miðvikudagur, ágúst 27, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogáttunda

Síðustu þrír dagar hafa verið afar, afar þægilegir, og um leið kærkomnir. Stundum er nefnilega alveg dásamlegt ef ekki nauðsynlegt að gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Síðustu dagar hafa sem sagt farið í það að sofa til hádegis, glápa á vídjó og DVD, éta ruslmat og hanga á netinu eða fikta í tölvunni, að ógleymdu talsverðu sjónvarpsglápi.

Reyndar hefur Jarlaskáldið afrekað eitt þessa daga sem ef illa fer gæti bundið enda á þetta iðjuleysi. Skáldið lét plata sig í atvinnuviðtal hjá ónefndu framleiðslufyrirtæki í austurborginni og ef svo ólíklega vill til að stjórnendum þess fyrirtækis hafi litist vel á Skáldið og sjái það fyrir sér sem álitlegan starfskraft eru góðar líkur á að það muni þiggja boð um atvinnu. Ekki er það merkileg atvinna sem í boði er, en fjandakornið skárri en vitleysan sem Skáldið stundaði síðasta vetur...

Á morgun liggja svo fyrir nokkur verkefni sem gætu riðlað sjónvarpsglápi. Fyrst þarf Skáldið að koma við í bankanum og sækja sér kreditkort þar eð hið gamla lét nýverið undan (líklega álagsskemmdir) og brotnaði í tvennt. Ekki svo löngu síðar má búast við að kortið verði straujað fyrsta sinni í húsakynnum Úrvals-Útsýnar, en þar ætlar Skáldið að borga staðfestingargjald fyrir boðaða Ítalíuferð, litlar 16.000 krónur. Samkvæmt nýjustu fregnum verða það sjö einstaklingar sem halda í þá frægðarför, Snorri pervert hefur bæst í hópinn síðan síðast en Magnús frá Þverbrekku þykist fátækur mjög og hefur afboðað komu sína. Magnúsi til frýjunar má rifja það upp að ekki átti Skáldið hálfan túskilding fyrir síðustu Ítalíuferð en fór samt. Slíkur er máttur krítarkortanna. Og ekki sér Skáldið eftir þeirri för, sem verður hugsanlega fullgreidd um næstu mánaðamót eða þarnæstu.

Áfram skal rýnt í framtíðina en þó heldur skemmra á veg. Maður er nefndur Steingrímur, jafnan kallaður Dengsi. Steingrímur þessi er drengur góður þó skakkt sé á honum nefið, og hefur af mildi sinni boðið svalldurgum þeim er Magnús frá Þverbrekku, Stefán frá Logafoldum, Kristinn frá Laugarvatni og Jarlaskáldið kallast í veislu mikla í bústað Flugumferðarstjóra í Úthlíð næstkomandi laugardagskvöld. Auk svalldurganna hefir Steingrímur boðið siðsamara fólki, og standa vonir til þess að engum verði brátt í brók að þessu sinni. Í bústað þessum mun vera á dagskrá að eta feitt ket (ekki skemmt!), drekka kalt öl, sitja í heitum potti og stunda hverja þá vitleysu sem slíkum mannfögnuði tilheyrir. Er þetta þriðja skiptið sem Steingrímur býður til veislu í bústað þessum og ef þetta verður eitthvað í líkingu við hið fyrsta má búast við talsverðum galsa. Jafnvel spurning um að taka umferð í Íslandsmótinu í sprellahlaupi, hver veit?

mánudagur, ágúst 25, 2003 

Atvinnuleysi, jeppaferðir og djamm

Það er orðið nokkuð síðan Jarlaskáldið ritaði hér frásagnir af sjálfu sér og tími til kominn að gera þar bragarbót á. Þessi pistill gæti orðið langur, sjáum hvað setur.

Það verður seint hægt að saka Jarlaskáldið um of mikla framleiðni í vinnunni í síðustu viku. Var Skáldið þá eitt orðið eftir ásamt Meistaranum á Nesjavöllunum og gerði í sem stystu máli ekki neitt, a.m.k. ekkert af viti, nema á miðvikudaginn þegar Skáldið fór við sjötta mann í ógurlegan rollurekstur. Föstudagurinn var líka helvíti góður, því þá át Skáldið væna böku á Pizza 67 í Hveragerði á kostnað Don Alfredo. Doninn sér um sína. Um fimmleytið stimplaði svo Skáldið sig út og varð med det samme atvinnulaus aumingi. Sem er bara ágætt, a.m.k. um stundarsakir, en líklega neyðist Skáldið til þess að fara að svipast um eftir vinnu fljótlega, ástandið í peningamálunum er ekki beint til fyrirmyndar. Þannig að ef þú, lesandi góður, veist um hressandi, skemmtilega, vel borgaða og umfram allt auðvelda vinnu mættir þú endilega hafa samband. Ekki fyrir hádegi samt.

Föstudagskvöldinu eyddi Skáldið í ýmsa iðju, og merkilegt nokk kom áfengi þar hvergi við sögu. Mestur tíminn fór í að grúska í nýja ferðageislaspilaranum sem móðir Skáldsins færði því við heimkomu frá útlöndum, er það mikil græja og merkileg, en mestu skiptir að henni fylgdi hugbúnaður sem gerir manni kleift að koma ca. 300 lögum fyrir á einum geisladiski. Sæmilegt það. Var Skáldið svo komið í bælið um hálftvöleytið en gekk illa að festa svefn, bæði sakir jarðhræringa, sms-sendinga og símtala frá drukknu fólki. Sofnaði líklega um fimm, og ekki varð svefninn langur...

...því Skáldið vaknaði strax um áttaleytið. Var ástæðan líkt og oft áður sú að fyrir dyrum stóð jeppaferð, var meiningin að aka vítt og breitt um Fjallabak og enda förina á því að hjóla í Strútslaug og liggja þar ofan í um stund. Á tíunda tímanum mættu þeir Vignir og herra Andrésson á sínum fjallabílum í Kleifarselið og ásamt þeim frú Andrésson, Snorri pervert og Stefán Twist. Skáldið kom sér fyrir aftur í hjá Vigni ásamt Twistinum og var síðan ekið sem leið lá í pestarbæli það er Selfoss nefnist hvar bílum var gefið að drekka og nesti keypt auk þess komið var við í mjólkurbúðinni. Lá svo leiðin áfram austur og norður Landveginn uns komið var að Landmannaleið. Þar var hleypt úr dekkjum og fljótlega eftir það tók alvaran við. Fyrsta fjörið fólst í því að aka eins hátt upp í Heklu og mögulegt var, sem er alllangt. Því næst ókum við svokallaða Krakatindsleið, sem reyndist hinn mesti krákustígur á köflum. Á miðri leið þótti ráðlegt að bjarga hjólunum sem voru aftan í Súkkunni og börðust utan í grjót og steina, kom þá í ljós að annað dekkið á hjólinu hans Vignis var brætt í sundur út af pústinu. Gaman. Var því bætt hjóli á pallinn hjá Andréssyni og síðan ekið áfram. Næsti viðkomustaður var við Álftavatn, þar var nær mannlaust og fátt annað gert en að rita í gestabókina. Áfram lá leiðin í austurátt, framhjá Hvanngili og yfir Mælifellssand uns komið var að Mælifelli en þar beygðum við inn að Skófluklifi. Þar voru hjólin svo loks brúkuð, nema náttúrulega hjólið hans Vignis, hann labbaði. Hjólatúrinn inn í Strútslaug tók ca. hálftíma og tókst flestum að detta a.m.k. einu sinni á leiðinni, með mismiklum tilþrifum þó. Líklega átti frú Andrésson flottustu tilþrifin, en af þeim missti Skáldið því miður. Þeir sem þau sáu segja að stúlkan hafi sýnt góða takta.
Það var síðan ansi ljúft að komast ofan í laugina á leiðarenda. Eftir nokkra stund byrjaði síðan að rigna og það hressilega svo við komum okkur upp úr og hjóluðum til baka, nema frú Andrésson, hún lánaði Vigni hjólið sitt en gekk sjálf, minnug ófaranna á leiðinni. Leiðin til baka var keimlík þeirri fyrri og fátt meira um það að segja. Þegar við komum svo aftur að bílunum tók Snorri pervert af skarið, náði sér í öl og hóf að teyga. Það hefði að sjálfsögðu verið argasta ókurteisi að láta manninn drekka einan svo Skáldið og Stefán fylgdu fljótlega í kjölfarið. Því fylgja oft kostir að vera farþegi.
Næsta mál á dagskrá var að grilla, var það gjört við skálann sem var harðlæstur. Brögðuðust pylsurnar prýðilega. Að áti loknu var svo kominn tími á heimferð. Ókum við Mælifellssandinn til baka og hittum þar fyrir gamlan kall að prófa nýja fína jeppann sinn, rammvilltur að sjálfsögðu svo við leyfðum honum að verða okkur samferða í siðmenninguna, var farin leiðin niður í Emstrur og þaðan Fljótshlíð í því skyni. Á heimleiðinni grynnkaði nokkuð á birgðunum úr mjólkurbúðinni og fór Snorri pervert þar fremstur í flokki, leikinn var hinn ágæti partýdiskur „Þórsmörk 2003“ og vel tekið undir. Var sú ákvörðun að lokum tekin að halda skralli þessu áfram á heimaslóðum og bauðst pervertinn til að halda teiti í því skyni í Kópavoginum, og það sem meira var, að koma okkur í teiti hjá vinkonu litlu systur sinnar þar sem von var á að hitta fjöldann allan af gjafvaxta stúlkum. Fyrst fóru menn til heimila sinna og komu sér í gleðskapargallann og um ellefuleytið mætti frk. Alda á svæðið, hafði fengið Hildi litlu systur, a.k.a. Phil Neville, til þess að skutla sér og öðrum fyllibyttum upp í Kópavoginn. Greinilega dagur litlu systranna.
Í Kópavoginum var hin ágætasta stemmning, en stutt varð stoppið þar þar eð stúlkurnar biðu óðar og uppvægar í Bústaðahverfinu. Þjálfinn mætti á svæðið og það edrú svo hann var fenginn til að skutla liðinu. Í Bústaðahverfinu var okkur svo tekið með kostum og kynjum, enda skemmtilegt fólk með afbrigðum, en því miður var bjórinn í dælunni búinn. Engu að síður varð skemmtun talsverð, ef undan er skilinn þáttur Fitubollu Frussdal Samfylkingarmanns, sem reyndi af veikum mætti að sannfæra kommúnistann Jarlaskáldið og frjálshyggjuvarginn Stefán um ágæti síns flokks. Án árangurs. Þurfti litla systir pervertsins að skerast í leikinn þegar stefndi í handalögmál, sem var líklega best fyrir Fitubollu Frussdal, hún var tæplega í ástandi til slíks.
Þegar nokkuð var á nótt liðið og sýnt þótti að engin þessara stúlkna myndi verma hvílu VÍN-liða var ákveðið að halda í bæinn og reyna fyrir sér þar. Fyrsti viðkomustaður var sá er eitt sinn hét Mannsbar og hýsti kynvillinga en að þessu sinni villing þann er kallaður er Dúllarinn. Var hann þar á sólófylleríi og hinn hressasti. Einnig hitti Skáldið þar Mumma sem fagnaði þeim fundum ákaft. Næst lá leiðin á heimavöllinn þar sem við komumst í VIP-röðina fyrir einhverra hluta sakir. Sem var gott, því það rigndi hressilega. Innan dyra var svo aðalfundarstörfum sinnt af krafti og þurftu sumir frá að hverfa af þeim sökum uns eftir stóðu Skáldið, Stefán og Alda. Entumst við fram að lokun um sexleytið og endaði gleðin vitaskuld á Hlöllanum. Sýndi Alda síðan einkar glæsileg tilþrif í leigubílaröðinni þegar einhver stúlkukind reyndi að troðast fram fyrir og taka bílinn okkar, skellti á hana vænum mjaðmahnykk svo hún hrökklaðist burt, „svona eiga að menn að gera þetta“ var það eina sem leigubílstjórinn hafði um tilþrifin að segja. Heim var Skáldið svo komið um hálfsjö og við tóku fastir liðir, Hlölli og Simpsons þangað til Óli lokbrá tók völdin. Asskoti gott.

Þegar Skáldið vaknaði í dag var fyrsta hugsunin sú að kíkja á Liverpoolleikinn. Lítið varð úr þeim áætlunum þegar litið var á klukkuna, 16:24 sagði hún. Ojæja, þetta var nú hvort sem er 0:0 leikur. Annars var lítið afrekað fram til klukkan níu, þá mætti frk. Alda á svæðið og fór með Skáldið upp í Naustabryggju þar sem fyrirhugaður var úrslitafundur um skíðaferð. Hafði Skáldið búið sig undir hatrammar deilur, hurðaskelli og og fleira í þeim dúr en annað kom á daginn, allir voru sammála um að fara til Madonna di Campiglio og þar með var það bara ákveðið. Er brottför áætluð 14. janúar og heimkoma 10 dögum síðar, verði þetta eitthvað í líkingu við síðustu ferð má búast við að þetta verði bara nokkuð gaman. Restin af kvöldinu fór í að skoða myndir og bæklinga af svæðinu og slefa yfir þeim, auk þess sem Vignir kom með einkar vondan brandara um bæinn Folgarida sem væntanlega verður hlegið að næsta árið. Þetta verða langir fimm mánuðir.

Á morgun getur Skáldið sofið út. Bara svo þið vitið það.

mánudagur, ágúst 18, 2003 

Grill og menning

Það dró til tíðinda þessa helgina í annars ómerkilegu lífi Jarlaskáldsins, því það hélt sig í heimasveit alla helgina, einungis annað skiptið síðan einhvern tímann í maí (Júróvisjón líklega) sem það gerist. Hafi hugmyndin verið að spara peninga með því mistókst sú ráðagerð hrapalega.

Á föstudaginn var síðasti official dagurinn í vinnunni, og að sjálfsögðu héldum við upp á það með því að gera absólútlí ekki neitt rétt eins og venjulega. Mikið er það dásamleg tilhugsun að Don Alfredo ætlar að hækka verðskrána hjá Orkuveitunni til þess að geta borgað svona liði eins og okkur laun. Skáldið dreif sig svo heim eftir „vinnuna“ og sjænaði sig til því um kvöldið var það boðað til grillveislu að Bústaðavegi hjá þeim sæmdarhjónaleysum Lilju og Gísla. Þangað mætti Skáldið á áttunda tímanum ásamt Þjálfa frá Þverbrekku og hitti fyrir fjöldann allan af góðu fólki, sem flest átti það sameiginlegt að vera ýmist nýbúið að eignast krakka, alveg að fara að eignast krakka, eða í þeim hugleiðingum að eignast krakka. Sumsé, þarna voru fimm pör, þar af eitt með þriggja mánaða afkvæmi með sér og tvö með krakka í ofninum, og svo við vitleysingarnir. Þrátt fyrir að fjórir einstaklingar væru löglega afsakaðir frá drykkju og sumir í fyrsta gírnum varð úr þessu ágætasta djamm, maturinn að sjálfsögðu snilld og m.a.s. stundaðir drykkjuleikir með tilheyrandi afleiðingum. Einhvern tímann um kvöldið bættist Kiddi inn rauði í þennan ágæta hóp og enn síðar varð úr að Skáldið fór ásamt honum og Þjálfa niður í bæ og það m.a.s. vestur í bæ að sækja heim Stefán Twist er þar dvaldist í góðu yfirlæti ásamt vinnufélögum sínum. Ekki varð gert langt stopp þar heldur pilturinn rifinn með í miðbæinn þar sem Thorvaldsen varð fyrsti viðkomustaður. Gengum þar ca. einn hring um svæðið og leist illa á og því vissara að halda á kunnuglegri slóðir. Þar mætti okkur vitaskuld Hillsborofílingurinn í öllu sínu veldi og vakti talsverða lukku. Því miður gekk röðin hratt fyrir sig (dyraverðirnir voru víst að spyrja alla um skilríki og grynnkuðu þannig talsvert á röðinni) svo við vorum fljótlega komnir inn. Drifum okkur þar undir eins í fasta liði, rússneskan eðaldrykk og blessað ölið, en einhverra hluta vegna var stemmningin eitthvða skrýtin þarna, a.m.k. fannst manni maður ekkert vera að passa inn í hana. Reyndum við þó að þrauka fram eftir nóttu en viðurkenndum að lokum ósigur okkar og drifum okkur bara á Nonnann. Eða öllu heldur, Jarlaskáldið fór á Nonnann og tókst um leið að týna félögunum á einhvern óskiljanlegan hátt. Það þýddi bara 2000 kall í leigarann, alltaf hressandi. Endalokin voru síður en svo óvænt, sofnað fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi. Skáldið hafði soldið saknað þess.

Jarlaskáldið var sem endranær lítt hæft til afreka framan af laugardegi. Upp úr hádegi skutlaðist það með Þjálfann á skemmtanaslóðir gærkvöldsins til sækja bílskrjóð hans og var um leið tilkynnt að um kvöldið væri því gert að halda grillpartý. Gott og vel hugsaði Skáldið, kom sér heim og hreyfði sig ekki næstu klukkustundirnar. Um sexleytið hafði það loks orku og nennu til að taka aðeins til, kannski ekki vanþörf á eftir tæplegu viku einveru í húsinu, og kaupa svo eitthvað á grillið. Merkilegt nokk var húsið komið í nokkuð sómasamlegt ástand um sjöleytið og ekki seinna vænna því fljótlega eftir það fóru fyrstu menn að láta sjá sig. Bættist svo ört í hópinn og taldi að lokum vel á annan tug manna, sem verður að teljast nokkuð gott þar eð Skáldið hafði bara boðið tveimur. Stóð Skáldið sig að sögn þrælvel við grillið, en mesta undrun veislugesta vakti þó salatið sem Skáldið hafði gert af eigin rammleik. Já, þetta getur það!
Annars mun veisla þessi seint fara í sögubækur fyrir svall og svínarí, til þess var einfaldlega ekki tími, síðustu menn yfirgáfu pleisið um hálftíu og voru þá búnir að taka til og setja í uppþvottavél. Ástæða þessarar stuttu dvalar ætti að vera öllum með greind yfir frostmarki augljós, Menningarnótt. Sem betur fer voru flestar löggur fastar niðri í miðbæ því líkast til hefðu þær gert athugasemd við þann fjölda fólks sem fyllti Lancerinn hans Togga á leiðinni niður í bæ hefðu þær séð hann. Fengum við stæði hjá Ríkislögreglustjóra, glæpamannaframleiðanda ríkisins samkvæmt dómsúrskurði, og örkuðum svo niður Laugaveginn í átt að höfninni. Þar hittum við svo lungann af veislugestum frá því fyrr og urðu nokkrir fagnaðarfundir enda gangan niður Laugaveginn nýtt vel til ýmissa hluta. Stuðmenn léku fyrir dansi og fékk Skáldið að fara á háhest, en það endaði að sjálfsögðu með vænni byltu. Flugeldasýningin var svo bara ágæt, enda í boði Jarlaskáldsins og samverkamanna þess.
Eftir ljósasjóvið fór að koma hreyfing á fólkið og það var eins og við manninn mælt, maður hitti fólk. Ber þar kannski helst að nefna Styrmi og Dúllarann ásamt fríðu föruneyti, Arnar og Kristján sem kunnir eru úr Keddlingafjöllum, og síðast en ekki síst Hagnaðinn og Mágkonuna. Mátti vart milli sjá hvort var hressara, líklega hafði þó Mágkonan vinninginn.
Var að lokum haldið á hinn arma stað Thorvaldsen þar sem Þjálfi var í essinu sínu við að koma liðinu fram fyrir röð. Sem tókst. Var aðalfundarstörfum svo haldið áfram af krafti og fyrr en varði voru menn farnir að fækka fötum á dansgólfinu við mismikla hrifningu annarra gesta. Af Jarlaskáldinu er það helst að frétta að því voru eitthvað mislagðar hendur þetta kvöldið, hlutirnir ekki alveg að ganga upp eins og Skáldið hefði kosið, svo það tók þá ákvörðun að kveðja samkomuna án þess að kveðja hana um tvöleytið og arkaði heim á leið. Alla leið. Var það bara nokkuð hressandi.

Sunnudagurinn var dagur björgunaraðgerða. Jebb, Skáldið fór á KFC. Það var gott.

miðvikudagur, ágúst 13, 2003 

Einn í kotinu

Jarlaskáldið ber sig aumlega þessa dagana. Ekki eru það sóttir, hvort heldur geðrænar né líkamlegar sem herja á Skáldið, heldur er það einveran. Jú, Skáldið er eitt á báti nú um stundir, bæði gömlu hjónin og litla systir hafa flúið land og skilið aumingja Skáldið eitt og eftirlitslaust eftir heima. Reyndar ekki alveg rétt, hér eru bæði páfagaukur og kanína, en telst það með? Ekki elda þau matinn, hvað þá vaska upp, hvort tveggja listir sem vart eru á færi Skáldsins! Það má því búast við að gömlu hjónin komi að skítugum kofanum fullum af pizzakössum eftir rúma viku, þar eð Dominos voru einir um að sjá aumur á Skáldinu, ekki bara megavika, heldur GÍGAvika! Að vísu ber Skáldið enn þá von í brjósti að einhver góðhjörtuð stúlka taki Skáldið að sér þessa daga með eldamennsku og þrifum en er að verða úrkula vonar eftir ítrekaðar neitanir. Hvar er samhjálpin í þessum heimi?

Í öðrum fréttum er, ja, fátt merkilegt. Jarlaskáldið stundar enn vinnu sína (Hvar er Jarlaskáldið?) á Nesjavöllunum ásamt fimm vitleysingum, en eftir næstu viku stefnir í að Skáldið verði enn einu sinni atvinnulaus aumingi. Það er reyndar hlutverk sem Skáldið kann vel og líkar vel en eftir að hafa ráðfært sig við fjármálaráðgjafa hefur Skáldið komist að því að líklega væri heppilegt að fara að svipast um eftir annarri vinnu. Sumsé, ef einhver lesenda veit af vinnu fyrir eins og eitt lítið Jarlaskáld er honum velkomið að benda Skáldinu á það. Ekkert leiðinlegt samt, né illa borgað. Fékk nóg af því síðasta vetur.

Skáldið lætur þetta duga í bili, bara meira bull á morgun. Jú, eitt. Skáldið býður stelpuna velkomna aftur í hóp lifenda í bloggheimum, og hlakkar mjög til að lesa þar sögur af klósettferðum í framtíðinni. Lifið heil!

þriðjudagur, ágúst 12, 2003 

Af pervertinum Snorra Bergþórssyni

Það fór líkt og spáð var, Jarlaskáldið vaknaði um níuleytið á laugardag og hóf þá að pakka niður viðlegubúnaði (farið að geta það blindandi og jafnvel sofandi) fyrir ferð til Keddlingafjalla. Stebbinn mætti svo um tíuleytið og við tók ferð í nýlenduvöruverlsun fyrir okkur stubbana og bensínsstöð fyrir Willa. Því næst lá leiðin í Heiðarásinn þar sem við hittum fyrir restina af ferðafélögum þessarar helgar, þau Vigni, Togga, Öldu og Snorra pervert. Í hópinn vantaði nokkra af hinum svokölluðu "usual suspects", og er þá einkum átt við Þjálfa sem ekki komst með þar eð hann þurfti að leiða Gay pride gönguna. Slíkar samkomur forðumst við eins og heitan eldinn og brunuðum því sem fyrst austur fyrir fjall í grenjandi rigningunni. Á leiðinni skemmtum við Stebbi okkur konunglega í stubbastuðinu, enda heilir fjórir Tvíhöfðadiskar með í för og einn Fóstbræðradiskur. Annars var ekki stoppað fyrr en við Geysi þar sem Willi fékk að drekka og aðrir fengu pulsu. Þar voru bara útlendingar.
Svo var ekið norður Kjölinn og skemmt sér við að sulla í pollunum (stundum við litla hrifningu Vignis). Annars tíðindalítil ferð, í námunda við Hvítárvatn braust sólin fram og við nutum því veðurblíðu um skeið. Stutt skeið. Vorum komin í Keddlingarfjöllin ca. þrjú og var úthlutað þar miklum prýðisbústað með öllum græjum. Hentum fyrst dótinu inn en ókum svo upp á skíðasvæðið, eða það sem eftir var af því, því snjór var nánast horfinn. Toggi og Vignir reyndu svo að hjóla til baka, Vignir komst alla leið en dekkið lét undan hjá Togga á miðri leið.
Eftir þessa útiveru voru menn eðlilega nokkuð dasaðir og því fóru fljótlega að heyrast hviss-hljóð úr dósum eftir þetta. Eyddum tímanum svo í að góna á fáklæddar stúlkur í gömlum Mannlífs- og Vikublöðum, nema Alda, hún hneykslaðist á okkur. Fljótlega fóru svo gaulir að garna og því kveikt upp í grillum en gekk heldur brösuglega sakir veðurhæðar og úrkomu. Gekk þó að lokum og gæddi Skáldið sér á ljúffengum kjúklingaleggjum, forsteiktum. Þótti svo þjóðráð að áti loknu að kíkja í pottinn, sem var þarna steinsnar frá, þótt rigning væri vægast sagt geðveik. Vorum ein í öðrum pottinum og létum okkur rigna niður en í hinum pottinum voru nokkrar stúlkukindur, illu heilli talsvert of ungar, jafnvel fyrir okkur. Sátum við þarna í mestu makindum nokkra stund og engum til ama eða allt þangað til pottanazistinn mætti á svæðið og byrjaði að þusa og þrugla um hvað við værum mikil ómenni og skíthælar að vera að lepja bjór í pottinum. Náðum þó að lemja hann af okkur að lokum en fórum samt fljótlega upp úr þar eð potturinn var tekinn að kólna og bjórinn hvort sem er búinn. Kemur þar að Snorra þætti Bergþórssonar.
Jarlaskáldið líkt og félagar sínir gekk til sturtu eftir pottasetuna og lét þar vatnið gusast yfir sig kviknakið. Hið sama gerði téður Snorri og tók sér stöðu í næstu sturtu við Skáldið. Eitthvað virðist svo gay pride-fílingurinn hafa komið yfir Snorra því það skipti engum togum, kappinn slengdi hendi sinni fullangt til vinstri og fyrir varð Skáldsins allra heilagasta. Varð Skáldinu svo um þessa svívirðilegu árás að því hreinlega féllust hendur og hlaut Snorri því ekki makleg málagjöld fyrir ásælnina. Mun hér eftir ekki til hans vísað á annan hátt en pervertinn eður kynvillingurinn.
Þrátt fyrir bágt andlegt ástand hélt Skáldið áfram aðalfundarstörfum og þáði m.a.s. afsökunarbeiðni pervertsins sem var í formi einnar öldósar. Einhvern tímann seinna var svo ákveðið að líta út úr bústaðnum og í önnur hús og í einu þeirra hittum við fyrir a.m.k. tvö kunnugleg andlit, þá Arnar og Kristján sem eitt sinn höfðu orðið oss samferða upp á Snæfellsjökul. Urðu þar fagnaðarfundir, og í einu tilvikinu reyndar fullmiklir fagnaðarfundir fyrir smekk sumra, þegar Skáldið og Arnar heilsuðust með fangbrögðum og báðir lítt klæddir ofan mittis. Annars eru heimildir missaga um atburði eftir þetta, en þó ber þeim saman um að Skáldið hafi gerst öflugt í kappdrykkju og haft uppi stór orð um að vaka fram undir morgun, en enginn má sköpum renna, Skáldið var borið í flet sitt fyrst manna. Eftir það hefur tæplega nokkuð merkilegt gerst.

Sunnudagurinn var í alla staði hefðbundinn. Fólk vaknaði á hinum og þessum tímum hingað og þangað um húsið og við misgóða heilsu. Skáldið var hið hressasta enda útúrsofið, en líklega var Alda hvað verst stödd, a.m.k. var hún ein um að fara að dæmi Skalla-Grímssonar. Lá svo fólk í þynnku sinni (eða hressleika sínum) fram eftir degi og eitthvað svoleiðis en upp úr tvö var lagt af stað í bæinn, eða um leið og hreingerningadeildin hafði lokið störfum. Var Kjölurinn vægast sagt svakalegur eftir stórrigninguna síðasta sólarhring, hafði víst farið í sundur við Bláfellsháls daginn áður og allt. Að öðru leyti tíðindalítil heimför, pulsa á Geysi að venju og svo Gjábakkinn heim. Fínasta ferð!

laugardagur, ágúst 09, 2003 

Ha, bara heima?

Mikið rétt, Jarlaskáldið er barasta heima hjá sér og það klukkan tæplega tvö á föstudagskvöldi. Svo bregðast krosstré...

Það eru nú góðar og gildar ástæður fyrir þessum aumingjaskap.

Í fyrsta lagi eru allir félagarnir að stunda sama aumingjaskapinn þessa stundina, allsúrt að vera einn að djúsa.
Í öðru lagi er Skáldið ENN að glíma við eftirköst Þjóðhátíðar (rúmlega ársgamalt þynnkumet frá Ystuvík 2002 er sumsé fallið).
Í þriðja lagi þarf Skáldið að vakna snemma á morgun.
Allavega snemma miðað við laugardag, svona ca. níu, því samkvæmt öruggum heimildum Jarlaskáldsins verður allt vaðandi í kynvillu og ósóma í borginni á morgun og því ætlar Skáldið ásamt nokkrum félaga sinna að flýja lengst upp á hálendi snemma í fyrramálið, nánar tiltekið í Keddlingafjöll, og stunda þar heterósexual iðju eins og sprellahlaup og laugarsetur. Að ógleymdum hefðbundnum aðalfundarstörfum, og eflaust eitthvað fleira, t.d. eru allar líkur á því að Skáldið noti tímann til að finna upp nýtt jaðarsport og fara sér að voða.

Smá svona kvikmyndagagnrýni í lokin, sjónvarpsdagskráin eftir Simpsons í kvöld var nefnilega einhver sú versta sem Skáldið man eftir og því skellti það sér út á leigu og fann þar tvær ræmur. Sú fyrri á dagskránni nefnist Analyze That og þar leigði Jarlaskáldið köttinn í sekknum, því það hafði áður séð Analyze This og því algjör óþarfi að sjá þessa, hún var eiginlega sama myndin, bara með verri og þreyttari brandörum. Á varla meira skilið en 49 stjörnur af 100 mögulegum.
Seinni mynd kvöldsins var einnig úr mafíósageiranum (alltaf gaman að hafa svona þemakvöld) en þar lýkur líka samanburðinum. Road to Perdition hét hún og hafði Skáldið heyrt af henni góða hluti. Og það má hún eiga að hún er nokkuð góð, það virðist m.a.s. hafa verið samið handrit að henni áður en tökur hófust og allt, en það mun fátítt í seinni tíð. Má alveg mæla með henni þessari, kannski ekkert tímamótaverk en alveg þess virði að glápa á, hendum svona 77 stjörnum á hana af 100 mögulegum.

miðvikudagur, ágúst 06, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogsjöunda

Það byrjaði um hálftíuleytið síðasta fimmtudagskvöld, og gekk linnulaust fram til ca. átta á mánudagskvöld. Eyjar 2003 sviku ekki.

Gistum í garðinum hjá Jóa Listó, annar eins öðlingur er vandfundinn.

Tókum ósjaldan bekkjabíl, í einum þeirra var m.a.s. Stubbastuð.

Fórum tvisvar á Hlölla.

Heimsóttum allmörg hvít tjöld.

Sáum ófá kunnugleg andlit, fræg sem ófræg.

Drukkum okkur í drasl, ítrekað.

Maggi Blö fékk óvæntan glaðning í brekkunni.

Gústi gerðist ástmögur eldri borgara.

Vignir steig á gleraugun hans Magga.

Stebbi náði víst ekkert að höstla.

Jarlaskáldið gerði ekki einu sinni tilraun til þess.


Bara 360 dagar í næstu.

(Djöfull var þriðjudagurinn erfiður!)

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates