föstudagur, janúar 27, 2006 

Bíó

Jarlaskáldið myndi ef til vill lofa því að það ætlaði að vera duglegra að blogga, en í því myndi sennilega felast skuldbinding sem Skáldið er ekkert visst um að það nenni að standa við. Jarlaskáldið er annars að lesa yfir ritgerð í læknisfræði þessa stundina, pro bono, um eitthvað sem kallast sarklíki og hljómar lítt eftirsóknarvert að ná sér í. Jarlaskáldið kann nefnilega ekki að segja nei, og á m.a.s. til að bjóða fram þjónustu sína að fyrra bragði, þótt ekki hafi raunin verið sú í þetta skiptið. Þá er nú sniðugara að lesa yfir fyrir samtök og stofnanir, eitthvað sem Jarlaskáldið hefur örlitla reynslu af, mun auðveldara að rukka þær og smyrja vel á reikninginn.

Svo á Jarlaskáldið til að lesa yfir fyrir fólk eða stofnanir sem borga greiðann á annan hátt en með beinhörðum peningum. T.d. hefur Jarlaskáldið nokkrum sinnum lesið yfir greinar fyrir ónefnd samtök tengd kvikmyndageiranum, og þiggur jafnan nokkra bíómiða fyrir, enda yfirleitt létt verk og löðurmannlegt, auk þess að þannig græða allir. Verra er að Jarlaskáldið er með eindæmum latt að sækja bíóhúsin, sem eflaust hefur eitthvað með það að gera að það vinnur yfirleitt fram á kvöld, þannig að nú á það eina átta bíómiða á sýningar að eigin vali í SAMbíóunum sem það hefur tvo mánuði til að nýta. Hér þarf því að halda vel á spöðunum ef miðarnir eiga ekki að falla á tíma, spýta í lófana og byrja að sækja kvikmyndahús. Semsagt, ef einhvern langar í ókeypis bíó á næstunni og vill auk þess njóta þar nærveru Jarlaskáldsins er bara að hafa samband. Þess ber að geta að einhleypt kvenfólk mun ganga fyrir ef eftirspurn verður meiri en framboð...

fimmtudagur, janúar 26, 2006 

Pistill




Jarlaskáldið hefur ekkert bloggað af viti síðan Óðinn má vita hvenær (og deildar meiningar um hvort það hafi bloggað af viti fyrir þann tíma), en allavega, tími er kominn á að líta aðeins yfir farinn veg og sjá hvort ekki sé þar eitthvað sem færa má í annála, komandi kynslóðum til gagns og gamans.

Það þarf að fara alllangt aftur í tímann til að finna síðasta djammpistil Jarlaskáldsins, eða allt aftur til ársins 2005, ef einhver man eftir því. Þrítugsammili Svenna nánar tiltekið, haldið 12. nóvember á því herrans ári. Þýðir það að Jarlaskáldið hafi ekkert djammað síðan þá? Ekki alveg kannski, bíðum aðeins með það.
Strax viku síðar hélt Jarlaskáldið norður í land og gerði þar óskunda ýmsan, renndi sér eilítið á snjóbretti, en var þó fyrst og fremst í óskundanum. Um ferð þá ritaði annars Stefán nokkur twist pistil allgóðan, vilji menn kynna sér efni ferðar þessarar ellegar rifja upp hafi þeir verið á staðnum.
Eitthvað þótti Jarlaskáldinu það hafa farið sér óðslega um dyragættir gleðinnar þegar þarna var komið sögu og sór þess dýran eið að láta af gjálífi og gleðskap næstu vikurnar, líkt og það gerir reyndar svo oft að liðinni erfiðri helgi. Ólíkt venjulegum helgum tókst því að halda þennan eið um nokkuð langt skeið, eiginlega má segja að það hafi vart litið út úr húsi næsta mánuðinn til annars en að mæta í vinnuna eða ná sér í næringu. Einstaklega skemmtilegur mánuður eða hitt þó heldur, en þó verður að viðurkennast að bankareikningur Jarlaskáldsins gildnaði í réttu hlutfalli við tap Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á sama tíma, að ógleymdum helstu vertshúsum bæjarins sem báru sig aumlega.
Að lokum kom þó að því að Jarlaskáldið sá aumur á þessum aðilum og boðaði komu sína á lendur skemmtanalífsins á ný. Var tilefnið jólaglögg að Vigni í Naustabryggjunni, þar sem boðið var upp á frostlög, sem engum mun þó hafa orðið meint af. Ekki einu sinni Jarlaskáldinu, sem var reyndar með prúðasta móti enda heldur stirt í þessum aðgerðum eftir mánaðardrunga.

Svo komu jú jólin og voru með hefðbundnu sniði, heimtur ágætar í jólagjöfum og matur til fyrirmyndar. Jarlaskáldið er ekki frá því að það hafi jafnvel bætt á sig nokkrum grömmum yfir jólin, en er þó ekki farið að hafa áhyggjur af offitu alveg strax...

Viku eða svo síðar voru áramót, gleðin hófst þó kveldið áður í ammilisteiti í Kópavoginum hjá Pésa kenndum við bumbu, sem veitti allvel og á síðbúnar þakkir skildar fyrir. Áramótateitið var svo hjá frænda og frænku á 7. hæð í Hólunum og heppnaðist bara prýðilega, ef eitthvað er að marka myndirnar.

Ekki minnist Skáldið þess að nokkuð markvert hafi gerst á fyrstu níu dögum þessa herrans árs, en á þeim tíunda varð allur fjandinn laus, og Jarlaskáldið vann allt í einu á umtalaðasta og um leið hataðasta vinnustað landsins, en gat þó engan veginn eignað sér heiðurinn af þeim nafnbótum. Vikan sú var með þeim fróðlegri, svo ekki sé meira sagt. Það urðu a.m.k. ansi margir sér til mikillar minnkunar í því fárviðri sem þar geisaði frá bæjardyrum Jarlaskáldsins séð, og fæstir þeirra vinna eða unnu með því. Ojæja, það hefur a.m.k. enginn gagnrýnt prófarkalesturinn á fréttinni frægu, er það?

Skömmu áður en allt þetta fjör byrjaði gerðist þó eitt: Jarlaskáldinu barst boðskort í brullaup sem halda skyldi innan tíðar og fyrirvarinn því lítill til að sinna lögboðnum skyldum: steggja brúðgumann. Það tókst þó að skipuleggja á mettíma og framkvæma föstudaginn 13. og tókst líkast til þrælvel, sé að marka myndir. Strax kveldið eftir voru svo tvær útskriftarveislur, fyrst Elín (sem nýlega fjölgaði einmitt mannkyninu með hjálp Andréssonar, og heitir fjölgunin Magnússon) og síðan frændi. Það endaði með einhverjum ósköpum, þó án slysa á fólki. Alvarlegra í það minnsta.

Er þá allt búið? Heldur betur ekki, síðasta helgi er enn eftir. Þá var brullaupið sem áður er getið, sem var reyndar með óformlegasta móti og þannig til fyrirmyndar. Brúðhjónin voru þau Snorri og Katý sé einhverjum ókunnugt um það, og stóðu þau sig vel í því sem máli skiptir; að gera alla húrrandi drukkna. Ítölsk menningaráhrif voru áberandi í veislunni þegar líða tók á, þeim sem þar voru um árið til mikillar gleði, öðrum síður. Jarlaskáldið tilheyrir sem betur fer fyrri hópnum, og tjúttaði af sér lappirnar, þó með snyrtimennskuna í fyrirrúmi og kom fram af mestu herramennsku. Þannig kýs það allavega að muna þetta...

Jæjajá, þá erum við barasta búin að fara yfir helstu atburði síðustu tveggja mánaða, og eflaust kemur einhverjum á óvart að það hafi ekki verið merkilegra en þetta. Ojæja, you say potato, I say tomato. Nema að Jarlaskáldið myndi aldrei éta tómata ótilneytt. Kartöflur eru hins vegar prýðilegar. Og á döfinni er... ekkert. Það er nákvæmlega ekkert planað á næstunni. 16. mars hyggst Jarlaskáldið reyndar halda í víking norður, og vitanlega er útilega sumardaginn fyrsta samkvæmt hefð, annars er ekkert á döfinni. Tja, og þó, kannski maður fari að eyða peningum í eitthvað, hver veit? Skárra en að eiga þá...

PS. Nýr bloggari er kynntur til sögunnar, hefur sá bloggað um nokkurt skeið, stopult þó, en hefur verið nokkuð duglegur að undanförnu og á því sessinn skilið. Jarlaskáldið kynnir berserkinn að norðan, Sverri sveitagest!

miðvikudagur, janúar 25, 2006 

Brullaup

Jamm. Hér eru myndir. Viðkvæmum er ráðlagt að skoða ekki þetta.

laugardagur, janúar 21, 2006 

Gettu betur

Jarlaskáldið hefur heyrt nokkra Gettu betur þætti í ár, og leyfir sér að fullyrða tvennt:

Sigmar spyrill: Frábær spyrill, miklu betri en Logi, jafnast á við Davíð Þór og Stefán Jón.

Anna Kristín spurningahöfundur: Gjörsamlega hræðileg. Hefur ekkert skynbragð á hvað er létt og hvað er erfitt, allt of mikið af landselur-útselur spurningum í víxlspurningum, virðist ekki hafa látið nokkurn mann lesa yfir spurningarnar. Spurningarnar líka allt of erfiðar miðað við fyrstu umferð. Hver í andskotanum spyr um latnesk heiti í hraða? Ber merki um leti. Verður vonandi betri í sjónvarpinu.

Sjitt, að það séu tíu ár síðan maður var í þessu...

PS. Jarlaskáldið vinnur enn á DV. Og það var einstaklega gaman að vera kallaður öllum illum nöfnum í síðustu viku. Ekki síst þegar Hjálmar Árnason kallaði Skáldið morðingja. Það er hverjum manni heiður að vera úthúðað af Hjálmari. Þvílíki vindhaninn...

miðvikudagur, janúar 18, 2006 

Ógn og skelfing

Sjónvarpsstöðin Sirkus kl. 20.45 miðvikudaginn 18. janúar:

Góðir lesendur, það sem þar hóf göngu sína verður að stöðva með öllum ráðum. Gleymið DV, ÞETTA þarf að stöðva!

Gerið eitthvað áður en það verður of seint!

Uppfært 21.00: Hjúkk, My Name Is Earl er byrjaður...

þriðjudagur, janúar 17, 2006 

Stórlega ýktar sögur

Ekki dauður enn, í það minnsta ekki úr öllum æðum. Eins og sjá má af ævintýrum helgarinnar inni á myndasíðunni (alger óþarfi að setja link á það, annars gæti viðkvæmt fólk villst þar inn).

Er síðan alveg að fíla þennan snjó.

Svo er bara að vona að Jarlaskáldið geti fljótlega byrjað að fylgjast aftur með The Bold and the Beautiful. Hvað ætli Thorne og CJ séu annars að bralla núna?

föstudagur, janúar 13, 2006 

Með drulluna upp á bak



Ef eitthvað er að marka kjaftasögurnar verður Jarlaskáldið atvinnulaust á morgun. Skítt að missa vinnuna af því að einhver annar gerði í brækurnar, en þannig gerast víst bara kaupin á eyrinni. Ojæja, hver veit, kannski verður batteríinu haldið gangandi. Jarlaskáldið hefur ekki of miklar áhyggjur, hlýtur að vera þörf fyrir það einhvers staðar...

Síðustu þrír dagar hafa í það minnsta verið með þeim fróðlegri...

þriðjudagur, janúar 10, 2006 

Vondu mennirnir



Það var aldeilis stuð í vinnunni í dag. Hvernig ætli stemmningin verði á morgun?

Annars bara nokkuð sprækur...

föstudagur, janúar 06, 2006 

Heiða



Ahh, hún Heidi. Fegurst meyja sunnan Alpafjalla. Jarlaskáldið ætlar rétt að vona að sumir skili góðri kveðju eftir ríflega 3 vikur. Fjandakornið...

miðvikudagur, janúar 04, 2006 

Jarlaskáldið strengdi eitt áramótaheit.

Að blogga ekki nema það hefði frá einhverju að segja.

Þar fór það...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates