« Home | Skáldið og Jónsi á Þjóðhátíð » | Brúðubíllinn að byrja, hèr er gaman! » | Heimska   "Helmingur karlmanna hefur nýtt sér þjón... » | Skáldið og Alda ein eftir á lífi » | Stefán sýnir á sér æðri endann » | Háifoss » | Jarlaskáldið við Háafoss » | Stebbi að hafa mök við Willa » | Maggi að símast » | Toggi að halla sér » 

miðvikudagur, ágúst 04, 2004 

Allt er fertugum fært

Jarlaskáldið er í vanda statt. Ætlun þess nú er sú að skrifa sögu af ferð þess til Vestmannaeyja um helgina síðustu, en það er eiginlega vonlaust verk. Bæði var ferðin slík snilld að manni verður orða vant þegar reyna á að lýsa fjörinu, og auk þess veldur ástand manna um helgina því að atburðarásin getur skolast til. Engu að síður ætlar Skáldið að gera tilraun til þess arna, og biðst velvirðingar á því ef rangt er farið með eða einhverju gleymt, sem örugglega gerist.

Upphaf ferðasögu vorrar má setja við miðvikudagskvöldið 28. júlí. Skáldið sat reyndar sem fastast heima þá en hafði sýnt þá fyrirhyggju að senda tvo undanfara fyrr um daginn til Eyja til að kanna aðstæður og leggja drög að dagskrá, alkóhólistann Magnús "Þjálfa" Blöndahl og alkóhólistann Stefán "Twist" Þórarinsson og fóru þeir með Dorniervél Íslandsflugs klukkan 16.45. Höfðu þeir útvegað sér gistingu hjá alkóhólistanum Kristni "rauða" Guðmundssyni í Rauðu blokkinni við Áshamar. Tóku þeir að sögn til óspilltra málanna strax á eftir lendingu, brugðu sér m.a. á knattspyrnuleik í slagviðri en enduðu að sögn á Lundanum og færðust þar bara í aukana. Um kvöldið barst Jarlaskáldinu síðan sú ágæta fregn að því væri einnig boðin gisting í Áshamarnum og kunni það húsráðanda bestu þakkir fyrir. Ekki kann Skáldið neinar hetjusögur af undanförum kvöld þetta, en þær hljóta að hafa verið miklar.

Fimmtudaginn 29. júlí hélt Skáldið til vinnu sinnar og eyddi deginum að mestu í að fylgjast með veður- og flugútliti, sem var ekki beysið, sem var slæmt þar eð Skáldið átti flug klukkan 16.45. Hélt það heimleiðis upp úr þrjú og hafði sig til, en þegar leið á varð ljóst að ekki yrði af flugi sem var síðan staðfest upp úr fimm. Þótti Skáldinu þetta grimm örlög og súr að þurfa að hanga í bænum og missa af heilu kvöldi í Eyjum, dreif sig á netið og því til lukku var laust pláss í dallinn Herjólf, gjarnan nefndur Gubbólfur af gárungum, og fékk það því karl föður sinn til að bruna með það til Þorlákshafnar í versta veðri til að ná dallinum klukkan 19.30. Náðist það og hafði Skáldið tíma til að hella í sig einni ölkollu áður en að brottför kom, svona til að hafa magann í lagi því ekki virtist gott í sjóinn. Það kom líka á daginn, Gubbólfur hoppaði og skoppaði alla leið og urðu margir heldur framlágir og jafnvel slappir af þeim sökum, en ekki Jarlaskáldið, ónei, það sat sem fastast í sæti sínu fremst og efst í dallinum (þar er einna mestur veltingur) og kenndi sér einskis meins. Eða svona allt að því.
Eftir ríflega 3 tíma siglingu var loks stímt í höfn og að Bátsskersbryggju þar sem tekið var á móti Skáldinu af þeim undanförum og Kidda og urðu það fagnaðarfundir þar sem Skáldið hafði nánast verið talið af. Eftir nokkra bið í kalsarigningu fékk Skáldið föggur sínar afhentar og var þá haldið upp í Áshamarinn. Þegar þangað var komið kom í ljós að ekki höfðu þeir piltar setið aðgerðalausir um daginn, heldur skundað í mjólkurbúð og pungað þar út litlum 70.000 krónum svo að öruggt væri að enginn myndi halda með heilsu sína heim á leið að helgi liðinni. Var strax tekið til við aðalfundarstörfin og fyrri part kvöldsins eytt í Áshamarnum, þar sem nokkur fjöldi var staddur í miður stórri íbúð. Þar átti bara eftir að fjölga.
Þegar menn þóttust vera komnir vel á veg var fyllt á burðartöskur og haldið út, nánar tiltekið að íþróttahúsinu hvar Húkkaraball var haldið. Þar var fjöld manna stödd og eflaust mun fleiri inni í húsinu, en þangað hættum við okkur ekki enda áfengi bannvara þar inni. Var heldur tekið þátt í fjörinu fyrir utan og hittum við allmarga málkunnuga, þar á meðal alkóhólistana Trukkinn og Áfengisálfinn, sem hafa verið okkur nokkur fyrirmynd í Eyjaævintýrum enda miklir berserkir er að því kemur. Voru m.a. teknar Múllersæfingar enda hefð fyrir því, en annars ástunduð hefðbundin aðalfundarstörf. Einhvern tímann lá leiðin síðan á öldurhús, líkast til Lundann eða Prófastinn, alltaf skal maður ruglast á þeim enda í raun sami fiðurfénaður. Hvar sem við enduðum var stuð og síðla nætur var haldið heimleiðis að safna kröftum fyrir næsta dag. Þetta kallar Sigur Rós ágætis byrjun.

Það var sæmilega þungbúið í kollinum á sumum þegar risið var á fætur á föstudeginum, en úti fyrir var veður hið ágætasta þvert á veðurspá. Þeir þrír sem oftast hafa komið við sögu hér, Skáldið, Twisturinn og Þjálfinn, vöknuðu klukkan 11.27, og stuttu síðar áttuðum við okkur á einni mikilvægri staðreynd: Ríkið lokaði eftir hálftíma, og 70.000 kallinn hafði ekki verið nóg. Var því arkað af stað niður í bæ og síðan hlaupið við fót þegar í ljós kom hve löng leiðin var. Sem betur fer hafðist þetta fyrir lokun og tókst að kaupa bæði flottasta koníakið í búðinni handa Jóa Listó sem þakkarvott fyrir gistinguna í fyrra sem og varabirgðir af öli. Síðan lá leiðin í kjörbúð og því næst á Bjössabar, þar sem umhverfisráðherra Eyja og annálaður skemmtanamaður, Frosti Gíslason réð ríkjum. Ekki var nú meira gert en að heilsa upp á kappann og svo arkað heimleiðis og tók það allengri tíma en leiðin niðureftir. Ekki var dvalið ýkja lengi þar, heldur tölt niður í Herjólfsdal þegar líða tók að setningu því ekki má missa af henni. Skáldið fékk sitt armband sem var fagurblátt í ár en fylgdist svo með æsispennandi setningu. Kannski ekki svo. Einnig litum við Stefán í kökuboð í hvítu tjaldi þar sem voru fínar kökur og full stelpa sem drapst. Fyrir fjögur, það er harka. Það var þó þó bara forsmekkurinn á undan því sem allavega við Stefán komum til að sjá, sjálfan Brúðubílinn, sem hóf sýningu stuttu síðar og brást ekki frekar en fyrri daginn.
Eftir Brúðubílinn fórum við síðan í heimsókn til þeirra eðalhjóna Steinars og Guðrúnar sem voru með íbúð í næstu blokk við okkur og voru þau höfðingjar heim að sækja sem endranær, buðu upp á lunda og kjötsúpu, sem er náttúrulega skylda að fá sér á Þjóðhátíð. Þar dvöldum við nokkra stund í góðu yfirlæti en héldum svo aftur í rauðu blokkina til Kidda, og hafði þá fjölgað í kotinu, þeir alkóhólistar Vignir, Toggi og Gústi voru komnir með sexfluginu og höfðu tjaldað í garðinum. Ekki var á fyllibytturnar bætandi, en þegar þarna var komið sögu voru á annan tug manna með gistingu í og við íbúð Kidda. Sumum þeirra fannst gaman að labba um á sprellanum, ekki Skáldið þó, það kann sig. Í það minnsta voru engir mættir í öðrum erindagjörðum en að drekka sig í drasl og tjútta í Dalnum. Föstudagskvöldið varð þó eiginlega rólegasta kvöldið, ef hægt er að tala um það, því ekki var um rólegheit að ræða. Haldið var niður í Dal um kvöldið og hlustað á bönd spila í brekkunni í bland við heimsóknir í hvítu tjöldin þar sem manni var ávallt tekið vel. Skáldið keypti sér bol af Atómstöðinni sem var ágætur, Brennan var flott að vanda og böndin ágæt, þó vel hefði rignt á kafla. Hitti Skáldið frænku sína, var hún hin hressasta. Endaði djammið fyrir framan litla sviðið þar sem Skáldið náði m.a. þessari fínu mynd hér fyrir neðan af sér með Jónsa í svörtum fötum. Síðla nætur kynntist Skáldið síðan gestrisni Eyjamanna enn betur en fyrr og fer ekki frekari sögum af því hér.

Laugardagurinn hófst svona misjafnlega, enda fólk mismundandi á vegi statt. Einhverjir höfðu gert góða hluti um nóttina, aðrir miður góða, en allir ágætlega sáttir. Þegar fólk hafði safnast í Áshamarnum var það ráð tekið að drífa sig í sund, og varð það prýðilegt. Eftir það lá leiðin á Prófastinn að úða í sig flatbökum, og var keypt sú sterkasta á matseðlinum. Þá var ekki annað að gera en að bursta tennurnar. Aftur lá svo leiðin í Áshamarinn og er í raun ekki mikið um laugardaginn að segja, ef svo er man Skáldið allavega ekki eftir því. Jújú, menn voru glaðir og gerðu grín en héldu sig allavega í fötunum ólíkt sumum. Um kvöldið var svo haldið í Dalinn í fyrra fallinu enda böndin sem voru að spila heldur meira spennandi en hin kvöldin. Egó voru svakalegir, en Mínus toppuðu allt. M.a.s. flugeldasýningin bliknaði í samanburði, var hún þó flott. Eins og fyrr segir er ekki frá miklu sérstöku að segja þetta kvöld, það var bara þetta týpíska Eyjaskrall og frábært sem slíkt. Hvenær heim var haldið er ekki gott að segja, við skulum segja seint.

Sunnudagur. Hinn frægi. Ekki fór hann vel af stað. Kannski var það rúminu að kenna, hver veit, í það minnsta var Skáldið ekki sérlega hresst fyrripart sunnudags. Nei, fjandanum fjarri því. Tókst því þó eftir nokkrar tilraunir að hafa sig á fætur og síðan þræla í sig einum afréttara og fór þá að lifna yfir því. Var það svo dregið niður í bæ og á Bjössabar þar sem flatbökur voru etnar enn einu sinni. Það gerði gæfumuninn. Hittum einnig Dengsa og frú þar. Gústi fékk síðan þá hugmynd að arka upp að Heilbrigðisstofnunni og kíkja í heimsókn þar í næsta hús, og elti strollan hann. Ekki skildi nokkur maður hvers vegna við ættum að þekkja nokkurn í húsi þessu, sem hét annað hvort Sjónarhóll eða Tindastóll þegar að var komið, en það skipti engu, við vorum boðnir inn og hittum þar afar álitlegan hóp ungmenna og áttum þar ágæta stund. Svo var tekinn bekkjabíll heimleiðis í rauðu blokkina og undirbúningur hafinn að síðasta og aðalkvöldinu. Gekk hann svona líka vel og síðan haldið í Dalinn og haldið áfram vitleysunni í brekkunni, í hvítu tjöldunum, framan við bæði sviðin og víðar. Brekkan var vitaskuld orðin drullusvað og vonlaust að fóta sig í henni svo það voru nokkrar bylturnar sem menn fengu. Bara gaman. Brekkusöngur var síðan mikil reginsnilld enda Johnsen mættur, því sama hvað manni finnst um þennan vitleysing hina 364 daga ársins þá á þessi maður bara að stjórna brekkusöng og hananú!
Ekki var að sökum að spyrja þetta sunnudagskvöld frekar en önnur á Þjóðhátíð, fólk var ekkert að hætta þó böndin hættu að spila á stóra sviðinu heldur færði sig bara yfir á litla sviðið þar sem spilað var fram til klukkan níu að sögn. Eins og gefur að skilja eftir úthald það sem hér hefur verið lýst voru sumir orðnir ansi volkaðir þegar komið var fram undir morgun og jafnvel dómgreindin farin að gefa sig. Í það minnsta munu vera þess dæmi að menn hafi farið eilítið á svig við reglur möguleikamengisins þegar hér var komið sögu. Hver eða hverjir þar voru á ferð skal ósagt látið, en máltæki það sem er í titlinum hér að ofan rataðist einhverjum á munn þegar fregnir bárust af þessum afrekum.

Jarlaskáldið vaknaði í Vestmannaeyjum mánudaginn 2. ágúst, og tókst ekki að rífa sig á lappir fyrr en að verða fjögur. Þegar það áttaði sig á að það var enn statt úti í Eyjum fór það að huga að heimför, sem var áætluð um 18.50 með Fokker. Það þurfti samt ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá að á því yrði einhver bið. Til að stytta biðina brugðum við okkur út á leigu og náðum í spólu, Along Came Polly, séð hana áður en bærilegt samt. Var okkur síðan tjáð að reyna ætti flug um níuleytið og fórum við upp á völl þá og biðum góða stund en þó ekki jafnlengi og margir sem höfðu beðið síðan á hádegi. Það lið komst síðan aldrei á loft en rellan okkar náði að lenda í Eyjum með herkjum og fór í loftið um 22.30, síðust véla það kvöldið. Ferðin búin.

Þó svo að Jarlaskáldið muni vart aðra eins vanlíðan og þriðjudaginn eftir Þjóðhátíð (þriðjudagur eftir Þjóðhátíð 2003 var þó svipaður) og sé enn raddlaust og hafi ekki hugmynd um hvaða fólk á öll þessi nýju númer í minninu í síma þess er það niðurstaða þess að Þjóðhátíð sé það allra skemmtilegasta sem hægt er að gera sér til dundurs á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Þetta mun fólk aldrei skilja nema það prófi, allir á Þjóðhátíð 2005!



Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates