« Home | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Myndina sendi JarlaskáldiðSent með GSMbloggi Og Vo... » | Miðvikublogg ið fertugastaogannað Eitt og annað á... » | Það er sko komið sumar Helgi búin, lítið gert. Þó... » | Tímamótablogg Það á afmæli í dag, það á afmæli í ... » | In the summertime Æ, ekki er nú mikið að frétta. ... » 

mánudagur, maí 03, 2004 

Ekki eru allar ferðir til fjár...

...og verkalýðsgangan í ár var svo sannarlega ekki til mikils gróða. Þó mátti hafa af henni töluvert gaman, lítum á málið.

Það voru fjórir ferðalangar sem lögðu í hann á miðvikudagskvöldið, þeir Stefán og Jarlaskáldið einu sinni sem oftar, að þessu sinni á Lilla, og síðan þeir Vignir og piltur að nafni Magnús Fjalar, sem er einna frægastur fyrir að vera bróðir Ernu, er nokkur svipur með þeim systkinum. Voru hinir síðarnefndu á Hliðrunarsparkinu, bróður hans Lilla. Lét Magnús þessi eilítið bíða eftir sér og var þeirri bið varið á Subway í Ártúnsbrekku, en þegar allir voru ferðbúnir var keyrt austur fyrir fjall og allt að Landvegamótum, með smá bensínstoppi í Hnakkaville. Þar útveguðum við okkur lykil að skálanum í Áfangagili, en þangað lá leiðin einmitt. Vignir og Magnús Fjalar ákváðu reyndar að leita að einhverjum slóða upp að Heklu sem greint er frá í munnmælasögum en við Stefán fórum beinustu leið upp að skála, reyndar efri leiðina, sem gekk greiðlega þegar við höfðum fundið slóðann aftur eftir að hafa týnt honum um skeið. Við skálann biðum við annarra leiðangursmanna um hríð og þegar okkur þótti biðin farin að lengjast náðum við sambandi við þá, þeir voru vitaskuld týndir svo við lýstum þeim leið upp að skála og vorum þangað komnir aftur seint á ellefta tímanum. Ekki varð mikið um svall og svínarí eins og a.m.k. þrír ferðalanga eru þekktir fyrir, allt með kyrrum kjörum og menn komnir í bælið á sómasamlegum tíma enda meiningin að rölta upp á hól daginn eftir.

Vekjaraklukkur byrjuðu að glymja um níuleytið morguninn eftir og ekki svo löngu síðar höfðu menn sig á fætur, Jarlaskáldið þó síðast manna. Við tóku hefðbundin morgunverk, messa, mötun og Mullersæfingar, og þar eð engin úr hreingerningadeild VÍN var með í för neyddumst við til að spúla kofann. Var hann svo yfirgefinn eftir gestabókarskrif, hin fjórðu á þessu ári í tilfelli sumra, og ekið áleiðis að Heklu. Eitthvað hafði greinilega gengið á með vatnsveðri þarna nýlega því vegurinn var skemmtilega skorinn á köflum og heldur hægt farið yfir. Komumst þó upp í Skjólkvíar og undruðumst nokkuð hve lítið var af snjó, töluvert minna en tveim vikum seinna í fyrra. Veðrið var ekki heldur alveg að standa undir væntingum, smá gjóla og slyddudrulla, en þó ekkert alvarlegt svo við skelltum á bakið á okkur brettum og skíðum og örkuðum af stað. Það gekk fínt til að byrja með, enda bara yfir grjót og sléttlendi að fara, en að lokum komumst við í snjó og byrjuðum að hækka okkur yfir sjávarmáli. Fór þá heldur að bæta í vind og einnig byrjaði færi að versna til muna, ríflega þumlungsbreið ísskán yfir öllu og svo djúpur snjór undir sem maður sökk ofan í. Ekki beint kjöraðstæður. Í ca. 1000 metra hæð var síðan bara komið broddafæri, talsverður vindur með hundslappadrífu og lítið gaman að þessu, svo að eftir atkvæðagreiðslu var ákveðið að snúa við, enda blint á toppnum og vonlaust að skíða í þessu færi. Stundum þarf maður bara að kyngja stoltinu og snúa við, fátt kúl við að koma laskaður heim.
Jarlaskáldið og Vignir gerðu tilraun til að skíða niður en ekki var það fögur skíðamennska, mest rennt sér á kantinum og dottið með reglulegu millibil. Neðar var þó hægt að skíða smá og bjarga þannig ferðinni að einhverju leyti. Var svo bara rölt niður að bíl og fengið sér að éta og heitt kakó. Þó við hefðum ekki farið ýkja langt hafði tekist að brúka svitakirtlana af krafti svo ákveðið var að líta við í sundlaug. Var það gert í Laugalandi og vorum við einir um laugina, en þó var skaði að rennibrautin var lokuð. Hún var svo opnuð um leið og við fórum upp úr, skepnur!
Var svo ekið heimleiðis og ekki frá miklu að greina eftir það, Jarlaskáldið var með latasta móti um kvöldið og sofnaði einhvern tímann yfir The Abyss, vaknaði svo yfir Cast Away og horfði á hana til enda. Aldeilis að það er búið að vera djammstuð á Skáldinu undanfarið! Það stefnir nú allt í að Skáldið fari að fara á kreik í þeim efnum, meira um það síðar...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates