« Home | Gunni á leið heim í leigara með chilibát í farte... » | Maggi og Gunni að leysa vandamál heimsins » | Flottur Land Rover » | Stebbi gefur Willa að drekka » | Bjór » | Allt brjálað að gera í vinnunni » | Fröken Lilja » | Enn meiri Nauthólsvík » | Kaninn og Land Roverinn sem drukknaði » | Stebbi kaupir bensín í Hnakkaville » 

mánudagur, ágúst 16, 2004 

Af útlendingum, frænkum og öðru ómarkverðu

Jæja, þá er farið að sjá fyrir endann á þessu bévítans óveðri sem hefur hrellt mann undanfarna viku eða svo. Hefði sosum verið hið besta mál, hefði maður ekki verið lokaður inni á skrifstofu meirihluta tímans. Þó ekki alveg, eitt og annað hefur verið brallað þess á milli, og lítum á málið.

Á fimmtudaginn fékk bossinn í vinnunni loks nóg, og sendi Skáldið og fleiri heim upp úr hádegi, það væri einfaldlega mannvonska að láta mann vinna öllu lengur í þessum hita. Skáldið notaði tækifærið og fann reiðhjólið sitt gamla, sem hafði staðið óhreyft í ca. ár, og hjólaði niður í bæ. Í Nauthólsvíkinni voru fleiri hundruð þúsund manns, og voru teknar myndir af því og fleiru eins og sjá má hér fyrir neðan. Stoppaði Jarlaskáldið fyrst við Odda, þá hrákasmíð doktors Magga, þar sem Blöndudalur þykist vera að vinna. Vorum við síðan dregnir af Eyfa í ísbúð og honum sagðar Eyjasögur sem gaman var af. Að því loknu hélt Skáldið för sinni áfram, fyrst niður á Austurvöll sem var pakkaður, aðallega af fullum Skotum, en síðan heimleiðis. Um kvöldið lét það svo bjórþyrstan Stefáninn draga sig á Hverfisbarinn þar sem rifjuð var upp stemmningin í Eyjum með hjálp Hreims og Vignis og nokkurra ölkollna, þó þeim væri æði misskipt þar eð Skáldið var á bíl. Talandi um Lilla, undir hann hafa verið keyptir nýir demparar, og þegar þeir verða komnir undir verða honum aftur allir vegir færir. Júhú.

Á föstudaginn var síðan síðasti almenni vinnudagur Jarlaskáldsins hjá Norðurljósum, og í tilefni þess splæsti bossinn ís á liðið. Gott mál með ísinn, verra með hitt. Um kvöldið var Skáldið svo boðað í húllumhæ hjá Kjarra sem átti að vera strákapartí í tilefni veru Gunna Beib á Klakanum. Þangað mætti Skáldið ásamt Blöndudal upp úr sjö og var byrjað á að sporðrenna flatbökum sem ekki voru skornar við nögl. Aðrir en við fjórir voru ekki á staðnum fyrr en Oddi mætti upp úr níu og síðan Gísli og Lilja einhverju síðar. Soldið erfitt að kalla þetta strákapartí eftir það. Blöndudalur þóttist ætla að vera edrú en varð fullur á kostnað annarra, sniðugur strákur. Aðrir urðu ýmist fullir á eigin kostnað eða bara alls ekki. Ekki bar sosum mikið til tíðinda í teiti þessari, nema þá helst þegar frúr þeirra Kjarra og Gunna hringdu með áhugaverðar upplýsingar úr teiti að norðan þar sem menn höfðu verið að leggja saman tvo og tvo og finna það út að sumir eiga frænkur út um allar trissur og það jafnvel í Vestmannaeyjum. Þetta þótti öllum voða fyndið, og einhverra hluta vegna var það meira og minna á kostnað Jarlaskáldsins. Skrýtið. Eftir þessar upplýsingar reiknaði Skáldið það út að Ísland gæti ekki verið meira en 4 ferkílómetrar, lítið er það allavega.
Ekki svo síðla nætur örkuðum við fjórir sem gengið höfðum harðast fram í aðalfundarstörfum niður í bæ, sem var ekki langt þar sem Kjarri býr eiginlega niðri í bæ. Fyrst lá leið vor á Vegamót og tókst að slátra ófáum könnum þar, síðan á Celtic Cross þar sem eflaust bættist í sarpinn, og að lokum á sjálfan heimavöllinn. Þar var haldið alllengi út og sumir orðnir vígmóðir þegar líða tók að morgni. Héldum við Blöndudalur og Gunni Beib þá vitaskuld á Nonnabita þar sem bætt var á belginn en síðan tekinn leigari heim og Gunni látinn borga. Gott á hann.

Á laugardaginn var byrjað á því að skríða á lappir eins og lög gera ráð fyrir en síðan naut Jarlaskáldið þess að mæta á fréttavakt þar sem nákvæmlega ekkert var að gera. Easy money. Eftir það var boðið upp á grillaðan humar í matinn, og það er eiginlega fátt sem toppar það matarkyns. Ekki hafði Skáldið þó langan tíma til að sporðrenna honum því fljótlega mætti Stebbi Twist á svæðið á Willa og við brugðum okkur í ferðalag upp í Landmannalaugar. Um ferð þá hefur Stebbi ritað pistil einn ágætan og hefur Skáldið litlu við hann að bæta, enda segir piltur satt og rétt frá í öllum aðalatriðum. Ja, kannski ekki annað en það að taka undir orð hæstráðanda í Nauthólsvík, sem lét þau snjöllu orð falla í vikunni að því miður eru það yfirleitt ekki þeir sem eru best til þess fallnir sem eru jafnan hvað léttklæddastir. So true.

Og hvað svo? Jú, Skáldið hefur notið atvinnu- og iðjuleysis síðan það kom heim úr þessari ágætu ferð og til að byrja með benti fátt til þess að á því yrði breyting á næstunni. En þá skellur á manni ógæfan, nú lítur út fyrir að Skáldið þurfi jafnvel að stunda vinnu og það á næstunni. Allt mun það skýrast á næstu dögum, þangað til er ekki úr vegi að minna lesendur á drykkjuómenningarnótt um næstu helgi, oft var þörf en nú er möst...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates