« Home | Tímamótablogg Það á afmæli í dag, það á afmæli í ... » | In the summertime Æ, ekki er nú mikið að frétta. ... » | Úrslitakeppnisspá NBA Jújú, Jarlaskáldið lofaði s... » | Dabbarabbarabb Horngrýtis helvítis Liverpool lið!... » | NBA (!!!!VARÚÐ VARÚÐ VARÚÐ!!! EINUNGIS ÆTLAÐ NBA-... » | Páskar Páskar búnir, leiðindin byrjuð aftur. En h... » | Snillingur vikunnar Að gefnu tilefni hefur Jarlas... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | » | Jarlaskáldið og gjafmildi jarðvegsfræðingurinn » 

sunnudagur, apríl 25, 2004 

Það er sko komið sumar

Helgi búin, lítið gert. Þó er frá ýmsu að segja.

Samkvæmt almanakinu hófst sumarið fimmtudaginn síðasta. Veðurguðirnir hafa í gegnum tíðina ekki alveg spilað í takt við hátíðisdag þennan, oftar en ekki skítaveður og jafnvel frost og snjór. Þrátt fyrir þetta lagði 5 manna hópur í sannkallaða hættuför upp á Snæfellsnes sumardaginn fyrsta í fyrra, gekk þar upp á jökul og lenti í blíðskaparveðri sælla minninga. Sakir þess að veðurspá var sæmileg og langt síðan menn höfðu komist á fjöll ákvað annar 5 manna hópur, sem þó var að stóru leyti skipaður sömu mönnum, að endurtaka afrekið í ár. Úr varð mögnuð ferð.

Lagt var í hann á miðvikudagskvöld. Upphaflega hafði fjöldinn allur af fólki ætlað með en engu að síður voru það einungis 4 sem skipuðu þennan hóp, Jarlaskáldið og Stefán á Lilla og þeir Þorvaldur og Blöndudalur á reykspúandi og olíubrennandi Lancer hins fyrrnefnda. Lá leiðin venju samkvæmt fyrst í kjörbúð, sem reyndist einnig vera bensínstöð, og þar að auki Subwaystaður. Allt er nú til í Mosó. Þar nestuðu menn sjálfa sig og ökutækin og síðan ekið sem leið lá vestur á Snæfellsnes, án mikilla tíðinda. Þangað vorum við komnir um ellefuleytið, byrjuðum á því að litast um á Arnarstapa en leist ekki á aðstæður þar enda barinn lokaður, fundum okkur að lokum lítinn lund neðan við veginn upp á Jökulháls og settum upp grunnbúðir þar.




Þar voru 4 tjöld reist á mettíma þrátt fyrir að menn væru ryðgaðir í fræðunum, en síðan sest niður ýmist með kakóbolla eða öl í hönd og skálað fyrir sumri sem hófst um svipað leyti. Blöndudalur var reyndar á því að hefja strax göngu, var ekki bjartsýnn á að hið góða veður sem þarna var myndi endast nóttina, en undirtektir voru litlar, bæði vegna þreytu og myrkurs. Ekki varð mikið um skemmtanahöld enda ekki við því að búast, lagst til náða um tvöleytið og sofið svefni hinna réttlátu, sem þó varð truflaður stöku sinnum með snörpum vindstrengjum. Kannski eins gott að maður fór bara að sofa.


Síðustu menn risu úr rekkju um níuleytið morguninn eftir og hófust þegar hefðbundin morgunverk, mötun, messa og mullersæfingar í þessu líka blíðskaparveðri.




Stuttu síðar birtist fimmti og síðasti leiðangursmaðurinn, Selfosshnakkinn sjálfur, Jóhann Haukur. Hafði hann vaknað árla morguns og ekið leið þessa einsamall til þess að taka þátt í leiðangri vorum, mættu ýmsir taka atorku Hnakkans sér til fyrirmyndar. Þegar allir voru búnir að taka niður tjöld og tilbúnir til að leggja í hann var einmitt það gert, lagt í hann. Ókum við upp á Jökulhálsinn eins langt og druslurnar drógu, sem var ca. við sleðaleiguna. Þar komu menn sér í göngugallann, sem var mismunandi eftir mönnum,




Jarlaskáldið fór fótgangandi með snjóbretti á bakinu, slíkt hið sama gerði Toggi en með stubbaskíði á bakinu. Stefán og Blöndudalur röltu up á fjallaskíðum, en Jóhann Haukur var e.t.v. með furðulegasta ferðamátann, þó hann hafi gengið upp. Frá því verður greint síðar.
Þrátt fyrir að blíðskaparveður væri vorum við eilítið uggandi, þar eð toppurinn á jöklinum var að safna utan um sig skýjabökkum. Við því var lítið að gera svo við örkuðum bara af stað, og gekk bærilega þó fæstir væru í sínu besta formi. Fyrsti hlutinn var að vísu tiltölulega flatur enda þurftum við að byrja á að rölta að fjallinu, en við skíðalyftuna fór heldur að reyna á. Göngumenn gátu sem betur fer gengið upp grjótgarð sem létti aðeins verkið, sem var þó síður en svo létt. Eftir þónokkuð puð komumst við loks upp fyrsta og brattasta kaflann og tókum okkur smá pásu að honum loknum til að varpa öndinni.














Enn gátum við varla séð hvað fram undan var en fljótlega eftir að við héldum áfram fór að glitta í neðstu þúfuna. Við stoppuðum svo aftur fyrir ofan hana og var þá heldur byrjað að létta til, þó enn væri skýjahula á toppnum, en svo var eins og hann hreinsaði sig eftir pöntun og komin alger heiðríkja.














Eins og myndir sýna var fjölmennt á jöklinum, fjöldinn allur af jeppaköllum og auðvitað þekktum við nokkra, bæði úr frægum Grímsvatnatúr en einnig úr enn frægari Ítalíuför. Síðasti kaflinn var venju samkvæmt erfiðastur, bæði vegna þreytu en þó fyrst og fremst vegna erfiðs færis á toppnum. Upp komust menn þó að lokum og gæddu sér þar á ýmsum veitingum, Skáldið gæddi sér m.a. á tveimur ágætum fulltrúum amerísks auðvalds, Subway og Coke,




og gleymdi að sjálfsögðu ekki toppagóðgætinu.




Uppi var smá gustur en þó besta veður, Blöndudalur og Hnakkinn töltu alveg upp á efstu þúfu en aðrir tóku því rólega, nutu útsýnisins




og ræddu málin við þá fjölmörgu sem þeir þekktu á svæðinu.




Eftir nokkra setu var svo komið að ávöxtum alls erfiðisins, að renna sér niður. Það var stuð.
















Blöndudalur og Stefán renndu sér á sínum fjallaskíðum og Þorvaldur á stubbaskíðum á meðan Jarlaskáldið sýndi takta á brettinu, en þó hlýtur Jóhann Haukur að hafa verið með merkilegasta ferðamátann, þar eð hann renndi sér niður á einangrunardýnu, og gekk merkilega vel á köflum. Færið var reyndar ekki upp á marga þorska efst uppi en batnaði þegar neðar dró og var hreint út sagt frábært neðri hlutann. Tókst okkur að renna okkur alveg út að bíl (allir nema Hnakkinn) og var almenn ánægja með för þessa svo ekki sé meira sagt. Þegar allir voru komnir niður og búnir að taka drasl sitt saman var komið að síðasta skipulagða dagskrárliðnum, sem var lambasnitsel með frönskum og EXTRA kryddsmjöri á Vegamótum,




og stóð það sannarlega undir nafni. Fór Jarlaskáldið um svipað leyti að verða vart við smá roða í andliti, sem fljótlega líktist blóðrauðu sólarlagi, enda hafði Skáldið algerlega gleymt að bera á sig sólarvörn, en af sólinni var nóg. Það er nú bara karlmannlegt. Lá svo leiðin heim, og lítið meira frá þessari annars fyrirtaks ferð að segja, annað en það að hún verður endurtekin.

Á föstudaginn var Jarlaskáldið þreytt, og gerði því ekkert. End of story.

Á laugardaginn var Jarlaskáldið enn þreytt, en hresstist þó töluvert við ákveðin knattspyrnuúrslit á Englandi. Um kvöldið leit það við ásamt Blöndudal hjá Stefáni sem hafði verið skilinn einn eftir heima af ábyrgðarlausum foreldrum sinum, var þar tæmt úr örfáum ölkollum en síðan bara farið heim. Það er af sem áður var.

Í dag var ekki mikið meira gert. Jú, Jarlaskáldið fór í bíltúr og jeppaðist aðeins í kringum Krýsuvíkurbjarg,







það var gaman. Svo fór það að blogga.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates