föstudagur, janúar 31, 2003 

Lengsta partýblogg sögunnar!!!


Jamm, þá er bara komið að því, lengsta partýblogg gervallrar mannkynssögunnar er um það bil að hefjast. Segir þar af afrekum Jarlaskáldsins og félaga þess á erlendri grund, og ætti ef allt fer vel að verða ágætis lesning. Væri því rétt fyrir lesendur að ná sér í eitthvað nesti, bæði vott og þurrt, því þeir munu eflaust verða svangir og þyrstir áður en yfir líkur. Einnig væri óvitlaust að prenta söguna bara út og hafa með sér á náðhúsið, margt vitlausara en það. Þess ber að geta áður en lagt er í hann að sagan byggir alfarið á minni sagnaritarans, sem hefur í gegnum tíðina ekki alltaf þótt hið áreiðanlegasta. Vonandi er þetta þó í meginatriðum rétt, og þyki einhverjum sagan ótrúleg skal það tekið fram að sagnaritari dregur frekar úr en hitt. En jæja, hefjum þá söguna...


1. dagur – 15. janúar – Flogið út!

Jarlaskáldið svaf öllu lengur en venjulega þennan dag, enda engin vinna og bara gaman. Af hverju gaman? Júbb, Skáldið var á leiðinni út klukkan fjögur, til skíðasvæðisins Val di Fiemme í ítölsku Dólómítunum. Búið að eyða hverri einustu krónu og rúmlega það í að græja sig upp til að líta ekki út eins og fífl í brekkunum, og einnig búið að redda sér 400 evrum til að eyða í brennivín á staðnum. Ekki nóg. Seinni tíma vandamál.
Skáldið pakkaði öllu draslinu niður, passaði sig á að hafa nóg af hlýjum fötum, það átti að vera kalt þarna. Var svo bara ekert kalt. Tók allt of mikið drasl með, 22 kíló. Þurfti samt ekki að borga extra á vellinum. Hjúkk! Skáldið kvaddi familíuna, alls óvisst um að sjá hana nokkrum sinnum aftur, en þó fullt eftirvæntingar, eðlilega. Keyrði upp í Heiðarásinn, með smá viðkomu hjá Öldu, maður þurfti nú að hafa kvenmanninn með. Þar tók Vignir Jónsson vel á móti liðinu, og hann og Stefán Twist byrjaðir á fyrsta bjórnum. Jarlaskáldið gat því miður ekki fetað í þau fótspor, þurfti að sækja stóra bró niður í bæ, hann átti að skutla Skáldinu á völlinn. Þegar aftur var komið í Heiðarásinn voru þeir Toggi og Magnús frá Þverbrekku einnig mættir, og liðið því fullskipað, svo ekki var eftir neinu að bíða, heldur brunað út á völl. Var sú ferð tíðindalítil, en draga tók til tíðinda þegar inn í flugstöðina var komið. Þar hitti hópurinn síðasta manninn í hópnum, Vífil að nafni, en hann þekkti Jarlaskáldið ekki neitt þegar þarna var komið sögu. Var sá einnig með snjóbretti í för, sem hann hafði pakkað afar vandlega inn svo ekki sé meira sagt. Vífill mun koma meira við sögu í frásögn þessari. Við tékkuðum okkur inn eftir nokkra bið, og fékk Jarlaskáldið gluggasæti, gaman að því. Svo vopnatékkið, og þá loksins gat Skáldið farið upp rúllustigann og komist á barinn. Sem var og gjört. Á milli þess sem Skáldið sat við barinn leit það inn í fríhöfn, þar fauk 10.000 kall í einhvern óþarfa, en sat það þó mestmegnis við barinn þessa tvo tíma fram að flugi. Fór vélin svo í loftið um fjögurleytið, og varð flugferðin nokkuð skrautleg, aðallega vegna ókyrrðar. Ókyrrðin var svo sem ekkert vandamál, það var bara ekki sörveraður bjór þennan klukkutíma eða svo sem hún stóð yfir. Kannski eins gott, sumir orðnir aðeins slompaðir. Maturinn furðu góður, heitur kjúlli.
Lent var í Verona stuttu fyrir níu að ítölskum tíma. Þar var sama rútínan og venjulega, löng bið eftir farangri, enda Ítalir frekar rólegir að eðlisfari. Fyrir utan flugstöðina biðu fjórar rútur, og voru tvær merktar Val di Fiemme, hinar Madonna svæðinu. Komum við okkur makindalega fyrir aftast í annarri Val di Fiemme rútunni, og svo var haldið af stað. Fararstjórinn kynnti sig fljótlega til sögunnar, Einar hét hann, og malaði síðan svo að segja stanslaust þessa þrjá tíma sem ferðin tók. Annars frekar tíðindalítil rútuferð, enda kolniðamyrkur og ófáir sofandi í rútunni, en þó ekki VÍN-liðið, sem komið var hátt á tug bjóra per capita þegar ferðinni var lokið. Síðasti klukkutíminn reyndar smá fjör, keyrt upp snarbrattar hlíðar með ófáum 180 gráðu beygjum á vegum sem sprengdir höfðu verið inn í nær þverhnípta fjallshlíð. Eitthvað fyrir vegamálanörda bloggheima að kynna sér. Sem betur fer kolniðamyrkur fyrir þá lofthræddu. Á leiðinni kynnti sig fyrir hópnum tannlæknir frá Akureyri. Hann var leiðinlegur. Hvað er þetta með tannlækna frá Akureyri, eru þeir allir svona, sbr. flugdólgurinn okkar á baðsloppnum? Tannlæknirinn hvarf reyndar snemma heim, fyrir mikla kaldhæðni örlaganna.
Á hótelið var komið á öðrum tímanum, og boðið upp á rúnstykki með Parmaskinku fyrir háttinn. Ekki síðasta Parmaskinkan sem etin var í þessari ferð. Hótelið var stórglæsilegt að sjá, og var Jarlaskáldinu skipað í herbergi ásamt þeim Öldu og Magnúsi. Þrátt fyrir hótanir Öldu fékk Magnús single-rúmið með því að vísa í ógnvænlegar hrotur sínar, svo úr varð að Jarlaskáldið deildi fleti með Öldu. Það var ágætt, því auk þess að vera öllu nettari en félagi Magnús hrýtur hún barasta ekki neitt. Það gerir hins vegar Magnús duglega, auk þess sem hann býr yfir þeim hæfileika að geta sofnað í miðri setningu og byrjað að hrjóta med det samme. Eyrnatappar björguðu því sem bjargað varð. Var farið að sofa fljótlega eftir að inn á herbergi var komið, því framundan beið spennandi dagur. Bar reyndar til tíðinda um nóttina, án þess þó að Skáldið yrði þess vart, að Magnús arkaði víst hingað og þangað um herbergið, steinsofandi að sjálfsögðu, og endaði inni á baði hvar hann hrópaði í sífellu „kveikiði ljósin, kveikiði ljósin!“ Við ópin vaknaði Alda, kveikti ljósin, og fór svo aftur að sofa, án þess að hirða frekar um afdrif Magnúsar. Hann mun hafa ratað í rúmið að lokum.

Tilvitnun dagsins: „Þetta er nú engin Gardemoenókyrrð!“ (Jarlaskáldið)

2. dagur – 16. janúar – Fyrsti dagur í fjallinu!

Dagurinn var tekinn snemma þennan daginn, því ná þurfti rútu klukkan níu upp í fjall. Fyrst á dagskrá var morgunmatur, þar sem beið hlaðborð hlaðið ýmsum torkennilegum kræsingum, með alls kyns sætabrauði, grautum, jógúrti og jafnvel skyri. Jarlaskáldið fékk sér nú bara rúnstykki með smjöri og osti og blóðappelsínusafa, engir sénsar teknir, auk þess sem lystin var nú ekkert að drepa menn eftir svall gærkvöldsins. Að loknu áti græjuðu menn sig upp og röltu út á götu, þar sem rúta pikkaði upp hópinn. Var rútuferðin innifalin í verðinu, eins og nánast allt í ferðinni. Var hótelið, Hotel Shandrani, staðsett ca. miðja vegu milli bæjarins Tesero og skíðasvæðisins í Pampeago (sjá þetta kort), og tók ferðin ca. 10 mínútur upp snarbratta brekku. Þegar þangað var komið blöstu við lyftur upp allar hlíðar, og þó var þetta aðeins brot af öllu svæðinu. Fararstjórinn reddaði öllum skíðapössum, og svo var lagt í hann, fyrsta snjóbrettaferðin í ca. 7 ár hjá Jarlaskáldinu var framundan. Til að gera langa sögu stutta og án allrar sjálfhælni var eins og Skáldið hefði aldrei tekið af sér brettið öll þessi ár (ekki meint bókstaflega, þið sniðugari lesendur!), heldur skíðaði eins og hreinn listamaður, við undrun og aðdáun allra viðstaddra (ókei, kannski smá sjálfhælni, ellegar skert raunveruleikaskyn), og því var ekki aftur snúið. Var því skíðað með litlum hléum til klukkan fjögur, og hafði nánast allt Pampeago-Obereggen svæðið verið skíðað að loknum deginum. Tókum við reyndar þrjár pásur yfir daginn, sem átti eftir að verða frekar hefðbundið, og lágu einn til tveir bjórar í valnum eftir hverja þeirra. Þess má reyndar geta að stór bjór er aðeins 0,4 lítrar þarna úti, svona til að gera fylleríið aðeins skaplegra. Aðalskemmtiatriði okkar í þessum pásum var að senda vinum og vandamönnum sms heim til Íslands og greina frá því í hvaða hæð við værum að drekka bjórinn hverju sinni. Þrátt fyrir drykkjuna gekk skíðamennskan ekkert síður og jafnvel betur er leið á daginn, og engin meiriháttar slys urðu. Kannski kæruleysinu að þakka, a.m.k. urðu menn sífellt fljótari niður brekkurnar eftir því sem á leið.
Um klukkan fjögur hófst svo venjulega hið stórkostlega After-Skiing. Það fólst í því að tjald eitt efst í brekkunni fylltist af óðum djömmurum sem drukku áfengi hvurs konar í stríðum straumum, hoppandi uppi á borðum og hátölurum og fækkandi fötum við afar hávært undirspil einhverrar verstu Eurotrash tónlistar sem um getur. Þennan fyrsta dag hættum við okkur ekki einu sinni inn í tjaldið, slíkt var menningarsjokkið, heldur húktum fyrir utan, lepjandi okkar bjór og/eða Jagerte og gerðum grín að „þessu helvítis Eurotrashi!“ Þetta viðhorf átti eftir að breytast.
20 mínútur yfir fimm fór síðasta rútan niður á hótel, og því vissara að vera tímanlega niður. Var nokkuð kostulegt að sjá útúrdrukkið liðið detta nánast út úr tjaldinu rúmlega fimm, leita að skíðunum sínum, festa þau svo á sig og fara í loftköstum niður brekkurnar. Að vísu lentum við aldrei í neinum teljandi óhöppum á leið niður síðustu ferð, og getur fátt talist fyndnara en að horfa á félaga Togga skíða niður með hálfan tebolla í hendinni hugsandi um það eitt að hella ekki niður og takast það á meðan útlendingarnir duttu hver um annan þveran. Jawohl. Ísland er best í heimi.
Heim á hótel var komið á sjötta tímanum, og tíminn fram að mat nýttur í sturtanir, kríur, og kannski einn, tvo bjóra sér til hressingar. Bjórinn var reyndar hvergi dýrari en á hótelbarnum, 4,20 evrur, og var því óspart verslaður bjór í búðum, en að vísu einnig drukkið óspart á barnum. Margt óspart í þessari ferð. Maturinn byrjaði klukkan hálfátta, og var alveg sérkapítuli út af fyrir sig. Fjórréttað, þjónað til borðs af sykursætum Ítölum (mestmegnis), og aldrei það sama í matinn, en alltaf eitthvað svaka gourmet. Gátum við okkur þess til að matur hvers kvölds myndi ekki kosta undir 7.000 krónum á íslenskum veitingastað, og var hann þó alveg innifalinn í verðinu. Við alltaf að græða. Hvernig fór maður þá að því eyða öllum þessum peningum, ef allt var ókeypis? Góð spurning. Aha, bjórinn var ekki ókeypis!
Eftir mat var jafnan byrjað á því að kíkja aftur á barinn, og þetta kvöldið var setið og þjórað á hótelinu, því nánast ómögulegt var að fara nokkuð annað, ekki það að þess hefði þurft með, slíkt fjör var þarna öllum stundum. Þetta kvöld var reyndar með rólegra móti, ef hægt er að telja það rólegt að drekka stanslaust frá klukkan hálfellefu um morguninn fram til ca. eitt um nóttina. Þetta snýst víst allt um viðmið, og hvaða mælikvarða þú notar.

Tilvitnun dagsins: „Kvusslags eiginlega fingurbjörg er þetta?“ (Stebbi þegar einhver pantaði sér óvart lítinn bjór)

3. dagur – 17. janúar – Stífir vöðvar og Eurotrash!

Dagurinn var aftur tekinn snemma þennan föstudagsmorgun, og var í raun nokkurs konar spegilmynd gærdagsins. Fyrir utan einn veigamikinn þátt. Það hvað allir voru að drepast úr harðsperrum, strengjum, eymslum og bólgum, svo þeir lágu emjandi og veinandi eftir fyrstu ferð niður brekku, en hörkuðu þó af sér og skíðuðu af krafti. Að vísu lá einn skíðamaður í valnum um hádegi, Alda gafst upp, en það þótti okkur piltunum svo sem ekkert verra, hún gat þá farið heim á hótel og undirbúið heimkomu okkar, látið renna í bað, keypt bjór og svoleiðis. Við létum engan bilbug á okkur finna, og má segja að eftir fyrsta bjórinn um ellefuleytið hafi eymslin byrjað að venjast, bjórinn getur nú bætt ýmis mein, og sannaðist það heldur betur þarna. Hádegisverður var etinn í Obereggen, prýðis Vínarschnitzel, og ekki vöktu afgreiðslustúlkurnar minni lukku, þó einna helst hún Henrietta blessunin, hvílíkur úrvalskvenmaður! Vona að hún sé að lesa.
Obereggen svæðið var reyndar einna vinsælast hjá okkur. Rútínan var gjarnan sú að byrja í brekkunum ofan við Predazzo (vísa enn í kortið góða), því þar kom sólin fyrst upp, fikra sig síðan yfir í Pampeago og áfram yfir í Obereggen. Brekkurnar þar voru lengstar, veitingastaðirnir bestir, og most importantly, þar var Sófinn, fjögurra sæta stólalyfta klædd dúnmjúku áklæði sem fór afar vel með bakhlutann, auk þess sem Sófinn var afar hraðskreiður. Auk þess er Obereggen staðsett í Suður-Týról, en ekki Trentino eins og hin svæðin, og mátti því miklu frekar heyra þar hljómfagurt jóðl heimamanna.
Á þessum degi var aftur hætt að skíða um fjögur og farið í After-Skiing, og að þessu sinni hættum við okkur inn í tjaldið. Gríðarlegt hugrekki þurfti til, en þegar inn var komið virtist sem Eurotrash andinn træði sér inn í öll vit og menn tóku að hoppa og spangóla undir takföstu „Life is Life,“ upphaflega með hljómsveitinni Opus en að þessu sinni með DJ Ötzi, að ógleymdu Benny Hill þemanu í Euroútsetningu auk fjölda annarra slagara. Hvílík umskipti, íslenskir víkingar breyttust á augabragði í hallærislega meginlandsbúa! En gaman var það. Ferðin niður í rútu var skrautleg þetta skiptið, en við náðum honum!
Ekki telur Jarlaskáldið ástæðu til að greina frá miklu meira af þessum degi, hann var beisiklí eins og dagurinn á undan, svipað fyllerí, svipað djamm. Skilst Jarlaskáldinu reyndar að Vífill og fleiri hafi farið í hótelsundlaugina, og þeim öllum gert að nota sundhettu. Spaugilegt í ljósi þess að Vífill er afar loðinn um líkamann en alveg nauðasköllóttur. Vífill mun víst einnig hafa borgað 35 evrur fyrir heilnudd hjá einhverri draumadís, aðrir tímdu því ekki. Einnig ber að geta þess að við djömmuðum með celeba þetta kvöldið, sjálfur stórbelgurinn Kristján Jóhannsson mætti á svæðið að hitta bróður sinn, Hauk að nafni, sem var í hópi Íslendinganna. Jamm, bara frægt fólk, en það átti eftir að verða frægara, því seinna komumst við að því að sjálfur Zucchero hafði verið á hótelinu á sama tíma og við. Vá!

Tilvitnun dagsins: „Life is life, nanananana, life is life, nanananana!“ (allir í partítjaldinu)

4. dagur – 18. janúar –Kláfurinn sem datt og Karaoke!

Á laugardeginum var vaknað á heldur skaplegri tíma en venjulega, því þann dag fóru allir Íslendingarnir með rútu yfir á Alpe Cermis svæðið í Cavalese, og rútan lagði frekar seint af stað, eða um tíu. Voru menn því pínku hressari en venjulega, þó ekki sé hægt að tala um ofurhressleika eftir gærdaginn. Ferðin til Cavalese var stutt, korter eða svo, og þar var byrjað á að fara með litlum kláf, eggi svokölluðu, fyrst yfir mikinn dal og svo upp fjallið hinum megin. Lá leið eggsins fyrst niður í dalinn og svo upp úr honum. Af hverju ekki beint yfir? Kláfurinn sem var þarna áður gerði það, og hann var floginn niður af amerískri herþotu með einhverjum hálfvitum við stýrið fyrir nokkrum árum svo fjölmargir dóu. Hressandi. Og til að bæta gráu ofan á svart náði helvítis þotan víst að lenda! Djöfuls Kanapungar!
Að egginu loknu tók við stólalyfta og fyrir ofan hana önnur stólalyfta, sem endaði í 2250 metra hæð, alls 1250 metra hækkun. Fyrir neðan beið svo ógurleg brekka, 4,7 kílómetrar, og síðustu þrír svört brekka, braut sem keppt er í í heimsbikarnum í bruni. Hvílíkt og annað eins brjálæði, maður var alveg búinn eftir eina ferð niður! Og það besta er að þetta var eina leiðin niður, svo það dugði enginn aumingjaskapur. Auk þess lá brautin í miklum hlykkjum og grófst fljótt á köflum, svo hún var alveg spinnegal á köflum. Ekki reyndist þessi torfæra þó vefjast fyrir Jarlaskáldinu né öðrum í hópnum, sem skíðuðu hana sem mest þeir máttu, með tilhlýðilegum bjórpásum á milli. Brautin var einnig algerlega umkringd trjám, ekki sniðugt að fara út úr braut.
Reyndar var skíðað óvenju stutt þennan daginn, brautin dró slíkan mátt úr liðinu, og var farið niður í Cavalese klukkan þrjú að skoða bæinn. Cavalese er snotur lítill bær, með ca. 3000-5000 íbúum, og fyrsta búðin sem við römbuðum inn í var tóbaksbúð, og vakti það mikla lukku hjá neftóbakslausum ferðalöngum sem voru nýbúnir með síðustu dolluna. Lagerinn var nota bene kláraður hjá búðinni nokkrum dögum seinna (vonandi les enginn þetta í Tollinum).
Frá Cavalese var haldið upp á hótel um fjögur, og gafst því góður tími til að slappa aðeins af fyrir átök kvöldsins, sem urðu umtalsverð. Þetta kvöldið var nefnilega boðið upp á Karaoke á hótelinu. Upphaflega voru bara einhverjir falskir útlendingar að syngja leiðinleg lög, en þegar rómaður söngferill Jarlaskáldsins spurðist út var ekki að sökum að spyrja. Jarlaskáldið steig upp á dekk, og söng sinn gamla standard Rawhide (að vísu án sidekicksins, sem var sárt saknað, en það kom ekki illa að sök) við slíkar undirtektir að þakið ætlaði að rifna af húsinu. Við þetta ofmetnaðist Skáldið svo að hljóðneminn hvarf vart úr hendi þess restina af kvöldinu, tók m.a. Britney ásamt Stebba, efnilegur dúett það, og stýrði fjöldadansi í Y.M.C.A. Ekki má heldur gleyma danskennslu Jarlaskáldsins í Fugladansinum, sem það hefur ósjaldan tekið upp á við hátíðleg tækifæri, sbr. útskrift Þverbrekkings fyrir réttu ári síðan, og ekki voru undirtektirnar síðri en þar. Það var farið seint að sofa þetta kvöldið. Djammið átti samt eftir að versna til muna.

Tilvitnun dagsins: „Oh, baby, baby, how was I supposed to know?“ (Stebbi og Jarlaskáldið)

5. dagur – 20. janúar – San Siro!

Sem fyrr var hressleikinn ekki allsráðandi á sunnudagsmorgninum, þó drattaðist liðið á lappir um hálfátta. Flestir fóru upp til Pampeago með hálfníurútunni, en Jarlaskáldið, í félagi við Vigni og Öldu hafði annað á prjónunum; ferð til Mílanó að horfa á leik A.C. Milan og Piacenza. Er nokkur saga að segja frá því öllu.
Upphaflega ráðagerðin hafði verið sú að leigja bílaleigubíl og keyra til Mílanó á laugardeginum, djamma um kvöldið, gista þar á hóteli, og sjá svo leikinn daginn eftir og keyra svo til baka. Virkaði einfalt, en þegar við impruðum á þessari hugmynd við Einar fararstjóra á fimmtudeginum dró hann aldeilis vígtennurnar úr okkur; ekki séns að fá bílaleigubíl, ófáanleg ellegar rándýr gisting í Mílanó, við þyrftum að taka leigubíl og það yrði dýrt spaug. Mílanóferðin virtist úr sögunni. Einar lofaði þó að kanna málið betur, en ekki var hann vongóður. Næsta dag komu betri fréttir, því honum hafði tekist að sannfæra einhvern leigubílstjóra sem hann þekkti um að leigja okkur bara bíl konunnar hans fyrir 100 evrur í einn dag. Þyrftum bara að fara snemma á sunnudegi og koma aftur um kvöldið. Var það ákveðið í snatri, og lagt af stað um hálfníu á sunnudeginum. Ekki byrjaði það vel, bíllinn fór ekki í gang í fyrstu. Því var reddað, og var Jarlaskáldið við stjórnvölinn á Fiatnum, knúnum díselolíu, kraftlaust helvíti. Þess ber að geta strax að við höfðum litla hugmynd um hvernig ætti að komast á völlinn, Vignir var með einhverjar leiðbeiningar, en engin voru kortin, og auk þess vissum við ekkert hvenær leikurinn byrjaði. Burðugt, ekki satt? Samt var lagt í hann, og stefnt á bæinn Trento, vissum þó að þangað ætti að stefna. Fyrst var að koma sér niður á Autobahn, og á leiðinni var keyrt niður snarbröttu 180 gráðu beygjurnar sem áður var frá sagt. Með því skuggalegra sem Skáldið hefur ekið. Eftir smástund var komið niður á Autobahn, og þaðan lá greið leið til Trento niður Brennerskarðið. Jarlaskáldið þandi drusluna til hins ýtrasta, sem skilaði heilum 140 kílómetra hraða á jafnsléttu, en heilum 150 í einni brekkunni. Bimmar og Benzar þutu fram hjá og hurfu, mikið hefði verið gaman á einum slíkum! Enginn Ferrari samt, soldil vonbrigði það.
Við Verona birtust skilti sem bentu til Mílanó, ekki villt enn semsagt. Allt mjög vel merkt á Autobahninu reyndar, erfitt að villast þar. Var ferðin tíðindalítil uns Mílanó fór að birtast. Þrátt fyrir leiðbeiningar Vignis var röng beygja tekin, og stefnan tekin aftur út úr borginni. Æ, æ. Eftir heilmiklar hringbeygjur og akstur fram hjá bakgörðum í litlum þorpum tókst að snúa við, og réttur afleggjari fannst. Og fyrir mikla Guðs mildi birtist fljótlega skilti sem tók af allan vafa, mynd af fótbolta og San Siro ritað undir. Og völlurinn fór ekki fram hjá neinum þegar tók að nálgast, þvílíkt risamannvirki, alveg geggjað!
Fann Skáldið fljótlega bílastæði merkt vellinum og lagði þar gegn vænni greiðslu, og sem betur fer virtist leikur í aðsiglingu, fullt af fólki kirfilega merkt A.C. á leið í sömu átt. Var það elt, og þegar að vellinum var komið byrjaði hasar. Fjöldi miðasölumanna kom askvaðandi að okkur og hrópuðu þeir gylliboð hver ofan í annan, „discount, discount, very good,“ greinilegt að við skárum okkur aðeins úr með myndavélarnar á lofti og næpuhvít á hörund. Eftir að hafa gert stuttan verðsamanburð við official verð var ákveðið að taka gylliboði ýtnasta sölumannsins, 20 evrur á mann, í efsta hólfi en alveg fyrir miðju. Þótti það ágætlega sloppið. Eftir smá leit að réttu hliði og dágott þramm upp stiga (stórt!) blasti loks dýrðin við. Völlurinn er óhemju stór, en þrátt fyrir að vera hátt uppi sá maður prýðilega, enda óhugnanlega bratt, svo Vignir varð næstum lofthræddur. Annar endinn var þegar orðinn nær fullur, greinilega hörðustu stuðningsmennirnir þar, og við dundu reglulega gríðarmiklar sprengingar, svo maður hrökk við. Vorum við greinilega vel tímanlega, því leikurinn hófst ekki fyrr en eftir einn og hálfan tíma, eða klukkan þrjú. Jæja, svo lengi sem maður missir ekki af honum! Var völlurinn orðinn sæmilega pakkaður þegar leikur hófst, og stemmningin gríðarleg. Fyrri hálfleikur líflegur en markalaus, en í seinni hálfleik æstust leikar til muna, A.C. Milan mönnum urðu á skelfileg varnarmistök og einhver Prumpsjenko náði að skora. Fyrst þagnaði allur völlurinn, en svo varð liðið alveg trítilótt, og öskrin yfirgnæfðu allt annað. Það var enda ekki að sökum að spyrja, miðjan tekin, keyrt upp hægra megin, gefið inn í teig, Filippo Inzaghi (hver annar?) dettur, víti. Úr vítinu skoraði Andrea Pirlo af fádæma öryggi, og fólkið ærðist enn meir. Eftir þetta var stórsókn að marki Piacenza, og leikmenn orðnir snaróðir. Lauk stórsókninni á því að sjálfur Rígvaldur reginskytta skoraði með hnitmiðuðu skoti út við stöng, og þá fyrst varð fjör. Jarlaskáldið var umsvifalaust faðmað af ógurlega glöðum Ítala, og til að vekja ekki grunsemdir þótti Jarlaskáldinu vísast að greiða honum í sömu mynt. Sem betur fer sleppti manngreyið að lokum, Jarlaskáldinu til nokkurs léttis. Það sem eftir lifði leiks var nokkuð rólegra yfirbragð, A.C. með töglin og hagldirnar, gaman þegar Íslendingurinn Jón Dal Tómasson kom inn á, þótt ekki hafi allir áhorfendur verið jafnánægðir með það.
Eftir leik var minjavarningi gerð skil, og eignaðist Skáldið m.a. treyjur þeirra Nesta, Rui Costa og Rivaldo. Svo var að finna bílinn, sem gekk, og næsta mál á dagskrá að komast heim. Ef lesendur halda að erfitt sé að komast frá Laugardalnum eftir landsleik ættu þeir að prófa þetta. Hver ökumaður tróð sér sem mest hann mátti, og hið sama gerði því Jarlaskáldið. Gekk furðufljótt að komast frá vellinum (íslenska frekjan!), og fyrir einhverja slembilukku fannst Autobahnskilti fljótlega. Að sjálfsögðu stóð hvergi Verona eða Trento neins staðar, en með landafræðikunnáttu sína að vopni tók Skáldið stefnuna á Venezia (Feneyjar ku bærinn nefndur upp á ástkæra ylhýra), og reyndist það rétta leiðin. Á leiðinni heim heilsaði Skáldinu á köflum svartaþoka (ekkert sem maður hefur ekki séð á Nesjavallaveginum), en annars gekk ferðin hið besta, og heim vorum við komin um tíu. Að vísu stal Apinn (bensínstöðin heitir í alvörunni Api!) 10 evrum af okkur, en það er nú bara bjór á mann. Lítið var djammað þetta kvöldið, a.m.k. hvað Skáldið varðar, það sá að það myndi aldrei ná þessum drykkjurútum sem byrjuðu 11 tímum fyrr, og því var gengið snemma til náða. Sem betur fer, því...

Tilvitnun dagsins: „Er hvergi hægt að finna McDonald’s á þessum helvítis Autobahn?“ (Mílanófarar)

6. dagur – 20. janúar – Sellaronda!

...dagurinn var tekinn extra snemma á mánudeginum, og vaknað um sjöleytið (djísöskræst hvað það var erfitt!), því ná þurfti rútu klukkan átta þetta skiptið. Af hverju ætti nokkur maður að vilja gera sjálfum sér það eftir 15 tíma drykkju og fimm tíma svefn (í tilfelli annarra en Mílanófara)? Jú, ástæðan er sú að þennan dag var Sellarondahringurinn á dagskrá. Sellarondahringurinn er gríðarlöng skíðaleið í kringum fjallið Sella, hátt í 30 kílómetrar sem skíðað er (sjá þetta illskiljanlega kort), og er hægt að skíða bæði rangsælis og réttsælis kringum fjallið. Til þess að komast inn á hringinn þurfti að keyra til bæjarins Canazei (fyrir innan Moena, neðan við fjallið Sella sem er efst fyrir miðju á þessu korti), u.þ.b. klukkutíma frá hótelinu. Stemmningin var orðin nokkuð góð þegar rútan lagði af stað, enda spenningurinn mikill, Toggi hafði farið þessa leið áður og bar henni AFAR vel söguna. Fóru nánast allir Íslendingarnir með, þótt tekið hefði verið fram að þetta væri „aðeins“ fyrir vana skíðamenn. Maður er nú orðinn vanur eftir 4 daga stanslaust á skíðum myndi maður halda! Í Canazei var farið upp í fjall í litlu eggi, 12 manna, og því næst skipt yfir í stóran kláf, ca. 80 manna, og farið upp á topp. Eftir kláfinn veit maður hvernig er að vera síld. Efst uppi blasti við svakaleg fjallasýn í allar áttir, og þar hófst hringferðin. Ákveðið var að fara rangsælis, grænan hring (sjá kort, ef þið skiljið e-ð í því), og til að hafa einhverja stjórn á hópnum skiptu fararstjórarnir honum í 9-10 manna hópa. Með okkur sjömenningunum urðu tveir fjallhressir snjóbrettakappar frá Hornafirði, Gunni og Kiddi. Urðu þeir frá og með þessari stundu hluti af hinni ógurlegu níumenningaklíku sem boðaði ógn og skelfingu í brekkunum. Fyrir utan oss Vífil voru þeir einu snjóbrettatöffararnir meðal Íslendinganna.
Ekki ætlar Jarlaskáldið að gera langa sögu enn lengri með því að telja upp allar brekkurnar á leiðinni, en þær voru án mikilla undantekninga brilliant, og þvílíkur lúxus að skíða aldrei sömu brekkuna. Náði hópurinn síðustu lyftunni ca. 5 mínútum áður en svæðið lokaði, mátti ekki tæpara standa, en það var svo sannarlega ekki níumenningaklíkunni að kenna, sem var jafnan langfyrst og notaði biðina eftir hinum í bjórpásur, sem urðu fleiri en venjulega af þeim sökum. Jamm. Þegar niður að rútu var komið þótti ekki tækt að bruna strax til baka, t.d. hafði rútubílstjórinn ekki enn fengið bjór, og skundaði því öll hersingin á bar á meðan rútubílstjórinn fékk sér einn kaldan með staðarlöggunni (án gríns!). Gafst okkur, og þó sér í lagi Vífli, tækifæri á að mingla við íbúa, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að plata neinar yngismeyjar upp í rútu og heim á hótel. Var Vigni um kennt, einhverra hluta vegna.
Heim á hótel var svo ekið, éta, drekka, dansa, bulla, drekka, karaoke, hlæja eins og fífl fram eftir nóttu. Merkasta uppgötvun næturinnar var sennilega þegar gæinn á skemmtaranum, Alberto, spilaði eitthvert ítalskt lag að viðlagið hljómaði eitthvað grunsamlega kunnuglegt. Eftir stutta stund var viðlagið komið á hreint: „Og þar kom Halldór Ásgrímsson!“ Kannski að þessi uppgötvun segi meira en flest orð um ástandið á liðinu.

Tilvitnun dagsins: „Og þar kom Halldór Ásgrímsson!“ (allir)

7. dagur – 21. janúar – Snjókoma og snælduvitleysa!

Það var heldur dimmara upp í loft að líta þegar fólk loksins drattaðist úr úr húsi (klukkan níu eða eitthvað!) á þriðjudagsmorguninn, byrjað að snjóa svona líka fallega eftir stanslausa sól og blíðu síðan lent var. Var snjókomunni reyndar tekið fegins hendi, a.m.k. af okkur snjóbrettatöffurunum, sem söknuðum nokkuð púðursnjós til að leika okkur í, auk þess sem brekkurnar voru orðnar fullharðar á köflum. Enda var færið alveg skínandi gott þennan daginn. Óþarfi ætti að vera að telja upp eitthvað fleira frá skíðadegi þessum, þeir voru ansi venjubundnir eins og fyrr segir, skíðað með bjór- og matarstoppum fram til ca. fjögur, dottið hressilega í það í After-Skiing með Eurotrashmúsík, og svo reynt að skjögrast niður brekkurnar til að ná síðustu rútu. Eflaust gerðist eitthvað voðalega merkilegt þennan dag, en Óminnishegrinn kemur nú víða við. A.m.k. gerðist ekkert á skíðunum sem kemst í hálfkvisti við það sem gerðist um kvöldið, kvöldið sem menn munu minnast í sögubókum sem Fyllerísins mikla.
Til að byrja með voru flestir orðnir heldur drukknari en venjulega í rútunni til baka, og allir að rugla í útlendingunum („Hey, you know Arnar Grétarsson and Rúnar Kristinsson with Lokeren?“ Það voru Belgarnir), og svo voru sungin íslensk auglýsingalög, sem var reyndar gert hástöfum við hvert tækifæri, einkum hið ágæta Tex-málningarlag (Dúmmada-dúmmada-dúmmadúmm!), og einnig gamla Iðnaðarbankalagið (Með á nótunum!). Vakti það kátínu hvarvetna. Þegar upp á hótel var komið komst liðið ekki einu sinni úr gallanum, heldur brunað beint á barinn. Recipe for disaster. Skáldið skjögraði upp á herbergi um sjö til að fara í sturtu, sem tókst, en það kann ekki frá atburðum næstu þriggja klukkustunda eða svo að segja.
Eins og Fönix forðum og er vandi Jarlaskáldsins reis það úr rekkju síðar um kvöldið þegar það hafði af flestum verið talið af, og hafði Skáldinu vaxið ásmegin ef eitthvað var. Tók nú við eitthvert hið ævintýralegasta djamm sunnan Alpafjalla sem sögur fara af, og var Jarlaskáldið ekki eitt um það, þótt það færi líklega fremst í flokki. Diskótekið varð allillilega fyrir barðinu á þessum hamagangi, því Íslendingarnir tóku þar hreinlega öll völd, skelltu sinni íslensku músík á fóninn og hlustuðu ekki á neitt múður þar í móti, og hreinlega flæmdu annarra þjóða kvikindi út úr húsi með djöfullegu skaki sínu við lög eins og Partýbær og Sirkus Geira Smart, courtesy of Jarlaskáldið.
Endaði geggjun þessi ekki fyrr en langt var liðið á nótt, en þegar Jarlaskáldið loksins rataði upp á herbergi uppgötvaðist að það var ekki með lykil. Byrjaði það fyrst á að banka létt á dyrnar, en ekkert gerðist, svo var lamið aðeins harðar, og að lokum allt barið af lífs og sálar kröftum. Og þá vaknaði sko fólk, allir á hæðinni nema þeir sem voru inni í herberginu. Hversu steindauður er hægt að vera? Var Jarlaskáldinu „kurteisislega“ bent á að leita annarra leiða til að komast inn, og var fyrst reynt að fá annan lykil. Sá virkaði ekki (tæplega lyklinum að kenna, hann virkaði daginn eftir einhverra hluta vegna), og varð örþrifaráðið að hringja hjá strákunum. Eftir ófáar hringingar rumskaði loks Magnús, og Jarlaskáldið gat lagst í hvílu sína. En það versta var eftir.

Tilvitnun dagsins: „Hvernig farið þið að þessu? Þið vaknið fyrstir og djammið lengst öll kvöld!“ (Briddesystur)

8. dagur – 22. janúar – Þynnkan og púðurferðin dýra!

Fyrstu stundir þessa miðvikudags eru í mikilli þokumóðu hvað Jarlaskáldið varðar. Minnist það þess að hafa verið vakið snemma og spurt „ætlarðu ekki upp í fjall?“, og minnist þess hve fáránleg því fannst sú hugdetta. Það hringsnerist hvort sem er allt í kringum Skáldið, alger óþarfi að fara upp í e-ð fjall til að fá hreyfingu. Hver einasta hreyfing var erfið, jafnvel bara það að anda virtist of mikil fyrirhöfn. Bibit puer, ergo tenuis. Það var ekki fyrr en um hádegið að Skáldið rumskaði aftur, þegar Alda skreið uppí hinum megin, en hún hafði víst eitthvað meitt sig og hætt að skíða. Skáldið vorkenndi henni ekki. Einhvern veginn tókst að kveikja á sjónvarpinu, og eftir að hafa um hríð horft á einhvern Ítala reyna að selja Skáldinu teppi tókst að skipta um stöð, og finna Eurosport. Þar var tennisleikur í gangi, sem samkvæmt þulunum var einhver sá lengsti í sögunni, endaði 23-21 í tiebreak eða e-ð álíka. Virtist þó mun lengri.
Um hálfþrjúleytið tókst Öldu að draga Skáldið fram úr bælinu, og óstyrkum fótum var gengið niður í lobby að finna eitthvað að éta. Fengum heimsins stærstu samlokur, Skáldið tók tvo bita, tók ekki sénsinn á meira. Um þrjú birtust svo allir strákarnir okkur að óvörum, og höfðu þeir sögu að segja. Höfðu þeir fundið eitthvert svaka púður, og á leiðinni niður það tókst Stebba víst að týna öðru skíðinu sínu, og bakpokinn hans Gunna rifnaði og gemsinn, skíðagleraugun og ýmislegt annað týndist. Höfðu þeir víst eytt síðustu tveimur tímum í að moka snjó að leita að draslinu, en án árangurs. Dýr púðurferð þetta. Skáldið hefði hlegið að þeim hefði það haft heilsu til.
Til að hressa aðeins upp á sig var ákveðið að taka strætó niður í Cavalese, og fórum við níumenningaklikan ásamt Svenna og pabba hans og Briddesystrum, sem saman mynduðum mikla djammklíku, öll þangað. Var Jarlaskáldið leitt sem í leiðslu um bæ þennan, á milli þess sem gert var grín að ástandi þess. Ímyndið ykkur ferðafélaga, hvar er stuðningurinn!? Ekki var neitt verslað þarna frekar en fyrri daginn (dýrara en heima), nema náttúrulega á barnum, sé Jarlaskáldið undanskilið. Þegar kom að heimferð var aðeins einn kostur í boði. Svenni hafði reddað númeri hjá einhverjum leigubílstjóra, og merkilegt nokk svaraði hjá honum. Honum var tjáð að við værum 13, og svo upphófust miklar samningaviðræður innan hópsins hver fengi að fara fyrst og hvort þeir síðustu fengju ekki gefins bjór og svoleiðis. Samningaviðræðum var umsvifalaust slitið þegar „leigubílinn“ birtist; 25 sæta rúta með öllum græjum. Kostaði heilar tvær evrur á mann upp á hótel, og þó var tipsað vel. Laglegt.
Í krafti reynslu sinnar sá Skáldið fram á að kvöldið yrði með daprara móti ef ekki yrði eitthvað að gert. Gegn betri samvisku ákvað það því að panta sér bjór eftir matinn og vona það besta. Og sko til, vélin hrökk í gang, þynnkan minningin ein! Var því til óspilltra málanna tekið, ekki síst þegar í ljós kom að fundist hafði forláta fußballspil í kjallaranum. Var skipt í ein sjö lið og keppt allir á móti öllum, og var Skáldinu því miður skipað í lið með Þverbrekkingi. Þrátt fyrir að vera í eins búningum (A.C. Milan) gekk upp og ofan hjá okkur félögunum, unnum yfirleitt þá góðu en töpuðum fyrir hinum lélegu, svona Hróar hettir fußballspilsins. Enduðum um miðja deild, en Vignir með ofurúlnliðinn og Vífill unnu víst, líkast til á svindli. Eftir spilið féll allt í kunnuglegan farveg, súr drykkja og fínerí fram eftir nóttu, alladabbarí.

Tilvitnun dagsins: „Er ekki allt í lagi með hann Arnór. Hann er eithvað svo þögull, maður tekur varla eftir honum!“ (Gunni og Kiddi í Cavalese)

9. dagur – 23. janúar – Back to Canazei!

Þar sem það hafði verið svo óhemju gaman á Sellarondahringnum var ákveðið að fara aftur til Canazei og í þetta sinn voru allir frjálsir ferða sinna, engir silakeppir til að hægja á manni. Mun þessi dagur líklega teljast sá skemmtilegasti í allri ferðinni, og er þá ansi mikið sagt. Að þessu sinni voru það reyndar bara strákarnir sem fóru, en við létum nú kvenmannsleysið ekki aftra okkur, nóg af kellingum í brekkunum og Vífill reyndi við þær flestar. Byrjuðum við á því að fara í þveröfuga átt miðað við síðast, og í átt að Selva svæðinu, sem margir Íslendingar kannast líklega við. Þar komumst við í eitthvert það geggjaðasta púður sem undirritaður hefur prófað, og m.a.s. nær ósnert á köflum. Undum við því hag okkur prýðilega þar fram yfir hádegi. Í hádeginu pöntuðum við okkur helling af pizzum í einhverjum fjallakofa þar sem ljótustu beljur í heimi voru fyrir utan. Ekki veit Skáldið hvað var á pizzunum, en gott var það. Eftir mat var svo komið að takmarki dagsins: að komast upp á sjálft Sella fjallið. Til þess að gera það þurfti að skíða aftur til baka (endalaus brekka í hliðarhalla, kálfarnir bíða þess seint bætur), og fara hinn hringinn. Þar var ógnarlegur kláfur, sem lá upp á sjálft fjallið, eða einn tind þess, í 2950 metra hæð. Samkvæmt skíðakortunum lá engin leið þarna niður, en fyrir einhverja rælni tókum við Kiddi og Gunni brettin með upp. Á leiðinni upp sáum við ógnarbratt skarð (Pordoi Pass heitir það á kortinu) og að það voru virkilega menn að skíða niður það. Okkur leist nú ekki vel á þá hugmynd í fyrstu, þetta virtist næstum þverhnípt frá okkur séð.
Uppi pöntuðum við okkur bjór (hvað annað?), og var svolítið merkilegt að sjá að í þessari hæð virtist froðan á bjórnum frekar aukast með tímanum, loftið kannski eitthvað þynnra, Skáldið þykist nú ekkert hafa vit á slíku. Eftir bjórinn ákváðum við þrír á brettunum að láta slag standa og skíða niður, hvað sem tautaði og raulaði. Guð minn góður hvað það var scary fyrst, skelfilega bratt (þori ekki að segja um gráður, einhver giskaði á 50-60). En þegar maður lét sig vaða kom í ljós að þetta var ekkert svo erfitt, og fljótlega það mesta fjör sem maður hefur upplifað. Aðeins neðar í skarðinu var svo ekki eins bratt og endalaust púður. Endaði ferðin niðri við kláfinn, örugglega tekið hálftíma eða svo, og eftir að hafa öskrað í smástund og kastað mæðinni komst aðeins eitt að. Aftur! Í það skiptið tókst okkur að plata Vífil (þurfti ekki miklar fortölur) og Magga (aðeins meiri fortölur) með, en hinir þorðu ekki, enda kjellingar. Þeir um það, við upplifðum mesta adrenalínkikk lífs okkar meðan þeir renndu sér í barnabrekkunni. Voru enda Vífill og Maggi eitt Sólheimaglott þegar þeir komu niður. Til gamans má geta þess að Vífill stoppaði einu sinni á leiðinni til að pissa, og kvartaði mjög yfir því að geta ekki gert númer 2. Það sem þessum manni dettur ekki í hug?
Eftir þessar svaðilfarir (sem við notuðum og notum enn hvert tækifæri til að monta okkur af) skíðuðum við aftur til Canazei, og fórum á barinn þar til að kasta enn frekar mæðinni. Svo var skíðað áfram, og vorum við brettakapparnir m.a.s. svo heppnir að finna bordercross-braut (afgirt braut með alls kyns stökkpöllum í röð fyrir hina óinnvígðu, djöfull er Skáldið komið með lingóið á hreint!). Reyndar entumst við ekki mikið lengur, enda svæðið að fara að loka, og fórum því niður í Canazeibæinn að reyna við stelpur, eða öllu heldur, láta Vífil reyna við stelpur fyrir okkur alla. Án árangurs, alas. Svo var keyrt á hótelið og vorum við svo sniðugir að vera með gettóblasterinn okkar (ferðageislaspilari með tölvuhátölurum) með í för og rokkuðum því aftast. Kúl vorum vér! (Do I smell a hint of irony?)
Um kvöldið gekk lífið sinn vanagang, matur, bjór, fußballspil (ekki gekk það betur þetta sinnið), diskó, karaoke, og loks djammað í lobbyinu með hjálp gettóblastersins fram á nótt eftir að öllu var lokað, þótt næturvörðurinn væri duglegur að hóta okkur öllu illu ef við hættum þessu ekki. Við gerðum það, klukkan fimm eða svo.

Tilvitnun dagsins: „If someone calls the cops, it’s your problem.“ (pirraður næturvörður)

10. dagur – 24. janúar – Skíðasvæðin kvödd með stæl!

Eitt það síðasta sem var ákveðið kvöldið fyrir þennan dag (áður en menn misstu hæfileikann til að hugsa) var að hvað sem tautaði og raulaði myndum við vakna klukkan hálfátta og ná fyrstu rútu upp í fjall („við getum sofið þegar við erum dauð!“). Til mikillar furðu tókst öllum það, er ástæðan helst talin sú að það hafi almennt ekki verið runnið af neinum og því enginn þunnur. Og það var skíðað hratt þennan dag. Strax í fyrstu brekkunni í Predazzo var Vífill stoppaður af lyftuverði, og hótað að vera hent út af svæðinu ef hann hægði ekki á sér. Hann fór kannski fullnálægt hausnum á einhverjum krakkanum. Sáum við okkur því þann kost vænstan að halda niður í Pampeago, og var ákveðið að fara í hæstu brekkuna, sem var 2500 metra há, og þurfti að taka toglyftu upp. Ái. Á leiðinni upp fundum við nefnilega í fyrsta sinn fyrir einhverjum vindi, og kuldinn nálgaðist alkul. En brekkan var fín, enda sú brattasta á svæðinu. Svo héldum við yfir í Obereggen, og á leiðinni vorum við snjóbrettagæjarnir loks bænheyrðir. Búið að reisa half-pipe (eitthvað sem Jarlaskáldið hafði aðeins séð á myndum), og því skellt sér í það. Þyrftum kannski svona fimm ár í viðbót af æfingum, og þá myndum við hugsanlega geta eitthvað í því. Gaman að prófa samt.
Fór restin af deginum aðallega í einhvern fíflagang, það voru allir að klessa á alla (Vignir reyndar aðallega á skíðin sín og stafina, svo úr blæddi) og enginn mátti opna munninn án þess að allir lægju í hláturskrampa. Verst var það þegar við rötuðum inn í einhverja minjagripabúð og fundum allir alveg ótrúlega hallærislegar leðurhúfur með hári í hliðunum sem við urðum að kaupa. Vífill gekk þó skrefinu lengra í fáránleikanum. Fann hann sér einhvers konar tígrisdýraeyru sem á að festa á hjálma með sogskálum, en þess í stað skellti hann þeim bara á skallann á sér og gekk þannig um, sem varð þess valdandi að við máttum oss ekki hreyfa í nokkrar mínútur fyrir hlátri. Jáhm.
Vorum við svo mætt heldur fyrr en venjulega í After-Skiing í þetta skiptið, því bæði var þetta síðasta skiptið og svo ætluðu allir Íslendingarnir að mæta. Eins og nærri má geta leiddi það eingöngu til enn stífari drykkju en venjulega, og var m.a. drukkinn hinn skelfilegi drykkur grappa, sem við ösnuðumst stundum til að kaupa þrátt fyrir að þetta sé það versta sem um getur. Þetta er bara héraðsdrykkurinn, og maður komst ekki hjá því að drekka hann. Í tjaldinu var svo tekið vel á því hvað dansmenntir varðar, og klukkan fimm var svo síðasti rúnturinn niður brekkurnar að sinni, og hvað er betra en að gera það útúrdrukkinn með bjórglas í hendinni?
Í matinn mættum við svo að sjálfsögðu með húfurnar okkar nýju, sérstakur galakvöldverður þar sem allir voru í fínasta pússi, Vignir og Stebbi auk þess á Hawaiiskyrtunum sínum. Vífill uppskar þó eins og oftast áður hæstu hláturrokurnar með eyrun sín, fékk meira að segja gæjann á skemmtaranum til að springa úr hlátri í miðju lagi. Þóttist hann svo ekkert heyra nema með nýju eyrunum, og krafðist þess að þjónarnir töluðu í þau. Heldur spaugilegt allt saman.
Jarlaskáldið entist fremur stutt þetta kvöldið, síðustu tíu dagar voru víst aðeins farnir að segja til sín, og var komið í háttinn stuttu eftir miðnætti. Þó munu sumir hafa djammað til fimm eins og ekkert væri, helvíti er maður orðinn eitthvað slappur!

Tilvitnun dagsins: „Lítill bjór er vondur bjór!“ (Svenni)

11. dagur – 25. júní – „Country Roads, Take Me Home!“

Allt er gott sem endar vel, og því miður endar allt sem er gott líka. Það var komið að heimferð, þvert gegn vilja þorra okkar. Höfðu sumir íhugað að fela sig á hótelinu til þess að þurfa ekki að fara heim, en gugnuðu á því þegar á reyndi. Vöknuðum við eitthvað um hálfáttaleytið þennan morguninn, drifum okkur í gegnum morgunmatinn, og hlupum svo upp á herbergi því við áttum eftir að pakka, og stutt í brottför. Við Magnús beittum hinni kunnu aðferð troða-hoppa oná-troða meira-hoppa aftur oná-loka með herkjum en Alda var öllu skynsamari við þetta, raðaði öllu og var líklega mun fljótari. Annars er það eitthvert öruggasta merki um kynvillu karlmanna ef þeir kunna að pakka í ferðatösku, a.m.k. voru það rök okkar Magnúsar. Eftir pökkun drösluðum við töskunum niður og borguðum barreikninginn, sem var ekki svo hár eftir allt saman, einhverjar 150 evrur á okkur þrjú, þó við Magnús höfum nú átt bróðurpartinn. Svo var starfsfólkið kvatt með tárum, það var virkilega leitt að sjá okkur fara, því þrátt fyrir öll vandræðin og vesenið á okkur hafði það aldrei kynnst fjörugra liði né viðlíka eyðsluklóm á barnum.
Var svo ekið sem leið lá til Verona, við Mílanófarar höfðum nú ekið þetta allt áður og issuðum á fólkið sem dáðist að náttúrufegurðinni. Gunni var hetja rútunnar, gaf öllum kók, dáðadrengur Gunnar. Á flugvellinum tókst okkur sjö svo á einhvern undraverðan hátt að vera tékkuð inn síðust, þrátt fyrir að vera alls ekki síðust inn. Það skipti ekki máli, klukkutíma seinkun á vélinni og því enn þrír tímar í flug. Hvað getur maður gert í þrjá tíma? Við fórum á barinn. Litum svo á einhvern undarlegasta veitingastað sem Jarlaskáldið hefur reynt, ein manneskja að vinna, og hljóp hún á milli matarborðsins og kassans í sífellu. Furðulegt, en þó ekki eins furðulegt og maturinn, reyni ekki einu sinni að lýsa honum.
Fram að flugi drukkum við mestmegnis á barnum, því ekki var mikið annað að gera, engar búðir af viti, ein bókabúð, þar keypti Jarlaskáldið sér dónalegasta blaðið í búðinni, FHM, og líka Time, til að virka ekki eins og perri. FHM var hið ágætasta blað, því fylgdi nefnilega kennslubæklingur í bólförum, sem gekk manna á milli í flugvélinni. Ekki það að neinn þyrfti á kennslu að halda, bara gott að rifja þetta aðeins up! Þegar drykkja var vel á veg komin byrjaði Jarlaskáldið að rifja upp einhverjar sögur við Hornfirðingana Gunna og Kidda, sem það hafði heyrt frá öðrum Hornfirðingum. Ein gekk út að einhver hefði vaknað í herberginu sínu við að maður stæði yfir honum og segði „ég ætla að drepa þig!“ Þá sagði Kiddi: „Nei, þetta var nú ekki alveg svona!“ Þá kom upp úr dúrnum að hann var þessi maður sem átti að drepa og fór með rétta sögu, við mikla kátínu viðstaddra.
Hálftíma fyrir flug fórum við í gegnum vopnaleitina, og svo upp í einhverja rútu, hvar við biðum heillengi. Skrýtið, í ljósi þess að flugvélin var ca. 100 metra frá flugstöðinni, en auðvitað máttum við ekki labba þangað! Komust upp í vél eftir lon og don, Vífill fékk Saga-Class sæti, helvítið á honum! Flugferðin var hin kostulegasta, flugstjórinn var malandi alla ferðina, sífellt að breyta áætluðum flugtíma, stundum var meðvindur, svo mótvindur, og hann flaug upp og niður og lenti í ókyrrð og alls kyns veseni svo okkur var orðið skapi næst að senda flugvirkjann Stebba fram í að kenna þessum manni að fljúga, það var farinn að skvettast bjór yfir okkur í hamagangnum for crying out loud! Þegar flugvélin loksins lenti klukkan sjö hafði hún verið einhverja fimm og hálfan tíma í loftinu, einum og hálfum tíma lengur en áætlað var, gæinn hlýtur að hafa villst!
Að lokum brenndum við í gegnum fríhöfnina og keyptum tollinn og ýmislegt fleira, svona til að fara endanlega á hausinn, og þar með var ferðinni lokið. Þökk þeim er hlýddu!

Tilvitnun dagsins: „Nöjnöjnöj, sjáiði þessa stellingu!“ (Magnús tjáir sig um innihald kennslubæklingsins)

miðvikudagur, janúar 29, 2003 

Miðvikublogg ið fimmta

Nei, því miður, engin ferðasaga enn. En þó smá forsmekkur. Jarlaskáldið hefur nefnilega veitt því athygli að allir góðir rithöfundar fá birta stutta kafla úr bókunum sínum í fjölmiðlum samfara útgáfu þeirra. Þar sem Jarlaskáldinu stendur ekki annar fjölmiðill til boða en sinn eigin verður hér birt stutt brot úr ferðasögunni, einskonar Teaser ef svo mætti segja. Að vísu ekkert partý í henni, það bíður betri tíma. Við grípum niður í söguna þegar Jarlaskáldið er að leggja af stað til Mílanó ásamt þeim Vigni og Öldu. Gjössovel....

...ekki byrjaði það vel, bíllinn fór ekki í gang í fyrstu. Því var reddað, og var Jarlaskáldið við stjórnvölinn á Fiatnum, knúnum díselolíu, kraftlaust helvíti. Þess ber að geta strax að við höfðum litla hugmynd um hvernig ætti að komast á völlinn, Vignir var með einhverjar leiðbeiningar, en engin voru kortin, og auk þess vissum við ekkert hvenær leikurinn byrjaði. Burðugt, ekki satt? Samt var lagt í hann, og stefnt á bæinn Trento, vissum þó að þangað ætti að stefna. Fyrst var að koma sér niður á Autobahn, og á leiðinni var keyrt niður snarbröttu 180 gráðu beygjurnar sem áður var frá sagt. Með því skuggalegra sem Skáldið hefur ekið. Eftir smástund var komið niður á Autobahn, og þaðan lá greið leið til Trento niður Brennerskarðið. Jarlaskáldið þandi drusluna til hins ýtrasta, sem skilaði heilum 140 kílómetra hraða á jafnsléttu, en heilum 150 í einni brekkunni. Bimmar og Benzar þutu fram hjá og hurfu, mikið hefði verið gaman á einum slíkum! Enginn Ferrari samt, soldil vonbrigði það.
Við Verona birtust skilti sem bentu til Mílanó, ekki villt enn semsagt. Allt mjög vel merkt á Autobahninu reyndar, erfitt að villast þar. Var ferðin tíðindalítil uns Mílanó fór að birtast. Þrátt fyrir leiðbeiningar Vignis var röng beygja tekin, og stefnan tekin aftur út úr borginni. Æ, æ. Eftir heilmiklar hringbeygjur og akstur fram hjá bakgörðum í litlum þorpum tókst að snúa við, og réttur afleggjari fannst. Og fyrir mikla Guðs mildi birtist fljótlega skilti sem tók af allan vafa, mynd af fótbolta og San Siro ritað undir. Og völlurinn fór ekki fram hjá neinum þegar tók að nálgast, þvílíkt risamannvirki, alveg geggjað!
Fann Skáldið fljótlega bílastæði merkt vellinum og lagði þar gegn vænni greiðslu, og sem betur fer virtist leikur í aðsiglingu, fullt af fólki kirfilega merkt A.C. á leið í sömu átt. Var það elt, og þegar að vellinum var komið byrjaði hasar. Fjöldi miðasölumanna kom askvaðandi að okkur og hrópuðu þeir gylliboð hver ofan í annan, „discount, discount, very good,“ greinilegt að við skárum okkur aðeins úr með myndavélarnar á lofti og næpuhvít á hörund. Eftir að hafa gert stuttan verðsamanburð við official verð var ákveðið að taka gylliboði ýtnasta sölumannsins, 20 evrur á mann, í efsta hólfi en alveg fyrir miðju. Þótti það ágætlega sloppið. Eftir smá leit að réttu hliði og dágott þramm upp stiga (stórt!) blasti loks dýrðin við...

þriðjudagur, janúar 28, 2003 

Grámygla hversdagsleikans

Það er ekki mjög hýrt yfir Jarlaskáldinu þessa dagana. Grámygla hversdagsleikans hellist yfir það og sökkvir því æ dýpra og dýpra, og jafnvel hvítur snjórinn með bjartar minningar sínar megnar ekki að bæta úr því. Fyrsti vinnudagurinn í dag (meikaði það ekki í gær), hreint skelfilegt, að þurfa að vinna eins og einhver helvítis almúgamaður á meðan einhverjir aðrir fá að vera áfram á Ítalíu að renna sér í fjöllum og drekka bjór frá hádegi. Djöfuls svindl! Ekki það að maður hefði meikað þetta einum degi lengur án þess að bíða varanlegan skaða af, en stundum þarf jú að færa fórnir til að hafa gaman. Það eina sem maður getur gert er að rita ítarlega ferðasöguna og vona að minningarnar færi mann aftur til baka, í faðm fagurra meyja, á fljúgandi ferð niður brekkur (nota bene annað í einu), njótandi ódáinsveiga, og alls hins. Mikið djöfffffffffulli var gaman þarna!!!

Ps. Skriftir ganga framar vonum. Áætlaður útgáfudagur innan tíðar.
Pps. Jarlaskáldið syrgir fráfall síns gamla magisters úr bloggheimum. Hvíl í friði.
Ppps. Hættiði svo að bögga mig!

mánudagur, janúar 27, 2003 

Undanfari partýbloggsins mikla

Eins og lesendum er eflaust kunnugt um er Jarlaskáldið nýkomið úr mikilli reisu til Ítalíu. Má því ætla að lesendur krefjist, og hefur það m.a.s. komið á daginn, þess að myndarlegt partýblogg verði ritað um atburði þá er drifu á daga Jarlaskáldsins á erlendri grund. Til að slá á óþolinmæði lesenda tilkynnist það hér með að Lengsta partýblogg allra tíma er í vinnslu, en líkt og Róm var ekki byggð á einum degi tekur þetta nokkurn tíma, og verður líkast til í bókarlengd þegar yfir líkur (a.m.k. jafnlangt og bók eftir forsætisráðherra). Ef allt fer vel má búast við þessu eftir nokkra daga, því auk þess að hafa nóg að gera glímir Jarlaskáldið við nokkur eftirköst fararinnar, sem letja það nokkuð við vinnu. En hvað um það, bíðið ögn enn, þetta er allt að koma.......

laugardagur, janúar 25, 2003 

Kominn heim!

Jarlaskáldið er mætt á svæðið, meira á morgun. Sjáumst á Hverfisbarnum á eftir.........

miðvikudagur, janúar 15, 2003 

Miðvikublogg ið fjórða

Miðvikubloggið er snemma á ferðinni í þetta skiptið, ritað um miðja nótt svo að segja. Hver er ástæðan? Jú, Jarlaskáldið hyggur á landvinninga á morgun, eða allt að því, Jarlaskáldið ætlar nefnilega að heiðra Ítala með nærveru sinni næstu tíu dagana, nánar tiltekið í Dólómítafjöllunum í félagi við marga góða menn. Ætlar það að renna sér þar á öldnu snjóbretti sínu niður brattar hlíðar og drekka þess á milli ókjörin öll af brennivíni og éta ókjörin öll af mat, og jafnvel glápa á eins og einn fótboltaleik ef allt gengur upp. Væntanlega verður því lítið um blogg hér á næstunni, bið ykkur bara vel að lifa, ég er farinn..............................................................

sunnudagur, janúar 12, 2003 

Norrön grammatikk

Það er nokkuð um liðið síðan hér var síðast ritað partíblogg, enda lítið verið um veisluhöld eða aðrar skemmtanir, en í gærkvöld dró til tíðinda í þeim efnum, og því réttast að rita um þau og aðra atburði fáein orð.

Gærdagurinn var tíðindalítill framan af, almenn leti og ómennska réð þar för, og var Jarlaskáldið að mestu leyti staðsett fyrir framan hina ýmsu skjái, ýmist tölvu eða sjónvarps, og aðhafðist fátt. Horfði m.a. á Spaugstofuna, sem af einhverjum skrýtnum ástæðum tók upp á því að vera bara soldið fyndin, greinilegt að fríið fór vel í þá félaga. Enn fyndnari var þó nördaþáttur Popppunkts, sem var næstur á dagskrá. Nördarnir alveg hreint brill, og bar einn þeirra af í nördheitum, þeir vita það sem sáu.
Að loknum Popppunkti mætti svo Magnús frá Þverbrekku á svæðið á drossíu sinni ásamt þeim Kidda og Hauki, og bættist Vignir einnig í þennan ágæta hóp, var þá orðið þröngt á þingi, eða a.m.k í bílnum. Sem betur fer var ferðin frá Vigni stutt, endaði hún í bryggjuhverfinu, í næsta nágrenni við Völu Matt, þ.e.a.s. heima hjá Togga. Var þar fyrir hið fríðasta mannval, auk Togga var frúin mætt, ásamt Andréssyni og frú, að ógleymdum Stefáni frá Logafoldum. Kannski voru fleiri þarna, en það getur ekki hafa verið merkilegt lið. Jú, Gústi mætti á staðinn nokkru síðar, og er þá allt talið.
Eins og einhverjir lesenda kynnu að geta sér til um var svall og drykkja stunduð af gestum, og það af miklum myndarskap, mismiklum þó. Þeir gesta sem senn hyggja á Ítalíuför gerðu fátt annað en æsa hver annan upp í spenningnum, þó enginn eins og Toggi með myndunum sínum. Jú, fólk er gjörsamlega að fara á límingunum!
Eins og oft hefur gerst áður þegar líða tekur á kvöldið fór útvhverfaóttinn að gera vart við sig, og því ekkert annað að gera en að halda í bæinn. Fór Jarlaskáldið í leigubíl með þeim Vigni og Gústa, og einhverra hluta vegna endaði för sú á skemmtistaðnum Vídalín. Ekki man Jarlaskáldið hvað eða hver olli því, a.m.k. var dvölin stutt, enda staðurinn fúll. Engu minni varð undrun Jarlaskáldsins þegar það var svo dregið inn á Kaffi Victor. Dvölin þar var sem betur fer enn styttri, og var ákveðið að arka á kunnuglegri og indælli slóðir, Hverfisbarinn var það heillin. Þar tók við sem endranær röð ein mikil með Hillsborofílingnum góðkunna, en inn komust allir um síðir. Maður þarf nú að fara að vinna í þessum celebamálum, það er ekki hægt að standa þarna úti allar helgar!
Þegar inn var komið hitti Jarlaskáldið fyrir megnið af partýgestum síðan fyrr um kvöldið, og tók það að stunda dansmennt í því fríða föruneyti við góðar undirtektir viðstaddra. Tók Skáldið sér stöku hlé, og notaði eitt þeirra til að bæta eigið Íslandsmet í kappdrykkju. Ekki var það góð hugmynd. Eins og gjarnan vill verða í slíkum átökum sem kvöld þetta var tók nokkrum í föruneytina að þrjóta þróttur, varð Andrésson með fyrstu fórnarlömbum, og bættust fleiri í þann hóp síðar. Þó mun einum í föruneytinu hafa tekist að fá snót eina snoppufríða til að verma bæli sitt þessa nótt, skal ósagt látið hver það var. Eitt er víst, ekki var það Jarlaskáldið! Hjá því tók að gæta syfju þegar nokkuð var á nótt liðið, og tók það þá einhliða pólitísku ákvörðun að halda út í náttmyrkrið. Að sjálfsögðu endaði förin sú hjá góðum vini Skáldsins, honum Nonna, og síðar meir átti Skáldið í „gáfulegum“ samræðum við leigubílsstjóra um eitt og annað á leið þess heim í slotið. Fær djamm þetta hiklaust þrjár stjörnur af fjórum mögulegum, geymi fjórðu stjörnuna þangað til á Ítalíu.
Ekki var Skáldið upplitsdjarft í morgun þegar Kjartan nokkur vakti Skáldið og óskaði eftir liðveislu þess við flutninga. Þrátt fyrir bágborið ástand færðist Skáldið ekki undan því, og eyddi næstu tveimur tímunum eða svo við það. Líst Skáldinu bara vel á hin nýju híbýli Kjartans og Laufeyjar, nálægt miðbænum og svona, tilvalið til skemmtanahalds, er það ekki? Sótti Skáldið einnig Þverbrekking og Logafoldargreifann, var ætlunin að kveðja stúlkurnar á Kentucky Fried, sem var gert með tárum. Þessa mun maður sakna þessa tíu daga á Ítalíu! Því næst ösnuðust Ítalíufarar inn í Nanoq, Skáldið slapp ómeitt úr þeim hildarleik, en hið sama verður ekki sagt um aðra, þar fuku nokkrir þúsundkallar.
Annað telst ekki til tíðinda. Best að enda þetta bara á getraun, þær hafa víst verið allt of léttar hjá Skáldinu hingað til, best að reyna að bæta úr því:

Hver er mesti skíthæll Íslandssögunnar?

Vegleg verðlaun fyrir rétt svar, en þau eru leynileg að þessu sinni.

Fleira var það ekki....

laugardagur, janúar 11, 2003 

Kvaraske?

Jarlaskáldið heima við á föstudagsnóttu? Hvað er að gerast? Ekkert djamm, ekkert rugl, ekkert klifur? Já, kæru lesendur, rétt er það, Jarlaskáldið er spakt í kvöld, eins og alla síðustu helgi, er þetta með lengri djammfríum Skáldsins í seinni tíð. Situr þess í stað við tölvuna og skoðar einhvern dónaskap og þaðan af verra (þ.e. blogg).

Jarlaskáldið sperrti eyrun í kvöld, þegar Gettu betur hófst að nýju. Skáldið er sem kunnugt er gamall refur í bransanum, og reynir yfirleitt að hlusta á útvarpskeppnirnar, þó ekki sé nema til að sannreyna hvað líferni síðustu ára hefur leikið minni Skáldsins grátt. Í ár eru bæði nýr dómari og stigavörður , hvort tveggja bloggarar, þótt sá fyrrnefndi hafi gert sig sekan um aumingjablogg í seinni tíð. Verður að segjast eftir fyrstu hlustun að rangláti dómarinn virðist ekki hafa mikið álit á vitsmunum ungdæmisins, svo óskaplega léttar voru spurningarnar í kvöld. Það er nú eitthvað ekki í lagi þegar lélegu liðin fá yfir 15 stig í hraðaspurningum! Versló fékk 21 stig í hraða, for crying out loud! Einnig blöskraði Jarlaskáldinu vanþekking keppenda á köflum. Hvusslags er það að þekkja ekki Rúnar Gunnarsson og Dáta (ekki það að Jarlaskáldið hafi skrifað BA-ritgerð um efnið), svo ekki sé talað um sjónvarpsþáttinn Hildi!? Öðruvísi mér áður brá!
Hvað sem því öllu líður ætlar Jarlaskáldið að gerast svo djarft að spá fyrir um úrslit í ár. Ellefta árið í röð blasir við hjá MR-ingum, hvort sem fólki líkar betur eða verr (flestir líklega í seinni hópnum), og vandséð að þeir tapi á næstunni. Sem er gott að einu leyti, því enn um sinn verður hægt að bögga stóra bróður á því að hafa verið í síðasta tapliði MR (nota bene árið 1992!), en þá voru núverandi liðsmenn 8 ára. Gamanaðessu...

föstudagur, janúar 10, 2003 

Afmæli

Það er stórafmæli hjá fjölskyldu Jarlaskáldsins í dag, eins og alltaf á þesum degi, því bæði gamli maðurinn og litli bróðir eiga afmæli í dag. Óskar Jarlaskáldið þeim til hamingju með daginn!

 

Ægivald

Það er ekki að sökum að spyrja, þegar Jarlaskáldið hefur upp raust sína hlustar fólk. A.m.k. á það við um bæði aumingjabloggarann og stelpuna, sem hafa bæði séð að sér eftir hótanir Skáldsins og hafa hafið blogg að nýju. Þau eru þó fjarri því sloppin úr skammarkróknum, því betur má ef duga skal.

Aðeins eitt svar hefur borist við getraun síðasta miðvikubloggs, og var það nafnlaust. Neyðist Jarlaskáldið því til að éta súkkulaðið sjálft. Æ, æ, það var slæmt! Namminamm....

miðvikudagur, janúar 08, 2003 

Miðvikublogg ið þriðja

Miðvikubloggið snýr nú aftur eftir þriggja vikna hlé, eflaust við mikinn fögnuð lesenda. Bloggfall varð síðustu tvo miðvikudaga af ýmsum ástæðum. Á jóladag var Jarlaskáldið svo inspírerað af heilögum anda jólanna að það hreinlega gleymdi öllu bloggi, en á nýársdag var Skáldið hreinlega innspírað af annars konar anda, og honum afar óheilögum, blessuðum vínandanum, og varð því lítið úr verki. En nú skal láta hendur standa fram úr ermum, og blogga af krafti og elju til að uppfylla óskir lesenda. Ef Mogginn getur komið út á mánudegi hlýtur Jarlaskáldið að geta þetta.

Að vísu er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að tíðindum í lífi Jarlaskáldsins. Vinna, borða, glápa, sofa hefur verið rútínan síðustu daga, og verður það væntanlega í viku til, þó mögulegt sé að Skáldið lyfti sér eitthvað eilítið upp um helgina, en eftir viku brestur á með slíkum tíðindum að önnur eins hafa ekki heyrst í langan tíma. Þá verður margumrædd brottför í margumrædda Ítalíuför Jarlaskáldsins, og er Skáldið gjörsamlega að fara yfir um af spenningi og eftirvæntingu þessa dagana. Til marks um það er Jarlaskáldið nú á þessari stundu klætt í ullarnærföt, ullarsokka, tvær flíspeysur, snjóbrettabuxur (10.000 kallinn), þriggja laga skíðajakka (17.000 kallinn), húfu og vettlinga (soldið erfitt að skrifa með þá), í snjóbrettaskónum sínum og búið að festa snjóbrettið við fæturna á sér, allt til að koma sér í rétta stemmningu. Reyndar er Skáldinu orðið heldur heitt, best að opna betur gluggann. Þetta gerir Skáldið þar sem engan snjó er að finna á gjörvöllu landinu (nema uppi á hálendi, sælla minninga), og því ansi erfitt að æfa sig án þess að skemma snjóbrettið illilega. Til þess að æfa sig hefur Skáldið því tekið upp á þessu, að vera í gallanum sem mest, og auk þess les það gömlu snjóbrettablöðin sín (árgangar 1991-1994) til þess að komast betur inn í lingóið. Það er nefnilega fátt mikilvægara þegar maður stundar íþróttir en að kunna lingóið, svo maður geti verið hip og kúl og með í samræðum og sagt setningar eins og „djöfull var þetta flott switch stance 180 tail grab“ eða „ég var að reyna fakie to fakie 360 en náði bara 270 og datt þess vegna á hausinn!“ Ekki það að Jarlaskáldið geti neitt af þessum trixum, á í mestu erfiðleikum líklega bara að fara beint, en þetta er engu að síður mikilvægt. Bara vonandi að 1991-1994 lingóið sé enn við lýði, annars er Skáldið í djúpum...

Til að svala forvitni lesenda er ferðinni heitið til skíðasvæðisins Val di fiemme (Kvennapleis, ha Mummi?), eflaust muna einhverjir eftir því úr fréttum síðan fyrir nokkrum árum að bandarísk herþota flaug á skíðakláf og drap fjölda manna, þetta er s.s. sá staður. Þar er nú -13 á celsius og ca. meter af snjó, svo snjóleysið verður væntanlega ekki vandamál. Gist verður á 4 stjörnu hóteli (að sjálfsögðu), og samkvæmt planinu mun Skáldið deila herbergi með þeim Öldu og Magnúsi frá Þverbrekku. Og ef Alda fær að ráða mun Skáldið e.t.v. þurfa að deila hjónarúminu með Þverbrekkingi, og virkar þetta snjóbrettastúss ósköp auðvelt í samanburði við þá þolraun. Best að taka með sér eyrnatappa, og vona það besta...

Jarlaskáldið hefur eilítið verið að taka til í hlekkjasafni sínu. Hefur dómur fallið í máli Biskupsins, og var hann fundinn sekur um aumingjablogg. Refsingin er útlegð frá hlekkjalistanum, uns iðrun er sýnd. Mál ofuraumingjabloggarans og stelpunnar eru enn fyrir dómi, en bæti þau ekki hegðun sína bíða þeirra sömu örlög.
Til að fylla skarð Biskupsins kallar Jarlaskáldið til Atla Tý Ægisson. Téður Atli hefur um hríð tengt á Jarlaskáldið, og samkvæmt opinberri tölfræði er sá hlekkur einhver sá gjöfulasti sem Skáldið nýtur. Sér Jarlaskáldið sér því vart annað fært en að reyna að launa pilti lambið gráa með hlekk, og vonandi verður hann Atla gjöfull.

Að lokum: Hvar kemur orðatiltækið að launa einhverjum lambið gráa fyrst fyrir? Vegleg verðlaun í boði, 1/8 af hríssúkkulaðistykki frá Nóa Síríus, namminamm....






þriðjudagur, janúar 07, 2003 

Straumar og stefnur

Ha, já, er þetta byrjað? Það ber ekki á öðru! Komiði sæl, Jarlaskáldið hér, aðeins svona að láta vita af sér. Ekki er nú tilveran viðburðarík þessa dagana, ekkert djamm síðustu helgi (þetta hljóð sem þið heyrðuð var kjálki lesenda að skella í bringuna á þeim), og allt vitlaust að gera í vinnunnni. Spilakvöld á laugardaginn, spilað var hið ágæta spil Party og Co. í Eskihlíðinni, þó ekki hjá Ella skrýtna. Ekki tókst Jarlaskáldinu að bera sigur úr býtum í því spili, enda gengur það að stórum hluta út á fíflagang, og ekki er Skáldið þekkt fyrir slíkt. Hélt Jarlaskáldið heimleiðis um eittleytið eftir að hafa kvatt þau Ármann, Ásu og Borghildi, sem fóru af landi brott í dag. Asskoti róleg helgi þetta s.s.

Hafi laugardagurinn verið letidagur voru öll met slegin á sunnudeginum. Skáldið gerði nákvæmlega ekki neitt, nema að éta og glápa á imbann. Mikið sældarlíf.

Í dag byrjaði svo vinnan aftur fyrir alvöru (það verður skrýtið að vinna meira en tvo daga í röð, ætli maður detti ekki í það á morgun bara út af vana?), og eins og fyrr segir brjálað að gera, og verður það væntanlega næstu daga. Buddunni veitir víst ekki af einhverju aukreitis, ekki síst eftir að Skáldið asnaðist til að fara í Útilíf um helgina og lét einhvern tungulipran sölumann pranga inn á sig einhverjum ógurlegum skíðajakka fyrir sautjánþúsundkall, af því „hann er á svo rosalega góðum afslætti!“ Muna það, aldrei að fara einn í búðir, mótstöðuaflið er ekkert! Eins gott maður dreif sig síðan strax út, aldrei að vita hvernig þetta hefði endað, sölumaðurinn var kominn með æðisglampa í augun eftir að hann skynjaði hve hjálparlaust fórnarlambið var.

Mánudagar eru orðin bestu sjónvarpskvöldin. A.m.k. var dagskráin í kvöld hrein snilld. Að vísu er stöð tvö hætt að sýna Just Shoot Me og byrjuð að endursýna Friends í staðinn, Just Shoot Me eru nefnilega skemmtilega vondir þættir. Klukkan átta er það svo Frasier, sem var með betra móti í kvöld eftir nokkra slappa þætti, og svo er það náttúrulega aðalsnilldin, Scrubs. Á eftir Scrubs sýnir Sjónvarpið gjarnan einhverjar heimildamyndir, og ákvað Skáldið að horfa á þá sem sýnd var í kvöld, sæmilega áhugavert efni svona fyrir fram, frönsk samsæriskenningamynd um að tungllending Appolo XI hafi ekki átt sér stað. Var þessi mynd hin kostulegasta. Þessi samsæriskenning er að sjálfsögðu vel þekkt, um hana gerðar bíómyndir og allt, og byrjaði myndin á ósköp hefðbundinn hátt. Plottið gekk nokkurn veginn út á það að Stanley Kubrick hafi búið til myndirnar af tunglendingunni í myndverinu fyrir 2001: A Space Odyssey , og birt viðtöl við marga fræga menn eins og Henry Kissinger og Donald Rumsfeld þar sem þeir virtust vera að viðurkenna allt dæmið. Það sem kom svo í ljós smátt og smátt að þetta var allt bara bull, gæjarnir höfðu klippt saman svör þessara frægu manna við allt öðrum spurningum og fengið svo leikara til að fylla upp í eyðurnar. Þegar maður fattaði loks djókinn (svona um miðja mynd í tilviki Jarlaskáldsins, þótt grunurinn hafi byrjað miklu fyrr) varð myndin ekki lengur ofsóknarbrjáluð samsærisheimildamynd heldur brjálæðislega fyndin „mockumentary.“ Að vísu eyðilögðu gæjarnir soldið djókinn með því að viðurkenna hann í lokin, því allra ofsóknarbrjáluðustu áhorfendur hefðu líklega trúað þessu fram í rauðan dauðann, en engu að síður óhemju fyndin mynd, bravó fyrir Sjónvarpinu að sýna hana!
Eftir „heimildamyndina“ var svo Law and Order: C.I. á dagskrá, þar sem íslenska leikkonan Ylfa Edelstein var gerð höfðinu styttri tiltölulega snemma. Alltaf gaman þegar landinn er að gera það gott...

laugardagur, janúar 04, 2003 

Frásagnarlist fyrri alda

Sæl veriði, Jarlaskáldið er öllu upplitsdjarfara nú en í síðasta bloggi, sem var nota bene skrifað strax að loknu áramótadjamminu. Ekki man Skáldið svo gjörla hvað olli geðshræringunni, best að reyna að rifja þetta upp, og svo getur kannski einhver samferðamannanna fyllt í eyðurnar.

Það var snæddur kalkúnn í höll Jarlaskáldsins á gamlárskvöld, og getur það nú talist hefðbundið, þar eð það var einnig gert í fyrra. Kalkúnn er mikill herramannsmatur, enda ekki ósvipaður kjúklingi, sem er sem kunnugt er í miklum metum hjá Skáldinu. Bragðaðist hann afar vel, enda móðir Jarlaskáldsins listakokkur þegar sá gállinn er á henni. Stuttu eftir mat hélt Jarlaskáldið vel birgt út í dreifbýlið, nánar tiltekið Kópavoginn, þar sem því hafði verið boðið í áramótafögnuð hjá Hrafnhildi í Ekrusmáranum. Var því tekið með kostum og kynjum, og eyddi fyrri hluta kvölds aðallega í sjónvarpsgláp, fyrst á fréttánnál Stöðvar 2 og síðan á Skaupið. Fínt Skaup, þó ekki hafi það náð að skáka snilldinni síðan í fyrra. Að Skaupi loknu hélt Skáldið líkt og flestir landsmenn út fyrir hússins dyr, og skaut upp sínum flugeld og sinni tertu. Naut svo útsýnisins, sem var stórgott þegar Skáldinu hafði hugkvæmst að nýta meðfædda hæfileika sína og klifra upp á þak. Fylgdu aðrir í fótspor Jarlaskáldsins, og höfðu þau skötuhjú Kjartan og Laufey þá bæst í hópinn. Var mikið stuð á þakinu, þótt vart sé hægt að mæla með þessu athæfi út frá öryggissjónarmiðum.

Þegar hægjast fór um í sprengingunum tók aðeins meira sjónvarpsgláp við, enda Stella í orlofi í boði, nostalgía dauðans, auk þess sem skálað var í bubbly og soledes. Einhverju eftir áramót mætti svo Magnús Blöndahl á svæðið og nam Skáldið á brott, og lauk för þeirri í Grafarvoginum, heima hjá þeim hjónaleysum Magga og Elínu. Var þar margt góðra gesta, og mikið brallað og baukað. Eitthvað virðist Óminnishegrinn hafa komist í síðari tíma heimildir, a.m.k ber heimildum ekki saman, man Jarlaskáldið þó eftir svaðilförum miklum, og nær óstjórnlegri drykkju viðstaddra. Síðast man Skáldið eftir því að hafa verið hent út, ekki man það hvers vegna, en grunar þó að það hafi átt þá meðferð skilda. Tók því næst leigara ásamt félaga Gústa, hann kostaði bara á þriðja þúsund úr Grafarvoginum upp í Breiðholt, eins gott maður fór ekki í bæinn! Þegar heim var komið bloggaði Skáldið tvær málsgreinar, en hélt svo inn í draumalandið. Lauk þeirri för ekki fyrr en myrkt var orðið daginn eftir. Sæmilegt það.

Annars verður nú eitthvað fátt á seyði næstu dagana í lífi Jarlaskáldsins, ráða því vondir íslenskir bankamenn, sem segja Skáldið blankt. Að vísu mun draga til tíðinda eftir rétta 11 daga, þegar Skáldið hverfur af landi brott, en þangað til er fás að vænta. Nema einhver vilji splæsa á Skáldið, það er öllum frjálst.................


miðvikudagur, janúar 01, 2003 

Súrt

Af hverju í andskotanum eru áramótadjömm alltaf svona andskoti súr? Skil etta ekki..............

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates