föstudagur, júní 30, 2006 

Mörkin, já Mörkin



Var í Mörkinni um síðustu helgi. Kom þangað labbandi.

Fer í Mörkina þessa helgi.

Svo kemur sumarfrí. Þá kannski skrifar maður eitthvað.

Samt ekki á mánudaginn. Hugsa að heilsan verði, tja, þið vitið.

þriðjudagur, júní 20, 2006 

Svíagrýlan



Það var aldeilis hreint fínt ferðalag um helgina, heljarinnar rúntur nánast stranda á milli. Töldu ferðalangar sjö einstaklinga, þar af einn erlendan. Í Sigurbirni voru bílstjórinn Kaffi, Jarlaskáldið í hlutverki kóara, Svíagrýlan sem fulltrúi minnihlutahópa, og Frænkan sem sá um að túlka. Auk þess var Hispi með í för, og í honum bílstjórinn Rugldælingur, og þeir hr. Twist og Öræfaóttinn sem skiptust á í hlutverki kóara.
Fyrsti áfangi fararinnar var frá borg óttans, fyrst á KFC í Mosfellssveit, svo austur Mosfellsheiðina, upp á Uxahryggi, og út á línuveginn í austur frá Kaldadalsvegi spölkorn, eða þar til komið var í Tjaldafell, þar sem okkar beið vistlegur skáli, búinn öllum helstu þægindum, þ. á m. gufubaði sem allir nýttu sér fyrir utan Svíagrýluna því eins og allir vita eru Svíar hálfgerðir aumingjar og mjög viðkvæmir fyrir hitabreytingum. Tekin var umferð í sprettlellahlaupi, dreypt á drykkjum, hringt í fólk, eflaust eitthvað fleira, en endað í bælinu að lokum, sem var sem betur fer ansi breitt þar eð Jarlaskáldið mátti gera sér að góðu að deila hvílu með Rugldælingnum.

Eftir góðan næturblund tók við næsti áfangi, og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Barst þá leikurinn enn lengra í austur, sem er einmitt í átt til Svíþjóðar, en við Kjalveg var beygt norður þann veginn uns aftur var haldið í austur til Tjéllingarfjalla. Að þeirri heimsókn lokinni var snúið við og haldið áfram í norður á Kjalvegi þaðan sem frá var horfið. Þar loks fór að stytta upp og var veðrið hið ágætasta það sem eftir lifði ferðar. Á Hveravöllum byrjuðum við á að festa okkur svefnpláss í gamla skálanum, Hispamenn sátu límdir við viðtækin að hlusta á lýsingu á handboltaleik Íslendinga og Svía, en við hin sáum að okkur bar skylda til að koma Svíagrýlunni í burt svo hún hefði ekki áhrif á úrslitin og fleygðum henni því í laugina. Það dugði.
Eftir væna dvöl í lauginni var grillað, étið, og vitaskuld aftur í laugina síðan, sem var full af útlendingum, einkum þýðskum og hebreskum, svo við máttum hafa okkur öll við að halda friðinn. Jarlaskáldið minnist þess að það heillaði laugargesti með flutningi á þýskum kveðskap, og hlaut lof fyrir afburðagóðan framburð í kvæðinu Röslein auf der Heiden. Jawohl.
Eftir enn lengri laugarsetu tók ýmislegt við, umferð í sprettlellahlaupi, reynt að hringja í fólk, en endað inni í Unimoc í partíi með útlendingum. Fór það friðsamlega fram, og að mestu án milliríkjadeilna.

Sunnudagur rann upp fagur, og að morgunverkum loknum var kominn tími til að koma sér heim. Vitaskuld var ekki hægt að keyra sömu leið til baka, það hefði verið asnalegt, svo við héldum áfram í norður og munaði minnstu að við enduðum á Blönduósi, en því tókst að afstýra á síðustu stundu, sem betur fer, enda algert viðskiptabann ríkjandi á þann bæ. Svo þjóðvegaakstur í bæinn, burger á stað elskenda við Hreðavatn, og síðan bara byrjað að bíða eftir næstu helgi. Gæti það orðið Mörkin? Jú, gönguhópurinn ætlar að kanna aðkomuna í Mörkina að sunnan, allir velkomnir með!

föstudagur, júní 16, 2006 

Við Valgerður

Þetta vakti óneitanlega athygli Jarlaskáldsins á ferðalagi þess um lýðnetið. Ekki vissi það að aðalsamningamaður Bandaríkjanna væri svona glæsilegur.

 

Er komið sumar?

Jarlaskáldið situr hér og reynir að fylgjast með fjórða leik NBA-úrslitanna, en þar sem seint verður sagt að það sitji límt við skjáinn er kannski ekki úr vegi að bæta aðeins fyrir gamlar bloggsyndir og rita eitthvað um lífshlaup Skáldsins undanfarnar vikur, enda vantað töluvert upp á að því hafi verið sinnt.

Í fyrsta lagi er þess að geta að Jarlaskáldið er flutt að heiman, og hefur búið í Árbænum núna í tæpan mánuð. Þar leigir það íbúð af Hadda hennar Hrannar, og hefur meðleigjanda, sem er kvenkyns. Hafa ýmsir lýst furðu sinni á þessu fyrirkomulagi, jafnvel vantrú, en til að svara þeirri spurningu sem spurð hefur verið ótal sinnum undanfarinn mánuð: sambúðin gengur bara þrælvel. Jújú, Jarlaskáldið neyðist stundum til að horfa á America's next top model og Beverly Hills 90210 og aðra snilld, en það fær nú að horfa á sinn fótbolta og körfubolta þegar það vill. Svo fremi að konan vilji ekki horfa á eitthvað annað.

Annað sem hefur verið áberandi síðustu vikur eru tíðar heimsóknir Skáldsins til lækna. Forsaga málsins er sú að Jarlaskáldið "þjáist" af vægum hjartagalla sem og einstaklega ótaktvissum hjartslætti, og í apríl fór það auk þess að finna fyrir verkjum og þreytu hingað og þangað um líkamann og ákvað að líta við hjá hjartalækni. Þá þurfti auðvitað að rannsaka málið, vitaskuld fyrir tugi þúsunda króna, ómskoðun og blóðrannsókn og slík skemmtilegheit, en í ljós kom að pumpan var í fínu standi. Hins vegar reyndist blóðið ekki alveg í sama stuði, svokallað B12-vítamín var þar af einstaklega skornum skammti, og hefur Skáldið fengið að njóta þess að fá sprautu af því ágæta vítamíni í bossann á vikufresti síðan þá. Ekki hefur það verið neitt sérstaklega spennandi, þó svo að Dillu hafi þótt einkar spennandi að fá að reka sprautuna á kaf í mann, en Eyjólfur er þó aðeins farinn að hressast og þarf vonandi ekki að þola þetta harðræði öllu lengur, a.m.k. ekki svo títt.

Þrátt fyrir að hafa ekki verið upp á marga fiska heilsufarslega séð hefur Jarlaskáldið ekki slegið slöku við í ferðalögum og fíflagangi vítt um sveitir landsins. Útileguvertíðin hófst strax í byrjun apríl með heimsókn í (you guessed it) Mörkina, þar sem tjaldað var í snjó. Næsta útilega, tja, bara aftur í Mörkina, en að vísu var bara gist í skála í það sinnið, enda veðrið ekki upp á marga fiska.
Útilegan varð aðeins ein í maímánuði, og má segja að hún hafi verið fámenn en góðmenn. Vitringarnir þrír brugðu sér í Húsafell og létu ekki fámennið aftra sér frá því að stunda fíflagang. Að þeirri ferð lokinni varð að gera hlé á ferðalögum vegna júróvisjón og kosninga, en um hvítasunnnuna var eftirminnileg ferð í Skaftafell. Var þar ýmislegt brallað, klifrað í klettum, klifrað á klósettum, grillað í liði, já og grillað almennt. Ljóst er að eftir þessa ferð lítur maður óhreina potta öðrum augum en áður...
Síðasta helgi... ja, föstudagurinn endaði á djamminu eftir að fótboltagláp leiddist út í vitleysu, og á laugardeginum bauð Svenni til bústaðar (sem var reyndar á stærð við einbýlishús). Þar var rugl. Til átta um morguninn. Jájá, við erum öll í kringum þrítugt...

Lilli fór á verkstæði í dag. Jarlaskáldið tekur við frjálsum framlögum frá og með deginum í dag.

Helgin? Eitthvert skrall, bara spurning um landshorn.

þriðjudagur, júní 13, 2006 

Önnur tilraun



Undur og stórmerki, Hraunbærinn hefur verið ADSL-væddur, og því kannski einhver von um líf hér á næstunni. Annars er víst best að lofa engu, eða hóta, eftir því hvernig á það er litið...

fimmtudagur, júní 01, 2006 

Skaptafell



Það er sjálfsagt frekar óskynsamlegt að auglýsa það á Netinu, með alla þá glæpamenn sem búa í hverfinu, en Jarlaskáldið hyggst leggja land undir fót um helgina. Skaptafell er áfangastaðurinn, og þar á að bralla ýmislegt. Eitt af því er að spila Framsóknarsömbuna á hæsta styrk alla helgina, en hún hefur merkilegt nokk reynst eitthvert alsterkasta vopnið í baráttunni við þá óværu sem framsóknarvillan er. Allir velkomnir með, og sem fyrr verður aðeins dregið úr seldum miðum.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates