« Home | 10 ár » | Músík ársins » | Músík ársins » | 2009 » | Árið 2008 í myndum » | Lilli er látinn » | París » | Lance Armstrong » | St. Anton » | Árspistill » 

þriðjudagur, desember 18, 2012 

Músík ársins


Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.

Ásgeir Trausti - Heimförin: Þessi gaur kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf í vor, svo beitt sé gömlum og góðum klisjum, og fyrsta platan hans er alveg fáránlega góð. Þetta er svona "live" stúdíóútgáfa af Heimförinni, ef maður lokar augunum er þetta bara alveg eins og Jeff Buckley á íslensku. Það er hægt að fá verri samanburð.

M83 - Midnight City: Þetta var besta lag síðasta árs skv. hipsterabiblíunni Pitchfork, en ég heyrði það ekki fyrr en í kringum áramótin svo það sleppur inn á listann. Óneitanlega ansi gott lag, þótt ég geti ekki sagt að ég hafi hlustað á margt annað með þessum eflaust geðþekku Frökkum.

Gabríel - Gleymmérei (feat. Emmsjé Gauti og Björn Jörundur): Huldumaðurinn Gabríel (sem ég veit reyndar hver er, þetta er víst bara Doddi) fór að gefa út lög einhvern tíma snemma á árinu og af þeim þrem sem ég hef heyrt var þetta best, þótt öll hafi verið fín. Eitthvað sumarstuð í þessu.

Washed Out - Amor Fati: Annað lag sem ég uppgötvaði í gegnum Pitchfork um áramótin, og sleppur því inn. Kom skemmtilega á óvart að sjá myndbandið við það, ef maður vill komast í sumarskap er nóg að skella þessu lagi á.

Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar - Hafið er svart: Ég held svei mér þá að Jónas Sigurðsson sé orðinn einn besti tónlistarmaður Íslands. Í það minnsta einn sá iðnasti og hugmyndaríkasti. Þegar ég heyrði þetta lag fyrst fannst mér það skrýtið. Í annað skiptið fannst mér það frábært. Það hefur ekkert breyst, þótt ég hafi hlustað óhóflega oft á það. Lag ársins.

The Black Keys - Lonely Boy: Frábært lag, stórkostlegt myndband. Þarf að fara að æfa þennan dans.

Kiriyama Family - Weekends: 80's popp frá Selfossi. Það hljómar ekki vel. En svei mér þá, það svínvirkar!

The Rapture - How Deep Is Your Love: The Rapture að covera Bee Gees? Nei, ekki alveg. Ekki að það hefði ekki örugglega verið magnað.

Moses Hightower - Sjáum hvað setur: Ég hef aldrei verið sérstaklega heitur fyrir Moses Hightower, þrátt fyrir að vera einlægur aðdáandi Police Academy myndanna, en þetta gera þeir bara nokkuð vel. Sjáum hvað setur...

Loreen - Euphoria: Ég ætla ekki einu sinni að reyna að verja þetta val. Ég bara fílaði þetta lag og hananú!

Retro Stefson - Glow: Hljómsveitin er búin að "víkka út sinn hljóðheim" svo ég dragi aftur fram klisjurnar, og þótt það hafi tekið mig örlítinn tíma að kveikja á þessu er það komið núna og vel rúmlega það.

The National - About Today: Hélduð þið virkilega að ég myndi setja saman best of lista án þess að hafa The National með? Það er reyndar langt síðan það kom nýtt efni frá þeim, og alveg kominn tími á það, en þeir voru með þetta lag í einhverri MMA-mynd sem ku hafa verið góð. Allavega er lagið fjári gott.

Sólstafir - Fjara: Drungi og djöfuldómur. Kannski ekki hressandi, en þetta er eitthvað.

Fun - We Are Young: Þetta er hins vegar hressandi, þótt það sé ekkert mikið meira en það. Ekki svo lítið afrek á þessum síðustu og verstu tímum.

Tilbury - Tenderloin: Íslensk "súpergrúppa" sem kom fram í sviðsljósið einhvern tíma á vormánuðum. Það er eitthvert þunglyndisstuð í þessu, ef það er þá til. Kannski voru þeir að uppgötva það. Þá eiga þeir þakkir skildar fyrir.

Mumford & Sons: Það er ágætisregla í öllum "best of" lagalistum að þar sé að minnsta kosti eitt lag með banjói. Þá er það frá...

Úlfur úlfur - Ég er farinn: Íslenskt rap rave, las ég einhvers staðar. Þá veit ég hvernig það hljómar, ekkert svo illa.

Jack White - I'm Shakin': Kauði gaf út plötuna Blunderbuss á árinu, og þótt mér hafi ekki fundist neitt lag alveg "æðislegt" þá voru nokkur ansi góð svo hann á skilið að fá lag á listann. Valdi þetta, hefði alveg getað valið eitthvert annað.

Valdimar - Yfir borgina: Hef lítið um þetta að segja. Þetta er bara gott lag. 'Nough said.

Rudimental - Not Giving In: Þegar maður horfir á Daily Show á netinu (sem ég geri ansi oft) koma yfirleitt auglýsingar á milli dagskrárliða, og síðustu mánuði hefur MTV endalaust verið að kynna einhverjar hljómsveitir í þeim. Í ágúst var Of Monsters and Men, svo kom einhver Carly Rae Jepsen, þá Karmin og loks eitthvað sem hét Rudimental. Þeir/það/hann voru með eina lagið sem ég fékk ekki leiða á undir eins. Og nú finnst mér það gott. Damn You, MTV!

Og ef einhvern langar í öryggisafrit af þessum lögum má nálgast þau hér, og hér eru þau öll saman komin á Jútúb. Góðar stundir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates