« Home | Spurning „Not that I condone fascism, or any -ism... » | Miðvikublogg ið fertugastaogfyrsta Hér verður ræt... » | Litla hryllingsbúðin Kæru lesendur, Jarlaskáldið ... » | Miðvikublogg ið fertugasta Nöjts, bara fertugasta... » | I´m Back Baby! Jarlaskáldið hefur verið með aumin... » | Ojá Laughter is the best medicine. Unless you're ... » | Aumingjablogg Þetta er nú orðið ljóta helvítis au... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogníunda Í dag er miðvi... » | Baldinn jökull Hún varð heldur söguleg þessi Lang... » | Baldjökull Jamm, eftir ekki svo marga klukkutíma ... » 

mánudagur, apríl 05, 2004 

Af misfarsælli endurkomu Jarlaskáldsins á lendur skemmtanalífsins

Áður en kom að nýliðinni helgi hafði liðið ansi langur tími, svona sagnfræðilega séð a.m.k., síðan Jarlaskáldið hafði brugðið sér út á lendur skemmtanalífsins, því helgarnar tvær á undan hafði það barasta haldið sig heima við og mesta lagi kíkt í bíó eða fengið sér pizzu. Voru ár og dagar síðan Jarlaskáldið hafði gert annað eins hlé á ólifnaði sínum, reyndar ná heimildir ekki nógu langt aftur í tímann til að finna þess hliðstæðu. Ekki ætlaði Jarlaskáldið að fylgja orðtakinu „allt er þá þrennt er“ heldur fór mikinn á vígvelli gleðinnar um helgina. Það fór á ýmsan veg.

Fyrst á dagskrá var nördapartý. Nördapartý kallast það þegar Jarlaskáldið hittir gamla félaga sína úr GB, er þá jafnan áfengi haft um hönd, sagðar grobbsögur og gert grín að fólki. Tilefni samkomunnar að þessu sinni var óvenjulegt, því í stað þess að horfa á gamla skólann sinn rúlla upp einhverjum ólukkulýð úr annarri og ómerkilegri menntastofnun var glápt á Smjörkúkana rétt merja Úthverfapakkið í annars slakri keppni (Hroki? Nei.). Fór samkoman fram að Kjartani inum rauða og nutu þeir Gvendur Strandamaður og Sverrir Guðmundssons gestrisni hans auk Jarlaskáldsins. Var Kjartan að vanda höfðingi heim að sækja, hélt m.a. pólska menningarkynningu og urðu gestir m.a. af þeim sökum hressir er líða tók á kvöldið þótt úrslitin í GB hafi ekki verið þeim að skapi. Ojæja, svo lengi sem MH vinnur ekki!
Eins og vera ber lá leiðin í miðbæinn síðla nætur, fyrst á Celtic Cross og síðan víðar, þrátt fyrir að almættið sýndi sorg sína með úrslitin með miklu syndaflóði. Jarlaskáldinu tókst að vanda að týna samferðamönnum sínum og tók því bara þann pól í hæðina að kíkja á Nonnann og síðan heim. Það var prýðilegt.

Jarlaskáldið var tiltölulega árrisult á laugardaginn, fór á lappir um hádegi, og var fyrir því brýn ástæða. Var Jarlaskáldið nefnilega boðað í 4 ára afmæli Dags Tjörva frænda síns síðar um daginn og vissara að mæta með pakka á þann merkisfögnuð. Fór því Skáldið í Smáralind ásamt móður sinni og keypti stórglæsilegt Playmolöggumótorhjól handa pilti. Ekki var það það eina sem keypt var, því Skáldið lét einnig ginnast af gylliboðum, keypti sér glæsilegan myndavélasíma enda páskaegg í kaupbæti. Mega lesendur því búast við því að hér hrúgist inn myndir á næstunni, allavega til 1. september, því þangað til er það frítt. Það verður sko nýtt sér.
Afmælið var síðan síðar um daginn og var afmælisbarnið hið sælasta með mótorhjólið, Jarlaskáldið var aftur á móti hið sælasta með veitingarnar. Ágætis skipti þar.






Um kvöldið var reyndar ekki margt í spilunum svo Skáldið horfði bara á Popppunktinn en eftir það bárust þær fregnir frá Stefáni að við skyldum ráðast inn á Andrésson og gera eitthvað karlmannlegt. Karlmannlegt varð það síðan að lokum, því eftir að hafa heyrt ansi misgóða söngvara í Söngkeppni Framhaldsskólanna (Austur- Skaftafellssýsla? Á!) skellti Andrésson DVD í tækið, hin einkar karlmannlega mynd Bachelor Party. Hún er náttúrulega bara snilld, og að henni lokinni þótti okkur Stefáni tími til kominn að reyna pikköpplínurnar úr henni á þar til gerðum stöðum. Lá leiðin fyrst á Ölver en þar var haldin árshátíð sálfræðinema og hafði Blöndudalurinn boðað okkur á svæðið. Ekki höfðum við erindi sem erfiði þar, sálfræðistúdínurnar voru ekki alveg að kaupa 20 ára gamlar pikköplínurnar, en við létum það lítið á okkur fá heldur nýttum okkur góð tilboð á barnum til hins ýtrasta. Þó ekki eins vel og Mokkurinn, sem var vart þessa heims, sást aftur í hnakka á pilti. Síðar lá síðan leiðin í bæinn og endaði vitanlega á heimavellinum. Þar var múgur og margmenni, og margir sem maður þekkti, en þó fleiri sem maður þekkti ekki eins og gengur. Eitthvað var sýslað þar fram eftir nóttu, en hvað Jarlaskáldið varðar þá lenti það í útistöðum við, ja, eitthvað, líklegast hurð, heimildum ber ekki alveg saman, en varð niðurstaða þeirra átaka sú að Skáldið bar skeinu í andlitinu. Ekki þótti Jarlaskáldinu þetta merkileg skeina en ákvað engu að síður að hafa sig á brott skömmu síðar og enn og aftur lá leiðin á Nonnann. Þar lenti það í stúlkuhóp einum sem var illa haldinn af „Florence Nightingale“ syndróminu, töldu að Skáldið væri milli heims og helju af völdum skeinunnar og kröfðust þess að það færi beinustu leið á slysavarðstofu til að tjasla upp á fésið. Eftir nokkrar fortölur lét Jarlaskáldið til leiðast að fara að ráðum stúlknanna, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir varanleg lýti á annars guðdómlegri ásjónu þess, en þó að sjálfsögðu ekki fyrr en það hafði orðið sér úti um Nonnabita. Spurning um forgangsatriði. Í leigubílaleit sinni rakst Skáldið svo á Eyfa og slóst hann í för með Skáldinu. Hann fór reyndar heim til sín en Skáldið á slysó þar sem við tók ansi góð bið innan um illa sjúskað lið sem flest átti það sameiginlegt að hafa lent í útistöðum við annað fólk, ólíkt Jarlaskáldinu sem ræðst bara á húsbúnað. Urðu nokkrar skemmtilegar uppákomur meðan á biðinni stóð, t.d. útlistaði Skáldið skoðun sína á afar kjarnyrtri íslensku á einum gesta sem gekk á milli fólks með svívirðingar í garð Tælendinga, tóku aðrir gesta undir skoðun Skáldsins og við það hafði þessi „víðsýni“ maður sig á brott þar eð boðskapur hans var ekki að falla í góðan jarðveg. Eftir drykklanga stund kom svo að Skáldinu, sem hafði þá lesið tvö LRO blöð upp til agna, fékk það bara nokkuð sæta hjúkku og ekki síður glæsilegan lækni til að tjasla upp á sig sem þau gerðu mestmegnis með tonnataki. Hélt Skáldið svo heimleiðis, þá að verða sjö um morguninn, eftir heldur endasleppt djammirií. Það eru ekki alltaf jólin.

Jarlaskáldið var ekki með hressasta móti þegar það var vakið eftir nokkurra tíma svefn, voru það djammfélagarnir síðan kvöldið áður sem voru þar á ferð og drógu Skáldið með sér á KFC eins og lög gera ráð fyrir á sunnudögum, ekki síst á „erfiðum“ sunnudögum. Í einhverju bjartsýniskasti fékk síðan einhver þá hugmynd að rúnta upp á Hellisheiði og rölta þaðan í Reykjadalslaug og baða sig. Ekki var Skáldið í ástandi til að hreyfa við andmælum og var Lilli fenginn til verksins.






Var myndin fyrir ofan einmitt tekin uppi á Hellisheiði, rétt áður en við lögðum í röltið. Það var sosum létt, enda niður í móti, og ekki amalegt að liggja í heitri ánni með einn kaldan (að vísu bara kók). Heldur var gangan til baka erfiðari, bæði upp í móti og menn ekki í sínu besta ástandi, svo við fórum bara í Eden og fengum okkur ís til að jafna okkur eftir afrekið. Síðan Nesjavallarhringurinn hei, og Jarlaskáldið afrekaði ekki meira þessa helgi. Jú, sá þetta. Það var gaman.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates