miðvikudagur, apríl 30, 2008 

París



Jarlaskáldið skellti sér ásamt spúsu sinni til Parísarborgar fyrir viku síðan og kom heim á sunnudaginn. Um það mætti sjálfsagt skrifa langan pistil sem fáir myndu lesa og til að láta ekki á athyglisbrest lesenda reyna ætlar Skáldið bara að vísa á myndasíðu sína þar sem má skoða myndir úr ferðinni og lesa stuttar lýsingar við þær.

Meira síðar... kannski.

föstudagur, apríl 11, 2008 

Lance Armstrong

Byrja að blogga aftur? Hálfnað er verk þá hafið er.

Það er kunnara en að frá þurfi að segja að bensínverð er komið í rugl og heimskasta stétt landsins tók upp á því að teppa vegi þegar hún loksins fattaði það. Það var (bensín)dropinn sem fyllti mælinn hjá Jarlaskáldinu, það brá sér í reiðhjólaverslun í upphafi aprílmánaðar og keypti sér nýmóðins fjallahjól með öllum helsta staðalbúnaði auk ríkulegs aukahlutapakka (bretti, bögglaberi og vitaskuld hjálmur, öryggið sett á oddinn). Meiningin var að spara peninga í bensíneyðslu og jafnvel koma sér í eilítið betra form með því að hjóla sem oftast í vinnuna neðan úr miðbæ upp í Árbæ. Auk þess fannst Skáldinu sú tilhugsun að hjóla letilega fram hjá föstum bílum í Ártúnsbrekku skemmtileg, en illu heilli hafa þessir vörubílstjóraandskotar alveg hætt að teppa þar umferð og eru þess í stað með vesen niðri í bæ. Þessum fíflum er ekki treystandi til neins.

Á þessum 8 vinnudögum sem liðnir eru síðan kaupin voru fest hefur Jarlaskáldið þrisvar hjólað í vinnuna. Fyrsti dagurinn var strembinn, hiti um frostmark og stífur mótvindur, og svo illilega vill til að þegar maður hjólar upp í Árbæ fer maður að stórum hluta upp í móti, eðli málsins samkvæmt. Jarlaskáldið kom korteri of seint í vinnuna, og mætti því of seint á starfsmannafund með einum æðsta yfirmanni deildarinnar. Gott career move.

Aftur var reynt í byrjun þessarar viku og nú gekk heldur betur, Skáldið mætti á réttum tíma í vinnuna og allmiklu minna sveitt en síðast. Því hlýtur samstarfsfólk að fagna.

Enn einu sinni var hjólað í morgun, Skáldið hugsaði sér gott til glóðarinnar eftir að kjaftasögur bárust af því að bílstjórarnir vitgrönnu ætluðu að búa til allsherjarvesen en þeim var auðvitað ekki treystandi til að standa við það svo ekki fékk Skáldið tækifæri til að hlæja að föstum bílstjórum. Bömmer.

Skáldið hefur jafnan haft iPod í eyrunum á ferðum sínum á hjólinu, stillt á random og jafnan er niðurstaðan fróðleg. Lítum t.d. á það sem boðið var upp á í morgun:

Beirut - Nantes: Ágætt upphafslag, svona í rólegri kantinum, það er vissara að fara sér að engu óðslega nývaknaður og hjólandi yfir umferðargötur í Norðurmýrinni

Feist - 1234: Þetta er afskaplega sætt og krúttlegt lag, með sætri og krúttlegri stelpu. Þetta kom manni í ágætis fíling við Miklubrautina.

The Cardigans - My Favorite Game: Hún Nina var nú sætari áður en hún fékk sér þetta skelfilega tattú. Gott ef þetta myndband var ekki bannað á MTV í denn. Þetta er annars afar hressandi lag og kemur manni virkilega af stað.

Jonathan Richman - Mary: Íslandsvinurinn úr There's Something about Mary með upphafslag þeirrar ágætu myndar. Skáldið hlær enn að því þegar trommuleikarinn hans er skotinn undir lokin. Stutt lag, og við erum komin að hesthúsunum við Sprengisand.

Jefferson Airplane - White Rabbit: Uss, nú erum við komin í sækadelík og veitir kannski ekki af enda brattasta brekkan fram undan.

Tears for Fears - Mad World: Kannski þekktara sem cover-lag með Gary Jules úr Donnie Darko, en Skáldið er hrifnara af '80s orginalnum, að minnsta kosti þegar það er að hjóla upp brekku.

30 seconds to Mars - From Yesterday: Maður vinnur ekki alltaf í lottó. Jared Leto syngur frekar leiðinlegt lag, og ef Skáldið hefði ekki verið komið upp brekkuna hefði það sennilega ýtt á skip.

Yellow Magic Orchestra - Rydeen: Rétt náði að byrja á þessu lagi, sem er svona líka hressandi old school techno.

Það er ekki ofmælt að segja að tónlistin á leiðinni hafi úrslitaáhrif. T.d. er svakalega mikilvægt að fá hresst lag á leið upp hitaveitustokkinn í Elliðaárdalnum, en betra að byrja á rólegheitum þegar maður er að leggja af stað. Þessi random-lagalisti var því prýðilegur, aðeins eitt slakt lag og það kom undir lokin þegar hallaði undan dekki. Það verður fróðlegt að sjá hvað heimleiðin ber í skauti sér, svona heilt yfir, og vonandi verður það notalegt...

Ef einhver er að lesa þetta vill Skáldið benda á myndasíðu sína, sem er reglulega uppfærð, a.m.k. mun reglulegar en þessi, auk þess sem Skáldið hefur verið að skrifa lýsingar við myndir undanfarið, svona til að fólk hafi einhverja hugmynd hvað er að gerast á þeim, og er að vinna sig aftur í tímann. Það er komið aftur í ágúst í fyrra og mun halda áfram eins langt og minnið dugar.

Svo er það Mörkin um helgina. Kannski maður bloggi um það síðar...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates