« Home | Auld Lang Syne Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur. ... » | Ársuppgjör 2004 Það styttist víst í það að árið s... » | Kjöt og fiskur Jarlaskáldið hefur sjaldan verið t... » | Jól, krakki og ammili Jamm, jól. Til hamingju me... » | Maggi tekinn í bakaríið Hann var með erfiðari sun... » | 101 Selva Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti... » | Bjáni Sturla Böðvarsson heitir maður, einkum þekk... » | Tot Frásagnir af andláti Jarlaskáldsins eru stórl... » | Gaman Jarlaskáldið vildi bara koma á framfæri þak... » | Aumingjabloggari vaknar Jarlaskáldið hefur barast... » 

mánudagur, janúar 03, 2005 

Ágætis byrjun

Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaskáldið er ekki á leið til Ítalíu eftir 9 daga eins og það ætti í venjulegu árferði að gera, heldur þarf það að bíða heila 75 daga til að komast á þær ágætu slóðir. Fjárinn. Það er sem sagt ekkert sérlega skemmtilegt í kortunum á næstunni, en helgin sem leið var helvíti góð. Rifjum upp...

Fyrst á mælendaskrá er fimmtudagskvöldið 30. desember. Þá brá Jarlaskáldið sér ásamt þeim Eyjólfi og Stefáni í bæjarferð, nánar tiltekið á veitingahúsið Thorvaldsen, en þangað hafði Pétur nokkur boðið okkur á Þorláksmessu í tilefni afmælis hans. Eftir nokkra leit var okkur vísað þar í einkasal og tekið fagnandi með veigum góðum. Var gleðin í upphafi góðmenn en vart fjölmenn. Það breyttist fljótlega þegar semi-celebinn Jamie Kennedy mætti á svæðið með sitt entourage, sem voru einkum útlendingar, grúppíur og FM-hnakkar. Ekki kipptum við okkur mikið upp við þetta, löptum bara á okkar fría öli og ypptum síðan bara öxlum þegar wannabe-celebinn Eli Roth bættist í hópinn með annan eins fjölda af hnökkum og grúppíum í eftirdragi. Hurfu þessir ágætu herramenn síðan á brott þónokkru síðar en skildu flesta hnakkana eftir, svo að um eittleytið létum við okkur einnig hverfa úr þeim slæma félagsskap enda ölið hvort eð er búið. Pétri skal þó þakkað kærlega fyrir góða veislu, sem og Sigurgeiri fyrir að skutla hersingunni heim.

Gamlársdagur... var eitthvað gert þá? Jú, Skáldið beið í ofvæni eftir óveðrinu sem aldrei kom almennilega, át kalkún og drakk rauðvín og gersigraði öðru sinni skyldmenni og venslafólk í Popppunktsspilinu. Um tíuleytið sprengdi það býsnin öll af flugeldum fyrir litla frændann sem horfði hugaður út um stofugluggann á lætin. Rétt fyrir skaup tók Skáldið svo til fótanna og hélt upp í Réttarsel þar sem Stefán var staddur ásamt stórfjölskyldunni og hafði boðið Skáldinu að horfa á Skaupið í almennilegu sjónvarpi. Skaupið var alveg hið bærilegasta, ekki síst eftir ósköpin í fyrra.
Í kringum miðnætti horfði Skáldið eins og kannski fleiri á skoteldadýrðina, fékk sér aðeins meira neðan í því en hélt svo ásamt áðurnefndum Stefáni og Öldu bílstjóra í teiti hjá Odda, sem var hin rólegasta þrátt fyrir skrílslæti ákveðinna gesta. Upp úr þrjú lá svo leiðin í Kópavog í öllu villtari gleðskap, en Skáldið staldraði stutt við þar, var komið heim fyrir fjögur, enda ágætis dagskrá framundan daginn eftir. Stefán kom víst heim allmiklu seinna...

...og sást það ágætlega á honum þegar hann mætti prúðbúinn í Kleifarselið um þrjúleytið daginn eftir. Þaðan lá leið okkar í Seljakirkju, en þangað hafði hvorugur okkar komið síðan, ja, hvenær fermdust við? Ekki var það trúræknin sem dró okkur á þessar fornu slóðir, fjandans fjarri því, heldur hafði okkur og öðrum verið boðið að verða viðstaddir hjónavígslu þeirra Andréssonar og frúar. Sögðu bæði já til allrar hamingju, og það tvisvar hvort um sig, og bundust svo handjárnum um ókomna tíð. Jarlaskáldið náði með herkjum að halda aftur af tárunum, enda sentímental mjög.
Frá heimahögunum lá leiðin í Hringtorgabæinn Hafnarfjörð, og ótrúlegt en satt rötuðu velflestir gestir í Oddfellow-húsið hvar veisla mikil brúðhjónunum til heiðurs var haldin. VÍN-verjar röðuðu sér við eitt borðið og þeim til mikillar gleði var Ragnheiður Blöndahl frammistöðustúlka og átti hún ófáar heimsóknirnar að því borði áður en kvöldið var úti. Blöndudalur bróðir hennar sá hins vegar um veislustjórn og fórst það ágætlega úr hendi. Í boði var alls kyns gúmmulaði og hægt að skola því niður með ýmsustu drykkjum. Ekki skorið við nögl, ónei. Skemmtiatriðin voru líka fín, ræður hæfilega langar og flestar ágætlega fyndnar, þó misfyndnar væru. Bæði vinir brúðguma og brúðar voru með myndasýningar, auk þess sem sýnt var myndband frá sögulegu steggjapartíi brúðgumans. Allt vakti þetta mikla lukku, ekki síður en spurningakeppni sem Skáldið sá um að hluta í félagi við stúlkur nokkrar, þar sem ættingar brúðhjónanna fengu að spreyta sig á spurningum um þau. Annað liðið vann. Auk þessa söng Brynhildur Guðjónsdóttir í hlutverki Edith Piaf, ansi flott það, og svo var örugglega e-ð fleira sem Skáldið ekki man í svipinn.
Að skemmtidagskrá lokinni var djammað að rammíslenskum sið, þó fólk hafi farið misgeyst. Brúðhjónin hurfu út í buskann þegar líða tók á kvöld en ekki stöðvaði gleðin við það. Það kom fáum á óvart að VÍN-verjar voru með síðustu mönnum til að yfirgefa pleisið og var þaðan haldið til Snorra og Katýar og stuðinu haldið áfram, meðal annars sungið, dansað og reyktir vindlar. Um þrjúleytið héldu hinir hörðustu svo í bæinn og það er bæði gömul saga og ný...

Sunnudagurinn var ekki sá besti...

Mánudagurinn ekki heldur...

Að lokum vill Jarlaskáldið þakka kærlega fyrir sig, þetta var hin mesta skemmtun. Jafnvel spurning um að endurtaka þetta einhvern daginn, þó vonandi með öðrum leikendum í burðarhlutverkum. Pant ekki!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates