« Home | Leiðindi Er eitthvað leiðinlegra en september? Já... » | Maggi og Gústi » | Maggi á Dússabar » | Þetta kallar maður umbúðir! » | Maggi og Snorri » | Jarlaskáldið ekki mjög kátt þarna » | Magnús að hamra á einhverri svaka pælingu við Gú... » | Skáldið og Ríkey » | Maggar og Snorri » | Frú Andrésson og Stebbalingur » 

sunnudagur, september 05, 2004 

Að nenna að blogga


Stundum bara nennir maður ekki að blogga. Síðasta vika var þannig. Ekki var maður svo rosalega upptekinn, ónei, Skáldið lá með tærnar upp í loft stóran hluta vikunnar og lá í öðrum stellingum flestar aðrar stundir. Þó ekki allar, og frá því má e.t.v. segja.
Síðustu helgina í ágúst brá Jarlaskáldið sér í bústað. Það var mikil ferð og frækin og hefur félagi Stefán ritað um hana ágætis pistil svo Skáldið nennir ekki að eyða mikið fleiri orðum í hana. Eins og lesendur hafa líkast til tekið eftir voru teknar ófáar myndir þar, enda síðasti séns að myndablogga áður en farið var að rukka fyrir það. Má því búast við að myndum muni fækka allverulega á síðu þessari á næstunni.
Ekki kom Jarlaskáldið óslasað heim úr ferð þessari, heldur skartaði allglæsilegri skeinu niður eftir öllu bakinu eftir fullnáin kynni þess við skóglendi Borgarfjarðar. Af þeim sökum var Skáldið ekki sérlega aktíft fyrri part síðustu viku, lá bara heima við meðan sárin greru og undi hag sínum bara bærilega miðað við aðstæður. Reyndar var Skáldið ekki heldur sérlega duglegt seinni part vikunnar, t.d. sat það barasta heima við á föstudagskvöldið og gerði barasta ekki baun. Varla tók síðan betra við daginn eftir, unnið frá morgni fram að landsleik, horft á Íslendinga skíta í brók í fótbolta og síðan etið. Um kvöldið þótti Skáldinu svo nóg komið af aðgerðaleysi, og kynnu einhverjir lesendur nú að giska á að sagan endi á Hverfisbarnum.
Öðru nær. Jarlaskáldið lagðist í víking ásamt þeim Vigni og Stefáni á Papasan hins síðastnefnda og var stefnan tekin suður til Keflavíkur. Venjulega þegar maður fer þangað er maður á leið til útlanda en ekki var það svo gott að þessu sinni, því ætlunin var eingöngu sú að athuga hvernig dreifbýlisfólk skemmtir sér á Ljósanótt. Til Keflavíkur vorum við komnir klukkan 22.05 og eltum Árna Johnsen út að höfn þar sem okkur mætti alveg bærileg flugeldasýning. Að henni lokinni röltum við aðeins um pleisið en höfðum samt varann á því heimamenn eru víst þekktir fyrir að heilsa aðkomumönnum með bjórglasi í hausinn. Náðum við m.a.s. að hitta einn Ítalíufara sem við þekktum og voru það ágætis endurfundir. Héldum við síðan heimleiðis. Stutt heimsókn þetta enda ekki öðru þorandi.
Þegar við vorum svo komnir aftur í siðmenninguna fannst okkur fullsnemmt að leggjast til hvílu svo úr varð að leigja spólu og kaupa allt nammi og snakk í heiminum til að éta með glápinu. Sáum Hebba Gumm í 10-11 og mælti Vignir þá svo allir heyrðu hin fleygu orð „You can't walk away without your klósettpappír!“ Skal ósagt látið hve fyndin Hebbanum þóttu orðin fleygu.
Eins og okkar er von og vísa var tekin mynd þar sem okkur var lofað lesbískum ástaratriðum með Charlize Theron og Christinu Ricci og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar þar en boj, ó boj, þvílíkt svindl! Þetta var bara sori og viðbjóður. Monster hét ræman og eftir að við höfðum náð okkur eftir vonbrigðin með lesbíska kynlífið kom í ljós að þar var fínasta mynd á ferðinni og pínu nostalgísk í tilfelli Stefáns enda eyddi hann námsárum sínum á söguslóðum hennar. Alveg 73 stjörnu mynd.
Í dag fór Skáldið á KFC. Ekki mikið meira gert en það, enda feykinóg á sunnudegi.


Það er fyrirséð að það verði eitthvað minna um skemmtanahald og vitleysisgang á næstunni en verið hefur undanfarið, og líkast til er það hið besta mál. Næsti skipulagði viðburður í skemmtanalífi Skáldsins er eftir litla 195 daga, Ítalíuferð part 3, en þó má gera ráð fyrir að menn kíki út á lífið svona tvisvar, þrisvar áður en að því kemur. Ef maður nennir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates