« Home | Vignir og Toggi miskátir » | Blöndudalur þreyttur á flugvellinum eftir 5 daga... » | Rakel, Toggi og Vignir að flippa í Áshamarnum » | Skáldið og Blöndudalur taka undir U2 » | Ef myndin prentast vel má sjá Skáldið ásamt Fræn... » | Brúðubíllinn, löng bið á enda » | Hönd, einhver, Sammi og Kiddi í Áshamarnum » | Blessaður Brúðubíllinn loksins kominn » | Hvað er Lilli api að bralla þarna? » | Stemmningin í Herjólfi alltaf góð » 

mánudagur, ágúst 09, 2004 

Fullt (af) fólk(i)

Þegar síðast fréttist til Skáldsins var það við litla heilsu, enda nýkomið úr Drekkumokkurídraslleiðangri ársins, Eyjum 2004. Sór það þess dýran eið að koma ekki nálægt svo miklu sem maltöli næstu vikurnar hið minnsta, ellegar hundur heita. Nú má kalla Skáldið Snata.

Það fór sosum nógu sakleysislega af stað. Á föstudagskvöldið ætlaði Skáldið aldeilis að standa við stóru orðin, og fékk því bróður sinn úr Eyjum til þess að heimsækja kvikmyndahús þá um kvöldið. Fyrir valinu varð mynd sem ekki átti að reyna um of á vitsmunina, sem enn voru í lamasessi, Shrek 2. Skemmst er frá því að segja að myndin var hin mesta snilld, hláturvöðvarnir fengu litla hvíld og gefur myndin þeirri fyrri ekkert eftir nema síður sé. Bara 90 stjörnur á helvítið! Skáldið hafði fengið veður af því áður að það myndi borga sig að flýta sér ekki um of út úr salnum þegar mynd lyki, og það kom á daginn, þeir 7 sem enn voru í salnum auk okkar fengu góða rúsínu í pylsuendanum. Sem leiðir hugann að því, af hverju ætti maður að vilja rúsínu í pylsuenda? Jæja, erum við ekki komin soldið út fyrir efnið?
Að sýningu endanlega lokinni var haft samband við Blöndudal svona til að sjá hvað hann væri að bralla, og varð úr að við Stefán brugðum okkur í kurteisisheimsókn í Kópavoginn þar sem þeir Kiddi supu á öli í partíi hjá lillebror Kidda. Þar var glatt á hjalla og sé eini veikleiki Ofurmennisins kryptónít þá er eini veikleiki Jarlaskáldsins frír bjór. Því fór sem fór. Sumu er einfaldlega ekki hægt að hafna, bara dónaskapur og í raun asnalegt.
Setið var fram eftir kvöldi í eldhúsinu hjá Kidda og eðlilega snerist umræðan að mestu um upprifjanir á Þjóðhátíð og voru þær frásagnir flestar óprenthæfar með öllu. Gjörðust menn glaðir, enda fóru minni mörg, og skyldi horn drekka í minni hvert. Að lokum var Stefán, enn allsgáður merkilegt nokk og það heppilega, fenginn til að aka oss þremur auk lillebror niður á heimavöllinn og urðu það fagnaðarfundir enda langt síðan þar var gengið um gólf. Var aðalfundarstörfum svo sinnt af krafti fram eftir nóttu, tekin spor við Hemma Gunn og þar fram eftir götunum. Skáldið ákvað að sjálfsögðu að enda gleðina á að heimsækja gamlan góðkunningja, Nonnabita, og hann stóð við sitt. Jájá.

Laugardagur. Humm, byrjaði allavega betur en laugardagurinn þar á undan, Skáldið þurfti ekki leiðbeiningar gegnum síma til að rata úr rúminu. Svo tóku við einhver leiðindi fram eftir degi, enda engar Eyjar (búhú), en Skáldið fór þó í mjólkurbúð þar sem Blöndudalur hafði látið plata sig í ölæði gærkvöldsins til að efna til teitis þá um kvöldið. Gerðist því fátt merkilegt fyrr en á tíunda tímanum um kvöldið að Twistur mætti ásamt Gústa Grúppíu í Breiðholtið og skutlaði Skáldinu að bænum Þverbrekku í Kópavogshreppi hvar Blöndudalur býr í hjáleigu. Voru þar auk hans þeir Kiddi ásamt lillebror og Snævar, og ekki leið á löngu fyrr en fjölga tók í kotinu. Of langt mál yrði að telja alla upp, en það áttu gestir sameiginlegt að allir fengu þeir að vita af afrekum Eyjafara, stórum sem smáum. Seisei. Að lokum voru þó aðeins 7 manns eftir í teitinni um hálfþrjúleytið og þótti ekki seinna vænna að halda niður á láglendið. Skáldið fór í leigara við fjórða mann, Adolf mun hafa flúið heim sakir, ja, aðgangshörku við Malibúinn, en um hina tvo er lítið vitað. Eru þeir því úr sögunni.
Fyrst var það röðin á heimavellinum, og þó Jarlaskáldið hafi löngum talað um hve gaman er í góðum Hillsborofíling er ekki annað hægt en að taka heilshugar undir þetta. Dyraverðirnir þarna og víðar hafa negatíva greindarvísitölu. Skáldið komst þó inn að lokum og var gleðin ein ríkjandi að vanda eftir það. Óþarfi er að tíunda hana í smáatriðum, mágkonan sá um stuðið á dansgólfinu og aðrir reyndu að fylgja henni eftir.
Einhvern tímann um nóttina fékk Blöndudalur þá snilldarhugmynd að yfirgefa pleisið og fara á þann arma stað Pravda, og tókst með einhverjum sálfræðitrixum að plata Skáldið með. Það er nú meiri andskotans skoffínastaðurinn! Skáldið borgaði 500 kall inn og stoppaði einhverjar mínútur áður en það þurfti frá að hverfa vegna viðbjóðs. Og hvað gerði maður þá? Júbb, aftur upp á Hverfó í aðra álíka gefandi röð. Að vísu var Kári mættur í röðina og stóð fyrir skemmtiatriðum með því að hóta hinum og þessum limlestingum fyrir að troða sér fram fyrir. Stórskemmtilegt. Inn komst Skáldið aftur og tókst m.a.s. að draga Steffí frænku með fram fyrir röð, smá svona payback. Ekki var stuðið minna þegar þarna var komið sögu, og eyddi Skáldið rest kvölds á dansgólfi að reyna að halda í við mágkonuna sem héldu engin bönd. Auk þess þurfti Skáldið að bregða fyrir sig leikrænum hæfileikum með því að leika kærasta einhverrar stelpu sem vildi losna við uppáþrengjandi gæja, og lék Skáldið hlutverkið óaðfinnanlega.
Um hálfsex voru svo ljósin kveikt, djammið búið og kominn tími á heimferð. Mágkonan virtist ekki líkleg til þess að koma sér heim upp á sitt einsdæmi og rann Skáldinu því blóðið til skyldunnar, dreif hana með sér og niður Laugaveginn. Við Lækjargötu gafst frökenin upp og þurfti Skáldið að skokka út að Miklubraut til að finna leigubíl, enda náði leigubílaröðin út að Menntaskólanum. Var svo náð í mágkonuna og eyddi hún heimleiðinni í að úthúða Jarlaskáldinu, leigubílstjóranum og gott ef ekki öllu karlkyninu um leið, aldeilis sem að framtak Jarlaskáldsins var vel metið. Leigubílstjórinn var flottur, þáði í nefið og alles.

Þess má geta að samkvæmt fregnum vaknaði mágkonan á sjöunda tímanum daginn eftir. Um kvöldið.

Á sunnudaginn byrjaði Skáldið á að fara á KFC. EFtir slíka byrjun getur dagurinn ekki verið slæmur.

Djöfull er ógeðslega heitt!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!


Og að lokum kynnir Jarlaskáldið til sögunnar tvö ný blogg. Annars vegar ber að telja nýjasta tilvonandi liðsmann VÍN, sjálfan Danna Djús, sem er kominn vel á veg með að öðlast fullgilda aðild að þeim eðla félagsskap eftir ágæta frammistöðu í bæði Ammilistúr Vignis og í Húsafelli fyrr í sumar. Er það von vor að hann muni fá fullgilda aðild á allra næstu vikum og eftir það veita deild VÍN á Fjóni forstöðu í vetur.
Hins vegar er það hópblogg nokkurt sem sýndi Jarlaskáldinu þann sóma fyrir nokkru að hlekkja á það og fær það goldið í sömu mynt. Eru þetta stúlkur nokkrar sem Skáldið þekkir sumar en misvel, allt prýðiskvenfólk. Stígur er kominn til að vera.
Ekki eru þó allar fréttir góðar. Manni og Ása, þið getið sjálfum ykkur um kennt að vera komin í sama flokk og Oddi!

Var búið að minnast á hvað það er ógeðslega heitt!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates