Júróhelgarblogg
Að sögn hafa færustu bókmenntafræðingar komist að ákveðinni niðurstöðu um þessa ákveðnu bloggsíðu. Lýtur það að hinum svokölluðu helgarbloggum. Jarlaskáldið birtir sem kunnugt er jafnan fróðlega pistla um atburði hverrar helgar, og mynda þeir ásamt miðvikubloggum kjölfestuna í skrifunum. Er niðurstaða bókmenntafræðinganna sú, að því meir sem helgin reynir á þrek Jarlaskáldsins, því síðar birtist helgarpistillinn. Sumsé, ef lítið er um að vera má búast við helgarbloggi svo snemma sem á sunnudagskvöldi, en ef skemmtanalífið hefur verið heimsótt er vart að vænta þess fyrr en á mánudegi. Nú er komið þriðjudagskvöld, líkt og segir frá í frægu kvæði Fóstbræðra, og enn bólar ekkert á helgarbloggi. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á.
Og jú, eitthvað gekk á um helgina. Fór þó rólega af stað. Jarlaskáldið leit við hjá herra Magnúsi Andréssyni ásamt Stefáni nokkrum Twist á föstudagskvöldið og var þar glápt á annars vegar tónleika með Rammstein og hins vegar myndbönd með hinni nýrómantísku sveit Depeche Mode. Vorum við þó eilítið truflaðir af óvæntri heimsókn göngugarpsins Halla Kristins og síðar mætti Magnús Blöndahl, en hans truflun var þó ágæt þar eð hann skutlaði Skáldinu heim einhverju eftir miðnætti. Fer eigi meiri sögum af kvöldi því.
Laugardagur rann eflaust upp bjartur og fagur, Skáldið veit minnst um það, það var sofandi. Stuttu eftir hádegisbil skreið það þó á lappir en hafði enga vanheilsu sér til málsbóta. Ekki fer miklum sögum af því næstu tímana, en ekki leið á löngu fyrr en það var mætt á Players til að horfa á Liverpool-Newcastle. Missti að vísu af fyrri hálfleik, en náði þeim betri. Stórmeistarajafntefli.
Þegar Skáldið kom aftur heim tók það til við að útbúa geisladisk einn hlaðinn gömlum smellum úr ákveðinni söngvakeppni til spilunar síðar um kvöldið, og að því og þrifum og bóni loknu hélt Skáldið í Kópavoginn að sækja perrann gamla. Lá svo leið í kjörbúð að kaupa ket en þaðan til Logafoldargreifans er bauð til Júróvisjónveislu. Varð þar múgur og margmenni áður en yfir lauk, og gaman talsvert. Forvitna stelpan skrópaði þó, sem voru vonbrigði. Grillaði Skáldið ket sitt og át og drakk talsvert öl með. Varð það af því allhýrt, þó ekki í þeim skilningi sem Júróvisjónkeppnin er allhýr. Hvað um það. Að sjálfsögðu spáði Jarlaskáldið rétt fyrir um sigurvegara og var Rúslana vel að titli sínum komin. Upp úr ellefu sendi Jarlaskáldið myndir á síðuna, má sjá þær hér að neðan og gefa vísbendingu um stemmninguna. Var svo að keppni lokinni ýmist setið eða staðið og jafnvel tekin smá valhopp þegar vel lá á mönnum, gekk það stórvandræðalaust þótt ýmsir væru lítt færir til slíkra verka. Að endingu lá síðan leiðin niður á láglendið, líkt og reyndar hjá flestum Reykvíkingum og nærsveitamönnum sé miðað við mannhafið í bænum. Telst Skáldinu til að það hafi komið við á flestum ef ekki öllum skemmtistöðum miðborgarinnar áður en yfir lauk, týndi það að sjálfsögðu samferðamönnum sínum fljótlega og afrekaði eflaust ýmislegt sem lygilegt myndi teljast.
Að endingu rataði Jarlaskáldið að sjálfsögðu inn á Nonnann, að vísu var búið að loka en Nonninn skellir ekki hurðum á fastagesti svo Skáldið fékk sinn bát. Var svo næsta mál á dagskrá að finna leigubíl, sem um þetta leyti var óðs manns æði, svo að Skáldið ákvað bara að njóta blíðviðrisins og arka áleiðis heim. Eftir þó nokkuð rölt fór því að að finnast róðurinn vera að þyngjast en var þá svo heppið að rekast á leigubíl sem skutlaði því síðasta spölinn. Ekki var þó allt búið enn, því þegar að útidyrahurðunum heima var komið varð Skáldið þess áskynja að það var ekki í neinum jakka, sem það var þó nokkuð öruggt um að hafa verið í fyrr um kvöldið, og auk þess án húslykla. Ekki dó Skáldið ráðalaust heldur rifjaði upp löngu gleymda klifurtakta og vippaði sér inn um glugga eins og ekkert væri. Þetta síðastnefnda er reyndar lygi, þess bera skeinur á löppum vitni. Smellti Skáldið sér svo fyrir framan sjónvarpið, skellti Simpsons á og man fátt ef nokkuð fyrr en SEINT næsta dag.
Best að hafa sem fæst orð um sunnudaginn, hann var ekki góður. Skáldið var ekki óhresst, en ekki heldur hresst. Þeir skilja sem sáu.
Þess má geta að bæði húslyklarnir og jakkinn eru komnir í leitirnar.
Hvað er það næsta sem manni dettur í hug eftir svona skrall? Að endurtaka leikinn? Já og nei. Á morgun er flöskudagur en ekki ætlar Skáldið að líta niður á láglendið á lendur skemmtanalífsins, heldur þvert á móti, stefnan er tekin út úr bænum og jafnvel bara í Mörkina. Það sé alltaf stuð.
Eilitlar breytingar hafa verið gerðar á bloggaralistanum. Ármann og Ása hafa fengið sinn gamla sess, enda messa menn ekki við Formann Heilbrigðis- og Siðgæðisnefndarinnar. Það veit formaður FUÁHS.
Að sögn hafa færustu bókmenntafræðingar komist að ákveðinni niðurstöðu um þessa ákveðnu bloggsíðu. Lýtur það að hinum svokölluðu helgarbloggum. Jarlaskáldið birtir sem kunnugt er jafnan fróðlega pistla um atburði hverrar helgar, og mynda þeir ásamt miðvikubloggum kjölfestuna í skrifunum. Er niðurstaða bókmenntafræðinganna sú, að því meir sem helgin reynir á þrek Jarlaskáldsins, því síðar birtist helgarpistillinn. Sumsé, ef lítið er um að vera má búast við helgarbloggi svo snemma sem á sunnudagskvöldi, en ef skemmtanalífið hefur verið heimsótt er vart að vænta þess fyrr en á mánudegi. Nú er komið þriðjudagskvöld, líkt og segir frá í frægu kvæði Fóstbræðra, og enn bólar ekkert á helgarbloggi. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á.
Og jú, eitthvað gekk á um helgina. Fór þó rólega af stað. Jarlaskáldið leit við hjá herra Magnúsi Andréssyni ásamt Stefáni nokkrum Twist á föstudagskvöldið og var þar glápt á annars vegar tónleika með Rammstein og hins vegar myndbönd með hinni nýrómantísku sveit Depeche Mode. Vorum við þó eilítið truflaðir af óvæntri heimsókn göngugarpsins Halla Kristins og síðar mætti Magnús Blöndahl, en hans truflun var þó ágæt þar eð hann skutlaði Skáldinu heim einhverju eftir miðnætti. Fer eigi meiri sögum af kvöldi því.
Laugardagur rann eflaust upp bjartur og fagur, Skáldið veit minnst um það, það var sofandi. Stuttu eftir hádegisbil skreið það þó á lappir en hafði enga vanheilsu sér til málsbóta. Ekki fer miklum sögum af því næstu tímana, en ekki leið á löngu fyrr en það var mætt á Players til að horfa á Liverpool-Newcastle. Missti að vísu af fyrri hálfleik, en náði þeim betri. Stórmeistarajafntefli.
Þegar Skáldið kom aftur heim tók það til við að útbúa geisladisk einn hlaðinn gömlum smellum úr ákveðinni söngvakeppni til spilunar síðar um kvöldið, og að því og þrifum og bóni loknu hélt Skáldið í Kópavoginn að sækja perrann gamla. Lá svo leið í kjörbúð að kaupa ket en þaðan til Logafoldargreifans er bauð til Júróvisjónveislu. Varð þar múgur og margmenni áður en yfir lauk, og gaman talsvert. Forvitna stelpan skrópaði þó, sem voru vonbrigði. Grillaði Skáldið ket sitt og át og drakk talsvert öl með. Varð það af því allhýrt, þó ekki í þeim skilningi sem Júróvisjónkeppnin er allhýr. Hvað um það. Að sjálfsögðu spáði Jarlaskáldið rétt fyrir um sigurvegara og var Rúslana vel að titli sínum komin. Upp úr ellefu sendi Jarlaskáldið myndir á síðuna, má sjá þær hér að neðan og gefa vísbendingu um stemmninguna. Var svo að keppni lokinni ýmist setið eða staðið og jafnvel tekin smá valhopp þegar vel lá á mönnum, gekk það stórvandræðalaust þótt ýmsir væru lítt færir til slíkra verka. Að endingu lá síðan leiðin niður á láglendið, líkt og reyndar hjá flestum Reykvíkingum og nærsveitamönnum sé miðað við mannhafið í bænum. Telst Skáldinu til að það hafi komið við á flestum ef ekki öllum skemmtistöðum miðborgarinnar áður en yfir lauk, týndi það að sjálfsögðu samferðamönnum sínum fljótlega og afrekaði eflaust ýmislegt sem lygilegt myndi teljast.
Að endingu rataði Jarlaskáldið að sjálfsögðu inn á Nonnann, að vísu var búið að loka en Nonninn skellir ekki hurðum á fastagesti svo Skáldið fékk sinn bát. Var svo næsta mál á dagskrá að finna leigubíl, sem um þetta leyti var óðs manns æði, svo að Skáldið ákvað bara að njóta blíðviðrisins og arka áleiðis heim. Eftir þó nokkuð rölt fór því að að finnast róðurinn vera að þyngjast en var þá svo heppið að rekast á leigubíl sem skutlaði því síðasta spölinn. Ekki var þó allt búið enn, því þegar að útidyrahurðunum heima var komið varð Skáldið þess áskynja að það var ekki í neinum jakka, sem það var þó nokkuð öruggt um að hafa verið í fyrr um kvöldið, og auk þess án húslykla. Ekki dó Skáldið ráðalaust heldur rifjaði upp löngu gleymda klifurtakta og vippaði sér inn um glugga eins og ekkert væri. Þetta síðastnefnda er reyndar lygi, þess bera skeinur á löppum vitni. Smellti Skáldið sér svo fyrir framan sjónvarpið, skellti Simpsons á og man fátt ef nokkuð fyrr en SEINT næsta dag.
Best að hafa sem fæst orð um sunnudaginn, hann var ekki góður. Skáldið var ekki óhresst, en ekki heldur hresst. Þeir skilja sem sáu.
Þess má geta að bæði húslyklarnir og jakkinn eru komnir í leitirnar.
Hvað er það næsta sem manni dettur í hug eftir svona skrall? Að endurtaka leikinn? Já og nei. Á morgun er flöskudagur en ekki ætlar Skáldið að líta niður á láglendið á lendur skemmtanalífsins, heldur þvert á móti, stefnan er tekin út úr bænum og jafnvel bara í Mörkina. Það sé alltaf stuð.
Eilitlar breytingar hafa verið gerðar á bloggaralistanum. Ármann og Ása hafa fengið sinn gamla sess, enda messa menn ekki við Formann Heilbrigðis- og Siðgæðisnefndarinnar. Það veit formaður FUÁHS.