fimmtudagur, febrúar 27, 2003 

Miðvikublogg ið níunda

Enn eitt miðvikubloggið, en er frá einhverju að segja? Jújú, það er nú alltaf eitthvað. Frá síðasta pistli hefur það helst gerst að Jarlaskáldið brá sér enn eitt skiptið upp í Bláfjöll, þetta fer nú að hætta að vera sniðugt! Þrusugaman sem fyrr, en engin stórafrek unnin í þetta skiptið. Jarlaskáldið lofar að fara ekki upp í fjöll á morgun. Hvers vegna? Á morgun ætlar Jarlaskáldið að kíkja niður í Háskóla Íslands á kynningu á framhaldsnámi, Skáldið er nefnilega að gæla við þá hugmynd að gerast námsmaður að nýju næsta haust. Það er nefnilega ansi ljúft líf ef rétt er munað, maður getur sofið út flesta daga og svo eru líka oft haldnar vísindaferðir og partý hvurs konar, jú ætli maður skelli sér ekki bara í eitthvað nám! Getur ekki verið verra en að vinna í Ost og smjör er það?

Fyrst maður er nú farinn að ræða framtíðina er víst við hæfi að tilkynna það hér með að það lítur allt út fyrir að Skáldið muni enn eitt sumarið vinna á Nesjavöllum, Meistarinn hafði samband um daginn og vildi ólmur vita hvort Skáldið kæmi ekki örugglega aftur því það stefndi í mikla fjölgun gríslinga á svæðinu sem þyrfti að leiðbeina við vinnuna. Skáldið hugsaði með hryllingi til þess hvernig ástandið yrði ef t.d. aumingjabloggarinn eða jafnvel Mummi yrðu við stjórnvölinn og gat því ekki skorast undan þessari bón Meistarans. Maður byrjar líklega mánaðamótin apríl-maí þarna, gerir ekkert í svona mánuð, og svo mæta gríslingarnir á svæðið í júní. Same old shit.

Sem endranær má búast við að Jarlaskáldið líti við á búllum bæjarins um helgina. Á föstudaginn er Skáldið að spá í að fara með aumingjabloggaranum í einhverja vísindaferð, ekki veit það hvert, en það er hvort sem er algert aukaatriði. Þá um kvöldið á svo einhver kona sem Skáldið þekkir afmæli og ekki ólíklegt að litið verði við hjá henni, a.m.k ef það verður einhver teiti í gangi. Enn síðar það kvöld má leiða líkur að því að gestir Hverfisbarsins fái að njóta nærveru Skáldsins, eða svo segir sagnfræðin a.m.k. Undir morgun má svo telja næsta öruggt að hitta megi Skáldið annað hvort á Nonnanum eða Hlöllanum, enn og aftur er stuðst við sagnfræðina til að fá það út. Á laugardaginn er svo reyndar ekkert planað. Segir Skáldinu þó svo hugur að ekki verði setið með hendur í skauti. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. En eitt er víst að allt það verður ákaflega gaman þá....


miðvikudagur, febrúar 26, 2003 

Blúður

Jarlaskáldið skrapp einu sinni sem oftar upp í Bláfjöll í kvöld, ásamt þeim fóstbræðrum Magga og Stebba. Það má hreinlega ekki vera minnsta færi til að skíða þessa dagana án þess að við séum mættir þangað. Við vorum reyndar ekkert of bjartsýnir á þetta svona fyrirfram, bjuggumst við skítaslabbi og þoku, en okkur skemmtilega á óvart var færið bara ágætt, a.m.k. á löngum köflum, enda hafði greinilega snjóað allan daginn, og þokan ekkert svo mikil. Auk þess var ekki kjaftur í fjallinu og því engin bið eftir lyftum. Tókst okkur því að fara fjölmargar ferðir á þessum tveimur tímum sem við vorum í brekkunum, sem er gott. Ekkert sosum merkilegt í frásögur færandi, fyrir utan það að Skáldinu tókst að stökkva allríflega hæð sína í loft upp í fullum herklæðum (kannski ekki mikið afrek þegar hæð Skáldsins er höfð í huga) af stökkpalli einum allstórum og tókst m.a.s að lenda á réttum kili og vera til frásagnar á eftir. Var flugferð þessi nokkuð glæsileg að sögn viðstaddra. Að vísu eru lappir Jarlaskáldsins eitthvað að kvarta undan þessari óblíðu meðferð á sér, en maður býr víst ekki til ommelettu án þess að brjóta egg, er það?

Jarlaskáldið var að taka til í linkalistanum sínum. Dengsi var fundinn sekur um aumingjablogg og hlýtur þá refsingu að vera fleygt út í ystu myrkur. Oddi aumingjabloggari var ansi hætt kominn um tíma en náði að bjarga sér fyrir horn með því að blogga um helgina. Svo átti hann líka afmæli á konudaginn, hefur eflaust þolað nóg í bili.Hann er þó sem fyrr á skilorði, brjóti hann af sér á nýjan leik mun hann hljóta sömu örlög og Dengsi. Jarlaskáldið hefur einnig vökult auga með öðrum sem hafa verið latir að undanförnu, þið vitið hver þið eruð, enginn er óhultur! Ekki hefur arftaki Dengsa í linkalistann enn fundist, áhugasamir mættu alveg hafa samband og færa rök fyrir því að þeir ættu slíka upphefð skilda. „Rök“ í þessu sambandi mætti alveg skilja sem „peningagreiðsla“, það er jú hart á dalnum þessa dagana.

Að lokum: Hvað þýðir orðið blúður?

mánudagur, febrúar 24, 2003 

Lífsmyndir Skálds

Ýmislegt hefur verið á seyði hjá Skáldinu síðan síðast fréttist af því, sumt gott og annað verra. Byrjum á byrjuninni.

Á föstudaginn var útför pabba hans Gunna frá Fríkirkjunni, og mætti Skáldið þangað. Þrátt fyrir sorglegt tilefni var gaman að hitta allan vinahópinn, langt síðan hann hefur verið allur saman kominn á einum stað.
Sem von er var fólk í litlum partýhugleiðingum um kvöldið, og hélt Jarlaskáldið sig heima við og glápti á imbann fram eftir kvöldi eða þangað til dagskráin var orðin svo slæm að ekki var annað að gera en að leggjast í fletið. Sem var reyndar eins gott því...

...eldsnemma á laugardagsmorgun (10 eða eitthvað!) var Skáldið vakið af símhringingu. Var þar á ferð Magnús frá Þverbrekku sem vildi óður og uppvægur halda til fjalla á skíði, en sakir bílleysis neyddist hann til að draga Skáldið með. Var það auðsótt mál, enda veður hið besta og allar líkur á góðum degi. Upp í Bláfjöll vorum við komnir á tólfta tímanum, og hittum þar fyrir þá félaga Pétur Maack og Hjört Einarsson, sem líkt og Jarlaskáldið voru á forláta snjóbrettum. Var meiningin að skíða með þeim, en þar eð menn voru mismikið að flýta sér urðum við snemma viðskila, rákumst þó ósjaldan á þá kappa í brekkunum. Upp úr þrjú bættust svo þeir Andrésson og Eyfi í hópinn, og var skíðað til klukkan sex vítt og breitt um svæðið. Var nánast Ítalíustandard á skemmtanastuðli dagsins, prýðisfæri, gott veður, stuttar eða engar raðir, allar lyftur opnar, og franskarnar í búllunni m.a.s. ætar. Vantaði bara ákveðinn vökva og þetta hefði verið fullkomið. Þeir fjölmörgu sem ekki nenntu upp eftir eru hér með stimplaðir suckers.

Á laugardagskvöldið var enn og aftur haldið út á lendur skemmtanalífsins, og í þetta skiptið var stefnan tekin á útskriftar/innflutnings/afmælispartý hjá Hrafnhildi Hannesdóttur. Var það partý með miklum ágætum, stuð og djamm bara nokkuð almennt, en þó má segja að þrír aðilar hafi skarað fram úr í þeim efnum. Þessir þrír aðilar hurfu einmitt á braut seinna um kvöldið, og litu við í flugpartý í einhverju húsi við Laugaveginn. Stuð var þar einnig nokkuð, en ekki þekkti Skáldið marga. Varð dvölin stutt, og stefnan næst tekin á kunnuglegri slóðir. Í Hillsboroughröðinni hittum við fyrir þá félaga Staffan og Vigni, sem voru komnir heim með öngulinn í rassinum og skottið milli lappanna eftir fremur endasleppan jeppatúr upp á Langjökul. Voru þeir engu að síður hressir, sem og Toggi og frú og Andrésson og frú sem einnig munu hafa verið á svæðinu, auk þeirra mætti frk. Adolf á svæðið stuttu síðar. Í röðinni var heljarinnar fjör, því auk troðnings og kulda var hellirigning. Komumst inn um síðir, og tóku þá við hefðbundnir siðir, brunað á barinn og síðan á gólfið hvar dansmenntir voru stundaðar fram eftir nóttu. Var celebastandard með ágætasta móti, blökkumaðurinn Robert Townsend mætti á svæðið, en hann féll þó óneitalega í skuggann af sjálfum Stefáni Hilmarssyni. Beibstandardinn var í góðu meðallagi, annars var Skáldið ekkert að stíga í vænginn við stúlkur eftir sneypuför síðustu helgar, lét sér nægja að stíga dansspor sín með Adolfi og frú Andrésson. Aulaháttur næturinnar hlýtur að teljast það að bæði Jarlaskáldinu og Adolfi tókst að týna hlutum, Skáldinu tókst að týna jakkanum sínum hvar í voru einu bíllyklar þess, en Adolf týndi bæði veski og síma. Var leitað að þessu dyrum og dyngjum tímunum saman, og menn orðnir heldur fúlir undir hið síðasta. Þegar ljósin voru svo kveikt klukkan sex og fólki skipað að hypja sig burt kom í ljós að jakkinn hafði verið á borði við hliðina á Skáldinu allan tímann, og síminn og veskið undir jakkanum hans Staffans. Sem er aulalegt. Ojæja, þetta fannst að minnsta kosti.
Í birtu ljósanna kom einnig í ljós að allir nema Skáldið, Adolf og Staffan voru horfnir, og því ekkert annað að gera en að ná sér í Hlöllann sinn og drulla sér heim. Þar vaknaði einmitt Skáldið í morgun, sitjandi fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi, some things never change!

Í dag voru svo stundaðar hefðbundnar eftirdjammsaðgerðir, að sækja bílinn niður í bæ með viðkomu hjá Kentucky Fried, og síðan að liggja í heitu pottunum í Laugardalnum fram eftir degi og skoða stelpur. Ekki amalegt það. Og þá er þeta bara búið. Meira seinna.

fimmtudagur, febrúar 20, 2003 

Í dag...

...fékk Jarlaskáldið sér kjúlla í hádeginu, þriðja máltíðin í röð sem hann varð fyrir valinu. Ekki slæmt það.

...fór Jarlaskáldið ásamt Magga, Stebba og Öldu upp í Bláfjöll og renndi sér í brekkunum í fínasta færi, en litlu skyggni og nokkru hvassviðri. Engu að síður mjög gott.

...komst Skáldið að því að Ed er að fara að byrja aftur í Sjónvarpinu. Sem er mjög gott.

...var góður dagur.

miðvikudagur, febrúar 19, 2003 

Miðvikublogg ið áttunda

Hápunktur dagsins í dag var að fara á Kentucky Fried í Mosfellsbæ í hádegishléinu. Stórkostleg er tilvera Jarlaskáldsins. Annars var kjúllinn hinn ágætasti, eins og hans er von og vísa.

Í síðasta miðvikubloggi hljóp Jarlaskáldið aldeilis á sig þegar það hélt því fram að Dr. Greene í ER væri loksins horfinn á braut. En því var sko aldeilis ekki að heilsa í þættinum í kvöld, alveg hreint sautján vasaklúta þáttur þar sem áhorfendur fengu að njóta þess að sjá kappann drepast hægt og sígandi með tilheyrandi gráti og gnístran tanna. Örugglega versti ER þáttur ever. Sem betur fer tók betra við, That '70s Show snilld eins og jafnan, gott ef ekki orðinn næstuppáhalds þáttur Jarlaskáldsins á eftir hinum stórkostlega Scrubs. Verst að maður missir af Fólk með Sirrý. Eða bara ekki.

Á morgun er það ætlun Jarlaskáldsins að hreyfa sig aðeins eftir nokkurt hlé, þ.e.a.s. ef veður verða ei of válynd, því ef einhver skíðasvæði í nágrenni höfuðborgarinnar verða opin á morgun mun Skáldið mæta þangað strax eftir vinnu og sýna listir sínar. Hafi einhverjir áhuga á að slást með í för eru þeir hér með boðnir velkomnir (ekki verra ef þar væru á ferð íturvaxnar einhleypar yngismeyjar á aldrinum 18-22 ára).

Að lokum óskar Jarlaskáldið Kettinum til hamingju með aldarfjórðunginn, og vill um leið nota tækifærið til að krefjast þess að Kötturinn láti af aumingjabloggi sínu og komi með feitt afmælispartýblogg í anda þess er hér ritar. Góðar stundir.

mánudagur, febrúar 17, 2003 

Um staðfestu Jarlaskáldsins

Eins og greint var frá á þessum vettvangi í síðasta miðvikubloggi (inu sjöunda) var það ætlun Jarlaskáldsins að fara að hægja á sér í sukki og svínaríi, a.m.k. um nokkurra vikna skeið. Liður í þeirri viðleitni var sú að þessa helgi var Jarlaskáldið búið að ákveða að gera ekki neitt og hitta engan. Helgin ber staðfestu Jarlaskáldsins ófagurt vitni.

Að vísu benti fátt til annars en að þetta tækist á föstudagskvöldið. Jarlaskáldið kom heim um tvöleytið úr vinnunni og lagði sig fram að kvöldmat, hlammaði sér svo fyrir framan sjónvarpið í sínum ódjammlegasta klæðnaði, og var ætlunin að hreyfa sig ekki þaðan næstu tímana. Það gekk til klukkan ellefu, þá hringir Magnús frá Þverbrekku og segist vera að sötra ásamt Kidda og Frosta í Vesturberginu, væri Skáldið ekki til í að bætast í hópinn? Hugsaði Skáldið sem svo að það væri lítill skaði af því, hvort sem er búið að kaupa bjórinn og því alveg eins hægt að drekka hann, en það skyldi nú ekkert fara í bæinn eða neitt svoleiðis. Á ensku kallast þetta að vera naive. Enda fór það svo að einni kippu og vodkaglasi síðar var Skáldið komið í leigubíl á leiðinni niður í bæ. Varla þarf að taka fram hvar sú för endaði, og eftir fremur stutta biðröð að þessu sinni var tjúttað af krafti fram eftir nóttu. Eitthvað mun Jarlaskáldið hafa hitt af fólki, m.a. Rangláta dómarann, sem Magnús frá Þverbrekku kvaðst hafa átt í „gáfulegum“ samræðum við. Einnig hitti Skáldið gamla bekkjarsystur, Ástu Sóllilju , eflaust áttum við í einhverjum samræðum, ekki man Skáldið um hvað. Eitthvað mun Skáldið hafa gert sér dælt við kvenfólk þetta kvöld, en þrátt fyrir góða tilburði á köflum fór það svo að Skáldið fór í fylgd Magnúsar heimleiðis, en þó ekki fyrr en Nonni hafði verið heimsóttur, þar sem Anna vinkona okkar brasaði þessa líka fínu báta ofan í okkur. Að sögn mun Jarlaskáldið hafa bætt Norðurlandametið í „að troða sér fram fyrir röð án þess að vera laminn,“ en Magnús bætti um betur með því að setja heimsmet í „að hrynja í gólfið án sýnilegrar ástæðu.“ Til að kóróna eyðsluna þetta kvöld fór það svo að Skáldið splæsti bæði bátnum og leigaranum á Magnús. Hann skuldar.

Jarlaskáldið drattaðist seint og um síðir á lappir á laugardaginn, og þar sem það var hvort sem er búið að klikka á markmiðum sínum taldi það best að klára bara dæmið og gera það almennilega. Rúntaði í ríkið, og þar var sko röð. Af einhverri ástæðu keypti Skáldið allt of mikinn bjór, eflaust var guðleg forsjón þar að verki, eins og síðar mun koma í ljós. Um kvöldið barst svo það sem beðið hafði verið eftir, tilkynning um Eurovisionpartý hjá Togga. Magnús bauðst til að sækja Skáldið, en kvartaði yfir bjórleysi. Kemur þar til sögunnar guðlega forsjónin, því Skáldið gat skaffað kappanum kippu hjá sér. Annars er það nú alveg fáránlegt að vera að splæsa Nonnabita, leigara og kippu á einhvern sem maður vonast ekki til að fá að sofa hjá. Magnús skuldar.
Á leiðinni var Vignir pikkaður upp, og heima hjá Togga hittum við fyrir húsráðanda og Dýrleifi frú hans, Andrésson og Elíni frú hans, Staffan og tvær vinkonur Dýrleifar, sem eflaust heita eitthvað. Ekki man Skáldið eftir fleirum á staðnum, sem er þó engin trygging fyrir því að svo hafi ekki verið. Gláptum við svo á keppnina, og höfðum misgaman af, Skáldið hélt að sjálfsögðu með Leðjunni og greiddi henni sín þrjú atkvæði, bölvaði svo mjög þegar fyrirsjáanleg úrslitin voru ljós. Reyndar var Skáldið einnig nokkuð hrifið af þeirri færeysku, en það kom reyndar laginu sem hún söng ekkert við. Þeir skilja sem vilja.
Þrátt fyrir vonbrigðin með úrslitin var djammi og djöfulgangi haldið áfram heima hjá Togga þar til úthverfaóttinn fór að gera vart við sig, og líkt og venjulega vorum við mætt inn á Hverfisbarinn stuttu síðar. Þar var engu minna stuð en kvöldið áður, meira ef eitthvað var, og því tjúttað af krafti. Líkt og fyrri daginn gerði Skáldið hosur sínar grænar fyrir gestum og gangandi af hinu kyninu, mestmegnis við litlar undirtektir, en þau undur og stórmerki urðu þó að stúlka ein snoppufríð sýndi þessum tilburðum Jarlaskáldsins nokkra athygli, og fyrr en varði var Skáldið orðið þátttakandi í einhverjum lostafyllsta dansi sem um getur norðan Alpafjalla, og það sem meira er, stúlkan snoppufríða var einnig þátttakandi! Var Jarlaskáldið komið á fremsta hlunn með að ræða við stúlkuna um hvar við ættum að kaupa okkur íbúð og hvort hún vildi eignast tvö eða þrjú börn þegar stúlkan batt snögglega enda á fjörið og lét sig hverfa. Hún hefur þá verið lesbísk eftir allt saman.
Þrátt fyrir skipbrot þetta í kvennamálunum hélt Skáldið áfram að djamma fram eftir nóttu, þurfti reyndar einu sinni að standa í björgunaraðgerðum þegar henda átti Andréssyni steindauðum út, en að öðru leyti gekk þetta stóráfallalaust. Fór svo að lokum að við Staffan og Magnús röltum á Nonnann, þar sem Skáldið jafnaði eigið Norðurlandamet í „að troða sér fram fyrir röð án þess að vera laminn,“ og splæsti Nonna á þá báða. Staffan reyndar splæsti leigaranum, en Magnús slapp algjörlega. Hann skuldar.

Næstu helgi ætlar Skáldið sko ekki að gera neitt. Ó nei, það er búið að bjóða Skáldinu í útskrift! Þetta ætlar að ganga erfiðlega. Ojæja.


miðvikudagur, febrúar 12, 2003 

Miðvikublogg ið sjöunda

Asskoti er Jarlaskáldið búið að vera þreytt þessa vikuna. E.t.v. er stanslaus þeytingur og hamagangur síðustu mánaða að segja til sín, a.m.k. ætlar Skáldið að reyna að vera heldur rólegra næstu vikurnar, bæði heilsu sinnar vegna og ekki síður til að rétta aðeins af fjárhaginn. Það þýðir nú samt ekki að Jarlaskáldið sé að leggjast í kör, bara svona aðeins að nota fleiri gíra en þann fimmta. Fimmti gírinn verður sparaður þangað til helgina 14. - 16. mars, þegar Agureyris verður heimsótt að nýju.

Í dag er Jarlaskáldið búið að fá tvö sms þar sem það er boðið velkomið til Ítalíu af þarlendum símafyrirtækjum. Heldur seint í rassinn gripið finnst manni.

Á morgun byrjar spurningakeppnin Gettu betur í sjónvarpinu, þar sem Menntaskólinn mætir Hafnfirðingum. Ekki ætlar Jarlaskáldið að missa af þeim kjöldrætti. Í dag var einnig opnaður sérstakur Gettu betur vefur, þar sem hægt er að finna margt milli himins og jarðar varðandi keppnina. M.a. má sjá þar alla úrslitaþættina, og eru þar á meðal úrslitaþátturinn 1996, þar sem Menntaskólinn kjöldró einmitt Hafnfirðinga þrátt fyrir að Jarlaskáldið hafi þagað þunnu hljóði nær alla keppnina. Það var sko allt hluti af strategíu, og hún virkaði svona líka vel. Í keppninni gegn M.H. árið 1997 má sjá Skáldið láta ljós sitt skína öllu meir, enda kom á daginn að sú keppni var mun jafnari. Jarlaskáldið hefði e.t.v. betur haldið við sig strategíuna frá árinu á undan og steinþagað, hún svínvirkaði.

Áðan horfði Jarlaskáldið á Bráðavaktina, og loksins tókst að drepa dr. Greene. Kominn tími til. Og var þetta ekki Corky þarna? Vonaði að maður þyrfti aldrei að sjá hann aftur.

Eins og þegar hefur verið auglýst á vissum síðum hefur Jarlaskáldið fest leigu á sumarhúsi einu í Borgarfirðinum, við Hreðavatn nánar tiltekið. Á áðurnefndri síðu er reyndar rangt farið með tímasetningu dvalarinnar, því henni hefur verið frestað um ca. mánuð sakir árekstra við aðrar skemmtanir, og verður helgina 4. - 6. apríl. Mun slotið vera hið glæsilegasta og búið öllum nútímaþægindum, svo sem heitum setlaugum, gasgrillum og öðrum nauðsynlegum viðlegubúnaði. Verða boðskort send út á næstunni, og mun Jarlaskáldið taka það óstinnt upp ef menn hlaupast undan merkjum þessa helgi, engar afsakanir utan stærri náttúruhamfara eða dauða verða teknar gildar fyrir fjarveru. Ofstopamenn úr Hafnarfirði eru jafnframt beðnir um að halda sig eins fjarri og hægt er þessa helgi, reynslan kennir okkur það. Svo er bara að finna bokkuna, herta steinbítinn, og mæta!

mánudagur, febrúar 10, 2003 

Jarlaskáldið í menningarreisu - Stóra neftóbakshneykslið

Eflaust hefur það vakið nokkra furðu gesta Hverfisbarsins um helgina að þar var hvergi að sjá Jarlaskáldið. Kemur það reyndar til af góðu einu, því Jarlaskáldið var á faraldsfæti þessa helgina. Fór það við fjórða mann norður í land, alla leið til Agureyris, til að kynna sér menningarlíf innfæddra. Með í för voru þeir Magnús frá Þverbrekku og Vignir Jónsson að ógleymdum sjálfum Logafoldargreifanum, Stefáni Twist. Farið var á tveimur bílum, enda feitir menn á ferð, og fékk Jarlaskáldið lánaðan fjölskyldubílinn til ferðalagsins. Lagt var af stað í ljósaskiptunum á föstudag, og var Logafoldargreifinn með Jarlaskáldinu í bíl, var það talið ráðlegt sakir einstaks einkahúmors þeirra félaga sem enginn annar skilur. Skemmtum við félagar okkur enda gríðarvel með hjálp fjöldans alls af Radíusflugum, sem við kunnum reyndar flestar utan að og hlógum sem vitskertir værum.
Aksturinn gekk stóráfallalaust norður, víða var hálka og stundum munaði litlu að illa færi, og í Hrútafirðinum byrjaði einnig að snjóa allhressilega svo lítið sást út. Einhvern veginn komumst við þó á leiðarenda, og var klukkan þá orðin um eitt um nóttina. Stefán hafði sem von er ástundað stífa drykkju á leiðinni, en Jarlaskáldið eðliega ekki. Gist var hjá hinni einkar gestrisnu frænku Magnúsar, Helgu Möller, sem var svo sannarlega í hátíðarskapi. Býr hún á stúdentagörðum, og eftir að hafa komið draslinu okkar fyrir voru tappar dregnir úr flöskum og flipar opnaðir á dósum, en merkilegt nokk varð lítið um óspektir og drykkjulæti, heldur farið í fyrra fallinu í rúmið, því vakna þurfti snemma...

...eða um níuleytið. Var ætlunin nefnilega sú að halda til fjalla og skíða niður þau ef kostur væri á. Að vísu var ekki búið að opna í fjallinu þegar við vöknuðum, en það var gert um tíuleytið, og þá fórum við á fætur, við nokkra furðu húsráðanda, sem undraðist nokkuð hve árrisulir gestir hennar voru. Byrjað var á því að keyra í bakaríið við brúna og éta á sig gat, en svo ekið upp í fjall, með viðkomu í skíðaþjónustu og brennivínsbúðinni. Fjallið heilsaði okkur með næðingi og skítakulda, ekkert sem við létum aftra okkur þó, nepjan orsakaði það að fámennt var í fjallinu sem er jú kostur. Var skíðafæri afar hart og jafnvel bara ís á köflum í troðnu brautunum, en Jarlaskáldinu tókst að finna ótroðnar slóðir þar sem mun betra færi var, og jafnvel smá púður á köflum. Voru brettamenn í í meirihluta í fjallinu, og sem fyrr langflestir litlum hæfileikum gæddir í íþrótt þeirri. Var skíðað af krafti og litlar pásur teknar, enda eftir litlu að slægjast þar sem engar knæpur voru í fjallinu líkt og á Ítalíu, en við björguðum okkur þó með því að hafa „nesti“ með. Upp úr hádegi var svo Strýtan, efsta lyftan í fjallinu opnuð, og þá fyrst komumst við í alvöru brekkur, og þá voru allir glaðir.
Um hálfimmleytið hvarf Jarlaskáldið á braut, því það hafði gleymt sundbrókum og neyddist til að kaupa sér einar slíkar, dálaglegar Speedobrækur á hálft fjórða þúsund, sæmilegt það. Varð Sundlaug Akureyrar svo næsti viðkomustaður, þar sem Jarlaskáldið hitti aftur samferðamenn sína, og var næsta klukkutíma eða svo eytt þar, mestmegnis í algjöru hreyfingarleysi, að vísu var tekin ein salíbuna í rennibrautinni eins og lög gera ráð fyrir, annars var mestmegnis glápt á stelpur.
Að sundferð lokinni þótti okkur ferðalöngum tími til kominn að huga að snæðingi, og varð úr að fara á Greifann, var pantað borð þar um níuleytið. Það gaf okkur um tvo tíma til að þjóra, og nýtti Jarlaskáldið þann tíma vel svo ekki sé meira sagt, munu einir átta hafa legið í valnum að tímunum tveim liðnum. Var gerður góður rómur að frammistöðu þessari. Leiddi þetta til þess að Skáldið var orðið allslompað þegar á Greifann var komið, sem m.a. lýsir sér í því að Skáldið pantaði sér rauðvín með flatbökunni, auk bjórsins. Svo skemmtilega vildi til að stúlka sú er þjónustaði okkur var okkur Magnúsi vel málkunnug, Stína vinkona Laufeyjar, og mátti sjá að hún var kona eigi einsömul. Stefán opinberaði við sama tækifæri að hann væri faðirinn, þrátt fyrir að hafa aldrei séð manneskjuna áður. Merkasta fregn þessa málsverðar hlýtur þó að teljast sú að Skáldið fetaði í fótspor Öldu innar viðurnefnislausu og var fyrst til að klára bökuna sína. Er þetta í annað sinn á einni viku sem einhver klárar matinn sinn á undan Magnúsi, og er þetta frammistöðuleysi hans farið að valda okkur talsverðum áhyggjum, er meistarinn að hrynja af stalli sínum?
Að átinu loknu var arkað sem leið lá niður í bæ, og þar sem við gengum fram hjá Sjallanum sáum við að Mannakorn var að spila um kvöldið. Þótti þjóðráð að mæta á þá samkomu. Í miðasölunni gerðist svo einhver alfyndnasti atburður sem Jarlaskáldið hefur orðið vitni að. Helga húsráðandi, annars dagfarsprúð manneskja, en greinilega eitthvað við skál að þessu sinni, fór gjörsamlega hamförum í miðasölunni þegar hana grunaði að okra ætti á okkur, og til að gera langa sögu stutta var hún komin með sjálfan Pálma Gunnarsson í símann áður en yfir lauk („Er ég einhver annars flokks hóra?“). Miðana fengum við ódýrt. Fram að konsertinum var ákveðið að heimsækja Kaffi Agureyris, og varð sú heimsókn söguleg. Að vísu var þar fámennt þegar okkur bar að garði, en um miðnætti bættust aldeilis góðir gestir í hópinn. Voru þar á ferð Iðnaðarráðherra og Heilbrigðisráðherra ásamt fríðu föruneyti, og ber þar helst að nefna gamlan félaga úr íslenskunni, sjálfa framsóknargimbrina Dagnýju Jónsdóttur. Framboðslisti X-B í Norðausturkjördæmi var s.s. mættur á svæðið og urðu kynni okkar VÍN-liða af þeim nokkur. Sem betur fer tókst okkur að stilla okkur um að fara að ræða einhver hitamál, ólíkt ýmsum öðrum þarna. Þess í stað buðum við Heilbrigðisráðherra bara í nefið, sem hann og þáði, merkilegt í ljósi þess að það var einmitt Heilbrigðisráðherra sem bannaði innflutning og sölu neftóbaksins fyrir nokkrum árum síðan. Varð hann nokkuð sposkur á svip þegar við bentum honum á þetta. Annars virtist þetta nú vera hið ágætasta fólk, þó það sé gjörsamlega clueless í pólitík.
Einhvern tímann seinna um nóttina röltum við svo yfir á ballið með Mannakornum, og verður Jarlaskáldið að játa það að Óminnishegrinn hefur farið nokkuð ómildum vængjum um seinni tíma heimildir. Að fróðra manna sögn var fremur fámennt á ballinu, og þeir fáu sem voru á staðnum allir Framsóknarmenn. Eins og allir vita eru ungir Framsóknarmenn teljandi á fingrum annarrar handar og var meðalaldurinn því nokkuð hár. Aftraði þetta okkur VÍN-liðum nokkuð í eilífri kvonfangsleit okkar. Að minnsta kosti var ekki gerð mjög löng dvöl á Sjallanum, heldur haldið aftur á Kaffi Agureyris og tjúttað þar fram eftir nóttu eða þangað til okkur var hent út. Hafði Helga þá helst úr lestinni. Eftir að hafa innbyrt einhvern mat (svo segir debetkortanótan, man ekkert eftir því) fundum við fjórir okkur svo leigubíl og ókum heim á leið. Við útidyrahurðina fór að vandast málið, við vorum að sjálfsögðu lyklalausir og húsráðandi einhvers staðar niðri í bæ og svaraði ekki í síma. Fyrst reyndum við að brjótast inn með hjálp krítarkorta, en ekki gekk það. Svo fundum við pínulítinn glugga fyrir utan sem Jarlaskáldið reyndi að smokra sér í gegnum, en þrátt fyrir að teljast seint heljarmenni að burðum varð það án árangurs. Glugginn hefur nota bene verið ca. 20 cm. á kant, og hvers vegna í ósköpunum Skáldinu datt í hug að þetta gengi verður líklega seint svarað. Að endingu tókst Magnúsi að grafa upp eitthvað símanúmer hjá stelpu í húsinu sem hleypti okkur inn og við gátum loksins sofið svefni hinna réttlátu.

Á sunnudagsmorgun vöknuðum við í ca. 30 sekúndur klukkan níu og hringdum upp í fjall. Þar var lokað, og ekkert útlit fyrir að opnað yrði, og því veltum við okkur bara á hina hliðina og sváfum vel fram yfir hádegi. Eftir á að hyggja var það kannski eins gott, líkast til hefðum við verið ansi skrautlegir í fjallinu um morguninn. Þegar við loksins vöknuðum bárust okkur svo fréttir af því að Öxnadalsheiðin væri ófær, og útlit fyrir að nokkuð framhald yrði á menningarreisu vorri. Sem betur fer var Heiðin opnuð stuttu seinna, og eftir að hafa séð erkisnillinginn Shaun Goater skora gegn Manure lögðum við af stað heimleiðis. Var sú ferð tíðindalítil, við Stefán hlustuðum áfram á Radíusflugur og skemmtum okkur konunglega, en ekki veit Skáldið hvað fram fór í hinum bílnum. Heim komum við um áttaleytið, og þá er sagan búin. Fínasta upphitun fyrir Agureyrisferðina 13.-16. mars, allir að mæta þá!

PS. Það var kannski orðum aukið að Jarlaskáldið hafi verið lamið með lurkum um helgina, sbr. næstu færslu á undan. En einhverra hluta vegna eru marblettirnir sem nú prýða Jarlaskáldið ekki teljandi á fingrum annarrar handar. Alltaf gaman að detta í harðfenni!

 

Allur lurkum laminn

Jarlaskáldið er allt lurkum lamið núna. Ástæðuna fáið þið að vita á morgun. En nú er það stjörnuleikurinn. Það verður þreyta á morgun...

miðvikudagur, febrúar 05, 2003 

Miðvikublogg ið sjötta

Það var stirður skrokkur sem Jarlaskáldinu var boðið upp á í dag. Fjórar ferðir niður Bláfjöllin og maður er stirðari en eftir 10 daga á skíðum allan daginn á Ítalíu. Það er greinilega allt betra þar.
Á morgun ætlar Jarlaskáldið að fara á KFC í hádeginu. Það er nefnilega boðið upp á plokkfisk í „mötuneytinu“ í vinnunni. Var búið að minnast á að það er lélegasta mötuneyti í heimi? Ekki? Það er þá búið núna. Á morgun ætlar Jarlaskáldið einnig að reyna að fara að sjá loksins Lord of the Rings II. Hefur heyrt góða hluti um þá mynd. Hafi einhver áhuga á að slást með í þá för er hann hér með boðinn velkominn.
Eins og þetta blogg ber kannski með sér er ekkert óskaplega mikið á seyði þessa dagana, aðallega hangs í vinnunni (ekkert að gera) og svo meira hangs heima eftir það. Hefur dálítið með það að gera að í gær fór Jarlaskáldið að borga reikninga, og er ekkert sérstaklega fjáð þessa dagana. Það verður reyndar fyrst slæmt næstu mánaðamót þegar Ítalíureikningurinn kemur. Mun væntanlega reyna á samningalipurð Jarlaskáldsins þegar það fer að ræða við hið góða fólk hjá Europay um greiðslur á reikningnum. Seinni tíma vandamál, drekkum í dag og iðrumst á morgun.

 

Endurfundir

Jarlaskáldið var á faraldsfæti í dag, lét plata sig upp í Bláfjöll í þeim tilgangi að renna sér þar niður brekkur. Samkvæmt útreikningum munu hafa verið ca. 7 ár síðan Jarlaskáldið renndi sér síðast niður brekkur þessar. Í för með Jarlaskáldinu voru þrír Ítalíufarar, þeir Magnús frá Þverbrekku og Stefán Twist auk fröken Öldu, sem hefur enn ekki unnið sér almennilegt viðurnefni. Það stendur vonandi til bóta. Upp í fjall vorum við komin seint á sjöunda tímanum, og þar lentum við í óskaplegri röð. Ekki í lyftur, ónei, heldur til að kaupa kort í lyfturnar. Biðum í meira en hálftíma í röð, stórkostleg þjónusta þetta. Loks fengum við lyftukort, og þá var opin heil lyfta, stólalyftan. Sem betur fer var röðin ekki löng, sé miðað við íslenskar aðstæður, ca. korters bið. Upp fórum við, og kalt var það. Sáum á leiðinni upp að afar fáir voru í gilinu, og komumst að því hvers vegna þegar við renndum okkur þar niður, því færið var ansi hart, og jafnvel bara ís á köflum. Einnig vakti það strax athygli Jarlaskáldsins hve óskaplega lélegir allir þessir snjóbrettagæjar sem fylltu brekkurnar fullir af attitúdi voru. Runnu á rassgatinu niður brekkurnar á meðan Jarlaskáldið skíðaði eins og sá sem valdið hefur (erum við aftur byrjuð í þessari djöfulsins sjálfhælni?!). Sorglegt, en satt. Á annarri ferð niður brekkurnar fórum við Öxlina, og þar var ekki þverfótað fyrir þessu snjóbrettapakki sem taldi það mestu skemmtun að sitja á rassgatinu í miðri brekku. Asnar!
Með mikili harðfylgi tókst okkur að komast „heilar“ fjórar ferðir þetta kvöldið, þrjár niður gilið og eina um Öxlina, og mikið saknar maður Ítalíu eftir þessa reynslu. Gaman að vísu, en maður fattaði enn betur hvað var gaman á Ítalíu eftir að prófa þetta.
Þar sem við erum ekki vön öðru en að fá okkur eins og einn öllara í brekkunni var ákveðið að skíðaiðkun lokinni að stefna á öldurhús og stúta þar einni kollu eða svo. Bar þar helst til tíðinda að Alda hin viðurnefnislausa kom öllum á óvart og var fyrst til að klára hamborgarann sinn. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem einhver klárar matinn sinn á undan Magnúsi í votta viðurvist, enda var Alda stolt sem von er af afreki sínu. Ekki gerðist fleira markvert kvöld þetta, a.m.k. ekkert sem fært verður í sögubækur. Eða hvað?

mánudagur, febrúar 03, 2003 

Fjör á Fróni

Þar sem nær öll síðasta vika fór í að rita Lengsta partýblogg sögunnar!!! hafa Jarlaskáldinu gefist fá tækifæri til að segja frá atburðum hér á Fróni. Úr því skal nú bætt, og hefst sagan þar sem Lengsta partýblogg sögunnar!!! endaði...


Ekki var djammþorsta Jarlaskáldsins svalað þrátt fyrir 11 daga samfellt skrall, og því hélt Jarlaskáldið út á lendur skemmtanalífsins strax sama kvöld og lent var í Keflavík. Að vísu hélt það sig í heimahéraði, Seljahverfinu, og var för fyrst heitið til Ernu, sem mun hafa verið að útskrifast úr einhverjum skóla þennan dag. Var þar fámennt en nokkuð góðmennt, og voru Jarlaskáldið og Stefán óþreytandi við að rifja upp hið stórkostlega Ítalíuferðalag, við mismikla hrifningu annarra gesta. Ekki var dvalið lengi þar, heldur flutti partýið sig um set, en þó ekki langt, því næsta, og um leið síðasta stopp var hjá Runólfi, sem mun einnig hafa verið að útskrifast úr einhverjum skóla. Var Runólfur höfðingi heim að sækja, bauð upp á veitingar bæði votar og þurrar, og á þakkir skildar fyrir. Ekkert varð úr fyrirhugaðri Hverfisbarsheimsókn, til hvers að vera að sækja vatnið yfir lækinn, þarna var gaman og og ekkert meira um það að segja.


Á sunnudeginum gafst skrokkur Jarlaskáldsins loksins upp. Að vísu gerðist það ekki strax, það fór í félagi við góða menn á KFC um miðjan daginn og var þá enn við bestu heilsu, en um kvöldið sagði skrokkurinn hingað og ekki lengra, og þverneitaði að vera eiganda sínum til nokkurs gagns. Jarlaskáldið mætti ekki í vinnuna á mánudeginum. Fór raunar nær öll vinnuvikan í að jafna sig eftir þessar svaðilfarir á erlendri grund, sem betur fer var nákvæmlega ekkert að gera í vinnunni, og þá meinar Skáldið EKKERT! Lét Skáldið reyndar plata sig í flutninga á fimmtudagskvöldið, ekki bætti það ástandið, en hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?

Ekki megnaði Skáldið að gera mikið meira en að glápa á imbann síðasta föstudagskvöld, ekki að það hafi verið neitt merkilegt í honum. Laugardagskvöldið varð öllu aktífara, því þá héldum við Ítalíufarar myndakvöld heima hjá Togga. Var það hin mesta skemmtun, og sórust menn og konur í fóstbræðralag um það að leikurinn yrði endurtekinn að ári eftir þessa upprifjun. Þá er bara að byrja að safna!
Að sjálfsögðu endaði vitleysan á Hverfisbarnum, enda langt síðan sú búlla var heimsótt. Var þar hörkufjör að vanda, og hitti skáldið marga góða menn og konur og m.a.s. einn Orm sem var í góðu stuði. Endaði djammið að sjálfsögðu hjá Hlölla undir morgun, og þegar Skáldið vaknaði um hádegisbil gat það loksins sagt við sjálft sig: „Nú er lífið orðið eðlilegt að nýju!“





Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates