« Home | Bjáni Sturla Böðvarsson heitir maður, einkum þekk... » | Tot Frásagnir af andláti Jarlaskáldsins eru stórl... » | Gaman Jarlaskáldið vildi bara koma á framfæri þak... » | Aumingjabloggari vaknar Jarlaskáldið hefur barast... » | Óhappaskáldið Ojæja, þá er maður loksins búinn að... » | Það held ég nú » | NBA-spádómur Jarlaskáldsins 2004-2005! Það gekk ý... » | Miðvikublogg ið fertugastaogsjötta Uss, langt síð... » | Der Alte Jamm, Jarlaskáldið er orðið löggilt gama... » | Ammæli Í dag á Jarlaskáldið ammæli. Það er 21 árs... » 

þriðjudagur, desember 07, 2004 

101 Selva

Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti í háa herrans tíð, en það breytir því ekki að Sturla Böðvarsson er enn bjáni. Og verður það væntanlega eitthvað áfram...

Það dró aðeins til tíðinda í lífi Jarlaskáldsins um helgina. Föstudagur var reyndar með hefðbundnum hætti, lítið sem ekkert gert þá, hvorki í vinnu né félagsstörfum. Það er ekkert nýtt. Föstudagskvöldið reyndist síðan vera lognið á undan storminum, því á laugardaginn tók heldur að hvessa...

...og það ekki bara í óeiginlegri merkingu, því það var hávaðarok og rigning þegar Skáldið hélt frá heimili sínu á áttunda tímanum á laugardagskvöld og tók stefnuna á Langholtsveg hvar Oddbergur Eiríksson (oft nefndur aumingjabloggari) heldur sitt heimili. Þaðan lá leiðin ásamt téðum Oddbergi vestur í bæ og ekki stoppað fyrr en komið var í krummaskuð það er Seltjarnarnes nefnist. Er það lítið og lágt, og var því lítið skjól að hafa þegar við hlupum undan dembunni inn í félagsheimili hreppsins. Ástæða þess að við lögðum í þessa langferð var sú að þarna um kvöldið var haldin jólaskemmtun vinnustaðar oss, Norðurljósa, og þar sem bæði vott og þurrt var alveg gratís gátum við ekki látið okkur vanta. Fyrst var okkur boðið upp á fordrykk sem var lítt merkilegur, þó var fordrykkur Jarlaskáldsins eilítið skárri þar eð hann innihélt a.m.k. alkóhól. Fljótlega fundum við svo sæti þau er okkur var úthlutað og sátum þar í félagsskap ýmiss góðs fólks sem við kunnum mismikil deili á. Ekki leið á löngu uns veislustjórinn Róbert Marshall (sem helst er þekktur fyrir aðstoð sína á Þjóðhátíð '03) kvaddi sér hljóðs og bauð fólki að fá sér að éta. Þar þjófstartaði hann heldur þar eð maturinn var ekki tilbúinn, en ekki leið á löngu þar til fyrstu menn komust að hlaðborðunum, en þar sem Oddbergur var með okkur á borði vorum við að sjálfsögðu með síðustu mönnum að fá í svanginn, enda er Oddi alltaf síðastur. Maturinn var rétt rúmlega snilld og lítið annað um hann að segja, og auk þess voru frammistöðustúlkur sérlega duglegar að fylla á glös, með fyrirsjáanlegum afleiðingum.
Auk þess að splæsa á gesti mat og drykk var boðið upp á ágæta skemmtidagskrá. Fyrst á svið var Ragnheiður Gröndal ásamt brósa sínum og söng þrjú jólalög, Jarlaskáldið var frekar upptekið við kalkúninn þegar það gerðist og leggur því ekki dóm á þá skemmtun. Ágæt örugglega, og ekki ómyndarleg stúlkan. Sem er ekki verra. Næstur á svið var síðan Hjálmar Hjálmarsson, sem Jarlaskáldið saknar gríðarlega í hlutverki fréttaHauksins. Fór hann með gamanmál og fórst það einkar vel úr hendi, tók að sjálfsögðu Bubba en einnig frábærar eftirhermur af Megasi og Agli Ólafssyni. Kannski að rauðvínið hafi hjálpað, en Odda fannst þetta í það minnsta líka gott þó ódrukkinn væri.
Næsta "skemmtiatriði" hefði alveg mátt sleppa að mati Skáldsins. Stjáni stuð ásamt hljómsveit, 'nough said.
Þegar þarna var komið sögu var gert hlé á dagskrá og m.a. aumingjabloggarinn lét sig hverfa. Jarlaskáldið minglaði aðeins við fræga og gerði það að sögn skammlaust, auk þess ku það hafa litið við á barnum, en fylgdist svo með Love Guru flytja sína "tónlist" með hjálp íturvaxinna ungmeyja. Það var ágætt skemmtiatriði, hvað sem tónlistinni líður. Eftir það steig hljómsveitin Á móti sól á svið og þótti Skáldinu þá mál til komið að yfirgefa samkomuna. Því til happs voru fleiri á sömu buxunum og fékk Skáldið því far áleiðis í bæinn. Gerði það á leið sinni stutt stopp í teiti hjá, öh, einhverjum, og rólaði sér aðeins þar, en hélt fljótlega á þann annars arma stað Nasa, þar sem Sálin hans Jóns míns var að skemmta og Skáldið átti von á að hitta þá Staffan og VJ. Þar voru piltar og auk þeirra fjölmargir aðrir, og til að gera langa sögu stutta var þetta skemmtun hin besta. Að skemmtun lokinni var haldið eitthvað víðar á lendum skemmtanalífsins, Skáldið hitti að sögn fólk, en endaði að lokum eitt í leigara síðla nætur, þó ekki án þess að hafa orðið sér úti um hressingu hjá Nonna. Góður endir á ágætu kvöldi.

Sunnudagurinn... byrjaði ekki vel þegar aumingjabloggarinn hringdi í Skáldið og bað það um að taka fyrir hann vakt. Það var ágætt að allir aðrir á vaktinni voru líka þunnir...

Helgin á undan? Ekki baun í bala. Jú, Old School, ekki alveg ónýt helgin!

Kannski eru einhverjir að spá í titli þessa greinarkorns, er Skáldið eitthvað að vitna í Hallgrím Helgason? Nei, ekki er það svo slæmt, heldur að minnast þess að nú er aðeins 101 dagur þar til Jarlaskáldið heldur af landi brott til Dólómítanna ítölsku til að renna sér á skíðabretti í bland við aðra skemmtun. Af hverju pantaði maður ekki ferð í janúar eins og venjulega? Damn it!


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates