fimmtudagur, maí 27, 2004 

Vestfjarðavíkingurinn

Ojæja, hefst þá sumarvertíðin af alvöru. Ef allt fer að óskum verða þær fáar helgarnar á næstunni sem Jarlaskáldið dvelst í höfuðborginni. Nú þegar hefur ca. helmingur helganna í sumar verið frátekinn fyrir hinar ýmsu ferðir, flestar hefðbundnar en sumar nýjar af nálinni, og verða birtar ferðasögur frá þeim öllum með tíð og tíma.
hvítasunnuhelgin markar sem fyrr segir upphaf sumarvertíðar og það verður að viðurkennast að ekki fer vertíðin of vel af stað, því svo virðist sem allmargir leiti allra leiða til að komast hjá því að leggjast í útilegur, og eru afsakanirnar mislélegar. Þannig hefur a.m.k. einn flúið land, annar austur á Egilstaði, sá þriðji vestur á Strandir og sá fjórði leggur hellur. Þá eru einhverjir er kvarta undan peningaleysi, en aðrir sem eru hreinlega bara latir. Vesalingar og dusilmenni öll saman!
Þó er ljós í myrkrinu. Fimm einstaklingar ætla að leggja land undir fót (og dekk) og eyða hvítasunnuhelginni í mjúkum faðmi náttúru Íslands. Auk sjálfs Skáldsins eru það Andrésson og frú, Vignir og Stefán sem hyggja á för um sunnanverða Vestfirði. Það verður fjör, og allir sem ekki koma með fara til helvítis. Það er næsta víst.

Jarlaskáldið hefur bætt við á lista bloggara. Fyrst ber að nefna til sögunnar læknanemann (og fljótlega lækninn) Gísla Björn Bergmann. Hann þekkir Skáldið frá námsárum sínum, en hann gegndi embætti liðsstjóra hjá GB-liði Menntaskólans með sóma seinna árið er Skáldið tók þátt í þeirri vitleysu. Þó Jarlaskáldið sé sjaldan eða aldrei sammála skrifum Ljós-Gíslans (maðurinn bæði heldur með Manure og styður Sjallana og skrifar mestmegnis um það) veit Skáldið að hann er drengur góður og á hlekkinn skilinn, enda hlekkjaði hann á Skáldið að fyrra bragði.
Í öðru lagi ber að nefna blogg sem tveir menn algjörlega ókunnugir Skáldinu sjá um. Ekki er Skáldið vant að hlekkja á slík blogg en þar eð umfjöllunarefni bloggsins er Skáldinu nokkuð hugleikið hefur það ákveðið að gera það engu að síður. Hér sé bloggið.

Er þá ekki annað eftir en að óska lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Veriði sæl!

mánudagur, maí 24, 2004 

Hvað gerðist á uppstigningardag? Jú, Skáldið fór í Mörkina

Þá er það helgarbloggið. Það verður stutt að þessu sinni, því Jarlaskáldið gerði lítið sem ekkert af sér um helgina, eyddi heldur tímanum í að efla tengslin við sinn gamla vin sjónvarpið. Á föstudagskvöldið brá Skáldið sér reyndar út og fór á bílasölurúnt með viðkomu í ísbúð en á laugardaginn var það ekki einu sinni svo atorkusamt. Einhverjir óprúttnir aðilar reyndu m.a.s. að narra Skáldið til að rúnta upp á Snæfellsnes til að rölta þar upp á jökul en Skáldið lét ekki plata sig til þess, horfði bara á Popppunktinn og annað misgott. Ágætis helgi í alla staði, en líklega sú síðasta um skeið sem Skáldið situr með hendur í skauti í Reykjavíkurborg. Meira um það síðar.
Þó Jarlaskáldið hafi verið letingi og liðleskja um helgina er ekki þar með sagt að frá engu sé að segja, því eins og glöggir lesendur gætu hafa giskað á út frá yfirskrift þessa pistils brá Skáldið sér Í Þórsmörkina í miðri viku. Þeirri ferð hefur reyndar verið gerð nokkur grein í myndum hér neðar á síðunni, en þá á eftir að bæta við máli. Bætum úr því.

Megintilgangur Þórsmerkurfarar að þessu sinni var eins og oft áður undirbúningur fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Að mörgu er að huga í þeim efnum, t.d. sjá hvort leiðin sé fær, hvernig ár liggja, kanna ástand bekkjar og kamars, og ótal önnur smærri en þó ekkert síður mikilvæg verkefni. Einnig var í tilfelli Jarlaskáldsins sá tilgangur með förinni að vígja Lilla í vatnsföllum Þórsmerkur. Eftir þónokkra ranga misskilninga varð lendingin sú að það voru fjórir meðlimir miðstjórnar skemmtinemdar undirbúningsnemdar eftirlitsdeildar auk eins fulltrúa hreingerningadeildar sem lögðu í hann á áttunda tímanum á miðvikudagskvöld á tveimur Súkkum, áðurnefndum Lilla og síðan Hispa hans Vignis. Ekki bar mikið til tíðinda á oftáðurkeyrðum Suðurlandsveginum, stopp var gjört að Hlíðarenda og reynt að komast til botns í nýstárlegum afgreiðsluaðferðum þar auk þess að birgja menn og konur eldsneyti, en svo bara haldið áfram og það vandkvæðalaust. Við Stóru-Mörk var Súkkum skellt í lokur og síðan brunað inn í Mörk yfir fremur holóttan veginn (sem er þó skárra en að malbika draslið) og síðan stoppað uppi við Lón. Lónsáin var minni en ekki neitt og Steinsholtsáin reyndar líka þegar að henni var komið, lítið fútt fyrir Lilla. Hvanngilsáin var síðan út um allt eins og hennar er von og vísa og þar eð leiðin lá inn í Bása var ekki um fleiri sprænur að ræða í bili. Í Básum var rólegt um að vera, stóri skálinn fullur af einhverjum Svíum með víðaáttufælni á háu stigi svo ekki höfðum við afskipti af þeim, heldur fundum okkur tjaldstæði í fínu rjóðri, enda fátt betra en að tjalda þegar hitinn er við frostmark.
Fyrsta mál á dagskrá var að tjalda en síðan rifið upp grill og grillaðir borgarar og kjúlli. Vignir lagði hreint æsispennandi kapal meðan á þessu öllu stóð. Fagrir tónar krakkanna í Pixies fengu að hljóma yfir borðhaldi og eitthvað fram yfir það, og leið kvöldið svo við rólegheit og hæfilega rómantík enda kynjahlutföll til slíks ekki beysin. Þess ber að geta að Skáldið svaf eitt í tjaldi, ólíkt öðrum. Það þýðir ekki nema eitt: hómóerótík.
Á fætur var farið á skikkanlegum tíma og eftir hefðbundin morgunverk var tjöldum pakkað saman enda byrjað að yrja úr lofti, og var það snjór en ekki rigning. Að því loknu var komið að stóru stundinni, að vígja Lilla í Krossánni og sinna síðan nauðsynlegum nemdarstörfum. Skemmst er frá því að segja að Lilli fór létt með Krossána, sem var að vísu með minnsta móti, en samt er samt. Í Bolagilinu virtist allt vera eins og það á að vera, reyndar mætti slá þar gras fyrir hátíðina en annars allt eins og best verður á kosið og fátt því til fyrirstöðu að halda þar veglega árshátíð í júlíbyrjun. Má það að sjálfsögðu fyrst og fremst þakka undirbúningsnemdinni sem unnið hefur óeigingjarnt starf mánuðum saman svo halda megi góða hátíð, skál fyrir henni!
Á heimleiðinni tók karlkyns meirihluti ferðalanga sig til og rölti upp að Steinsholtsjökli til að sjá þar Steinsholtslón, en þar var bara ekkert lón, og þótti sumum það svindl. Eftir þá fýluferð var ekið að Hellu þar sem karlkyns meirihlutinn brá sér í sund, eftir það etnar pylsur en síðan ekið heim, og er þá ekki frá fleiru að segja af þessari ágætu ferð.

Í tilefni af viðburðum dagsins í dag ætlar Jarlaskáldið að ganga í Banana Republic fötum út þessa viku. Tak för.

laugardagur, maí 22, 2004 


fimmtudagur, maí 20, 2004 




Vignir að sulla

 




Lilli fer hamförum yfir Krossána

 




Jarlaskáldið við skiltið góða í Innra-Slyppugili

 




Bekkurinn!

 




Súkkurnar við tjaldstæðið í Básum

 




Stebbalingur að pakka saman

 


 




Alltaf stuð að leggja kapal í útilegum

 




Enn eitthvað smá eftir af Gígjökli

þriðjudagur, maí 18, 2004 

Júróhelgarblogg

Að sögn hafa færustu bókmenntafræðingar komist að ákveðinni niðurstöðu um þessa ákveðnu bloggsíðu. Lýtur það að hinum svokölluðu helgarbloggum. Jarlaskáldið birtir sem kunnugt er jafnan fróðlega pistla um atburði hverrar helgar, og mynda þeir ásamt miðvikubloggum kjölfestuna í skrifunum. Er niðurstaða bókmenntafræðinganna sú, að því meir sem helgin reynir á þrek Jarlaskáldsins, því síðar birtist helgarpistillinn. Sumsé, ef lítið er um að vera má búast við helgarbloggi svo snemma sem á sunnudagskvöldi, en ef skemmtanalífið hefur verið heimsótt er vart að vænta þess fyrr en á mánudegi. Nú er komið þriðjudagskvöld, líkt og segir frá í frægu kvæði Fóstbræðra, og enn bólar ekkert á helgarbloggi. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á.

Og jú, eitthvað gekk á um helgina. Fór þó rólega af stað. Jarlaskáldið leit við hjá herra Magnúsi Andréssyni ásamt Stefáni nokkrum Twist á föstudagskvöldið og var þar glápt á annars vegar tónleika með Rammstein og hins vegar myndbönd með hinni nýrómantísku sveit Depeche Mode. Vorum við þó eilítið truflaðir af óvæntri heimsókn göngugarpsins Halla Kristins og síðar mætti Magnús Blöndahl, en hans truflun var þó ágæt þar eð hann skutlaði Skáldinu heim einhverju eftir miðnætti. Fer eigi meiri sögum af kvöldi því.

Laugardagur rann eflaust upp bjartur og fagur, Skáldið veit minnst um það, það var sofandi. Stuttu eftir hádegisbil skreið það þó á lappir en hafði enga vanheilsu sér til málsbóta. Ekki fer miklum sögum af því næstu tímana, en ekki leið á löngu fyrr en það var mætt á Players til að horfa á Liverpool-Newcastle. Missti að vísu af fyrri hálfleik, en náði þeim betri. Stórmeistarajafntefli.
Þegar Skáldið kom aftur heim tók það til við að útbúa geisladisk einn hlaðinn gömlum smellum úr ákveðinni söngvakeppni til spilunar síðar um kvöldið, og að því og þrifum og bóni loknu hélt Skáldið í Kópavoginn að sækja perrann gamla. Lá svo leið í kjörbúð að kaupa ket en þaðan til Logafoldargreifans er bauð til Júróvisjónveislu. Varð þar múgur og margmenni áður en yfir lauk, og gaman talsvert. Forvitna stelpan skrópaði þó, sem voru vonbrigði. Grillaði Skáldið ket sitt og át og drakk talsvert öl með. Varð það af því allhýrt, þó ekki í þeim skilningi sem Júróvisjónkeppnin er allhýr. Hvað um það. Að sjálfsögðu spáði Jarlaskáldið rétt fyrir um sigurvegara og var Rúslana vel að titli sínum komin. Upp úr ellefu sendi Jarlaskáldið myndir á síðuna, má sjá þær hér að neðan og gefa vísbendingu um stemmninguna. Var svo að keppni lokinni ýmist setið eða staðið og jafnvel tekin smá valhopp þegar vel lá á mönnum, gekk það stórvandræðalaust þótt ýmsir væru lítt færir til slíkra verka. Að endingu lá síðan leiðin niður á láglendið, líkt og reyndar hjá flestum Reykvíkingum og nærsveitamönnum sé miðað við mannhafið í bænum. Telst Skáldinu til að það hafi komið við á flestum ef ekki öllum skemmtistöðum miðborgarinnar áður en yfir lauk, týndi það að sjálfsögðu samferðamönnum sínum fljótlega og afrekaði eflaust ýmislegt sem lygilegt myndi teljast.
Að endingu rataði Jarlaskáldið að sjálfsögðu inn á Nonnann, að vísu var búið að loka en Nonninn skellir ekki hurðum á fastagesti svo Skáldið fékk sinn bát. Var svo næsta mál á dagskrá að finna leigubíl, sem um þetta leyti var óðs manns æði, svo að Skáldið ákvað bara að njóta blíðviðrisins og arka áleiðis heim. Eftir þó nokkuð rölt fór því að að finnast róðurinn vera að þyngjast en var þá svo heppið að rekast á leigubíl sem skutlaði því síðasta spölinn. Ekki var þó allt búið enn, því þegar að útidyrahurðunum heima var komið varð Skáldið þess áskynja að það var ekki í neinum jakka, sem það var þó nokkuð öruggt um að hafa verið í fyrr um kvöldið, og auk þess án húslykla. Ekki dó Skáldið ráðalaust heldur rifjaði upp löngu gleymda klifurtakta og vippaði sér inn um glugga eins og ekkert væri. Þetta síðastnefnda er reyndar lygi, þess bera skeinur á löppum vitni. Smellti Skáldið sér svo fyrir framan sjónvarpið, skellti Simpsons á og man fátt ef nokkuð fyrr en SEINT næsta dag.

Best að hafa sem fæst orð um sunnudaginn, hann var ekki góður. Skáldið var ekki óhresst, en ekki heldur hresst. Þeir skilja sem sáu.

Þess má geta að bæði húslyklarnir og jakkinn eru komnir í leitirnar.

Hvað er það næsta sem manni dettur í hug eftir svona skrall? Að endurtaka leikinn? Já og nei. Á morgun er flöskudagur en ekki ætlar Skáldið að líta niður á láglendið á lendur skemmtanalífsins, heldur þvert á móti, stefnan er tekin út úr bænum og jafnvel bara í Mörkina. Það sé alltaf stuð.

Eilitlar breytingar hafa verið gerðar á bloggaralistanum. Ármann og Ása hafa fengið sinn gamla sess, enda messa menn ekki við Formann Heilbrigðis- og Siðgæðisnefndarinnar. Það veit formaður FUÁHS.

laugardagur, maí 15, 2004 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

miðvikudagur, maí 12, 2004 

Miðvikublogg ið fertugastaogfjórða

Jæjajá, bara allt nýtt í Blogger? Sjáum hvort þetta gangi ekki samt.

Fyrst ber Skáldinu að þakka liði Southampton fyrir að spara Liverpool liðinu það ómak að tryggja því Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð. Fínt að vera áhyggjulaus fyrir síðustu umferðina, en sem stuðningsmaður Fram hefur maður fengið sinn skerf af því stressi síðustu 5 ár.
Þá var það Jarlaskáldinu mikið gleðiefni að Evrópubúar sýndu þá smekkvísi að veita Ruslönu hinni úkraínsku brautargengi til úrslita í undankeppni Júróvisjón. Að vísu voru nær öll hin lögin sem komust áfram rusl, það albanska sennilega skást og er þá eitthvað skrýtið í gangi. Jarlaskáldið mun líkt og í fyrra halda með einu af Ráðstjórnarríkjunum gömlu, í fyrra voru það táturnar í tATu en nú fyrrnefnd Ruslana, enda ber hún af öðrum keppendum.

Sem kunnugt er efndi Jarlaskáldið til getraunar í síðasta pistli þar sem spurt var hver þriggja aðila (Britney, Hannes Hólmsteinn og Jón Ásgeir) myndi bera sigur úr býtum ef til slagsmála kæmi þeirra í millum. Í boði voru vegleg verðlaun, glæsilegt deit með Skáldinu. Fjögur svör bárust, voru þau af ýmsum toga og misvel rökstudd. Skulu þau nú skoðuð betur:

Magnús Andrésson taldi að Britney Spears myndi vinna, og rökstuddi það með því að hún væri að slá í gegn með STÓRKOSTLEGU myndbandi. Gott og vel.

Stefán Þórarinsson var einnig á því að Britney myndi vinna, en rökstuddi það ekkert frekar. Aftur á móti líkti hann Skáldinu við fávísa konu í ölæði, sem verður að teljast ólíklegt til að heilla dómnefndina.

Oddbergur Eiríksson ritaði mikinn pistil og langan og kemst að þeirri niðurstöðu að Hannes Hólmsteinn myndi hafa sigur að lokum eftir þó nokkuð at.

Að lokum lagði Pétur Maack fram sína ágiskun, ekki þorði hann að giska á sigurvegara en útilokaði þó Jón Ásgeir og færði fram ágæt rök fyrir því.

Niðurstaða dómnefndar: Magnús og Stefán giska báðir á Britney en færa hvorugir góð rök fyrir því. Auk þess móðgar Stefán dómnefnd með svívirðilegum ummælum. Hvorugur er því verðugur verðlaunanna. Mokkurinn færir fram góð rök fyrir sinni niðurstöðu en því miður er niðurstaðan ekki nógu afgerandi, og er hann því ekki heldur verðugur verðlaunanna. Stendur þá Oddi einn eftir. Niðurstaða hans er greinilega fengin að vel ígrunduðu máli, rökstuðningur til fyrirmyndar og þó dómnefnd sé ekki endilega sammála niðurstöðunni verður ekki hjá því litið að svar hans verður að teljast best og ætti hann því að vera best að verðlaununum kominn. En þar stendur hundurinn grafinn í kúnni. Verðlaunin voru sem fyrr segir DEIT MEÐ JARLASKÁLDINU, og það að fjórir karlmenn hafi áhuga á slíku en ekki ein einasta kona veldur Jarlaskáldinu slíku þunglyndi að það hálfa væri yfirdrifið. Er því tilkynningu á niðurstöðu dómnefndar frestað um óákveðinn tíma.

Dyggir lesendur ættu að hafa tekið eftir því að Jarlaskáldið hefur verið með allra rólegasta móti undanfarnar vikur hvað varðar heimsóknir á lendur skemmtanalífsins. Hafa verið fyrir því ýmsar ástæður, einkum fjárhagslegar, en kannski ekkert síður leti. Hvað sem því líður mun Skáldið rísa úr öskustónni nú um helgina og mála bæinn rauðan og jafnvel í fleiri litum, því það verður sko villt Júróvisjónpartý og hyggur Skáldið á stórafrek. Ekki er komin staðsetning á gleðina, ýmislegt kemur til greina og vinna matsmenn þessa stundina hörðum höndum við að finna kjöraðstæður fyrir húllumhæið. Svo er bara spurning hvort forvitna stelpan mæti?

Og ný könnun. Allir að kjósa!

sunnudagur, maí 09, 2004 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 

Eru álfar kannski menn?

Af hverju í mölétinni myglaðri Melrakkasléttu er Jarlaskáldið að blogga aðfararnótt sunnudags? Það er von að fólk spyrji!

Jebb, enn ein helgin sem Jarlaskáldið lætur lendur skemmtanalífsins alveg í friði, þrátt fyrir fögur fyrirheit í hina áttina. Aldrei að treysta neinum.

Í fyrsta lagi ber Jarlaskáldinu að bera fram afmæliskveðjur sínar. Litla systir er hvorki meira né minna en 19 ára gömul í dag. Hún ku stödd í Frankaríki þessa dagana og því engin veisla fyrir Skáldið, er það miður, Skáldið fílar veislur. Þess má til gamans geta að um svipað leyti og litla systir fæddist unnu Bobbysocks Eurovision með laginu La det swinge! Það var nú fínt lag, er það ekki?

Í öðru lagi er þetta hneisa. Mogginn og allt.

Í þriðja lagi hefur Jarlaskáldið góðar fréttir. Allavega fyrir það, og kannski einhvern annan, því Jarlaskáldinu áskotnaðist nýverið gjafakort á T.G.I. Fridays að upphæð fimm þúsund krónur. Ekki nóg með það, því auk þess fékk það gjafakort í kvikmyndahús fyrir tvo, á sýningu að þess vali. Þetta hljómar eins og deit, er það ekki? Ókei, kannski ekkert sérstaklega grand deit, en samt skárra en margt? Ojú.
Af því tilefni efnir Jarlaskáldið til samkeppni. Verðlaunin eru deit með Jarlaskáldinu eins og sagt er frá að ofan. Þrautin felst í spurningu, og óskað er svars. Spurningin er þessi:

Ef Britney Spears, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Jón Ásgeir Jóhannesson lentu í slagsmálum, hvert þeirra myndi vinna?

Svara er óskað í kommentum, og er keppendum frjálst að beita öllum brögðum til að hljóta sigur. Jarlaskáldið áskilur sér rétt til að velja besta svarið eftir þess eigin mati og mun höfundur þess hljóta vinninginn eftirsótta. Góðar stundir.

miðvikudagur, maí 05, 2004 

Miðvikublogg ið fertugastaogþriðja

Jarlaskáldið fór ekki á Kraftwerk í kvöld. Það hefði þó sennilega verið gaman. Það gerði reyndar tilraun til að fá tvo frímiða með því að skutla Jóni Gnarr niður í bæ, en bíllinn á undan bauð honum far. Þeir skilja þetta sem hlustuðu á Tvíhöfðann í morgun.

Talandi um bíla, þá fór Skáldið með Lilla til læknis í gær. Á ferðalaginu um helgina hafði honum nefnilega tekist að frelsa einn dempara úr festingum sínum með öllu hoppinu og veltingnum á Hekluslóðum og þurfti því að leita aðstoðar neyðarmóttöku. Var tiltölulega lítið mál að laga græjuna og er Lilli hinn hressasti á eftir. Auk þessa var aftengd bévítans sírenan sem alltaf fór af stað þegar gleymdist að slökkva ljós eða spenna belti og ef hurð var opnuð með lykil í svissinum. Skárra að verða rafmagnslaus stöku sinnum en að þurfa alltaf að hlusta á þetta andsk... væl. Þá eru einnig fyrirhugaðar ákveðnar aðgerðir á Lilla á næstunni, svona þegar fjárhagur leyfir. Einkum verða það fegrunaraðgerðir sem gerðar verða, eins gott að feminístar heyri ekki af þessu, myndu örugglega brjálast.

Þegar fjárhagur leyfir? Það er orðið fjandi langt síðan fjárhagur Jarlaskáldsins leyfði því eitt eða neitt, það hefur bara eytt peningunum hans Björgólfs svo lengi sem það man og látið hann svo hafa skitin launin í byrjun mánaðarins til að grynnka á skuldunum. Finnst Jarlaskáldinu kominn tími til að lagfæra þessa stöðu eitthvað, og hugsar sér til því til hreyfings í sumar. Ekki ætlar Skáldið að vinna á Nesjavöllunum 11. árið í röð, var það einkar einföld ákvörðun, fyrst og fremst þar sem svo virðist sem þar verði lítil eða engin starfsemi í sumar. Um daginn var Skáldinu bent á vinnu hjá Norðurljósum og virtust ráðamenn þar í fyrstu hafa nokkurn áhuga á að fá Skáldið til starfa en síðan „hæstvirtur“ forsætisráðherra ákvað að fá útrás fyrir gremju sína í garð Norðurljósanna hefur ekkert heyrst frá þeim. Líklega er það mál því dautt. Ekki er þó öll nótt úti enn, eitt og annað er til skoðunar, en þau mál öll eru á viðkvæmu stigi og því vissara að stefna samningaviðræðum ekki í voða með gaspri og lausmælgi. Det kommer i lys...

Letterman bara kominn yfir á Sýn. Því fagna allir góðir menn. Það að til sé fólk í þessum heimi sem finnst Jay Leno skemmtilegri en Letterman fær Skáldið oft til að gráta sig í svefn yfir heimskunni. Það að Jay Leno sé vinsælli en Letterman í Ameríku segir allt sem segja þarf um það ágæta fólk sem þar býr. Náðu allir að leggja saman?

Monaco - Porto? WTF?

Nei sko, bara könnun? Allir að kjósa!

mánudagur, maí 03, 2004 

Ekki eru allar ferðir til fjár...

...og verkalýðsgangan í ár var svo sannarlega ekki til mikils gróða. Þó mátti hafa af henni töluvert gaman, lítum á málið.

Það voru fjórir ferðalangar sem lögðu í hann á miðvikudagskvöldið, þeir Stefán og Jarlaskáldið einu sinni sem oftar, að þessu sinni á Lilla, og síðan þeir Vignir og piltur að nafni Magnús Fjalar, sem er einna frægastur fyrir að vera bróðir Ernu, er nokkur svipur með þeim systkinum. Voru hinir síðarnefndu á Hliðrunarsparkinu, bróður hans Lilla. Lét Magnús þessi eilítið bíða eftir sér og var þeirri bið varið á Subway í Ártúnsbrekku, en þegar allir voru ferðbúnir var keyrt austur fyrir fjall og allt að Landvegamótum, með smá bensínstoppi í Hnakkaville. Þar útveguðum við okkur lykil að skálanum í Áfangagili, en þangað lá leiðin einmitt. Vignir og Magnús Fjalar ákváðu reyndar að leita að einhverjum slóða upp að Heklu sem greint er frá í munnmælasögum en við Stefán fórum beinustu leið upp að skála, reyndar efri leiðina, sem gekk greiðlega þegar við höfðum fundið slóðann aftur eftir að hafa týnt honum um skeið. Við skálann biðum við annarra leiðangursmanna um hríð og þegar okkur þótti biðin farin að lengjast náðum við sambandi við þá, þeir voru vitaskuld týndir svo við lýstum þeim leið upp að skála og vorum þangað komnir aftur seint á ellefta tímanum. Ekki varð mikið um svall og svínarí eins og a.m.k. þrír ferðalanga eru þekktir fyrir, allt með kyrrum kjörum og menn komnir í bælið á sómasamlegum tíma enda meiningin að rölta upp á hól daginn eftir.

Vekjaraklukkur byrjuðu að glymja um níuleytið morguninn eftir og ekki svo löngu síðar höfðu menn sig á fætur, Jarlaskáldið þó síðast manna. Við tóku hefðbundin morgunverk, messa, mötun og Mullersæfingar, og þar eð engin úr hreingerningadeild VÍN var með í för neyddumst við til að spúla kofann. Var hann svo yfirgefinn eftir gestabókarskrif, hin fjórðu á þessu ári í tilfelli sumra, og ekið áleiðis að Heklu. Eitthvað hafði greinilega gengið á með vatnsveðri þarna nýlega því vegurinn var skemmtilega skorinn á köflum og heldur hægt farið yfir. Komumst þó upp í Skjólkvíar og undruðumst nokkuð hve lítið var af snjó, töluvert minna en tveim vikum seinna í fyrra. Veðrið var ekki heldur alveg að standa undir væntingum, smá gjóla og slyddudrulla, en þó ekkert alvarlegt svo við skelltum á bakið á okkur brettum og skíðum og örkuðum af stað. Það gekk fínt til að byrja með, enda bara yfir grjót og sléttlendi að fara, en að lokum komumst við í snjó og byrjuðum að hækka okkur yfir sjávarmáli. Fór þá heldur að bæta í vind og einnig byrjaði færi að versna til muna, ríflega þumlungsbreið ísskán yfir öllu og svo djúpur snjór undir sem maður sökk ofan í. Ekki beint kjöraðstæður. Í ca. 1000 metra hæð var síðan bara komið broddafæri, talsverður vindur með hundslappadrífu og lítið gaman að þessu, svo að eftir atkvæðagreiðslu var ákveðið að snúa við, enda blint á toppnum og vonlaust að skíða í þessu færi. Stundum þarf maður bara að kyngja stoltinu og snúa við, fátt kúl við að koma laskaður heim.
Jarlaskáldið og Vignir gerðu tilraun til að skíða niður en ekki var það fögur skíðamennska, mest rennt sér á kantinum og dottið með reglulegu millibil. Neðar var þó hægt að skíða smá og bjarga þannig ferðinni að einhverju leyti. Var svo bara rölt niður að bíl og fengið sér að éta og heitt kakó. Þó við hefðum ekki farið ýkja langt hafði tekist að brúka svitakirtlana af krafti svo ákveðið var að líta við í sundlaug. Var það gert í Laugalandi og vorum við einir um laugina, en þó var skaði að rennibrautin var lokuð. Hún var svo opnuð um leið og við fórum upp úr, skepnur!
Var svo ekið heimleiðis og ekki frá miklu að greina eftir það, Jarlaskáldið var með latasta móti um kvöldið og sofnaði einhvern tímann yfir The Abyss, vaknaði svo yfir Cast Away og horfði á hana til enda. Aldeilis að það er búið að vera djammstuð á Skáldinu undanfarið! Það stefnir nú allt í að Skáldið fari að fara á kreik í þeim efnum, meira um það síðar...

laugardagur, maí 01, 2004 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates