« Home | Lilli og frægi kallinn Í dag gerðust góðir hlutir... » | Að nenna að blogga Stundum bara nennir maður ekki... » | Leiðindi Er eitthvað leiðinlegra en september? Já... » | Maggi og Gústi » | Maggi á Dússabar » | Þetta kallar maður umbúðir! » | Maggi og Snorri » | Jarlaskáldið ekki mjög kátt þarna » | Magnús að hamra á einhverri svaka pælingu við Gú... » | Skáldið og Ríkey » 

þriðjudagur, september 14, 2004 

Ekki er kyn þótt keraldið leki...

Skáldið var norður í Borgarfirði um helgina. Og víðar. Frá því er saga að segja.

Allra fyrst ber þó að segja frá merkisviðburðum föstudagskvölds. Þá hélt Jarlaskáldið vopnað tveimur myndbandsspólum upp í Logafold og hitti þar fyrir húsráðanda yfirgefinn af forráðamönnum sínum. Á myndbandsspólum þessum voru gersemar miklar, komplett Radíusþættir frá árinu 1995, og var glápt á þá við mikla kátínu fram eftir kvöldi uns Skáldið hélt aftur heimleiðis eigi svo síðla nætur.

Skáldið fór svo á fætur um hádegisbil á laugardag og stóð þá nokkuð til: menningarreisa með vinnunni um Borgarfjörð og nágrenni. Var lagt af stað upp úr tvö með langferðabíl og voru sumir aðeins búnir að hita upp áður en að því kom. Eins og þess hefði verið þörf. Skáldið fékk sér sæti með öftustu mönnum og hugðist fara sér að engu óðslega þó nóg væri af brennivíninu í boði vinnunnar. Þær fyrirætlanir virtust reyndar í byrjun ætla að fara út í veður og vind því sessunautur Jarlaskáldsins, strangtrúaður múslími og þar af leiðandi lítill drykkjumaður, hirti öldós í hvert skipti sem þeim var dreift og ætlaði Jarlaskáldinu. Þrátt fyrir það tókst Skáldinu að hafa hemil á sér, svona að mestu.
Lá leið vor fyrst upp í Kjós að sækja einhvern jóa sem "gladdi" ferðalanga þaðan í frá með merkri fararstjórn sinni. Bar svo ekki mikið til tíðinda fyrr en stoppað var á Hvanneyri, og voru einhverjir þá orðnir glaðir. Þar voru ferðalangar leiddir í allan sannleik um starfsemina á staðnum, og að því loknu brugðið á leik þar sem lið Jarlaskáldsins bar vitanlega sigur úr býtum, þrátt fyrir að Skáldið hafi ekki gegnt öðru hlutverki en því að hvetja menn til dáða. Stórmerkilegt. Var Hvanneyri svo kvödd og haldið sem leið lá inn í Skorradal, yfir Geldingadragann og inn í Svínadal þar sem áð var á einhverri sveitabúllunni og boðið í steik. Sem var barasta fín, þó ekki eins góð og sveppasúpan í forrréttnum, og allt var þetta gratís sem er ekki verra. Að loknu borðhaldi var loks haldið í bæinn, var klukkan þá farin að ganga í tíu og allmargir orðnir helsti glaðir. Stóð Jarlaskáldið ásamt öðrum fyrir fjöldasöng á heimleiðinni, og sem fyrr nutu auglýsingalögin mikilllar hylli, en í hjáverkum stóð Skáldið í ströngu við að hafa hemil á ástleitnum útlendingi sem ekki hafði erindi sem erfiði í tilburðum sínum við þá fáu kvenmenn sem með í för voru og tók því illa, giftur maðurinn. Sinn er siðurinn í landi hverju.
Í bæinn var lent um ellefuleytið og héldu þá þeir sem enn voru með lífsmarki niður á Skúlagötu hvar Biggi nokkur bauð til veislu. Einhverjir héldu þar á vit drauma sinna, en ekki Jarlaskáldið, ónei, það var hressast manna enda merkilega lítt runnið ofan í það og sá það um að dídjeia, var gerður nokkuð góður rómur að lagavali þess þó einn maður vildi bara heyra ZZ Top. Ekki hægt að gera öllum til hæfis.
Eftir nokkra viðdvöl í teiti þessari héldu þeir sem enn drógu andann í bæinn, og á leiðinni stóð Jarlaskáldið fyrir kennslu í fasteignaklifri upp á Utanríkisráðuneytið, svona áður en Dabbi mætir á svæðið. Þegar Jarlaskáldið nálgaðist síðan heimavöllinn kvaddi það ekki samferðamenn sína og hélt í röðina góðu. Þar hitti það fljótlega þá Boga og Loga og var glaumur og gleði að vanda þegar inn var komið. Svo Nonni og heim, fastir liðir eins og venjulega.

Á sunnudaginn vaknaði Jarlaskáldið aftur í kringum hádegi og var alveg merkilega hresst miðað við árstíma. Verkefni dagsins var að rúlla upp á Hvanneyri (aftur) þar sem hjónaleysin Hrafnhildur og Elvar fögnuðu ársafmæli frumburðarins. Blöndudalur þóttist of upptekinn til að koma með og ekki nennti Skáldið að fara þetta eitt svo það hafði samband við tvíburann sem var alveg til í smá rúnt. Á Hvanneyri vorum við komnir í kringum þrjú og fengum höfðinglegar móttökur þrátt fyrir að vera ekki par með barn eins og ALLIR aðrir gestir. Svo var étið á sig gat, horft á Bond og bolta og talað um bolta og svo horfið á braut á sjötta tímanum og vill Jarlaskáldið nota tækifærið og þakka aftur fyrir sig og tvíbbann. Til að gera síðan smá rúnt úr þessu og reyna nýju demparana á Lilla voru farnir Uxahryggirnir heim og er skemmst frá því að segja að jafnt Lilli sem farþegar hans skemmtu sér prýðilega á þeirri leið. Lambalæri þegar heim var komið, ekki amaleg helgi þetta hvað magann varðar!

Fleira var það ekki að sinni, jú, til hamingju með morgundaginn 15. september!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates