« Home | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Damn! Það gat klikkað... » | Ágætis endurkoma Ojæja, á maður að gera tilraun t... » | Blogg dautt? Það er stóra spurningin. Tölvan er i... » | Handbendi Baugsveldisins? Ekki gat Jarlaskáldið h... » | Á toppi Snækolls í Tjellingafjöllum » | » | Ferðasagan sem beðið var eftir! Eins og myndirnar... » | Af hellulögn Ferðasagan er í vinnslu...en hér eru... » 

miðvikudagur, júní 30, 2004 

Af bruna og bleytu og bjór og fullt af drasli sem byrjar á b

Jarlaskáldið er með latasta móti í blogginu um þessar mundir, margar ástæður fyrir því, mikið að gera í vinnunni (yeah right!), of mikill fótbolti í sjónvarpinu, en þó fyrst og fremst leti. Kemur það kannski ekki að sök þar sem teljarinn bendir til að það sé u.þ.b. enginn að lesa þetta lengur. Ojæja, til þess var leikurinn svo sem aldrei gerður. Væri reyndar gaman að vita til hvers leikurinn var gerður. Humm?
Ekki hefur Jarlaskáldið verið aðgerðalaust þrátt fyrir alla letina, því líkt og þess er von og vísa brá það sér út fyrir bæjarmörkin um helgina. Frá því er saga að segja.

Um síðustu helgi hafði samkvæmt venju verið ráðgert að arka yfir eitt stykki Fimmvörðuháls og enda inni í Mörk og gera sér þar glaðan dag. Þegar leið á vikuna varð það síðan æ augljósara að veðurguðunum hugnaðist þessi áætlan engan veginn, Veðurstofan sendi út stormviðvörun og nánast bannaði fólki að leggja á Hálsinn. Varð það enda raunin að hætt var við för þessa.
Koma þá til sögunnar drengir tveir. Frægir eru þeir að ýmsu, og misgóðu, og er eitt af því óskynsamleg bjartsýni þegar kemur að ferðalögum. Varð það nefnilega að samkomulagi þeirra í millum þegar nokkuð var á föstudag liðið og enginn ætlaði í ferðalag að leggja bara tveir í hann inn á Þórsmörk og gera það besta úr því, fullvissir um þar yrði bongóblíða og að veðurfræðingar væru bara klikk.
Var lagt af stað á áttunda tímanum og var fararskjótinn hinn 22 ára gamli
Willy. Gekk ferðalagið vel í fyrstu, ekið yfir Heiðina og fram hjá Hnakkaville, en stuttu síðar kom babb í bátinn. Fór Willy þá allt í einu að ræskja sig og hósta og láta öllum illum látum. Sagði föðureðli eigandans umsvifalaust til sín og ekið inn næsta bæjarafleggjara til að kanna málið. Þegar staðnæmst var gaus svartur reykur upp úr húddinu og þegar lokið var opnað kom vandamálið berlega í ljós; vélin stóð í ljósum logum!
Varð það okkur til happs að slökkvitæki var með í för og tókst eigandanum með snarræði að slökkva bálið á mettíma. Var síðan tekið til við að kanna skemmdir og reyndust þær furðulitlar, leiðsla frá rafgeyminum yfir í eitthvað gizmotæki utan á honum hafði brunnið og í raun fátt annað. Var því bara kippt af og sko til, Willy var hinn hraustasti og okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram svona þegar hjartað var komið nægilega upp úr buxunum. Þetta má kalla að sleppa með skrekkinn.
För var haldið áfram og sosum ekki margt til tíðinda þar. Þegar inn á Mörk var komið var vitaskuld ausandi rigning og því dálítið í ánum en ekkert til vandræða. Inni í Básum fundum við okkur svo tjaldstæði í fínu skjóli eftir nokkra leit, drifum okkur í texið, húrruðum upp tjöldum og dreyptum svo á eilitlum bjór í góðu skjóli Willa. Engin stórafrek voru gerð þetta kvöld, gerður var rannsóknarleiðangur um svæðið og einhverjum boðið í nefið, en svo haldið í svefn um þrjú og sofið meðan regnið buldi á tjöldunum.

Var gert nokkuð vel í því að sofa. Reyndar svo vel að ekki sáust menn gægjast út úr tjöldum fyrr en á þriðja tímanum. Fór dagurinn að mestu í smá rúnta um svæðið, ýmist á Willa eða fótgangandi, og var alls staðar hífandi rok nema í Básum, og einnig var rigningin orðin allstopul. Þau boð bárust úr bænum að von væri á liðsauka þaðan, en þó ekki fyrr en að loknum leik, svo við Stefán hófum hefðbundin aðalfundarstörf bara tveir og aftur í góðu skjóli Willa. Eftir ágætis undirbúning lá leiðin svo í partítjald eitt stórt hvar stór hópur frá Útivist skemmti sér við gítarleik og söng og vorum við aufúsugestir þar. Liðsaukinn barst svo að lokum, voru þar á ferð Andrésson, Gústi, Vignir og Toggi ásamt Svenna nokkrum og pari einu hvert Skáldið ei þekkti. Fóru svo aðalfundarstörf fram með hefðbundum og minna hefðbundnum hætti uns menn lágu örendir.

Sunnudagurinn heilsaði enn og aftur með rigningu og safnaðist hópurinn því inni í risastóru fjölskyldutjaldi þegar hver og einn vaknaði en stuttu síðar hætti að rigna og komin hin ágætasta blíða. Var þá dregið upp grill og þær pylsur sem fundust etnar. Svo var legið í leti í blíðunni undir fögrum undirleik Árna Johnsen, William Hung og fleiri góðra manna uns draslið var tekið saman upp úr 4 og haldið heimleiðis. Ekki gerðist fleira merkilegt, nema það að Skáldið hélt sig lesa andlátsfregn Fjölnis Þorgeirssonar á Hellu er það fletti Fréttablaðinu. Það reyndist því miður mislestur.


Ekki hefur Skáldið fengið nóg af Þórsmörkinni, heldur betur ekki, því eins og teljarinn hér til vinstri sýnir styttist óðum í „Helgina“, FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Það verður stuð, og allir þeir sem af því missa munu aldrei fyrr né síðar fylla upp í það tóm í lífi þeirra sem það veldur. Taki þeir það til sín sem vilja. X-rated ferðasaga eftir helgina, bíddu spenntur lesandi góður! (Ekki að ástæðulausu að þetta var í eintölu)

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates