« Home | Það hlaut að koma að því Loksins! » | Tuð Það er svo frábært við fimmtudaga að næst á e... » | Bissí Búið að vera allt of mikið að gera síðustu ... » | Ekki er kyn þótt keraldið leki... Skáldið var nor... » | Lilli og frægi kallinn Í dag gerðust góðir hlutir... » | Að nenna að blogga Stundum bara nennir maður ekki... » | Leiðindi Er eitthvað leiðinlegra en september? Já... » | Maggi og Gústi » | Maggi á Dússabar » | Þetta kallar maður umbúðir! » 

laugardagur, október 02, 2004 

Aumt er það!

Núnú, er svo illa komið fyrir Jarlaskáldinu að það notar laugardagskvöldin til að blogga? Þá er það af sem áður var. En áður en við við víkjum að ömurleika þessa kvölds skuldar Skáldið frásagnir af síðustu helgi og jafnvel meira til.

Jáhm, um síðustu helgi ætlaði Skáldið að bregða sér í Mörkina. Sem það og reyndi. Um frægarför þá hefur Stefán twist ritað skilmerkilega frásögn sem litlu er við að bæta, annað en það að honum láðist að nefna að Jarlaskáldið var lamið í hausinn með vasaljósi við Hagavatn svo á því sá. Árásarmaðurinn hefur enga iðrun sýnt.

Þar sem minna varð úr verki í ferð þessari en til var ætlast ákváðu ferðalangar á laugardagskvöldið að hittast í Logafoldinni, og grilla þar kjöt og drekka það öl sem átti að neyta í Mörkinni. Illu heilli var Jarlaskáldið látið sjá um að grilla, það varð svo hugfangið af þætti Gísla Marteins að það steingleymdi öllu öðru svo kjötið brann til kaldra kola. Engu að síður var það étið, með bestu lyst. Eitthvað var svo dreypt á öli fram eftir kvöldi, en í skammarlega litlu magni þó. Andrésson og frú litu við og síðar Gústi, og okkur til mikillar gleði sá pilturinn á hæðinni fyrir neðan um að við misstum ekki af Scooter-stemmningunni. Á öðrum tímanum var teitinni slúttað, og fólk fór bara heim. Dannað.

Síðan þá hefur alllítið verið af sér gjört. Jú, í gærkvöld fór Skáldið í kvikmyndahús, á mikla snilldarræmu, Dodgeball. Er það mikið fyndin mynd, og ef Skáldið hefði ekki séð Anchorman fyrir skemmstu fengi hún væntanlega titilinn "fyndnust". Og fólk, ekki labba strax út þegar myndin er búin. Það er þess virði að bíða.

Þá erum við komin til nútímans. Í dag svaf Skáldið mikið og lengi. Svo skellti það sér í smá bíltúr með Lilla, og komst að því að á leiðinni til Krýsuvíkur er hægt að keyra í gegnum 7 hringtorg á 1,8 kílómetra kafla. Hvað er að fólki!? Svo jeppaðist Skáldið aðeins, kíkti á Djúpavatn og Vigdísarvelli, og komu hugtökin "sparakstur" og "vistakstur" þar hvergi við sögu. Gaman. Síðan hefur fátt gerst.

Sumsé, tvær helgar í röð og lítið sem ekkert djammerí á Skáldinu. Það er líklega gott fyrir fjárhaginn, en engan veginn fyrir sálarheill Skáldsins. Úr því verður senn bætt, því sjá, Jarlaskáldið boðar yður mikinn fögnuð. Um næstu helgi verður nefnilega haldið hátíðlegt hið árlega "Grand Buffet" hins gríðarmerka félags VÍN. Verður hátíðin haldin á ótilgreindum stað í uppsveitum Árnessýslu og munu ófáar dýrategundir þar lagðar fólki til munns, margar þeirra í útrýmingarhættu. Verður þeim væntanlega skolað niður með einhverju göróttu svo það er eins gott að lagerinn sé fullur hjá Höskuldi. Þó át og drykkja sé aðalmarkmið hátíðar þessarar verður væntanlega ýmislegt fleira sér til dundurs gert, jeppadeildin hyggst legga í för á laugardeginum og svo er alltaf mikil spenna fyrir hinni árlega afhendingu "Bokkunnar", en þar á Skáldið titil að verja í ótilgreindum flokki. Svo er aldrei að vita hvort einhverjir bregði á leik, reyni aflraunir eða eitthvað þaðan af verra. Allavega, það verður meira um að vera næstu helgi en núna. Understatement of the year!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates