« Home | Músík ársins » | 2012 » | Músík ársins » | 10 ár » | Músík ársins » | Músík ársins » | 2009 » | Árið 2008 í myndum » | Lilli er látinn » | París » 

þriðjudagur, desember 30, 2014 

Músík ársins



Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.

Pharrell Williams - Happy: Þetta tröllreið öllum viðtækjum í lok síðasta árs og upphafi þessa, kannski ekki sérlega djúpar og miklar pælingar í gangi en þetta er óneitanlega grípandi og kemur manni í gott skap, í hóflegum skömmtum.

John Grant - GMF: Þetta er einnig frá síðasta ári en náði ekki mínum eyrum  almennilega fyrr en í upphafi þessa, og við það er miðað á þessum lista. Alveg spurning hvort þetta telst sem íslenskt eða erlent lag, hér telst það erlent, en það skiptir svo sem ekki öllu máli, heldur að það er fjári gott og af assgoti góðri plötu.

Drake ft. Majid Jordan - Hold On, We´re Going Home: Að líkindum elsta lagið á listanum, frá því um mitt ár 2013, en ég heyrði það ekki fyrr en ég sá að hipsterabiblían Pitchfork valdi það besta lag ársins, og merkilegt nokk var það val ekki alveg út í hött.

dj. flugvél og geimskip - Trommuþrællinn: Nei, þetta er ekki gott lag. Eiginlega bara vont að flestu leyti. Svo vont að það er frábært.

Tilbury - Hollow: Humm, sosum ekki margt um þetta að segja. Bara solid sjitt.

Mono Town - Peacemaker: Eitt af þessum lögum sem maður heyrir í útvarpinu og verður svo hissa á að það sé íslenskt.

Future Islands - Seasons (Waiting On You): Þessir gæjar voru algjörir nóbóddís þegar þeir fengu að spila hjá Letterman. Þar fékk söngvarinn einhvers konar krampakast, en útkoman varð svona líka stórkostleg. Svo kom í ljós að lagið var bara helvíti hressandi líka. Besta útlenska lag ársins.

Júníus Meyvant - Color Decay: Höldum okkur við nóboddíana. Þennan gæja hafði ég aldrei heyrt um þegar ég heyrði þetta lag í fyrsta sinn síðasta sumar, en strax við fyrstu hlustun heyrði ég að þetta væri eitthvað gott. Allavega næstbesta íslenska lag ársins.

Hjálmar - Lof: Bestu tónleikarnir sem ég fór á á árinu (þeir voru reyndar ekki ýkja margir) voru afmælistónleikar Hjálma í haust. Þetta er fjarri því það besta sem þeir hafa gert, en samt voða fínt fílgúdd.

Sólstafir - Lágnætti: Þessir gömlu skólabræður mínir áttu eitt besta lag ársins 2012 með „Fjara“, sem var líklega það fyrsta sem ég heyrði með þeim. Ég hafði alltaf haldið að þeir væru að spila argasta dauðarokk eða þaðan af verra, en þetta minnir mig meira en Sigur Rós og svoleiðis stöff. Sem er gott...

Michael Jackson & Justin Timberlake - Love Never Felt So Good: Justin og Jackson saman. Það verður að vera með.

Lykke Li - No Rest For The Wicked: Maður gerir ekki svona lista án þess að hafa einn Svía. Það væri bara út í hött.

Gus Gus - Obnoxiously Sexual: Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Gus Gus, finnst þeir alltaf hafa verið eitthvað svo „sterílir“. En Högni kemur með eitthvað inn í þetta sem ég fíla.

Interpol - All The Rage Back Home: Einu sinni var Interpol ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, og mér finnst Turn On The Bright Lights enn ein af bestu plötum allra tíma. En frá því þeir gáfu út hundleiðinlega plötu 2010 var ég alveg búinn að gefa þá upp á bátinn. nennti ekki einu sinni að sjá þá á tónleikum þegar þeir komu hingað. Þetta lag jafnast ekki á við gamla snilld, en allavega í áttina.

AmabAdamA - Hossa hossa: Hressandi sumarsmellur, svona lag sem maður á alltaf eftir að tengja við síðasta sumar.

Prins Póló - París norðursins: Lag ársins. Nuff said.

George Ezra - Budapest: Ég vissi ekki hvort ég ætti að hafa þetta lag á listanum, fannst það aldrei nein sérstök snilld, en það var svo sem ekkert annað sem mér fannst koma til greina. Og mig hefur alltaf langað til að koma til Búdapest.

Hozier - Take Me To Church: Bara af því ég gifti mig á árinu, ekki í kirkju.

Uniimog - Yfir hafið: Unimog eru skemmtilegir bílar. Og Uniimog stefnir í að verða skemmtileg hljómsveit.

Sia - Chandelier: Þórey segir að þetta sé stelpulag. Það má vel vera. Ég hef þá bara gaman af stelpulagi.

Vilji einhver nálgast afrit af þessum lögum á MP3-formi getur hann gert það hér. Góðar stundir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates