti hann að finna sér betri pikköpplínu. Af Magnúsi frá Þverbrekku er fátt að frétta, a.m.k. fékk hann ekki annað eins kostaboð og um síðustu helgi.
Engu að síður var þrusustuð á mannskapnum, og margt brallað sem ekki telst rithæft. Að endingu fóru félagarnir þrír kvenmannslausir út í kuldann og trekkinn, og var för heitið á Hlöllann. Því næst leigari, og heim var komið um hálfsjö. Og það merkilegasta er að Jarlaskáldið man eftir þessu öllu!
Í dag var Skáldið með hressara móti þegar það vaknaði, og boðaði samstundis þá Magnús og Stefán á Kentucky Fried. Var það gott. Að áti loknu fór Jarlaskáldið á Champion´s Café að horfa á knattspyrnu, ekki var það mjög gaman. Fór svo í Smáralind og byrjaði þar á jólagjafakaupum. Var þeim lokið ca. korteri síðar. Nema mamma gamla, vonlaust að kaupa eitthvað handa henni, hún fær líklega bara einhvern geisladisk sem Skáldið langar í. Ætli hún fíli ekki Megas?

föstudagur, desember 20, 2002 

Huh?

Samkvæmt Molunum er Jarlaskáldið aftur byrjað að blogga á portúgölsku. Gaman væri að fá skýringu á þessu. Einhver?

 

Pizza og bjór

Jarlaskáldinu tókst ekki að sofa aftur yfir sig í morgun eins og stefnt var að, til þess sá móðir Skáldsins sem vakti það með harðri hendi. Af þeim sökum var Skáldið allmorkið fyrri part dags. Leggur Jarlaskáldið til að siesta að spænskum hætti verði tekin upp hér á landi, hér er hvort sem er Spánarveður þessa dagana, og telur Jarlaskáldið engan vafa leika á því að þetta myndi auka framleiðni.

Það hljóp á snærið hjá Jarlaskáldinu í kvöld. Var það boðað á kaffihús um tíuleytið, og ákvað að sækja félaga Magnús frá Þverbrekku í leiðinni. Vildi svo vel til að Magnús var nýbúinn að panta sér lifandis ósköp af flatbökum þegar Skáldið mætti á staðinn og naut það góðs af því. Á Magnús þakkir skildar fyrir örlætið. Var svo ekið á Ara í Ögri, þar sem einhver helvítis saumaklúbbur var á næsta borði og reykti af áfergju, þrátt fyrir blátt bann við því í þeim hluta staðarins. Bölvaðar séu þær kjellingar! Ölið var samt ágætt.

Að lokum vill Jarlaskáldið tilkynna að það hefur ákveðið að segja sig úr öllum verkalýðsfélögum sem það kynni að vera félagi í, og kosið að láta Kjaradóm berjast fyrir launakjörum þess í staðinn. Ætti Ítalíuferðin ekki að verða mikið mál eftir þessa ákvörðun!

miðvikudagur, desember 18, 2002 

Miðvikublogg II

Þá er komið að öðru miðvikubloggi, það fyrsta fékk þessar líka gífurlegu undirtektir, greinilega mikil ánægja með framtakið, og mun Jarlaskáldið því reyna eftir megni að halda úti þessum dagskrárlið, jafnvel þótt efni séu oft lítil til þess.

Í morgun svaf Jarlaskáldið yfir sig. Var búið að steingleyma hve gott getur verið að sofa yfir sig, maður verður allur svo úthvíldur og hress að það er engu líkt. Svo tók nánast enginn eftir því að vinnunni að Jarlaskáldið mætti allt of seint, og því augljóst að þetta verður endurtekið við tækifæri. Annars er allt vitlaust að gera í vinnunni, að vísu ekki hjá Skáldinu, það hefur það alltaf jafnrólegt. Aftur á móti hefur allt fyllst þar af unglingspiltum og -stúlkum í ostakörfugerð, svo vart er þverfótandi fyrir því. Hefur beibstandarinn aukist til mikilla muna við þetta, en illu heilli myndi það varða við lög ef Jarlaskáldið færi eitthvað að gera hosur sínar grænar, á slíkum aldri eru flestar stúlkurnar. Það er nú samt ágætt að hafa eitthvað skemmtilegra fyrir augunum en sveitta karlmenn í kraftgöllum...

Annars virðist ríkja einhver ládeyða í bloggheimum þessa dagana, margir komnir í frí eða jafnvel hættir, sumir af því að þeir fóru í fýlu. Virðast ekki þola diss. Vill Jarlaskáldið því benda á algjörlega skothelda aðferð til að losna við allt diss. Hún er sú að gera það bara sjálfur, líkt og Skáldið gerir eftir nánast hverja einustu helgi. Ef maður drullar bara nógu mikið yfir sjálfan sig nennir því enginn annar. Og nú er alveg öruggt að einhver byrjar að dissa Skáldið til að afsanna þessa kenningu, því fólk er jú fífl. Ojæja...

Það er víst lítið meira blaður að hafa að þessu sinni, en lúkum þessu á vinnutengdri getraun (starfsmönnum OSS meinuð þátttaka):

Hvert er fituinnihald ostsins Búra í prósentum?

Í boði eru að sjálfsögðu vegleg verðlaun, geisladiskurinn Kynjaveröld, sem var einmitt árshátíðargeisladiskur Málfundafélagsins Framtíðarinnar árið 1994. Má þar finna mörg skemmtileg lög, og á meðal hljómlistarmanna og lagahöfunda eru ekki minni menn en Sölvi Blöndal úr Quarashi og Barði Jóhannsson úr Bang Gang. Ekki amaleg verðlaun það!







mánudagur, desember 16, 2002 

Af ammælum, óðum frændum, og kjúklingaáti

Fastir liðir eins og venjulega, partíbloggið góða:

Þegar síðast fréttist af Jarlaskáldinu var það nýkomið heim af tónleikum Sigur Rósar á föstudagskvöld, gjörsamlega himinlifandi með þá reynslu, og svo virðist reyndar vera með fleiri, a.m.k. var doktorinn ekkert að spara hólið frekar en Skáldið, og það sama má m.a. segja um Hagnaðinn. Varð ekki um frekara skemmtanahald að ræða það kvöldið.
Vaknaði Jarlaskáldið seint og um síðir daginn eftir, og tók upp á því að fara með frænda sinn tveggja ára í jólastress í Smáralind. Ekki ætlar Skáldið að reyna það aftur fyrr en frændinn er orðinn a.m.k. tvítugur, og hefur Skáldið jafnframt öðlast aukna virðingu fyrir einstæðum foreldrum. Börn eru langbest þegar þau sofa.
Laugardagskvöldið byrjaði að venju á sjónvarpsglápi, og varð Jarlaskáldið fyrir því óláni að sjá Laugardagskvöld með Gísla fliss, en þar mátti þrátt fyrir gefin loforð besta og frægasta bloggarans um annað og betra sjá þrjá hrokafyllstu menn landsins, við mikla ógleði Skáldsins. Líkast til hefur Gísli blessaður verið orðinn helsti þurr á tungunni eftir þennan „ágæta“ þátt. Ekki tók mikið betra við, Spaugstofan. Æææ. En upp styttir ávallt um síðir og það gerðist þegar Popppunktur batt loksins enda á þjáningar sjónvarpsáhorfenda.
Að Popppunkti loknum brá Jarlaskáldið sér í betri skóna, því stefnan var tekin í hið alræmda Fellhverfi, en þar er einmitt nauðsynlegt að vera vel skóaður til að geta hlaupið undan þeim óþjóðalýð er þar býr. Mitt í öllu því illgresi býr reyndar einn Eyjapeyi, Frosti að nafni, og átti hann aldarfjórðungsammæli þetta kvöldið, sem var einmitt ástæða þess að Jarlaskáldið lagði í þessa hættuför. Margt gerir maður nú fyrir blessað lífsvatnið, ekki síst ef það er frítt! Fór gleði sú þrátt fyrir allt prúðmannlega fram, ammælisbarnið var drukknast manna og fór hamförum á gítarnum, en reyndar hefði kynjaskipting mátt vera hagstæðari, heldur margir um hituna.
Þegar líða tók á nóttina þótti hinum djammþyrstari þjóðráð að leita niður á láglendið, og endaði sú för eins og svo oft áður á Hverfisbarnum. Jarlaskáldið var þar að sjálfsögðu fremst í flokki. Hitti það þar margt góðra manna og kvenna, og kannaðist m.a.s. við sum þeirra. Rússneska kókaínið var að þessu sinni borið fram með límónu, verður það ekki endurtekið. Ekki voru aflabrögð Jarlaskáldsins í spúsuleit sinni góð frekar en fyrri daginn, en öðru máli gegnir um Magnús frá Þverbrekku. Varð hann fórnarlamb einhverrar glæsilegustu pickup-línu allra tíma, og er Magnúsi hér með boðið að ljúka sögu þessari í kommentunum, svo ekki sé rangt farið með staðreyndir, en trúið Skáldinu, kræsileg er sagan!
Þegar Jarlaskáldinu þótti sýnt að aflabrögð myndu ekkert batna á miðum þessum þótti því vissara að róa á önnur mið, og lét sig hverfa án þess að kveðja nokkurn mann, en einhverra hluta vegna endaði sú sjóferð á Nonnabitanum, hvar Jarlaskáldið varð sér úti um gómsætan Pepperonibát, sem það einmitt gæddi sér á. Tók svo að verða vart við þreytu og því vissara að halda heimleiðis, og skv. kvittun leigubíls var Skáldið þangað komið rúmlega fimm. Ekki man Jarlaskáldið svo gjörla atburði næstu klukkustunda, en um níuleytið var það vakið af áðurnefndum tveggja ára frænda með orðunum: „Þú átt ekki að sofa hér.“ Skal ósagt látið hvar Jarlaskáldið var statt þá.
Aftur var Jarlaskáldið vakið á öllu siðlegri tíma, eða um eittleytið, og var þar á ferð áðurnefndur Magnús, sem efndi til hópferðar á þann ágæta stað KFC. Slóst Stefán sá er við Twist er kenndur með í för, og var góður rómur gerður að veitingum þar. Fóru menn svo á eilítið búðarrölt, í leit að nauðsynjum fyrir Ítalíuferð, en án mikils árangurs. Fátt annað er títt af sunnudeginum, og því best að hætta þessu blaðri.

En áður en við hættum, hvernig væri þá að birta eins og einn eða tvo toppfimm lista, það er voðalega móðins í dag (VARÚÐ! Gríðarlegur nördaskapur!):

Uppáhaldsaukapersónur Jarlaskáldsins í sögu Seinfeldþáttanna

Onetimers

5. Izzy Mandelbaum (Lloyd Bridges): "It's go-time."
4. Lt. Bookman (Philip Baker Hall): "I don't judge a man by the length of his hair or the kind of music he listens to. Rock was never my bag. But you put on a pair of shoes when you walk into the New York Public Library, fella."
3. Aaron (Judge Reinhold): ELAINE: "You had fun with Mr. and Mrs. Seinfeld?" AARON: "Yeah. They bought me a Coke."
2. Slippery Pete (Peter Stormare): SLIPPERY PETE: "That was my mail-order bride." KRAMER: "Hey, you weren't home, so I signed for her." SLIPPERY PETE: "It doesn't give you the right to make out with her!"
1. The Soup Nazi: (Larry Thomas): "No soup for you! Come back, one year!"

Many-timers

5. Jackie Chiles (Phil Morris): "You put the balm on? Who told you to put the balm on? I didn't tell you to put the balm on. Why'd you put the balm on? You haven't even been to see the doctor. If your gonna put a balm on, let a doctor put a balm on!"
4. Newman (Wayne Knight): "All right! But hear me and hear me well - The day will come. Oh yes, mark my words, Seinfeld - your day of reckoning is coming. When an evil wind will blow through your little playworld, and wipe that smug smile off your face. And I'll be there, in all my glory, watching - watching as it all comes crumbling down!"
3. J. Peterman (John O'Hurley): "ELAINE: But, that didn't happen to you." PETERMAN: "So, we pay off your friend, and it becomes a Peterman."
2. Frank Costanza: (Jerry Stiller): "Many Christmases ago, I went to buy a doll for my son. I reach for the last one they had - but so did another man. As I rained blows upon him, I realized there had to be another way!"
1. David Puddy (Patrick Warburton): "Yeah, that's right."

Menn sem aldrei hafa sést

3. Lomez
2. Bob Sacamano
1. George Steinbrenner

Jæja, best að hætta þessum nördaskap...







laugardagur, desember 14, 2002 

Allir stuði í!

Jarlaskáldið er með hellu fyrir eyrunum. Af völdum hávaða. En yndislegur var sá hávaði. Hávaðinn var Sigur Rós.

Jarlaskáldið er sumsé nýkomið heim af tónleikum Sigur Rósar í Háskólabíói. Er því komið að tónleikagagnrýni, öðru sinni í þessari viku. Góð vika það.

Jarlaskáldið mætti niður í Háskólabíó ásamt félaga þess Stefáni er við Twist er kenndur rétt rúmlega níu, og var upphitarinn Siggi Ármann þá þegar byrjaður á fyrsta laginu sínu (eða öðru eða þriðju, hef ekki hugmynd). Stundvís maður Siggi! Sætin þeirra félaga voru rétt fyrir ofan miðju hægra megin, með ágætis útsýni yfir sviðið, hvorki of nálægt né fjarlægt. Spilaði Siggi Ármann á kassagítar og naut í sumum lögum aðstoðar þeirra Orra og Kjartans og einnar stelpunnar í Aminu. Tók hann ca. 8 lög, sem voru flest keimlík, Siggi er greinilega nokkuð fær gítarleikari, ágætis lagasmiður, arfaslakur söngvari, og jafnvel enn verri textasmiður. Siggi hafði þó húmor fyrir þessu öllu, og manni leiddist ekkert yfir honum, þótt hann hafi nú ekki beint verið að trylla lýðinn. Fær stóran plús fyrir að yfirhöfuð þora þessu, að hita upp fyrir eina hæpuðustu hljómsveit allra tíma.

Og Sigur Rós sannaði að hún er ekki bara hæp. Steig hún á svið eftir ekkert svo langt hlé, og hóf leikinn með fyrstu þremur lögunum af ( ). Öll eru þau í rólegri kantinum, og voru flutt af mikilli innlifun, lag 3 (Samskeyti) þótti Jarlaskáldinu þó sýnu best. Skipti hljómsveitin svo aðeins um gír, og spilaði næst óútgefið lag (Salka mun vera vinnuheiti þess), sem var ágætt en ekkert stórvirki, og síðan frábæra útgáfu af Nýjum batteríum, þar sem Jónsi fór langleiðina með að eyðilegga sellóbogann sinn með hamaganginum í sér. Lokakaflinn var sunginn á „vonlensku“, gaman að því!

Því næst var flutt lag 4 af ( ) (Njósnavélin, Nothing Song). Snilldarlega gert, þó fullítið hafi á köflum heyrst í gítarnum hans Jónsa. Lítill skaði af því. Svo kom lagið Svefn-g-englar, sem var sennilega síst af þeim lögum sem hljómsveitin flutti. Kannski af því maður hefur heyrt það svo rosalega oft, en Jarlaskáldinu fannst lagið einhvern veginn ekki hljóma rétt, t.d. virkaði það ekkert þegar Jónsi söng í gítarinn sinn, það hljómaði alveg eins. Ekki að lagið hafi verið slæmt, onei, en það þarf alltaf einhver að vera sí(ða)stur.

Þessu næst kom annað óútgefið lag (Mílanó heitir það víst), asskoti gott lag við fyrstu hlustun, mikill kraftur í því, lofar góðu. Að því loknu kom svo líklega næstbesta lag kvöldsins. Hafssól heitir það, tekið af fyrstu plötunni (Von), og er það talsvert breytt síðan þá. Gríðarlegur kraftur í því, maður var farinn að hálfvorkenna strengjasveitinni í lokin, þvílík keyrsla á þeim! Að því loknu kom svo annað kunnuglegt lag, Ólsen Ólsen. Var það sama marki brennt og Svefn-g-englar, maður hefur heyrt það ansi oft, en engu að síður var það þrælgott, enda allt annað að heyra það á tónleikum en í græjum.

Þá var bara eitt lag eftir, og allir í salnum vissu að þetta væri lokalagið þegar fyrstu tónarnir heyrðust. Popplagið er einfaldlega langbesta tónleikalag allra tíma (segir maður sem farið hefur á ca. tíu tónleika, but waysany), og sveik það ekki í kvöld frekar en fyrri daginn. Ætlar Jarlaskáldið ekkert að reyna að lýsa því, það verður aðeins upplifað. Trylltust enda áhorfendur þegar Sigur Rós henti frá sér hljóðfærunum og stormaði út, en kom svo tvisvar aftur til að hneigja sig eins og hennar er siður.

To sum up, þá voru þessir tónleikar hreint út sagt frábærir. Hljómsveitin var greinilega vel upplögð þrátt fyrir langan túr og gaf allt í þetta. Ansi góð vika þetta, tveir bestu tónleikar ever í lífi Skáldsins, alveg þess virði að fara á hausinn fyrir það. Einkunnagjöf: ****/****





 

Prentvillupúkinn aftur á ferð

Prentvillupúkinn gerir það ekki endasleppt þessa dagana. Jarlaskáldið var ekki fyrr búið að gera leiðréttingu við eina færslu er varðaði drukkið fólk á tónleikum en hann fór aftur á stjá, og urðu Gnúpverjar nú fyrir barðinu á honum, við mikið harmakvein Hjartar, sem telur að sér og sinni ætt vegið. Jarlaskáldið harmar þetta, og gerir nú lokatilraun til að fá hið rétta fram. Þar sem í upphafi stóð hagyrðingakvöld Austur-Svarfdæla og síðar hagyrðingakvöld Austur-Gnúpverja átti að sjálfsögðu að standa FM-hnakkakvöld Austur-Selfyssinga (Austur-Selfoss er sá hluti bæjarins sem er austan við Ölfusá. Vesturhlutinn er mun betri, þar er jú Kentucky Fried!). Vonar Jarlaskáldið að Hjörtur taki nú gleði sína á ný, fyrst hið sanna er komið fram.

fimmtudagur, desember 12, 2002 

Vinsældirnar aukast

Síðustu daga hefur aðsókn að síðu þessari aukist til muna. Lék Jarlaskáldinu nokkur hugur á að vita hvað ylli, og fór að rannsaka málið. Svo virðist sem fólk úti í bæ hafi verið að vísa í færslur Skáldsins í gríð og erg, enda Skáldið verið sérstaklega ríkt af andagift undanfarið. Meðal sökudólga má nefna Kristján, Hjört, Unni og Gneistann. Er þeim öllum hér með þakkað fyrir veitta aðstoð við að auka aðsókn, og mun Jarlaskáldið reyna að endurgjalda greiðann við tækifæri.

Þegar Jarlaskáldið las pistil Hjartar varð því ljóst að leiðinleg prentvilla hafði slæðst inn í grein þá er m.a. fjallaði um tónleika Nick Cave. Er þar talað um fyllibyttur á hagyrðingakvöldi Austur-Svarfdæla. Auðvitað átti hér að standa hagyrðingakvöld Austur-Gnúpverja, og biður Jarlaskáldið Hjört og aðra er málið varðar velvirðingar á mistökunum.

Gneistinn játar upp á sig svipaðan sjónvarpssmekk og Jarlaskáldið. Slíkir menn eiga skilinn link, jafnvel þótt kærustur þeirra hafi í eina tíð kallað Jarlaskáldið öllum illum nöfnum.

Nú eru rosamargir í fýlu í bloggheimum. Jarlaskáldið vill ekki að fólk sé í fýlu, það er ekki gaman. Verum glöð!






 

Miðvikublogg hið fyrsta

Jarlaskáldið tekur upp nýjan dagskrárlið, miðvikublogg. Nokkuð hefur verið kvartað yfir því að Jarlaskáldið bloggi bara um helgarævintýri sín, ekki að það sé slæmt, heldur eru lesendur bara svo forvitnir, og ætlar skáldið því að reyna að gera nokkra bragarbót á. Hvað ætti maður svo að segja...

Kannski maður byrji bara á smá fréttaflutningi. Jarlaskáldið var nebbnilega allstórtækt í peningaeyðslu í gær, litlar 100.000 krónur að nafnvirði hurfu af reikningi þess (að vísu átti bankinn þessa peninga, en það er algert aukaatriði). Ástæða: Ítalía eftir mánuð, sjúbb, sjúbb, sjúbb í brekkum Dólómítafjallanna, hí á alla sem missa af því! Það eru ansi mörg hí.

Þetta er gaman.

Þetta er litlu síðra.

Jarlaskáldið sá að nafni var að útnefna fimm bestu þættina í íslensku sjónvarpi í dag. Er því við hæfi að Skáldið deili sinni skoðun með umheiminum:

5. E.R.: Eina sápuóperan sem Jarlaskáldið horfir á, enda nánast skylduáhorf meðal íslenskufræðinga. Hefur haldið tryggð við þáttinn síðan hann byrjaði, og missir nánast aldrei af honum. Dr. Romano er í sérstöku uppáhaldi, alveg hreint yndislegur maður.

4. Law and Order: Criminal Intent: Hreint frábær lögguþáttur, þar sem Vincent D'Onofrio fer á kostum í hverri viku. Plottið í hverjum einasta þætti gengur út á það sama: Vondur maður fremur glæp. Bobby Goren (persóna D'Onofrio), sem er heimsins fróðasti maður, beitir ómældum gáfum sínum til að komast að því hver framdi glæpinn. Fær glæpamanninn í yfirheyrslu, og beitir brögðum til að mála hann út í horn. Alltaf eins, alltaf jafnósennilegt, alltaf gaman.

3. That '70s Show: Snilldarþættir, þar sem Kelso og Fes(little known fact: gæjinn heitir ekki Fes, heldur stendur þetta fyrir Foreign Exchange Student) standa iðulega upp úr í heimsku.

2. Popppunktur: Virkaði affar lummó í byrjun, en hefur vaxið ásmegin, og er nú með því besta í íslensku sjónvarpi. Ræðst að vísu talsvert af þátttakendum hverju sinni, en Jarlaskáldið er nú spurningaidjót og þetta er ansi góður slíkur þáttur.

Og nr. 1! Scrubs: HA, hljóta einhverjir lesendur að segja núna, hvaða þáttur er það eiginlega? Hann er tiltölulega nýbyrjaður, sýndur á mánudagskvöldum á eftir Frasier, og er einhver sú mesta snilld sem ratað hefur á skjáinn á liðnum árum. John C. McGinley er gjörsamlega dásamlegur sem Dr. Cox, og allir grínþættir sem ekki nota hláturvél fá eðlilega stóran plús í kladdann. Eitthvað sem maður missir ekki af!

(Athugið að þessi listi á aðeins við um þá þætti sem sýndir eru í íslensku sjónvarpi akkúrat þessa stundina. Enginn þessara þátta kæmist enn sem komið er á topp fimm all-time listann, sem lítur nokkurn veginn svona út):

5. Sledge Hammer!
4. M.A.S.H.
3. Cheers
2. The Simpsons
1. Seinfeld.

Eflaust gleymdi Jarlaskáldið fullt af þáttum við þessa yfirferð, en það verður bara að hafa það.

Og fyrst maður er byrjaður á svona listum, ef hverju ekki að halda áfram. Hérna kemur listi yfir þá fimm þætti sem Jarlaskáldið horfir ekki á en er sannfært um að séu þeir verstu í íslensku sjónvarpi:

5. Survivor.
4. Innlit-Útlit.
3. Temptation Island.
2. Fólk.
1. Oprah.

Þetta var nú ansi sundurlaust blogg á köflum, kannski ekki við öðru að búast, þetta var fyrsta miðvikubloggið. Sigur Rós á föstudaginn, bless, bless!

mánudagur, desember 09, 2002 

Af yfirheyrslum, konsertum og hálfvitum

Jarlaskáldið mætti til yfirheyrslu hjá lögreglunni í dag, eins og áður hafði verið greint frá. Var það mætt stundvíslega niður á lögreglustöð um fjórðung fyrir þrjú, en var þá gjört að bíða drjúga stund eftir að lögreglumennirnir yrðu tilbúnir. Að lokum birtist einn vinalegur maður í gulri skyrtu og bauð Jarlaskáldið velkomið (er það gott að vera boðinn velkominn á lögreglustöð?) til yfirheyrslunnar. Fauk með því út í vindinn draumur Skáldsins um svokallaða Good Cop/Bad Cop yfirheyrslu, í staðinn var bara ein Good Cop. Var þó til nokkurra bóta að fá að fara inn í alvöru yfirheyrsluherbergi, en Skáldinu enn og aftur til vonbrigða var þar enginn spegill sem hægt væri að sjá í gegnum hinum megin. Er ekkert að marka þessar löggumyndir eða hvað!? Ekki telur Jarlaskáldið heppilegt að láta uppi hér hvað fór á milli þess og löggunnar, annað en það að Skáldið svaraði spurningum löggunnar sannleikanum samkvæmt, enda er það annálað fyrir heiðarleika og réttvísi.
Þegar Skáldinu var loksins sleppt úr haldi (var kannski ekki beint í haldi, en það hljómar hetjulegra) setti það á sig sinn hvolpalegasta svip, því ætlunin var að fara í bankann að grenja út peninga. Tókst það með miklum ágætum, og er peningavandræðum Skáldsins því lokið. Hvað blessuð skammsýnin getur bjargað mörgu! Í ljósi þessarar bættu fjárhagsstöðu fór skáldið að sjálfsögðu að eyða peningum, keypti sér forláta snjóbrettabuxur til Ítalíufarar, sem verður einmitt borguð síðar í vikunni.
Í kvöld var svo aldeilis stuð og fjör. Nick Cave sjálfur með tónleika, og Skáldið auðvitað á staðnum. Mætti kannski eilítið of seint til að fá sómasamleg sæti, en það bjargaðist fyrir horn, enda sat Skáldið úti í horni. Fyrst á svið steig ung mær, Hera Hjartardóttir, og flutti hún ca. fimm lög, hvert öðru harmrænna, enda stúlkan hokin af sorglegri reynslu. Var því talað um að hún hafi kælt niður fyrir meistarann, í stað þess að hita upp. Ágætis músík annars hjá stúlkunni, en flestir voru nú samt augljóslega komnir til að hlusta á annan tónlistarmann. Og sá sveik nú aldeilis ekki. Mætti á svið um níuleytið og byrjaði á alveg hreint svakalegri útgáfu á Mercy Seat, hreint út sagt gargandi snilld. Með meistara Cave voru trommu- og bassaleikari, og hreint magnaður fiðluleikari sem sannaði svo um munar að það er ekki bara Jónsi sæljón sem spilar óhefðbundið á hljóðfæri. Eftir þessa mögnuðu byrjun tók svo við hver klassíkin af annarri, t.d. frábær útgáfa af Henry Lee, en Skáldið var þó einna hrifnast af laginu God Is in the House, sem flutt var með miklum myndarbrag og af tilfinningu, auk aukalags frá Birthday Party árunum sem gæti hafa heitið Wild World, þvílík keyrsla!
Var Nicky litli greinilega í góðum fíling, gerði grín að sjálfum sér og áhorfendum, og spilaði ca. tvo tíma án hlés með tveimur uppklöppum, hreint út sagt frábærir tónleikar. Sumt var þó sem pirraði Jarlaskáldið. Í fyrsta lagi er Broadway ekki góður staður til tónleikahalds. Hljómburður er að sjálfsögðu ekki til fyrirmyndar, en það bliknar þó í samanburði við það ónæði sem var af posavélum og glasaglamri, en þó fyrst og fremst skúnkum þeim og hálfvitum sem héldu að þeir væru mættir á hagyrðingakvöld Austur-Svarfdæla, drukku sig fulla og blöðruðu linnulaust alla tónleikana. Var Jarlaskáldinu skapi næst að stjaksetja þá nokkra þegar þeir byrjuðu að blaðra á meðan flutningi einhvers fallegasta lags allra tíma, Into My Arms stóð. Sumt gerir maður bara ekki.
Þrátt fyrir þessa annmarka voru tónleikarnir stórkostlegir, og hvetur Jarlaskáldið alla sem eiga þess kost að fjölmenna á morgun, þótt það kosti þá eitt nýra eða svo. Muna bara að koma með klóróform og/eða barefli til að þagga niður í hálfvitum, því þeir eru alls staðar, þótt flestir reki uppruna sinn til Selfoss...

Það er skammt stórra högga á milli í familíu Jarlaskáldsins. Í gær átti stóra systir ammæli, í dag á stóri bróðir ammæli. Til hamingju með það!

sunnudagur, desember 08, 2002 

Jarlaskáldið - Góðkunningi lögreglunnar?

Sunnudagur er að kveldi kominn, og um leið kominn tími til þess að rita fáein orð um ævintýri Jarlaskáldsins. Viðkvæmir lesendur eru varaðir við, því ýmislegt er hér fer á eftir er vart við hæfi þeirra. En lítum til baka:

Eins og við var að búast féll áætluð jeppaferð VÍN-verja niður á föstudaginn, og ákvað Jarlaskáldið þess í stað að mæta á Jólaglögg Ostogsmjör. Fyrirfram hafði það óljósar hugmyndir um hvernig slík samkoma færi fram, en óraði ekki fyrir raunveruleikanum. Skáldið mætti á staðinn á níunda tímanum á föstudagskvöldið, stuttu eftir að húsið opnaði. Var þar þá mættur nokkur fjöldi manna, og um sama leyti mætti þar rumur mikill í jólasveinabúning og tók að syngja öll þau verstu jólalög sem fyrirfinnast, og það sem verra er, að fá áhorfendur til að taka þátt í vitleysunni. Þurfti Jarlaskáldið því að dansa hókípókí, höfuðherðarhnéogtær og kónga áður en því tókst að torga svo mikið sem einni ölkollu. Hefði e.t.v. verið betra að hafa þetta „skemmtiatriði“ síðar í dagskránni. Sem betur fer lét jólasveinninn sig brátt hverfa, og gat Jarlaskáldið þá tekið til óspilltra málanna í drykkju, sem það og gerði, enda allt frítt. Þurfti það reyndar nokkrum sinnum að gera hlé á þeirri iðju sakir skemmtiatriða, sem fæst voru skemmtileg. En þegar nokkuð var liðið á kvöld gerðust mikil undur og stórmerki. Jarlaskáldið vann í happadrætti! Hefur það ekki gerst áður í manna minnum, og gleði Skáldsins því fölskvalaus við tíðindin. Gleðin minnkaði reyndar talsvert þegar verðlaunin komu í ljós, búrhnífur og viskastykki. Það var og. Enn meiri undur og stórmerki urðu þó í næsta vetfangi. Jarlaskáldið var fengið til að draga út síðasta vinninginn. Félagi Guðjón bað um að sitt númer yrði dregið. Jarlaskáldið varð við því. Er Jarlaskáldið göldrótt? Helvítið hann Guðjón fékk 5000 kr vöruúttekt í verðlaun. Grimm eru örlögin stundum.
Drykkju var svo haldið áfram, og verður Jarlaskáldið seint sakað um að drekka við sleitur. Um og eftir miðnætti var svo ákveðið að halda för í bæinn, og samkvæmt debetkortakvittun kom Jarlaskáldið heim um fjögurleytið með leigubíl. Hvað gerðist þar á milli verður að leita í ranni Óminnishegrans.
Vaknaði Jarlaskáldið seint og um síðir á laugardeginum, við það að frændi þess tveggja ára byrjaði að hoppa ofan á því og stunda hinar ýmsu leikfimisæfingar á því. Hefði hann haft vitneskju um heilsufar Skáldsins hefði hann vísast sleppt æfingunum.
Ákvað Jarlaskáldið í ljósi breyttra aðstæðna að halda sig heima við á laugardagskveldinu, þrátt fyrir ýmis gylliboð. Naut það samvista við sinn gamla vin sjónvarpið, sem bauð upp á ýmislegt bæði gott og vont þetta kvöldið. Fyrst ber að nefna til sögunnar Spin City, sem er hinn ágætasti þáttur, einkum þegar persóna snillingsins Alan Ruck (vinur Ferris Bueller í samnefndri mynd) lætur ljós sitt skína. Næst tók við Spaugstofan. Mikið vildi Jarlaskáldið fá þær tuttugu mínútur aftur. Því næst var glápt á Popppunkt. Gaman að sjá Ham vinna FM-hnakkana. Fínn þáttur yfirleitt. Að Popppunkti loknum var glápt á The Mexican. Það er ekki góð mynd, enda „skartar“ hún Julia Roberts. Ekki einu sinni James Gandolfini sem hommi gat bjargað þessari vellu. Að Mexíkóanum loknum tók Primary Colors við. Jarlaskáldið hafði séð þá mynd áður, og því í raun óskiljanlegt að það skyldi hafa horft á hana aftur, því ekki er hún skemmtileg. Skárri en helvítis Mexíkóinn þó. Að henni lokinni fór Jarlaskáldið að nördast á netinu, þar til sími þess hringdi um fjögurleytið. Á hinum endanum voru þeir félagar Magnús Blöndahl og Gunnar Gunnarsson, sem vildu endilega láta Skáldið vita hvað þeir voru fullir. Takk fyrir það.
Sakir aumingjaskapar kvöldið áður vaknaði Skáldið hið hressasta um hádegisbil á sunnudeginum (í dag). Voru nokkrir liðir á dagskránni þann daginn. Fyrst ber að telja stórammæli stóru systur, sem er orðin nógu gömul til þess að maður hefur ekki orð á því. Til hamingju með það stóra systir! Góðan gerir stóra systir brauðrétt. Næst á dagskránni voru langþráðir endurfundir drengjasveitarinnar Hlégests. Sakir þess að Sveitagestur hafði lagt leið sína í höfuðborgina var ákveðið að hann ásamt Litlagesti og Stóragesti færu í heimsókn til Bangsagests til að rifja upp gamla tíma og éta vöfflur. Gaman að því. Þetta skildi líklega enginn. Um kvöldið var Skáldið svo boðað á Kaffi Vín til að fagna endurkomu frelsarans, Dengsa, frá landi Bretóna. Var það gjört.
Athugulir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að enn hefur ekkert í þessari grein tengst á nokkurn hátt fyrirsögninni. Úr því skal bætt hér. Svo er mál með með vexti að þegar Jarlaskáldið var á leið í ammæli stóru systur hringdi sími þess. Private number stóð á skjánum, örugglega eitthvað helvítis tryggingafélag eða eitthvað álíka að reyna að selja Skáldinu einhvern óþarfa. En ónei, á hinum enda línunnar hljómaði þungbúin rödd:

„Er þetta Xxxxx Xxxxxxxx?“ (þungbúin)
„Uhm, já.“ (hjáróma)
„Já, þetta er hjá lögreglunni,“ (um þetta leyti fékk Jarlaskáldið nett áfall, hvern andskotann hafði það verið að gera í óminninu á föstudaginn?) en svo bætti löggan við „á Selfossi.“ (enn þungbúin)

Í ljós kom að Jarlaskáldið hafði ekki gerst brotlegt við lög, heldur var því gert að mæta í yfirheyrslu niður á Hverfisgötu á mánudeginum til að greina frá málsatvikum í líkamsárás þeirri er átti sér stað í sögulegri sumarbústaðarferð fyrir ca. mánuði síðan eins og þau blöstu við því sjálfu. Skilvirk þessi lögga. Er Jarlaskáldið að vonum spennt yfir því að geta látið lóð sín á vogarskálar réttlætisins, og afar spennt yfir því að mæta loksins í yfirheyrslu eftir að hafa séð svo fjölmargar í kvikmyndum og sjónvarpi. Best væri ef þetta yrði svona Good Cop-Bad Cop yfirheyrsla, það yrði æði. Annars er víst best að segja ekki of mikið, annars gæti einhver snjall lögfræðingur fengið framburð Skáldsins útilokaðan, þannig er það allavega í The Practice. Já, best að þegja bara...





fimmtudagur, desember 05, 2002 

„I'm back“

Útlegð Jarlaskáldsins úr bloggheimum er lokið, a.m.k. í bili. Enn hefur Skáldið ekki hugmynd um hvað olli því mótþróaskeiði sem tölva þess lenti í og lýsti sér í algjörri andstöðu hennar við að hlýða skipunum Skáldsins, auk þess sem hún sakaði það sí og æ um ólöglegt athæfi. Kannski er tölvan komin á gelgjuskeiðið, a.m.k. var hegðunin svipuð.
Þetta hefði e.t.v. verið hið versta mál ef Jarlaskáldið hefði haft eitthvað til að blogga um, en svo var nú aldeilis ekki. Liðnum dögum mætti lýsa með fjórum orðum: vinna, borða, sjónvarp, sofa. Orðum er því ekki frekar eyðandi á það. Skynsamlegra væri að líta fram á veginn, og útlista fyrir lesendum hvað til stendur í lífi Skáldsins, og er þar af nógu að taka.
Um helgina var fyrirhuguð mikil jeppareisa með þeim ágæta félagsskap VÍN. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að það sé bókstaflega fokið út í veður og vind, enda lítið gaman að jeppast í þoku, roki og rigningu, þá kýs maður nú frekar snjóinn, sem maður ætti að öllu jöfnu að geta gengið að sem vísum í desember. En ekki núna, onei, hvergi snjókorn að sjá! Að vísu er enn möguleiki á því að æðri máttarvöld sjái til þess að jeppafært verði, en verður að teljast ólíklegt.
Þó jeppaferðin detti upp fyrir er Jarlaskáldið síður en svo á flæðiskeri statt hvað dægrastyttingu varðar. Talandi um dægrastyttingu, birti eitthvað í dag!? Waysany, annað kvöld verður jólaglögg OSS haldið í matsal Ostogsmjör að Bitruhálsi, og verði ekki jeppast verður að teljast afar líklegt að Jarlaskáldið líti þar við, enda ekki vant því að láta sig vanta þegar ákveðnar veitingar eru í boði. Samkvæmt auglýstri dagskrá á þetta að vera svona sambland af litlu jólunum og jólaglöggi, menn eiga s.s að skiptast á smágjöfum eins og á litlu jólunum og halda svo fram hjá með vinnufélögunum inni í kústaskáp eins og í jólaglöggi. Þetta með framhjáhaldið var að vísu ekki auglýst, en maður kann nú að lesa á milli línanna. Þetta gæti orðið hin ágætasta skemmtun, en gæti líka orðið algjört disaster. Hvort tveggja er skemmtilegt.
Á laugardaginn má svo búast við að neyðarástandi verði lýst yfir hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þar sem von er á sjálfum Dengsa heim frá Bretlandseyjum. Dengsi er btw byrjaður að blogga, eða er allavega að reyna. Má því búast við að fyrirsögnin „Ofurölvaður flugumferðarstjóri veldur gífurlegu eignatjóni“ verði á forsíðum allra helstu blaðanna eftir helgina, ef eitthvað er að marka fyrirætlanir Dengsa. Jarlaskáldið mun að sjálfsögðu bjóða strákinn velkominn.
Í næstu viku verður svo nóg að gera. Fyrsta mál á dagskrá er að fara í bankann og grenja út peninga hjá honum til þess að borga Ítalíuferðina. Á mánudagskvöldið ætlar Jarlaskáldið svo að heiðra meistara Nick Cave með nærveru sinni á tónleikum hins síðarnefnda, og aldrei að vita nema þeir taki lagið saman. Við skulum samt vona ekki. Á föstudaginn eru það svo aðrir tónleikar, í það sinnið hjá gleðipinnunum í Sigur Rós. Ætti það að vera mikill galsi og fjör, enda annálaðir stuðboltar þar á ferð.

Ein getraun að lokum: Í orð hvaða manns og við hvaða tilefni er vitnað í titli þessa bloggs? Vegleg verðlaun í boði fyrir rétt svar.

mánudagur, desember 02, 2002 

Viltu vinna milljón? þekkja ekki sinn Seinfeld

Jarlaskáldið horfði eins og svo oft áður á þann ágæta þátt Viltu vinna milljón? á sunnudagskvöldið. Ágætis keppendur að þessu sinni, þessi Ásatrúargæi hefði eflaust farið langt ef hann hefði ekki fengið þessa svínþungu spurningu. Giskaði að vísu á það eina sem Jarlaskáldið gat útilokað, svona er þetta stundum. Það vakti þó ekki mesta athygli Jarlaskáldsins, heldur önnur spurning sem snerist um meinta trú aðalpersóna Seinfeld-þáttanna. Jarlaskáldið telst væntanlega til harðari aðdáenda þeirra frábæru þátta, á þá m.a.s alla (nema einn, andskotinn!) á vídjóspólum og hefur séð þá alla oft og mörgum sinnum og getur farið með frasa úr þeim eins Jón Bö úr Njálu. Spurt var hvaða trú aðalpersónur þáttanna aðhylltust, og var hið „rétta“ svar gyðingdómur. Þvílíkt og annað eins bull! Það er eingöngu Jerry sjálfur sem er gyðingur, og skulu nú færð rök fyrir því. Um Jerry þarf ekki að efast, hann er óneitanlega gyðingur, q.e.d. George telst frá og með 11. þætti 5. seríu (The Conversion, brilliant þáttur btw) til lettnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, en hann skipti yfir í þá trú til að reyna að ná sér í kellingu. Fyrir þann tíma er málið erfiðara, a.m.k. heldur pabbi hans ekki upp á jólin heldur Festivus, en hann hélt einu sinni upp á jólin og því tæplega gyðingur. Ítalskt ættarnafnið bendir einnig til þess að hann hafi verið kaþólskur.
Elaine er samkvæmt 16. þætti 9. seríu (The Burning) trúleysingi, þegar það veldur vandræðum í sambandi hennar við hinn trúaða Puddy. Í 3. þætti 9. seríu (The Serenity Now) kemur einnig fram að hún hafi svokallað „shiksappeal", sem er aðdráttarafl kvenna sem ekki eru gyðingar á karlkyns gyðinga. Kramer hefur lítið látið uppi um trúhneigð sína, en hann er a.m.k. ekki gyðingur, eins og fram kemur í 6. þætti 8. seríu (The Fatigues), þar sem Kramer skipuleggur „singles night“ fyrir gyðinga, þrátt fyrir að vera ekki gyðingur, eins og hann segir sjálfur.
Ætti þetta að vera næg sönnun fyrir því að bæði spurningin og svarið voru kolröng. Pistill þessi ætti einnig að vera næg sönnun þess að Jarlaskáldið er kolklikkað og á sér ekkert líf.

 

Jarlaskáldið færir út kvíarnar

Jarlaskáldinu var boðið í íbúðarprófun á laugardagskvöldið hjá þeim hjónaleysum Eyjólfi og Ríkeyju. Tilgangurinn var að athuga hvort íbúðin væri hæf fyrir innflutningspartý á næstu vikum, og voru að sjálfsögðu fengnir VÍN-verjar til þess verks. Meðal gesta mátti auk Jarlaskáldsins sjá þá fóstbræður Boga og Loga, Andrésson og frú, Öldu og einnig merkikertið Magnús, sem ákvað að heiðra samkomuna þrátt fyrir að það sé að sjálfsögðu langt fyrir neðan virðingu slíks celeba. Gekk samkoman nokkuð vel fyrir sig, þótt smábyrjunarörðugleika hafi gætt í fyrstu, en Jarlaskáldið reddaði málum með því að tengja græjurnar upp á nýtt til að fá úr þeim einhver hljóð. Þótti íbúðin annars vel til þess fallin að halda þar samkvæmi, státaði m.a. af feiknastóru dansgólfi, sem kannski orsakaðist af húsgagnafæð. T.d. var ekkert sjónvarp sjáanlegt, sem er bagalegt. Einn galli er þó á gjöf Njarðar, íbúðin er í Kópavogi, og því vissara að hafa með sér kort eða einhvern innansveitarmann svo maður villist ekki í gatnakerfinu skemmtilega sem bærinn býður upp á. Sem betur fer naut Jarlaskáldið leiðsagnar Magnúsar við að komast á staðinn.
Ekki gerðist neitt markvert í þessu prufupartýi, bara almennt sumbl en þó mismikið hjá mönnum. Þegar nokkuð var liðið á kvöld og allt áfengi uppurið tóku flestir gesta stefnuna á fornar slóðir, nebbnilega Hverfisbarinn, en bæði í sparnaðarskyni og sakir óútskýrðrar þreytu sá Jarlaskáldið sæng sína útbreidda, í bókstaflegum skilningi, því því var færð bæði sæng og koddi og tók það sér næturvist í sófa einum góðum, sem bætist á langan lista sófa sem Jarlaskáldið hefur haft næturvist á víðs vegar um landið. Fær þessi sófi bestu meðmæli Jarlaskáldsins, veitti hann góðan stuðning en var um leið mjúkur og þægilegur, ólíkt ýmsum fletum sem Jarlaskáldið hefur nýtt sér, og kemur ævintýrið í Ystu-Vík síðasta sumar óneitanlega upp í hugann. Vaknaði Skáldið því ferskt og hresst um tíuleytið á sunnudeginum þegar móðir þess hringdi, greinilega í þeirri veiku von að Jarlaskáldið hefði nælt sér í einhverja heimasætu, en sem fyrr olli Skáldið móður sinni vonbrigðum í þeim efnum. Læddist Skáldið því næst út (eftir að hafa búið um fletið, Jarlaskáldið kann sig enda með reynslu) og rölti heimleiðis. Í ljósi þess sem gerðist stuttu síðar á sparkvelli á Englandi hefði Jarlaskáldið betur snúið sér á hina hliðina og sofið áfram, en förum ekki að rifja upp þá vitleysu. Jarlaskáldið vill aftur á móti nota tækifærið og þakka þeim Eyjólfi og Ríkeyju kærlega gestrisnina, þau lifi, húrra, húrra, húrra, HÚRRA!!!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates