« Home | Ágætis byrjun Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaská... » | Auld Lang Syne Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur. ... » | Ársuppgjör 2004 Það styttist víst í það að árið s... » | Kjöt og fiskur Jarlaskáldið hefur sjaldan verið t... » | Jól, krakki og ammili Jamm, jól. Til hamingju me... » | Maggi tekinn í bakaríið Hann var með erfiðari sun... » | 101 Selva Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti... » | Bjáni Sturla Böðvarsson heitir maður, einkum þekk... » | Tot Frásagnir af andláti Jarlaskáldsins eru stórl... » | Gaman Jarlaskáldið vildi bara koma á framfæri þak... » 

þriðjudagur, janúar 04, 2005 

Ársuppgjör 2004 - annar hluti - apríl-júní

Þá er komið að öðrum hluta í ársuppgjörinu, vika síðan fyrsti pistillinn var birtur, vonandi líður minna en vika í þann næsta, en Jarlaskáldinu til varnar var nóg annað að gera liðna viku en að sitja við skriftir. Fyrsti árfjórðungur 2004 fékk eftir hávísindalegar mælingar einkunnnina 8,3 og það þrátt fyrir að stærstur hluti tímabilsins hafi verið tóm leiðindi. Margt sem Ítalíuferðir geta bætt. Nú er að sjá hvernig öðrum ársfjórðungi reiðir af:

Apríl
Það fór að koma aukinn ferðahugur í Jarlaskáldið þegar sól tók að hækka á lofti er leið á vorið og Eyjólfur því heldur að hressast. Reyndar eyddi Skáldið fyrstu helgi aprílmánaðar að mestu innan borgarmarkanna, Jarlaskáldið gerði einkar víðreist um skemmtistaði borgarinnar eftir nokkra fjarveru á þeim slóðum og endaði m.a. eitt kvöldið á slysavarðstofu með myndarlega skeinu. Hún greri. Einnig fjárfesti Skáldið í nýjum síma þessa helgi og hefur ótrúlegt en satt ekki týnt honum enn! Sá var búinn myndavél, og var óspart brúkaður næstu mánuðina. Í sunnnudagsþynnkunni var svo fyrsta ferðalag annars ársfjórðungs, stutt að vísu, fór með meðreiðarsveinunum algengustu í bað í Reykjadal. Ekki seinasta utandyrabaðferðin það árið...
Önnur helgi aprílmánaðar var páskahelgin og þá var ýmislegt bardúsað. Á miðvikudagskvöldinu var litið í bæinn örstutta stund, á skírdag brugðið sér í bíltúr austur fyrir fjall og kíkt í sund á Flúðum, að morgni föstudagsins langa haldið í Mörkina við fimmta mann og gist eina nótt, alltaf gaman að kíkja þangað og athuga með bekkinn og árnar og margt fleira. Laugardags- og sunnudagskvöld leit Skáldið við í teitum og brá sér einnig í bíltúr norður fyrir fjall á páskadag. Ansi víða komið við þessa löngu helgi, en helst þótti tíðindum sæta að Skáldið sá hvergi neina timburmenn. Those were the days!
Eftir páskana gerðist fátt sem til tíðinda þótti í drjúga stund, Skáldið lét sadískan tannlækni sinn fylla eina tannrót sína stuttu eftir páska og var bæði sakir blankheita (ekki ókeypis sú aðgerð) og eðlislægrar leti rólegt næstu vikuna. Miðvikudaginn 21. apríl greip loks ferðahugurinn Skáldið að nýju, var það síðast dagur vetrar og að venju var þeim tímamótum fagnað með því að fara í útilegu og skíðaferð hvort tveggja í einu, einkar viðeigandi á mótum veturs og sumars. Arnarstapi og Snæfellsjökull urðu að vanda fyrir valinu, góðmennt og góðviðrasamt og fínasta ferð. Að vanda.
Ekki kom Jarlaskáldið miklu meira í verk í apríl 2004 sem fært var til bókar, nema...

Maí
...fyrsta hluta ferðar þeirrar er næst er getið, því vissulega hófst hún síðasta daga aprílmánaðar þó veigamestur hluti hennar hafi verið í maí, og því fjallað um hana þar. Var sú ferð líkt og margar aðrar hefðbundin (óglöggum lesendum til skýringar verða ferðir hefðbundnar við það að verða endurteknar, þó ekki sé nema einu sinni), labbitúr á Hekluna með skíðaplanka á bakinu og skíðað niður ef veður leyfir. Veðrið var reyndar ekki alveg á því að leyfa það að þessu sinni, ferðlangarnir fjórir þurftu frá að hverfa í ríflega 1000 metra hæð og snælduvitlausu veðri, en skíðuðu a.m.k. það sem þá var búið að ganga.
Annarri helgi maímánaðar eyddi Skáldið heimavið, sem var þónokkuð algengt fyrri part árs, en þriðju helginni var varið í enn eina hefðbundnu iðjuna, Júróvisjónpartí, að þessu sinni í Logafoldinni, og veðjaði Skáldið að sjálfsögðu á réttan hest sem var Ruslana blessunin. Eitthvað var nú djammið það kvöldið.
Í vikunni eftir Júró var svokallaður uppstigningardagur, og þótt fæstir viti hvert pointið er með honum þýddi það frí í vinnunni og nýttu nokkrir VÍN-verjar hann til þess að heimsækja Þórsmörkina ástkæru. Ágætasta ferð, þó ekki hafi hún verið hin æsilegasta. Leikar áttu eftir að æsast síðar...
...og það ekki miklu síðar, því síðustu helgina í maí, hvítasunnuhelgi, fór Skáldið ásamt fjórum öðrum í hreint frábæra ferð um suðurhluta Vestfjarða. Það voru meiri ólukkans greyin sem misstu af þeirri ferð, sem lengi verður í minnum höfð.

Júní
Júní fór prýðilega af stað, því strax helgina eftir Vestfjarðavíkinginn var haldið í Kerlingarfjöllin, gengið á Snækoll og skíðað niður. Þar endaði einnig Morgunblaðshöllin líf sitt, blessuð sé minning hennar.
Í vikunni eftir þá ferð fékk Jarlaskáldið hin ágætustu tíðindi; það var ráðið til starfa hjá Baugsveldinu, sem prófarkarlesari í sumarafleysingum. Allt skárra en helvítis mjólkin. Það reyndar þýddi að nokkurt hlé var gert á ferðalögum, þó næstu helgi hafi verið varið í bænum af öðrum ástæðum. Skáldið leit við í útskrift hjá Kidda, komst ekki mikið lengra...
Helgina á eftir héldu margir til Mývatns, en Skáldið sat heima og sinnti nýfenginni vinnu sinni, ekki sérlega gott career-move að taka sér frí fyrstu helgarvaktina. Helgina þar á eftir var svo plönuð (hefðbundin) gönguferð um Fimmvörðuháls, en þá tóku veðurfræðingar í taumana, spáðu bálviðri svo ferðalangar týndu hver af öðrum tölunni uns eftir stóðu tveir: Skáldið og Stebbinn. Létum við veðurspá lítið á oss fá, fórum reyndar bara í Mörkina á Willa í stað þess að ganga og létum það engan mátt úr okkur draga að veður var snælduvitlaust, hvað þá þegar kviknaði í Willa á leiðinni. Helgin heppnaðist síðan bara ágætlega, fjölgaði í hópnum á laugardeginum og komin rjómablíða á sunnudeginum. Og lýkur þar júnímánuði...

Einkunn:

Það má segja að heildarsvipur annars ársfjórðungs hafi verið annar og jafnari en þess fyrsta. Vissulega var ekki endalaust fun, fun, fun en þó leið aldrei langt á milli þess að Skáldið fann sér eitthvað skemmtilegt að gera, og margar ferðirnar voru stórskemmtilegar, ekki síst Vestfjarðavíkingurinn sem var hrein snilld. Á móti kemur að Skáldið var meira og minna staurblankt allan tímann, þó horft hafi til betri tíma undir lokin. Svo að niðurstaðan er...:

Einkunn apríl-júní 2004: 8.5.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates