þriðjudagur, mars 30, 2004 

Miðvikublogg ið fertugastaogfyrsta

Hér verður rætt um og eitt og annað.

Í fyrsta lagi þá láðist Jarlaskáldinu að geta þess í síðasta pistli að það brá sér í kvikmyndahús á fimmtudagskvöldið. Með í för var Stefán frá Logafoldum, kvikmyndahúsið Bíóhöllin, og ræman Starsky & Hutch. Bjuggumst við við mikilli skemmtun, enda ekki við öðru að búast þegar þeir Owen, Ben og Will leiða saman hesta sína, hvað þá undir stjórn mannsins sem bjó til snilldarmyndirnar Old School og Road Trip. Skemmst er frá því að segja að myndin olli engum vonbrigðum, mikil snilld, 86 stjörnur fær hún.

Í öðru lagi urðu þau stórtíðindi í dag að lítill frændi Jarlaskáldsins, Dagur Tjörvi, er ekki svo lítill lengur, því hann átti fjögurra ára afmæli í dag. Til hamingju með það. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur drengurinn verið alinn upp við illa siði af föður sínum, vonandi að hann fari að hætta þessum bernskubrekum og halda með einhverju almennilegu liði. Er Jarlaskáldinu boðið til veislu á laugardaginn í tilefni þessara tímamóta, og bað afmælisbarnið um Playmokastala í afmælisgjöf. Stórhuga drengur.

Í þriðja lagi er Jarlaskáldið hætt að bryðja pensilín, og þá loksins kemst það að þessu. Það hefði sumsé alveg getað dottið í það síðustu helgi. Bara skilgreiningaratriði hvað „litlir skammtar“ eru.

Í fjórða lagi er Ed að byrja aftur í sjónvarpinu. Júhú!

Í fimmta lagi er barasta ekki neitt, þannig að það er best að fara að hætta þessu.

Að lokum vill Jarlaskáldið koma því á framfæri að það notar aldrei ilmvatn neðan mittis, og gætir þess alltaf að vera sem fullkomnast í útliti.

sunnudagur, mars 28, 2004 

Litla hryllingsbúðin

Kæru lesendur, Jarlaskáldið hefur ljóta sögu að segja.

Saga vor hefst á mánudaginn síðasta. Kom þá Jarlaskáldið við hjá tannlækni sínum eftir að hafa orðið vart talsverðrar tannpínu þá um helgina. Ekki vissi tannsi alveg hvað var að eftir að hafa rannaskað málin, því ekkert virtist vera að tönninni slæmu, ákvað síðan að laga aðeins bitið og sjá til hvort hlutirnir myndu ekki lagast við það. Tók m.a.s. ekkert fyrir það. Fór Skáldið svo heim og var líðan þess snöggtum skárri eftir þessa aðgerð. En ekki var Adam lengi í paradís, því þegar leið á vikuna fór að kræla á vandræðum á nýjan leik, Skáldinu farið að líða eins og það hefði verið kýlt á kjammann og leit því aftur við hjá tannsa eftir vinnu á fimmtudaginn. Ætlaði það bara að panta hjá honum tíma en þess í stað var það dregið í stólinn eftir að hafa lýst sjúkdómseinkennum sínum. Taldi tannsi að um tannrótarbólgu væri að ræða og ef svo væri þyldi það enga bið. Bjóst Skáldið við því að tannsi myndi hefja leikinn á að rífa upp nálina og deyfa það hressilega líkt og venjulega, en ónei, það stóð ekki til, þess í stað reif hann upp borinn, sem við fyrstu sýn virtist hafa verið fenginn að láni frá Kárahnjúkum, og hófst handa við gangagerð inn í tönnina slæmu. Ekki tók betra við, því þegar gangagerðinni var lokið reif hann upp eitthvað ógurlegt apparat og byrjaði að troða því inn í nýgerð göngin og nudda þar og sarga með tilheyrandi þægindum. Afar gaman. Að sögn tannsa fór hann 25 millimetra inn í tönnina, sem verður að teljast ágætt, ekki það að Jarlaskáldið hafi samanburð. Aukinheldur mun tannsi hafa mokað út einhverjum helling af hvers kyns drullu og viðbjóði úr tannrótinni (umm...) og kíttaði svo í gatið. Ekki var öllu þar með lokið, bæði þarf Skáldið að koma aftur innan tíðar og endurtaka þessa meðferð (þvílík tilhlökkun!) og þar að auki þarf það að bryðja pensilín eins og smartís þessa dagana til að reka smiðshöggið á verkið. Good times.

Samkvæmt einhverri bábilju er algjört tabú að detta í það meðan maður étur pensilín. Sennilega er það algjört bull. Hvað sem því líður þá hugði Jarlaskáldið ekki á nein afrek á lendum skemmtanalífsins á föstudagskvöldið, kom sér bara fyrir við imbann og ráðgerði ekki að hreyfa sig þaðan. Ekki var dagskráin upp á marga fiska svo Skáldið tók því fegins hendi þegar Stefán hafði samband og bar upp þá hugmynd að líta við á kaffihúsi. Auk hans var Magnús frá Þverbrekku með í för eftir nokkra dekstrun og einnig leit Snorri pervert við á Ara í Ögri, en þar fór samkoman fram. Siðsamlega og prúðmannlega fór gleðin fram, ekki síst hjá Jarlaskáldinu sem gegndi hlutverki "designated driver" sakir heilsufarsástands síns. Pervertinn lét sig snemma hverfa enda maður eigi einn á báti þessa dagana, en við hinir létum alldrukkinn Andrésson plata okkur til að kíkja á árshátíð Flubbanna um miðnættið. Þegar okkur bar að garði var ölvunarástand bæði almennt og mikið á staðnum, Andrésson heilsaði okkur með miklum fúkyrðaflaumi enda vart þessa heims þegar þarna var komið sögu, frú Andrésson var aftur á móti öllu rólegri og heilsaði okkur blíðlegar, átti hún reyndar fullt í fangi með að hafa stjórn á sínum betri helming. Líkt og venjulega þegar Skáldið fer edrú á djammið (þá sjaldan) hafði það vart undan að afþakka bjór frá viðstöddum, hlustaði á þónokkuð drykkjuröfl og lét sig síðan hverfa eftir stutta dvöl því hefði það stoppað öllu lengur hefði það án vafa látið undan gylliboðum og dottið í það líkt og þeir fóstbræður Magnús og Stefán sem áttu víst ágæta nótt í bænum. Skáldið svaf svefni hinna réttlátu á meðan.

Um laugardaginn er fátt að segja. Skáldið mætti til vinnu um morguninn, fór á Ruby Tuesday í hádeginu á kostnað fyrirtækisins, lagði sig síðan eftir vinnu og fram að kvöldmat. Um kvöldið brá það sér ásamt Stefáni til Vignis til að hjálpa honum við barnapössun, fórum við þrír svo á Devitos um tvöleytið til að fá okkur böku og síðan heim. Enginn fullur, allra síst Jarlaskáldið, aðra helgina í röð. Nú þarf Skáldið að leggjast í sagnfræðirannsóknir til að komast að þvíi hvenær það gerðist síðast. Sennilega nokkuð langt síðan.

Deginum í dag eyddi Jarlaskáldið fyrst og fremst í kærkomna hvíld, fór loks á stjá um þrjúleytið og kom við á KFC, engin ástæða til að sleppa því á sunnudegi þó engin sé þynnkan, en fór síðan aðeins út að leika með Lilla í snjónum. Það var gaman.

miðvikudagur, mars 24, 2004 

Miðvikublogg ið fertugasta

Nöjts, bara fertugasta miðvikubloggið að líta dagsins ljós. Hver hefði trúað því? Öhh....

Jarlaskáldið skuldar alveg rúmlega vikufréttir af sjáfu sér, kannski að hlaupa yfir þá annars tíðindalitlu viku. Eins og fyrr greinir frá var Jarlaskáldið með slappasta móti eftir mikla reisu um Norðurland og kannski fyrst og síðast aðalfundarstörf er þar voru stunduð. Þó tókst Jarlaskáldinu að mæta í tvö afmæli og eina bíósýningu milli þess sem það safnaði kröftum. Var fyrra afmælið fyrir viku síðan og haldið í tilefni þess að frk. Laufey hafði náð 28 ára aldri. Þangað var Skáldið boðað með ríflega fimmtán mínútna fyrirvara og naut kræsinga á borð við súkkulaðikökur og rjómaís á milli þess sem rætt var um bleyjur og bíla. Kvöldið eftir brá Skáldið sér svo í kvikmyndahús, sá þar Jack Black fara á kostum í myndinni School of Rock, alveg 72 stjörnu mynd, þ.e.a.s. ef menn fíla Jack, aðrir skyldu forðast þessa mynd. Skáldið reynir reyndar að forðast fólk sem ekki fílar Jack Black.
Á föstudaginnn varð síðan Stebbalingurinn 28 ára gamall og bauð að sjálfsögðu í kökuammili um kvöldið. Fór sú skemmtun prúðmannlega fram og Skáldið komið heim fyrir klukkan eitt. Ekki tók betra við kvöldið eftir því þá hélt Skáldið sig barasta heima við, þrátt fyrir ófá tækifærin til að hella í sig brennivíni, jafnvel ókeypis. Jahá, ráðdeildin og skynsemin menn lifandi að drepa.

Ráðdeildin átti sér reyndar góðar ástæður, því á mánudaginn fór Skáldið og keypti sér felgu undir Lilla sem hafði verið haltur í nokkrar vikur á varadekkinu. Var ekki sjón að sjá kappann en nú er hann glæsilegur sem fyrr og til í allt. Auk þessara fjárútláta þurfti Jarlaskáldið að koma við hjá tannlækni, og gæti jafnvel þurft að líta þar við aftur svo það má búast við einhverju áframhaldi á sparnaðinum ef allt fer á versta veg. Engir Kraftwerk og Pixies af þeim sökum, búhú!

Þess má til gamans geta að Jarlaskáldið hefur sótt um skólavist næsta vetur. Meira um það síðar, eða aldrei, fer eftir því hvernig mál þróast.

Eitthvað meira að frétta? Nei ætli það. 100 dagar í fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð, þetta er allt að bresta á. Spurning um að hita upp fyrir sumarið og bregða sér í náttúrulaug um helgina. Sjáum til.

sunnudagur, mars 21, 2004 

I´m Back Baby!

Jarlaskáldið hefur verið með aumingjalegasta móti hvað blogg varðar undanfarna viku og rúmlega það. Rúmlega á vel við því í stað bloggs hefur Jarlaskáldið einkum stundað rúmlegu. Þetta var mikil speki. Er forsaga málsins sú að Jarlaskáldið brá sér út fyrir bæjarmörkin síðustu helgi og gekk það ævintýri svo nærri andlegum og líkamlegum þrótti þess að það bar vart sitt barr alla síðustu viku, rétt meikaði vinnudaginn og lá svo mestmegnis í einhverju móki fyrir framan sjónvarpið þá sjaldan það var ekki sofandi. Hefur því blogg að mestu legið niðri, við mismikla kátínu hundtryggs lesendahóps Skáldsins.
Hafði Skáldið víst lofað því að rita fáein orð um ævintýri þessarar fyrrnefndu helgar. Nú þegar það hefir loks öðlast heilsu til þess nennir það því engan veginn, einkum og sér í lagi sakir þess að það er því fullkomnlega ómögulegt að rita „fáein“ orð um nokkurn skapaðan hlut, það teygist allt og tognar út í ógurlegar langlokur sem fæstir nenna að lesa og enn færri hafa gaman af. En til þess er leikurinn ekki gerður. T.d. er það skoðun allra viti borinna manna að sjónvarpsþátturinn „Maður er nefndur“ er eitthvað það leiðinlegasta sjónvarpsefni sem á borð er borið, og þetta viðurkenna framleiðendur hans m.a.s. Heimildagildi hans er hins vegar ótvírætt, og hið sama má segja um þessa annars lítilfjörlegu bloggsíðu. Á hana er ekki ritað til að skemmta lesendum, því fer fjarri, heldur er það von og vissa Jarlaskáldins að þegar fram í sækir muni hún verða ómetanleg heimild um hugarfar einhleypra íslenskra karlmanna á þrítugsaldri sem búa hjá mömmu sinni í upphafi nýs árþúsunds.
Af þessum sökum kemst Skáldið ekki hjá því að rita enn eina langlokuna um þessa för, því ef því væri sleppt væri það álíka gat í samfellu sögunnar og bruninn í Kaupinhafn gerði í íslenska sagnaritun hér í denn. So without further ado, vessgú:

Júbb, einu sinni sem oftar sá Jarlaskáldið ástæðu til að yfirgefa borgarsollinn um stund og heimsækja krummaskuð það norður í landi sem nefnt er Agureyrish. Eins og fyrr segir var för þessi farin undir yfirskini skíðaferðar, þó vefmyndavélar hafi ekki beint bent til þess að slíkt yrði uppi á teningnum þegar lagt var í hann á áttunda tímanum fimmtudagskvöldið 11. mars. Engu að síður voru plankarnir dregnir með í von um að finna einhvers staðar brekku með smá snjó. Voru það átta hræður sem lögðu í hann í þessu fyrsta holli, þau skötuhjú Andrésson og frú á Lúxa sínum, snillingurinn Viffi ásamt Öldu á öðrum Lúxa, og svo þeir Stefán Twist, pervertinn, Toggi og Skáldið á kóreskum eðalvagni hins fyrstnefnda, jafnan nefndur Papasan. Hafði Jarlaskáldið útbúið hinn merka partídisk „Agureyrish 2004“ dagana á undan og fékk hann að rúlla á leiðinni norður, og ósjaldan eftir það enda snilld að flestra mati. Aftursætisbílstjórarnir Pervertinn og Skáldið stigu fram með góðu fordæmi og þjóruðu duglega allt þar til komið var að Staðarskála, hvar gerð var kærkomin klósett- og matarpása. Fékk Skáldið sér aspassúpu, sem var prýðileg. Var svo ekið áfram og stefnan tekin meira austur á bóginn, bar fátt til tíðinda á leiðinda þó ófá snjallyrðin hafi vissulega fokið við ýmis tækifæri. Var fyrsti bíll, Papasan, kominn til Agureyrish skömmu eftir miðnætti, barst þá sú fregn að einhver bið yrði eftir hinum, snillingurinn Viffi var vitaskuld olíuaus uppi á Öxnadalsheiði (eitt laganna á disknum „Agureyris 2004“ bar einmitt sama titil, í fögrum flutningi SH-Draums) og þurfti Andrésson að taka út spottann og draga kappann í bæinn. Varð því nokkur bið eftir þeim enda Lúxar að jafnaði ekki að springa úr vélarafli, hvað þá er þeir deila því. Notuðum við á Papasan tækifærið og fórum bílasölurúnt á meðan beðið var, svo birtist liðið og lyklar að íbúðunum tveimur í Furulandi sóttir, eftir það sest niður og reynt að hefja hefðbundin aðalfundarstörf. Gengu þau nokkuð treglega, a.m.k. bar lítið á skrílslátum þetta fimmtudagskvöld, þó vissulega hafi verið kvartað undan okkur. Eins og venjulega.

Jarlaskáldið fór líkt og aðrir tiltölulega snemma á lappir á föstudeginum. Einhverjir brugðu sér í að redda bakkelsi og var síðan ekið í mjólkurbúðinatil að bæta aðeins birgðastöðuna fyrir aðalfundarstörf kvöldsins. Næsta mál á dagskrá var að finna snjó og eftir nokkra spekúlasjón var ákveðið að rúnta norður á Dalvík og kanna málin þar. Þar var snjór, þó í litlu magni væri, og þrátt fyrir að svæðið liti ekki burðugt út var ákveðið að gefa því séns og prófa. Ekki sér Jarlaskáldið ástæðu til að endurtaka það, a.m.k. við álíka aðstæður, var færið blautt og þungt og mótvindur niður brekkuna svo lítið fútt var úr þessu að hafa. Fór svo að lokum að Skáldið fór vart nema 4-5 ferðir, fékk sér svo að éta og gott ef það fann ekki eitthvað sem það hafði keypt um morguninn og gerði því skil, líkt og sumir aðrir reyndar. Eftir þennan fremur óspennandi skíðadag var hverfisbúllan fundin, sem hét að sjálfsögðu Dal-las, norðlenski húmorinn alveg að drepa menn, fengust þar skítsæmilegar Goða-pylsur og auk þess átti Skáldið samskipti við Staðarhnakkann, sem var einkar áhugavert.
Eftir þessa stórmerkilegu menningarheimsókn til Dalvíkur var aftur rúntað til Agureyrish, sundföt sótt og sundlaugin heimsótt. Skáldið fór tvær ferðir í rennibrautinni og tók einn cannonball, Pervertinn fékk tiltal frá laugarverði vegna dólgsláta, sem kom fáum á óvart enda hefur hann verið þekktur fyrir vafasama hegðun í sundlaugum. Segi ekki meira. Eftir böðun lá leiðin á þann ágæta pizzastað Jón Sprett, sem var með alveg prýðilegar pizzur, hófust svo aðalfundarstörf fyrir alvöru. Um svipað leyti tók að fjölga í kotinu, sálfræðingarnir Magnús frá Þverbrekku og Haukur mættu og þar að auki Eyfi ásamt leynigesti, honum Týróla-Andra. Ekki minnkuðu aðalfundarstörfin við það, svo mikið er víst. Eitthvað bættist svo af liði, þó enginn hafi átt viðlíka innkomu og Styrmir, sem klifraði upp á svalirnar, bað að heilsa fólki, fékk bjór og hvarf med det samme. Góð innkoma. Eftir væna setu í Furulundinum lá leiðin í bæinn, á Kaffi Agureyrish nánar tiltekið, þar sem Jarlaskáldið afrekaði m.a. að fara inn án þess borga, klætt inniskóm. Myndir segja nú yfirleitt meira en mörg orð, látum þær duga (1, 2, 3, 4).

Það var heldur seinna risið á lappir á laugardeginum, allavega hvað Jarlaskáldið varðar. Að vísu fóru einhverjir fimm af stað um morguninn til að labba upp eitthvað fjall, slík heimska sem það er, en Skáldið vaknaði nú ekki fyrr en um hádegi, í sófanum líkt og venjulega. Ákváðum við Stebbalingur og Toggi að fara í humátt á eftir fjallgöngugörpunum, þó ekki fyrr en eftir að hafa komið öðru sinni við í mjólkurbúðinni. Lá leiðin m.a. í gegnum krummaskuðið Grenivík, stuttu síðar var komist að þeirri niðurstöðu að það væri hin mesta heimska að arka upp þetta fjall svo við fórum bara aftur til Grenivíkur og fengum okkur pulsu og franskar hjá Jónsa í Jónsabúð. Þar virtust vélsleðar vera algengari samgöngutæki en bílar, nokkuð merkilegt. Héldum við svo aftur til baka til stærsta krummaskuðs landsins og rúntuðum upp í Hlíðarfjall til að tékka á stemmningunni, hún var lítil enda Strýtan enn lokuð. Varð því heldur lítið úr skíðamennsku þennan daginn. Þess í stað héldum við bara í Furulundinn í netta afslöppun.
Þegar fjallagarpar mættu svo aftur á svæðið lá leiðin í sund, og var þar heldur fjölmennt en ekkert sérstaklega góðmennt, a.m.k. hefði alveg mátt vera meira af augnayndinu. Eftir sundið lá leiðin í Brynjuís, sem Norðlendingar allir ku víst montnir mjög af, ekki þótti Skáldinu ísinnn merkilegur en keypti þess í stað kaffi, sykur og sítrónur. Áhugamenn um rússneska menningu vita hvers vegna. Samkvæmt venju var síðan pantað borð á Greifanum seinna um kvöldið fyrir liðið, og tíminn þangað til notaður til að ýmist punta sig eða hella í sig eða jafnvel hvort tveggja. Greifinn var síðan pakkfullur þegar á staðinn var komið svo við gátum ekki einu sinni öll setið á sama borðinu. Slappt. Þá leið góður klukktími frá því að við pöntuðum matinn og þangað til við fengum hann, slappt. Svo gátu þau ekki einu sinni haft allar pantanir réttar, slappt. Verst var þó að komið var fram við Jarlaskáldið eins og hvern annan, engin sérmeðferð eins og í fyrra. Þeir skilja sem muna. Svo má ekki gleyma samkynhneigðasta þjóni Íslands. Hefði hann verið argari hefði þurft sírenu á hausinn á kappanum.
Eftir matinn var haldið aftur í Furulundinn og tekið til við aðalfundarstörfin (big surpirse!), Jarlaskáldið stóð ásamt Stefáni fyrir rússneskri menningarkynningu og man lítið meira eftir það. Samkvæmt bestu heimildum hélt það í bæinn með Júdóslörið og gerði góða hluti, treystum því bara.

Jarlaskáldið var ekki við sína allrabestu heilsu sunnudagsmorguninn 14. mars. Engu að síður var það vakið með látum og skipað að taka sitt dót til. Hvílík mannvonska. Einhver hafði fengið þá brilliant hugmynd að rúnta til Siglufjarðar og fara á skíði þar, og var Skáldinu sá einn kostur boðinn að fylgja með í för. Alda og Viffi fóru reyndar heim, og Andrésson-hjónin á Sauðárkrók, en aðrir héldu til Sigló og var það mikil krummaskuðaför, auk þess sem ekið var gegnum tvenn göng, misvelhönnuð. Skáldið svaf þetta reyndar mest af sér. Sigló heilsaði liðinu með blíðskaparveðri, og þessu líka fína skíðasvæði. Þarna er sennilega að finna einhverja bestu brekku á Íslandi, og hefði Skáldið haft orku til að standa í lappirnar hefði það örugglega skemmt sér konunglega. Þess í stað staulaðist það upp lyftur og niður brekkur á viljanum einum uns það gafst loksins upp og beið eftir liðinu niðri með pulsu í annarri og kók í hinni. Hresstist það nokkuð við það og enn frekar við kjúllann sem það fékk á bensínstöð bæjarins nokkru síðar, en þar má e.t.v. finna hægustu afgreiðslu á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Lá svo leiðin heim, það var langt, leiðinlegt, og að mestu í einhverju móki. Komið heim um tíu, hefur Skáldið síðan eytt tímanum í að jafna sig. Gettin' old.


Þess má að lokum geta að Jarlaskáldið sér ekki mikla ástæðu til þess að tjá sig í löngu máli um það að MR tapaði í GB, það hvílir ekki sérstaklega þungt á sálu þess þó flestir telji að það hljóti að vera í öngum sínum yfir þessu. Það vill bara koma því á framfæri að stóri bróðir er vart mönnum sinnandi af vonsku þessa dagana yfir því að hafa misst titil sinn „síðasti maður til að tapa í MR-liðinu“ eftir tólf ára farsælan feril. Er það skiljanlegt.

 

Ojá

Laughter is the best medicine. Unless you're diabetic. Then it's insulin.

föstudagur, mars 19, 2004 

Aumingjablogg

Þetta er nú orðið ljóta helvítis aumingjabloggið! Svei!


miðvikudagur, mars 10, 2004 

Miðvikublogg ið þrítugastaogníunda

Í dag er miðvikudagur, en hvað Jarlaskáldið varðar er fimmtudagur. Fyrir því er góð ástæða.

Jú, eins og niðurtalningin hér til hliðar gefur til kynna er komið að árlegri Agureyrishferð lífsnautnafélagsins VÍN. Að öllu jöfnu hefur þessi ferð yfirskrift skíðaferðar en í ár eru veðurguðirnir síður en svo hliðhollir okkur þannig að búast má við að lítið fari fyrir skíðaiðkun en meira fyrir hefðbundnum aðalfundarstörfum. Eins og þau hafi ekki verið næg fyrir. Allavega mun Skáldið yfirgefa höfuðstaðinn seinnipartinn á morgun og stefna á höfuðstað Norðurlands, og mun atburða þeirra þriggja daga sem þar verður dvalið getið í næstu ferðasögu, ef minni leyfir. Fat chance.

sunnudagur, mars 07, 2004 

Baldinn jökull

Hún varð heldur söguleg þessi Langjökulsferð okkar um helgina. Það teygðist nefnilega heldur úr henni af ýmsum orsökum. Ef það kemur frétt í Mogganum á morgun um að björgunarsveit hafi verið kölluð út til að hjálpa ferðalöngum í vanda uppi á Langjökli, þá könnumst við við málið. Meira en við kærum okkur um.

Upphaflega stóð til að leggja í ferð þessa á föstudagskvöldið. Ætluðum við Stebbi að fara á Willa en Andrésson og félagi hans í Flubbunum, Ásgeir að nafni, að fara á FBSR2, sem er Landcruiser Flubbanna. Þegar við Stefán vorum svo ferðbúnir um áttaleytið á föstudagskvöldið kom í ljós að FBSR2 hafði verið tekinn í önnur (og vonandi brýn) verkefni þá um kvöldið svo brottför okkar frestaðist þangað til daginn eftir. Þess í stað tókum við Stefán hús á Andréssyni og frú, horfðum þar á afskaplega vondan sjónvarpsþátt sem er svo ranglega kallaður Landsins snjallasti, auk þess á hina epísku stórmynd Ali G Indahouse, sem var öllu meiri skemmtun. Fórum svo bara snemma í háttinn þar sem ný brottför var fyrirhuguð árla morguninn eftir.

Jarlaskáldið vaknaði á afar ókristilegum tíma á laugardagsmorgun, rétt eftir sjö. Klukkan átta var það svo mætt ásamt títtnendum Stefáni upp á Select við Vesturlandsveg, gæddi sér á pylsu og beið nokkra stund eftir Flubbunum. Þeir mættu nokkru síðar á hinum vígalega FBSR2 og því hægt að leggja í hann. Ekki var ferðin norður í Húsafell til frásagnar færandi, og ekki heldur leiðin þaðan upp í Þjófakróka, svo því verður barasta sleppt. Við jökulsporðinn var fínasta veður, sól og blíða, og fullt af liði á sleðum og bílum. Eftir nauðsynlegar dekkjaúrhleypingar var byrjað að mjaka sér upp jökulinn, sem gekk hægt vegna erfiðs færis, en lentum þó aldrei í að festa okkar svo spotta þyrfti. Þannig siluðumst við upp, hjakkandi upp og niður, og ef maður hætti sér millimetra út fyrir hjólförin sat allt fast. Þolinmæðin vinnur víst ýmsar þrautir og var þessi ekki undanskilin, eftir ríflega tveggja tíma akstur komust við loks upp á hábunguna þar sem við nutum fjallasýnar til allra átta í rúmlega 1300 metra hæð. Þá var klukkan enn ekki orðin eitt svo við ákváðum að keyra aðeins áfram og gekk það talsvert betur þarna enda um sléttlendi að fara, ekki síst eftir að við frelsuðum aðeins meira loft úr dekkjunum. Ókum við alla leið að Þursaborgum og náðum alveg 40 kílómetra hraða síðasta kaflann, sæmilegt það. Þar tókum við okkur nestispásu enda orðnir glorhungraðir, og ræddum aðeins hvað skyldi gera í framhaldinu. Upphaf endalokanna.
Eftir nokkrar diskúteringar ákváðum við Stefán að snúa við vegna bágrar bensínstöðu, en þeir Magnús og Ásgeir ákváðu að leika sér aðeins í kringum Þursaborgir og snúa svo við. Hafði Jarlaskáldið tekið með sér snjóbretti sitt og lét Stefán draga sig, sem var geysierfitt en um leið geysigaman. Ókum við svo sömu leið til baka og gekk það alveg prýðilega þó ekki hafi verið farið ýkja hratt yfir. Þegar við komum svo aftur upp á Hábunguna sáum við að skýjaslæða var u.þ.b. að leggjast yfir jökulinn og ákváðum því að drífa okkur barasta niður áður en skyggnið yrði ekki neitt. Jarlaskáldið greip aftur bretti sitt og skíðaði niður, eða reyndi það alllavega, því eins og hendi væri veifað fór að hvessa með miklum skafrenningi svo maður sá ekki neitt og einbeitti sér bara að því að standa í lappirnar og reyna að halda réttri stefnu. Fljótlega hafði það týnt Stefáni og Willa en tókst þó að ramba á skálann niðri við jökulröndina, en þar sat þá Stefán rækilega fastur í skafli. Sem betur fer var bróðir Willa á svæðinu og kippti í hann til að losa hann úr prísundinni. Var klukkan rúmlega fjögur þegar hér er komið sögu. Settumst við svo báðir inn í Willa og ætluðum að hinkra eftir þeim Flubbum, sem við töldum að væru ca. 15-30 mínútur á eftir okkur. Það reyndist fullmikil bjartsýni.
Leið svo og beið. Af ýmsum orsökum, flestum ógáfulegum, vorum við Stefán alveg fjarskiptalausir, bara með CB-talstöð og gátum því ekkert gert til að ná sambandi við þá Flubba. Eftir rúmlega hálftíma bið komu tveir bílar niður af jöklinum sem sögðust hafa séð þá rétt á eftir þeim, svo við bjuggumst við þeim á hverri stundu. Alltaf varð síðan veðrið verra og verra og ekkert bólaði á þeim. Leituðum við í öllum bílum á svæðinu að NMT-síma eða VHF-talstöð til að ná sambandi við þá en án árangurs. Ekki gátum við farið upp eftir að leita að þeim, bæði vegna veðurs og bensínleysis, svo að eftir rúmlega tveggja tíma bið ákváðum við að keyra niður í Húsafell til þess að komast í GSM-samband og reyna að ná í þá. Gekk sú ferð hægt þar sem loft í dekkjum var af skornum skammti, loftdælan okkar virkaði lítið sem ekkert, allt á sömu bókina lært. Niður í Húsafell vorum við komnir upp úr sjö og þá svöruðu þeir Flubbar auðvitað ekki símanum. Hringdum við þá í frú Andrésson sem sagðist hafa heyrt í þeim og væru þeir fastir í skafli ca. 3 kílómetra frá jökulröndinni, eins og okkur hafði reyndar grunað allan tímann. Nú voru góð ráð dýr. Veðrið var orðið svo klikkað að óðs manns æði væri að fara einbíla að reyna að bjarga þeim, auk þess sem heilbrigð skynsemi segir manni að ef bíll festist á leið niður brekku séu litlar líkur á að komast upp hana. Ákváðum við því að doka aðeins við og sjá hvort þeim tækist að moka sig út úr vandanum, en þegar það var fullreynt reyndum við að finna einhvern í bænum til að aðstoða, m.a.s. ókum við um allt Húsafell í leit að breyttum jeppa sem gæti hugsanlega hjálpað, enn án árangurs. Enn bættist við vandamál, báðir símarnir okkar Stefáns batteríslausir, svo við þurftum að miklu leyti að treysta á SMS-sendingar gegnum þriðja aðila. Hvað næst?
Um tíuleytið barst okkur svo loks sú fregn að Flubbunum hafði tekist að plata einn félaga sinna á ofuröflugum jeppa að keyra upp eftir úr bænum og reyna að bjarga málum. Var góð tveggja tíma bið í hann og reyndum við Stefán að leggja okkur þangað til, sem gekk brösuglega. Um miðnætti mætti svo kappinn á svæðið við annan mann, á þessum líka fína trukk, Landcruiser með 44 tommu breytingu, læstum að framan og aftan með low gear og ýmislegt fleira sem Skáldið kann ekki að nefna, ef þessi kæmist ekki upp kæmist enginn. Ókum við svo aftur upp að jökli og sáum fljótt að veðrið hafði síður en svo skánað, reyndar þvert á móti. Þegar við vorum ca. 3 kílómetra frá jökulröndinni skall síðan á þessi líka svaka skafrenningur svo skyggnið varð minna en ekkert og bílarnir léku á reiðiskjálfi. Þó héldum við aðeins áfram og upp eina brekku en þar var svo hált og hvasst og skyggni lítið að ekkert vit var í að fara lengra. Til marks um veðurofsann þá treysti Stefán sér ekki til að snúa bílnum við í brekkunni, heldur þurfti Skáldið að fara út, halda sér í bílinn svo það fyki ekki burt, og vísa Stefáni leiðina niður með því að rýna niður í jörðina. Þannig tókst okkur að komast í smáskjól bak við stóran flutningabíl sem svo heppilega var þarna á svæðinu, og sáum þá hazardljósin blikka á hinum bílnum uppi í brekkunni. Ekki töldum við vit í því að keyra aftur upp svo við örkuðum/skriðum upp brekkuna vopnaðir skóflu og með mokstri og dekkjaúrhleypingu tókst að losa bílinn og aftur þurfti Skáldið að vísa veginn niður, haldandi sér í bílinn. Stórskemmtilegt, allavega í minningunni.
Þegar við vorum svo aftur komnir í skjól náðum við sambandi við Magnús og Ásgeir, sem voru búnir að vera fastir í sama skaflinum einhverja tíu tíma, og sögðum þeim að þeir fengju að vera þar eitthvað lengur því vonlaust væri að sækja þá. Svo héldum við til baka, að þessu sinni með Jón, eiganda rosajeppans vísandi veginn gegnum skafrenninginn enda hafði enn bætt í, og notaði hann spilið á bílnum til að halda sér í en fauk engu að síður tvisvar út fyrir veg. Bílarnir fuku síðan hingað og þangað og oft mátti litlu muna að þeir færu út af veginum, samt var meðalhraðinn sennilega innan við 5 kílómetrar á klukkustund. Jafnvel tornæmustu lesendum ætti nú að vera ljóst að veðrið var eiginlega út í hött. Þegar neðar dró fór þó að draga úr vindi og skafrenningi svo hraðinn fór að ná tveggja stafa tölu og vorum komnir niður í Húsafell upp úr þrjú um nóttina. Þar notaði maður tækifærið til að fara úr rennblautum fötum og í ný, og eftir nokkrar samræður við hina og þessa varð víst niðurstaðan að einhver svakasnjóbíll frá Flubbunum myndi koma daginn eftir og bjarga strákunum svo við gátum farið heim með aðeins betri samvisku. Á leiðinni heim var smá hasar, rok og læti, en kannski var það bara ágætt til að halda manni vakandi enda farið að nálgast sólarhring sem maður hafði verið á fótum. Heim var Jarlaskáldið komið um hálfsexleytið og það síðasta sem það gerði fyrir svefn var að svara símtali frá drukknum Blöndahl sem hringdi af Hverfisbarnum. Af hverju fór maður ekki bara þangað eins og venjulega?

Í dag vaknaði Skáldið fyrst við símhringingu um hádegisbil frá Stefáni sem tjáði því að strákarnir væru lausir úr sinni prísund, það var nú gott. Svaf það svo tvo tíma til og fór síðan á KFC. Það var ekki síður gott. Annað hefur ekki gerst í dag...

...nema það að Védís átti afmæli. 27 ára gömul. Til hamingju!

laugardagur, mars 06, 2004 

Baldjökull

Jamm, eftir ekki svo marga klukkutíma mun Jarlaskáldið yfirgefa hringiðu stórborgarinnar og leita kyrrðar uppi á Langjökli. Allt of mikil læti í gangi. Óþolandi í rauninni. Skítabögg.

þriðjudagur, mars 02, 2004 

Ekkert eins og það á að vera

Það er orðið þó nokkuð langt um liðið síðan Jarlaskáldið hafði nennu til að rita einhver fátækleg orð um annars auma tilveru sína. Hefur það enda mátt þola fúkyrðaflaum undanfarið frá nokkrum lesenda sinna sem vilja sitt helgarblogg og engar refjar! Hefur Skáldinu jafnvel verið hótað líkamsmeiðingum sýni það ekki betri frammistöðu, og í því skyni að kaupa sér eilítinn gálgafrest hyggst það því drepa á því helsta sem það hefur upplifað undanfarið. Ekki er hægt að mæla með því að sæmilega gefið fólk lesi lengra.

Þegar síðast spurðist til Skáldsins hafði það nýverið horft á MR-inga sigra kæruglaða MH-inga í GB, vitaskuld með svikum og prettum eins og venjulega, og hugðist nota helgina til útiveru og heilbrigðs lífernis í stað sukks og svínarís. Útkoman varð víst sitt lítið af hverju. A.m.k. hófst helgin á siðsamlegum nótum, Jarlaskáldið hélt á föstudagskvöldið í heimsókn til hjónaleysanna Kjartans og Laufeyjar á Guðrúnargötu og hitti þar fyrir auk húsráðenda önnur skötuhjú sem nýverið hafa fjölgað sér, þau Hrafnhildi og Elvar. Var kvöldinu eytt í gáfulegar samræður í bland við léttara hjal, um ellefuleytið létu H&E sig hverfa heimleiðis en þeirra skarð var fljótlega fyllt af aumingjabloggaranum. Þar eð veislugestir voru þá orðnir fjórir þótti tilvalið að spila Kana sem Jarlaskáldið tapaði að sjálfsögðu sannfærandi. Magnús Blöndahl sýndi sig fljótlega upp úr miðnætti og eðlilega fóru þá aðrir gestir að týnast heim svo teitinni var slúttað fyrir eitt. Bærilega siðsamlegt kvöld, er það ekki bara?

Skáldið svaf fram til hádegis daginn eftir því ekki virtist ætla að bóla á neinum sem til væru í að leggja land undir dekk og hverfa út í buskann. Hugðist Skáldið því barasta eyða deginum í leti og ómennsku, sem það kann ágætlega, en um tvöleytið bárust þau boð frá Stefáni Twist að hann og Vignirværu til í að kíkja aðeins út fyrir póstnúmer hundraðogeitthvað og sjá svo til hvar förin myndi enda. Var engum nema Lilla treyst fyrir þessu verkefni og var byrjað á því að brynna honum en síðan hugað að drykkjarvörum fyrir aðra ferðalanga. Um þrjúleytið lögðum við svo af stað út í suddann og stefnan tekin austur fyrir fjall, meira var ekki ákveðið að sinni. Var ferðin tiltölulega tíðindalítil allt þar til glitta tók í Hnakkaville en þá fundum við að sjálfsögðu fyrstu leið fram hjá þeim óskunda og héldum norður í Grímsnes. Ekki varð ferðin tíðindameiri við þá beygju, þokusuddinn skemmtilegur og Lilli í hörkustuði. Á Geysi var gert hefðbundið pylsustopp og höfðu ferðalangar þá orðið ásáttir um það að kíkja upp að Hagavatni og reyna að gera einhvern óskunda þar. Við Gullfoss var myndarlegt skilti fyrir veginum hvar á stóð „Vegur ófær“, vitanlega tókum við ekkert mark á því og héldum áfram. Fljótlega komumst við að því hvers vegna þetta skilti var þarna, fyrst eftir að hafa hoppað og skoppað yfir alldjúpar holur í veginum og síðan enn frekar þegar við komum að ca. meters djúpum og hátt í tveggja metra breiðum skurði í veginum. Lilla var ekki skotskuld úr því að krækja fyrir þá ófæru og gekk ferðin vel allt að afleggjaranum inn að Hagavatni. Leiðin inn eftir byrjaði ekki gæfulega, vegurinn ansi holóttur og sprunginn, svo Skáldið fór sér að engu óðslega. Eftir stutta stund virtist hann lagast svo Skáldið spyrnti heldur fastar með hægri. Það hefði betur sleppt því, því allt í einu heyrðist hátt KABÚMM og skrjóðurinn fór í loftköstum yfir allsvakalegar holur í veginum með tilheyrandi þaksköllum fyrir ferðalanga. Sluppu þeir þó allir ómeiddir úr þessum hildarleik, en hið sama varð ekki sagt um aumingja Lilla. Hafði felga á hægra framhjóli beyglast þó nokkuð svo úr því var allur vindur. Sem betur fer voru það einu skemmdirnar, því Skáldið sýndi vitaskuld þá fyrirhyggju að vera með varadekk í farteskinu, þó heldur væri það aumingjalegt í samanburði við hin dekkin. Eftir nokkra leit fannst tjakkur (of lítill) og viðeigandi verkfæri og með hjálp ævafornra húsráða (hlaða grjóti undir tjakkinn) tókst að skipta um dekk og tók þá Lilli gleði sína á ný líkt og eigandinn. Engu að síður var ákveðið að reyna ekki frekar við leið þessa þar eð ekki voru fleiri varadekkin.
Í öllum góðum ferðalögum þykir tilhlýðilegt að skola af sér ferðarykið og í því skyni fundum við okkur sundlaug í Reykholti (Árn.) Var það barasta hin fínasta sundlaug, rennibraut að vísu ómerkileg en heitur pottur bæði stór og þægilegur og þar að auki svona líka passlega heitur. Hefðum við eflaust getað legið þar tímunum saman ef við hefðum ekki verið reknir upp úr eftir stutta dvöl enda seint á ferð. Héldum við því heim á leið, kannski ekki með öngulinn í rassinum en svona dálítið neðarlega í bakinu, og til að bæta fyrir það var ákveðið að hittast í Heiðarásnum um níuleytið, horfa þar á Popppunkt, drekka öl og sjá svo hvernig mál myndu þróast. Skemmst er frá því að segja að þau þróuðust með hefðbundnum hætti enda skemmtanaglaðir menn með afbrigðum þarna á ferð. Ekki ætlar Skáldið að þreyta lesendur með sögum af misgáfulegum tilburðum þess á lendum skemmtanalífsins, það er bæði gömul saga og ný, en getur þó ekki látið hjá líða að greina frá forvitnilegri uppákomu er átti sér stað síðla nætur. Var þá Jarlaskáldið einu sinni sem oftar komið á Nonnabitann í þeim tilgangi að verða sér úti um blautan Pepperonibát. Var röð löng og hægfara og notaði Skáldið því tækifærið og bryddaði uppi á samræðum við nærstadda sem tóku því mætavel. Eftir alllanga bið fór að hylla undir að Skáldið gæti lagt fram pöntun sína og það því orðið nokkuð óþolinmótt. Vindur þá stúlka ein allglyðruleg sér að Skáldinu og upphefur mikinn fagurgala. Voru samræðurnar nokkurn veginn á þessa lund, þó orðalagi sé breytt eilítið á stöku stað "for dramatic purposes."

Glyðra: „Ó fagri piltur, þú berð af öðrum mönnum hér inni, ásjóna þín er guðdómleg, viska þín vart mælanleg, fas þitt og atgervi öðrum öfundarefni!“

Jarlaskáld: „Huh?“

Glyðra: „Sjálf er ég afar fögur, en ó hve ég er svöng! Leyf mér að taka stað þinn í röðinni, og þér mun launað verða á þann hátt sem glyðruleg stúlka kann helst!“

Jarlaskáld: „Vík frá mér með þín fölsku tælingarorð, þú lausgirta flenniglyðra, þú hefir vafalaust legið undir heilu herdeildunum og heldur kýs ég minn Nonna en að liggja með hórkerlingu!“

(húrrahróp frá öðrum biðraðarmeðlimum)

Glyðra: „Þú ert viðbjóðslegri en hor það er rennur úr sjálfdauðu hrossi sem legið hefur í stífluðu klóaki um árabil!“

Jarlaskáld: „Ekki varðar mig um skoðanir portkvenna, haf þig á brott og hugsa þinn gang, nú vil ek bát minn eta!“

(Glyðra yfirgefur sviðið)

Jarlaskáld: „Ég ætla að fá einn pepperonibát og hálfan af appelsín.“

(Jarlaskáld fær bát sinn og drykk, yfirgefur sviðið)


Ekki var viðskiptum Jarlaskáldsins við frekt kvenfólk enn lokið, því einungis nokkrum mínútum síðar þurfti það að beita hörku til að ná leigubíl frá stúlku sem hafði líkt og glyðran talið að biðraðir ættu ekki við sig. Er Jarlaskáldið verulega farið að missa trúna á að sómakært kvenfólk sé lengur að finna hér í borg óttans.

Sunnudagur fór ekki ekki í merkilega iðju frekar en endranær, en um kvöldið og nóttina horfði Skáldið á Skarann og var bara nokkuð sátt við úrslitin. Allavega enginn viðbjóður sem vann í ár.

Samkvæmt þessum teljara hérna vinstra megin eru 9 dagar þar til Skáldið heldur norður í land til að stunda snjóbrettaiðkun í bland við hefðbundnari aðalfundarstörf. Ætli verði einhver snjór eftir þá? Ekki neitt gríðarleg bjartsýni í gangi. Þó ber að benda einhleypum 18-22 ára stúlkum á að enn er hægt að nálgast miða á þessa ágætu hátíð VÍN-verja, og tvíburum má benda á tveir-fyrir-einn tilboðið sem gildir. Oseiseijú...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates