miðvikudagur, október 27, 2004 

Miðvikublogg ið fertugastaogsjötta

Uss, langt síðan maður birti miðvikublogg! Ekki nógu langt finnst eflaust sumum. Þeir ráða sem betur fer engu. Eða því miður. Anyway...

Spurning hvort maður hafi frá einhverju að segja. Í síðasta pistli þóttist Skáldið reyndar stefna á mikil ævintýri um næstu helgi. Og svei, ef það er ekki bara rétt! Jú, Skáldið hyggst slást í för með Flubbum og öðrum óþjóðalýð í ferð svona ca. í kringum Hofsjökul. Mun Magnús Andrésson standa fyrir ferð þessari og er Skáldinu víst ætlað það hlutverk að vera "kóari" fyrir Stefán nokkurn Twist á hans ágæta 22 ára fararskjóta. Hlutverk "kóara" er margslungið en sem betur fer er Skáldið komið í ágætis æfingu og ætti því að vera fullfært um að höndla spottann, loftmælinn og síðast en ekki síst diskaþeytingar.
Samkvæmt fregnum liggur leið vor um heldur hrjóstrugt landslag og allra veðra von svo Skáldið sá sæng sína útbreidda í gær, og sá um leið að hún myndi alls ekki duga í ferðina. Lagði það því leið sína í Útilíf ásamt fyrrnefndum Stebba og fjárfesti (með hjálp Björgólfs) í forláta svefnpoka. Að lærðra manna sögn er um gæðagrip að ræða sem ætti að halda Skáldinu á lífi í hinum verstu vetrarhörkum. Þó það nú væri fyrir hátt í 30.000 íslenskar nýkrónur!

Annað er víst ekki á döfinni á næstunni, jú, helgin á eftir er víst líka farin að taka á sig mynd, en fullsnemmt að fara að pæla í því. Eftir helgi hefst svo NBA-deildin blessuð og mun Skáldið þá birta spádóma sína í eftirtöldum flokkum (ásamt vonandi ýmsum öðrum):

MVP

NBA-lið ársins 1-3 (með tilliti til stöðu)

Nýliði ársins

Nýliðalið ársins 1-2 (án tillits til stöðu)

Varnarmaður ársins

Varnarlið ársins (með tilliti til stöðu)

Varamaður ársins

Þjálfari ársins

Framkvæmdastjóri ársins

Endurkoma ársins

Vonbrigði ársins

LVP (Least Valuable Player)

Playoff-lið, austan

Playoff-lið, vestan

Sigurvegari austurdeildar

Sigurvegari vesturdeildar

NBA-meistarar

(Ókey Snorri, ánægður?)

mánudagur, október 25, 2004 

Der Alte

Jamm, Jarlaskáldið er orðið löggilt gamalmenni, eða svona allt að því, a.m.k. er ljóst að leiðin liggur ekki upp á við héðan í frá. Þá er oft gott að orna sér yfir gömlum minningum. Hér á eftir fer það litla sem Skáldið man frá síðustu viku.

Jarlaskáldið hóf sem kunnugt er störf að nýju hjá Norðurljósum í vikunni, og líkar vistin vel. Það er nefnilega alveg ágætt að geta mætt klukkan tíu í vinnuna ef manni sýnist. Já, eða ellefu ef því er að skipta!

Annars bar fátt til tíðinda í síðustu viku, föstudagskvöld fór í sjónvarpsgláp eins og svo oft áður, glápt á National Lampoon's Vacation sem er náttúrulega mikil snilld og nauðsynlegur undirbúningur fyrir Road-Trippið okkar Stebba sem planað er áður en við verðum fullorðnir, sem gefur okkur ansi rúman tíma til stefnu.

Á laugardaginn mætti Skáldið í vinnuna í ca. tvo tíma og eyddi þeim tímum aðallega í að horfa á fótbolta, þar sem úrslit voru ágæt. Um kvöldið hóaði það síðan í nokkra drykkjurúta og bauð til eilítillar veislu í tilefni hins mikilsverða áfanga sem áður er getið, og var þar góðmennt mjög þó ekki væri fjölmennt. Fékk það ýmsar góðar gjafir, m.a. rauðvínsflösku, kælivökva og loftmæli. Einhvern tímann héldu svo hinir úthaldsmeiri niður á lendur skemmtanalífsins, og var Jarlaskáldið þar vitanlega á meðal. Kom það nokkuð víða við, byrjað á heimavellinum að sjálfsögðu og svo litið við á ýmsum stöðum og ekki öllum góðum. Endaði það að lokum með því að Jarlaskáldið fylgdi fljóði einu heim síðla nætur, eftir viðkomu á Nonnanum. Þar var reyndar bara um Frænkuna að ræða, ekki merkilegur árangur það.

Sunnudagur: Jú, merkilegt nokk byrjaði Skáldið daginn þann með heimsókn á KFC og var Blöndudalur svo almennilegur að splæsa í tilefni dagsins. Svo í vinnuna að horfa á villimennina og óargadýrin koma óorði á "hinn fallega leik". Þetta eru nú meiri skítbuxarnir og drullusokkarnir í þessum liðum, ekki hægt að segja annað... Pizza og Practice um kvöldið, fínasti ammælisdagur það.

Þetta gerðist síðustu daga, og þrátt fyrir að vera byrjað að reskjast heldur stefnir Jarlaskáldið á mikil ævintýri næstu helgi. Meira um það síðar.

(Þeim Mumma og aumingjabloggaranum vill Jarlaskáldið benda á að það er farið að leggja drög að sinni sívinsælu NBA-spá, og hvetur þá til að fara að huga að hinu sama. Megi besti maðurinn sigra, og Oddi líklega tapa!)

sunnudagur, október 24, 2004 

Ammæli

Í dag á Jarlaskáldið ammæli. Það er 21 árs gamalt. Sjöunda árið í röð.

mánudagur, október 18, 2004 

Handbendi Baugsveldisins að nýju?

Það er víst aðeins meira en ekkert að frétta af högum Jarlaskáldsins, byrjum á djammiríinu.

Djammirí um helgina var nokkuð, en ekki mikið. Á föstudagskvöldið byrjaði Skáldið á að sitja samsæti hjá Ármanni Gylfasyni og frú sem stödd eru á landinu í nokkra daga. Þar var einkum barnafólk og önnur pör, auk einhleyps Jarlaskáldsins, og stemmning eftir því. Ágætis catch-up engu að síður enda fullt af liði þarna sem maður hafði ekki séð í lange baner. Síðla kvölds mætti Oddbergur aumingjablogg á svæðið og um miðnætti yfirgáfum við svæðið og litum því næst við í afmælisfögnuði hjá Guðmundi Arnlaugssyni. Tók hann oss fagnandi og var í miklu stuði. Aumingjabloggarinn hvarf fljótlega af vettvangi en Jarlaskáldið ílengdist þrátt fyrir að þekkja fáa uns það hélt loks á lendur skemmtanalífsins um tvöleytið. Sú dvöl varð ekki löng þó víða hafi verið komið við, lengst dvaldi Skáldið á Ölstofunni, allt að 15 mínútur, uns það hélt heim á leið ekki svo síðla nætur. Helvíti að gleyma Nonnanum eins og kom í ljós daginn eftir.

Á laugardeginum var ekkert djammirí og því síður á sunnudeginum og er frásögnum þar að lútandi því lokið.

Skáldið sagðist í byrjun pistils hafa einhverjar fréttir að færa af sjálfu sér. Og rétt er það, því eins og titillinn kynni að hafa vakið grun um hjá einhverjum hefur Skáldið hafið störf að nýju fyrir Norðurljós, þá miklu útverði frelsisins og andskota ógnarstjórnar þeirrar er við lýði er. Líkt og áður mun Skáldið berjast af veikum mætti fyrir varðveislu íslenskrar tungu, reyndar ekki í fullu starfi að þessu sinni, og því mun það einnig reyna í hjáverkum að stuðla að aukinni beinheilsu Íslendinga. Það sem menn leggja á sig fyrir lítið kaup!

Að öðru leyti er ekkert að frétta, það er kalt, og það er gott.


(Nokkuð hefur borið á því undanfarið að sumir "bloggarar" dauðraríkisins hafi sett eins og eitt málamyndablogg á netið og þykist með því hólpnir. Betur má ef duga skal gott fólk!)

mánudagur, október 11, 2004 

La Grande Buffe

Jarlaskáldið liggur banaleguna. Það mætti til vinnnu klukkan 7 í morgun í litlu ástandi til þess, ástandið versnaði síðan til muna svo Skáldið fór fljótlega heim og liggur nú rúmfast og bíður þess óumflýjanlega. Hvað veldur? Fuglaflensa að öllum líkindum, baneitraður andskoti. Og af hverju fuglaflensa? Frá því er saga að segja.

Um helgina var haldin hátíð mikil: La Grande Buffe. Er þetta árviss viðburður hjá þeim ágæta félagsskap VÍN og markmið hans fyrst og fremst sá að éta á sig gat af góðum mat og fylla svo upp í gatið með brennivíni. Jafnan hefur hátíð þessi tekist vel, með einni ákveðinni undantekningu sem endaði m.a. með því að Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði að Jarlaskáldið væri sérlega ógnandi þegar það fer úr að ofan. Það vita reyndar allir sem séð hafa. Skemmst er frá því að segja að hátíðin tókst afar vel að þessu sinni. Jarlaskáldið hefur ekki lagt í vana sinn að segja skemmst frá neinum hlut svo farið verður heldur ítarlegar í atburði hér eftir. Vessgú:

Segja má að hátíðin hafi hafist um fimmleytið á föstudaginn. Áður höfðu reyndar verið haldnir nokkrir undirbúningsfundir þar sem ákveðið var hvar og hvenær hátíð skyldi haldin og hvað snæða skyldi. Bústaður Eflingar í Úthlíð varð fyrir valinu og skyldu étnar gæsir þar og fleira gott. Jarlaskáldið lagði af stað frá heimili sínu á Lilla á föstudaginn um fimm eins og fyrr segir, og byrjaði á að sækja þau Öldu og Andrésson. Lá leið vor svo í Bónus að kaupa í matinn og í mjólkurbúðina til að kaupa með matnum. Siðan var ekin stysta leið til Úthlíðar, yfir Mosfells- og Lyngdalsheiðar með smá matarstoppi á Laugarvatni og fundum við svo bústaðinn eftir stutta leit. Hann var allur hinn reisulegasti, með stóru svefnlofti, potti og öllu því sem við á að éta. Um svipað leyti og við renndum í hlaðið lögðu þeir Stefán og Vignir í hann frá bænum og til að stytta okkur biðina eftir þeim gláptum við fyrst aðeins á sjónvarp en spiluðum svo Manna sem Magnús var að tapa á sannfærandi hátt þegar þá fóstbræður bar að garði. Hún var sosum ekki merkileg dagskráin þetta kvöldið, potturinn var prufukeyrður og dreypt á einhverju áfengi, þar til fólk fór að sofa ýmist af ráðnum hug eða ekki.

Laugardagurinn heilsaði nú ekki beint með blíðviðri, þokumugga og rigning úti og gott ef ekki eilítill þokuslæðingur í hausnum á sumum. Að minnsta kosti afsakaði kvenmaðurinn í hópnum sig frá næsta dagskrárlið, jeppói, og bar við maga- og höfuðpínslum. Það voru því fjórir fílefldir karlmenn sem lögðu í hann upp úr hádegi á tveimur Súkkum. Var ætlunin að skoða Brúarárskörð sem áttu víst að vera ægilega flott. Upphaflega ætluðum við að fara leið frá Miðhúsaskógi en þar var allt lok, lok og læs svo við þurftum að fara lengri leiðina vestan við ána sem var reyndar bara hið besta mál. Þar var ágætis jeppó að finna með bröttum brekkum og grjóti og sandi og drullu og engu skyggni svo þetta var bara gaman. Eftir nokkurn spöl rákumst við á skilti sem vísaði á Högnhöfða og þóttumst við vita að Brúarárskörðin væru því á næsta leiti. Fylgdum því næst ógreinilegum slóða um sandsléttu uns við komum að Brúará og því ekki annað að gera en að brúka tvo jafnfljóta. Sem við og gerðum en fengum fljótlega á okkur fína dembu og urðum rennblautir svo við létum okkur nægja að rétt kíkja á undrin, maður getur þá a.m.k. sagst hafa verið þarna. Þar sem okkur er meinilla við að keyra sömu leið til baka var ákveðið að keyra áfram í átt að Hlöðufelli og fara Haukadalsheiðina heim. Fyrst lá leiðin um sand, það var gaman, og svo um hraun, sem var líka gaman, bara öðruvísi gaman. Fórum svo vestari leiðina kringum Hlöðufell (fórum nefnilega hina seinast), brunuðum eins og druslurnar drógu austur Haukadalsheiðina og niður að Geysi og þaðan aftur í Úthlíð. Fínasti bíltúr.
Okkur til talsverðra vonbrigða beið Alda ekki með heitt bakkelsi eftir okkur svo við þurftum bara að fá okkur bjór. Sumir settust að spilum og ýmist skíttöpuðu eða ekki, a.m.k var Jarlaskáldið duglegt við það. Svo fór fljótlega að fjölga í kotinu, fyrst mætti Gústi prúðbúinn og var aufúsugestur enda með matinn meðferðis. Á eftir honum kom svo restin af matargestum, þau herra og frú Pervert, frú Andrésson og Vífill. Magnús Blöndahl mætti ekki, og ef hann var með hiksta á laugardaginn veit Skáldið hví.
Vakti þónokkra athygli hve mikið var að gerast í lífi fólks, því af 10 matargestum voru fjórir u.þ.b. að skipta um vinnu og þrír aðrir nýbúnir að festa kaup á íbúðum og jafnvel húsum. When it rains it pours! En nú komum við aðalmálinu: matnum! Ef einn maður bar hitann og þungann af matseldinni mun sá maður vera Ágúst Sturla Jónsson. Ekki nóg með að hann hafi séð um að elda mestallan matinn, heldur sá hann um að skjóta stóran hluta hans, með einhverri hjálp þeirra Andréssonar og Vífils. Í forrétt var eitthvað sem hann kallaði gæsalærasúpu. Hún leit skringilega út, en boj ó boj, þvílík snilld sem þetta var! Til marks um það var hún gerasamlega kláruð, og sá Snorri um að sleikja restina úr súpuskálinni. Eina sem hægt er að segja slæmt um súpuna er að hún var allt of seðjandi, en sem betur fer var gert ágætis hlé fram að aðalréttnum. Þar kemur þáttur Jarlaskáldsins í matseldinni, því það sá um kartöflugratín og salat. Að vísu átti móðir þess mestan heiður af kartöflunum, en Skáldið sá a.m.k. um að nóg væri af rjóma og mozzarellaosti! Salatgerðina átti það svo skuldlaust, enda þarf nú ekki mikinn snilling til þess. Bara nógu mikinn fetaost, og allir eru sáttir. Gústi sá svo um þungavigtarhlutann, rauðvínssósu með villisveppum og perlulauk og steiktar gæsabringur auk skarfa. Það var síðan bara partí í munninum á manni þegar maður byrjaði að borða, alveg frábær matur og eiga Gústi og móðir Jarlaskáldsins lof skilið fyrir. Ókei, kannski á Skáldið líka hálft lof skilið. Ekki var þó allt búið enn, því þegar fólk hafði fengið að jafna sig smástund sá Alda um ís með Mars-sósu, klassík sem ekki klikkar. Úff, maður hefur nú oft kýlt vömbina af góðum mat en það er ANSI langt síðan maður fékk eitthvað í líkingu við þetta.
Eftir þessi stórafrek á sviði mataráts lá fólk á meltunni og hreyfði sig sem minnst, en reyndi af veikum mætti að lepja bjór og rauðvín. Það færðist síðan smám saman í aukana, og fljótlega var komið að næsta dagskrárlið, hinni árlegu afhendingu Bokkunnar! Hún er veitt þeim VÍN-verjum sem hafa þótt sýna sérlega góða eða slæma frammistöðu á ýmsum sviðum. Í fyrra voru veitt verðlaun fyrir Dauða, Aumingja, Óheppni og Friðarspilli ársins og þóttu verðlaunahafar allir vel að þeim verðlaunum komnir. Í ár voru aðeins veitt tvenn verðlaun (þó svo að Blöndudalur hefði væntanlega varið sinn titil hefði hann mætt). Annars vegar voru veitt verðlaun fyrir Hössl ársins, og hlaut sjálft Jarlaskáldið þau fyrir afrek sín á Þjóðhátíð í sumar sem þóttu einkar glæsileg. Pervertinn þóttist nú eiga tilkall til verðlaunanna, en fékk ekki, og fór fljótlega að sofa. Hin verðlaunin voru veitt fyrir Öræfaótta ársins, en þau hlaut sá einstaklingur sem þótti hafa sýnt verstu frammistöðuna í því að koma sér út úr bænum í sumar. Keppnin var hörð, en Gústi hafði þau á endanum og þótti vel að þeim kominn.
Eftir þetta var skipulagðri dagskrá lokið, og við tóku hefðbundin aðalfundarstörf í bland við pottasetur, spil og fleira í þeim dúr. Gerðist sosum ekkert merkilegt, svo vitað sé. Alltaf ágætt þegar ekki þarf að kalla til lögreglu...

Jarlaskáldið var seinast manna á fætur á sunnudeginum, sem var reyndar bara í kringum hádegi, sem sýnir að fólk var ekkert ofboðslega duglegt við aðalfundarstörfin. Svona er þetta með aukinni elli. Þeir fjórir sem síðastir komu á laugardeginum létu sig fyrstir hverfa og höfðu Andrésson með sér í kaupbæti. Hinir fimm voru nú ekki mikið að flýta sér, gláptu bara á sjónvarp og spiluðu fram eftir degi (aðallega hið stórkostlega spil Opinn Ólsen) en þrifu loks kofann og höfðu sig á brott á fjórða tímanum. Beint á KFC, vitaskuld, og var það góður endir á ansi frábærri ferð.

Jarlaskáldið var síðan bara við ágæta heilsu í gær, en í morgun tók það það þessa miklu sótt sem áður er sagt frá og miðað við hvað étið var um helgina er beinast að álykta að um fuglaflensu sé að ræða. Jarlaskáldið vill því þakka lesendum samfylgdina, blóm og kransar afþakkaðir, þeim sem vilja minnast hins látna er bent á, æ, Skáldinu er skítsama, það verður hvort eð er dautt...

Já, tveir nýir aumingjabloggar í ríki hinna dauðu. Skammist ykkar!

laugardagur, október 02, 2004 

Aumt er það!

Núnú, er svo illa komið fyrir Jarlaskáldinu að það notar laugardagskvöldin til að blogga? Þá er það af sem áður var. En áður en við við víkjum að ömurleika þessa kvölds skuldar Skáldið frásagnir af síðustu helgi og jafnvel meira til.

Jáhm, um síðustu helgi ætlaði Skáldið að bregða sér í Mörkina. Sem það og reyndi. Um frægarför þá hefur Stefán twist ritað skilmerkilega frásögn sem litlu er við að bæta, annað en það að honum láðist að nefna að Jarlaskáldið var lamið í hausinn með vasaljósi við Hagavatn svo á því sá. Árásarmaðurinn hefur enga iðrun sýnt.

Þar sem minna varð úr verki í ferð þessari en til var ætlast ákváðu ferðalangar á laugardagskvöldið að hittast í Logafoldinni, og grilla þar kjöt og drekka það öl sem átti að neyta í Mörkinni. Illu heilli var Jarlaskáldið látið sjá um að grilla, það varð svo hugfangið af þætti Gísla Marteins að það steingleymdi öllu öðru svo kjötið brann til kaldra kola. Engu að síður var það étið, með bestu lyst. Eitthvað var svo dreypt á öli fram eftir kvöldi, en í skammarlega litlu magni þó. Andrésson og frú litu við og síðar Gústi, og okkur til mikillar gleði sá pilturinn á hæðinni fyrir neðan um að við misstum ekki af Scooter-stemmningunni. Á öðrum tímanum var teitinni slúttað, og fólk fór bara heim. Dannað.

Síðan þá hefur alllítið verið af sér gjört. Jú, í gærkvöld fór Skáldið í kvikmyndahús, á mikla snilldarræmu, Dodgeball. Er það mikið fyndin mynd, og ef Skáldið hefði ekki séð Anchorman fyrir skemmstu fengi hún væntanlega titilinn "fyndnust". Og fólk, ekki labba strax út þegar myndin er búin. Það er þess virði að bíða.

Þá erum við komin til nútímans. Í dag svaf Skáldið mikið og lengi. Svo skellti það sér í smá bíltúr með Lilla, og komst að því að á leiðinni til Krýsuvíkur er hægt að keyra í gegnum 7 hringtorg á 1,8 kílómetra kafla. Hvað er að fólki!? Svo jeppaðist Skáldið aðeins, kíkti á Djúpavatn og Vigdísarvelli, og komu hugtökin "sparakstur" og "vistakstur" þar hvergi við sögu. Gaman. Síðan hefur fátt gerst.

Sumsé, tvær helgar í röð og lítið sem ekkert djammerí á Skáldinu. Það er líklega gott fyrir fjárhaginn, en engan veginn fyrir sálarheill Skáldsins. Úr því verður senn bætt, því sjá, Jarlaskáldið boðar yður mikinn fögnuð. Um næstu helgi verður nefnilega haldið hátíðlegt hið árlega "Grand Buffet" hins gríðarmerka félags VÍN. Verður hátíðin haldin á ótilgreindum stað í uppsveitum Árnessýslu og munu ófáar dýrategundir þar lagðar fólki til munns, margar þeirra í útrýmingarhættu. Verður þeim væntanlega skolað niður með einhverju göróttu svo það er eins gott að lagerinn sé fullur hjá Höskuldi. Þó át og drykkja sé aðalmarkmið hátíðar þessarar verður væntanlega ýmislegt fleira sér til dundurs gert, jeppadeildin hyggst legga í för á laugardeginum og svo er alltaf mikil spenna fyrir hinni árlega afhendingu "Bokkunnar", en þar á Skáldið titil að verja í ótilgreindum flokki. Svo er aldrei að vita hvort einhverjir bregði á leik, reyni aflraunir eða eitthvað þaðan af verra. Allavega, það verður meira um að vera næstu helgi en núna. Understatement of the year!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates