« Home | Djö! Skáldið er enn á lífi, en ekki mikið meira e... » | Nú er það svart! Ekki er það gott ástandið á Jarl... » | Ársuppgjör 2004 - annar hluti - apríl-júní Þá er ... » | Ágætis byrjun Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaská... » | Auld Lang Syne Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur. ... » | Ársuppgjör 2004 Það styttist víst í það að árið s... » | Kjöt og fiskur Jarlaskáldið hefur sjaldan verið t... » | Jól, krakki og ammili Jamm, jól. Til hamingju me... » | Maggi tekinn í bakaríið Hann var með erfiðari sun... » | 101 Selva Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti... » 

mánudagur, janúar 10, 2005 

Ársuppgjör 2004 - þriðji hluti - júlí-september

Jessöríbob, ársuppgjörið heldur áfram og nú er komið að þriðja ársfjórðungi. Það er óhætt að segja að þar hafi ýmislegt gerst...

Júlí
Júlímánuður var eins og oft áður ansi þéttskipaður, ferðalög og djammerí hverja helgi. Strax 2. júlí lá leiðin í Mörkina í hina árlegu FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Sú ferð var reyndar með nokkuð breyttu sniði frá hinu venjulega, í stað Blautbolagils var haldið í Smástrákagilið, og þó svo að þar hafi verið feiknastuð var ekki laust við að örlaði á eilitlum söknuði hjá reyndustu köppum. Blautbolagil 2005!
Í vikunni eftir Mörkina gerði Skáldið góðan hlut, pantaði sér flugfar til Eyja um verslunarmannahelgina. Meira um það síðar.
Strax helgina eftir brá Skáldið aftur landi undir dekk, að þessu sinni í norðurátt, og endaði það ferðalag í Húsafelli. Þar skemmti það sér í rigningunni ásamt fimm VÍN-verjum, einum Danna djús og fullt af öðru liði. Jú, svo var Johnsen á svæðinu! Og Vilhjámsson!
Stuttu eftir heimkomu úr þeirri för pantaði Jarlaskáldið ferð til Selva, en nú eru einmitt bara 68 dagar í hana. Það voru góð kaup.
Helgina 16.-18. júlí lagði Skáldið enn og aftur í víking, að þessu sinni ásamt þeim Vigni og Stefáni. Föstudagsnóttinni eyddum við í Mörkinni í mestu rólegheitum, en keyrðum svo Fjallabakið upp í Þjórsárdal daginn eftir og hittum þar fullt af liði og gerðum skurk. Blöndudalur og Adolf bættust þar í hópinn, og stunduðu þau aðalfundarstörfin ekkert síður en aðrir. Þarna var bongóblíða á sunnudeginum...
Næstu helgi var engin undantekning gerð, enn og aftur lagt í hann og að þessu sinni vítt og breitt um uppsveitir Árnessýslu á ófáum tryllitækjum. Gist var að Hlöðuvöllum aðfararnótt laugardagsins, en síðan ekinn línuvegur í austurátt uns áfangastað var loks náð í Þjórsárdalnum, líkt og helgina áður. Þar var síðan fámenn en góðmenn afmælisveisla Vignis haldin, einungis karlmenn á svæðinu, uns ein fröken mætti um miðnætti. Djúsinn stóðst sitt inntökupróf með sóma.
Vikuna eftir þessa för fylgdist Jarlaskáldið einkar vel með veðurspám. Þær voru ekki nógu góðar, því Skáldið átti pantað flug til Vestmannaeyja á fimmtudeginum og aftur heim 4 dögum síðar. Miðvikudaginn 28. júlí komust þeir búsbræður með flugi en þegar Skáldið ætlaði að gera slíkt hið sama var ófært. Jarlaskáldið dó ekki ráðalaust, sem frægt er orðið, lét skutla sér til Þorlákshafnar og sigldi síðan með Gubbólfi í haugasjó til fyrirheitna landsins. Síðustu þrír dagar júlímánaðar 2004 munu sko lifa ansi lengi í minningunni...

Ágúst
...og ekkert síður tveir fyrstu dagar ágústmánaðar, því Skáldið var enn statt á Þjóðhátíð í Eyjum og hefur hvorki fyrr né síðar skemmt sér betur á íslenskri grundu, þrátt fyrir ýmis skakkaföll sem ALGJÖR ÓÞARFI er að telja upp hér. Snilld, snilld, snilld! Allir á Þjóðhátíð 2005!
Vikunni eftir Eyjar var eðlilega varið í það að koma líkamanum í eðlilegt ástand, og helginni svo varið í tveimur partíum þar sem afrek Eyjaferðar voru aðallega rifjuð upp, við mismikla gleði. Um svipað leyti brast svo á einhver rosalegasta hitabylgja sem sögur fara af á skerinu og entist hún vikuna næstu og rúmlega það, en sú vika var einmitt sú síðasta sem Skáldið starfaði hjá Norðurljósum.
Skáldið var s.s. orðið atvinnulaust föstudaginn 13. ágúst og til að fagna því skellti það sér auðvitað á djammið. Daginn eftir skelltum við Stebbalingur okkur síðan upp í Laugar til að, jú, lauga okkur. Alltaf gaman í Laugum, ekki síst þegar maður hittir tadsjiksk beib. (Svona á í alvöru að skrifa þetta)
Skáldið var ekki lengi í paradís, strax á mánudeginum eftir þessa helgi var því boðin vinna að nýju frá nóvember hjá Norðurljósum, og til að fylla upp í gatið fékk það vinnu hjá bændum þangað til. Æði. Helgina eftir var svo svokölluð Menningarnótt, og var Jarlaskáldið líkt og aðrir góðir þegnar einkar ómenningarlegt þá ágætu nótt...
Enn var ein helgi eftir af ágúst og um leið sumri, og ekki gat Skáldið hugsað sér að eyða henni í borgarsollinum. Það gerði það heldur ekki, skellti sér í bústað í Svignaskarði ásamt fleira góðu fólki. Var það fínasta ferð, framan af allavega, eða þar til Skáldinu tókst að slasa sig svo vel að örin sjást enn. Ojæja, maður býr ekki til ommelettu án þess að brjóta egg.

September
Einhverra hluta vegna er það þannig að 1. september á hverju ári hættir maður að gera nokkurn skapaðan hlut. Þannig var það 2002, og 2003, og aftur 2004. Eða svona allt að því. Sjáum til.
September fór allavega rólega af stað, Skáldið greri sára sinna eftir síðustu stórátök sumarsins en stóð þó upp úr bælinu til að kynna sér skemmtanalíf sveitavargsins á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Sú för var þó eingöngu í rannsóknarskyni, engin tilraun gerð til að taka þátt.
Helgin eftir var sennilega sú viðburðamesta í mánuðinum, en þá gerði Skáldið furðulega hluti; það gerði sér tvisvar för á Hvanneyri! Fyrra skiptið var á laugardeginum, fyllerísferð með vinnunni þar sem Skáldið var merkilegt nokk ekki mjög drúnk, og svo daginn eftir barnaammili hjá Hrafnhildi og Elvari. Hvort tveggja ágætis skemmtanir, þó ólíkar væru.
Þann 15. september skiptust Dabbi og Dóri á stólum. Þyrfti ekki að fara að segja þeim frá því? Og kannski Mogganum í leiðinni?
Eitthvað meira í september? Jú, þann 19. september sá Skáldið Anchorman. Það var góður dagur. Síðustu helgina í september hugðist svo einhver hópur fara í Mörkina, en þegar til kom urðu það aðeins þrír, sem urðu síðan sakir vatnsveðurs frá að hverfa og enduðu uppi við Hagavatn í takmörkuðu stuði. Ekki greina heimildir frá meiru í september.

Jahá, svona var það víst. Líkt og áður var hamingjunni misskipt í þessum ársfjórðungi, júlí og ágúst voru meira og minna snilld, september ekki eins mikil snilld. September er reyndar löglega afsakaður, það er yfirleitt lítt spennandi mánuður. Júlí var alveg brilliant, útilegur hverja helgi og nær alltaf í fínu veðri, og náði gleðin hámarki um mánaðamótin júlí-ágúst á Þjóðhátíð. Ágúst var síðan fínn líka, alltaf eitthvað að gera og ekki má gleyma veðrinu sem var rétt rúmlega gott. Eina sem finna má að var að mæting var stundum ekki nógu góð hjá fólki, þeir taka það til sín sem eiga.
Að öllu þessu skoðuðu er ekki annað hægt en að gefa þessum ársfjórðungi góða einkunn:

Einkunn júlí-september 2004: 9.1.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates