« Home | » | Vignir að sulla » | Lilli fer hamförum yfir Krossána » | Jarlaskáldið við skiltið góða í Innra-Slyppugili » | Bekkurinn! » | Súkkurnar við tjaldstæðið í Básum » | Stebbalingur að pakka saman » | » | Alltaf stuð að leggja kapal í útilegum » | Enn eitthvað smá eftir af Gígjökli » 

mánudagur, maí 24, 2004 

Hvað gerðist á uppstigningardag? Jú, Skáldið fór í Mörkina

Þá er það helgarbloggið. Það verður stutt að þessu sinni, því Jarlaskáldið gerði lítið sem ekkert af sér um helgina, eyddi heldur tímanum í að efla tengslin við sinn gamla vin sjónvarpið. Á föstudagskvöldið brá Skáldið sér reyndar út og fór á bílasölurúnt með viðkomu í ísbúð en á laugardaginn var það ekki einu sinni svo atorkusamt. Einhverjir óprúttnir aðilar reyndu m.a.s. að narra Skáldið til að rúnta upp á Snæfellsnes til að rölta þar upp á jökul en Skáldið lét ekki plata sig til þess, horfði bara á Popppunktinn og annað misgott. Ágætis helgi í alla staði, en líklega sú síðasta um skeið sem Skáldið situr með hendur í skauti í Reykjavíkurborg. Meira um það síðar.
Þó Jarlaskáldið hafi verið letingi og liðleskja um helgina er ekki þar með sagt að frá engu sé að segja, því eins og glöggir lesendur gætu hafa giskað á út frá yfirskrift þessa pistils brá Skáldið sér Í Þórsmörkina í miðri viku. Þeirri ferð hefur reyndar verið gerð nokkur grein í myndum hér neðar á síðunni, en þá á eftir að bæta við máli. Bætum úr því.

Megintilgangur Þórsmerkurfarar að þessu sinni var eins og oft áður undirbúningur fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Að mörgu er að huga í þeim efnum, t.d. sjá hvort leiðin sé fær, hvernig ár liggja, kanna ástand bekkjar og kamars, og ótal önnur smærri en þó ekkert síður mikilvæg verkefni. Einnig var í tilfelli Jarlaskáldsins sá tilgangur með förinni að vígja Lilla í vatnsföllum Þórsmerkur. Eftir þónokkra ranga misskilninga varð lendingin sú að það voru fjórir meðlimir miðstjórnar skemmtinemdar undirbúningsnemdar eftirlitsdeildar auk eins fulltrúa hreingerningadeildar sem lögðu í hann á áttunda tímanum á miðvikudagskvöld á tveimur Súkkum, áðurnefndum Lilla og síðan Hispa hans Vignis. Ekki bar mikið til tíðinda á oftáðurkeyrðum Suðurlandsveginum, stopp var gjört að Hlíðarenda og reynt að komast til botns í nýstárlegum afgreiðsluaðferðum þar auk þess að birgja menn og konur eldsneyti, en svo bara haldið áfram og það vandkvæðalaust. Við Stóru-Mörk var Súkkum skellt í lokur og síðan brunað inn í Mörk yfir fremur holóttan veginn (sem er þó skárra en að malbika draslið) og síðan stoppað uppi við Lón. Lónsáin var minni en ekki neitt og Steinsholtsáin reyndar líka þegar að henni var komið, lítið fútt fyrir Lilla. Hvanngilsáin var síðan út um allt eins og hennar er von og vísa og þar eð leiðin lá inn í Bása var ekki um fleiri sprænur að ræða í bili. Í Básum var rólegt um að vera, stóri skálinn fullur af einhverjum Svíum með víðaáttufælni á háu stigi svo ekki höfðum við afskipti af þeim, heldur fundum okkur tjaldstæði í fínu rjóðri, enda fátt betra en að tjalda þegar hitinn er við frostmark.
Fyrsta mál á dagskrá var að tjalda en síðan rifið upp grill og grillaðir borgarar og kjúlli. Vignir lagði hreint æsispennandi kapal meðan á þessu öllu stóð. Fagrir tónar krakkanna í Pixies fengu að hljóma yfir borðhaldi og eitthvað fram yfir það, og leið kvöldið svo við rólegheit og hæfilega rómantík enda kynjahlutföll til slíks ekki beysin. Þess ber að geta að Skáldið svaf eitt í tjaldi, ólíkt öðrum. Það þýðir ekki nema eitt: hómóerótík.
Á fætur var farið á skikkanlegum tíma og eftir hefðbundin morgunverk var tjöldum pakkað saman enda byrjað að yrja úr lofti, og var það snjór en ekki rigning. Að því loknu var komið að stóru stundinni, að vígja Lilla í Krossánni og sinna síðan nauðsynlegum nemdarstörfum. Skemmst er frá því að segja að Lilli fór létt með Krossána, sem var að vísu með minnsta móti, en samt er samt. Í Bolagilinu virtist allt vera eins og það á að vera, reyndar mætti slá þar gras fyrir hátíðina en annars allt eins og best verður á kosið og fátt því til fyrirstöðu að halda þar veglega árshátíð í júlíbyrjun. Má það að sjálfsögðu fyrst og fremst þakka undirbúningsnemdinni sem unnið hefur óeigingjarnt starf mánuðum saman svo halda megi góða hátíð, skál fyrir henni!
Á heimleiðinni tók karlkyns meirihluti ferðalanga sig til og rölti upp að Steinsholtsjökli til að sjá þar Steinsholtslón, en þar var bara ekkert lón, og þótti sumum það svindl. Eftir þá fýluferð var ekið að Hellu þar sem karlkyns meirihlutinn brá sér í sund, eftir það etnar pylsur en síðan ekið heim, og er þá ekki frá fleiru að segja af þessari ágætu ferð.

Í tilefni af viðburðum dagsins í dag ætlar Jarlaskáldið að ganga í Banana Republic fötum út þessa viku. Tak för.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates