« Home | Ársuppgjör 2004 - þriðji hluti - júlí-september J... » | Djö! Skáldið er enn á lífi, en ekki mikið meira e... » | Nú er það svart! Ekki er það gott ástandið á Jarl... » | Ársuppgjör 2004 - annar hluti - apríl-júní Þá er ... » | Ágætis byrjun Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaská... » | Auld Lang Syne Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur. ... » | Ársuppgjör 2004 Það styttist víst í það að árið s... » | Kjöt og fiskur Jarlaskáldið hefur sjaldan verið t... » | Jól, krakki og ammili Jamm, jól. Til hamingju me... » | Maggi tekinn í bakaríið Hann var með erfiðari sun... » 

mánudagur, janúar 17, 2005 

Ársuppgjör 2004 - fjórði hluti - október-desember

Þá er komið að því, fjórði og síðasti hluti ársuppgjörsins, og grunar Skáldið að eitthvað fljótar verði farið yfir sögu að þessu sinni en oft áður. Hvað sem því veldur...

Október
Október fór rólega af stað, allavega greina heimildir ekki frá miklum afrekum fyrstu helgi þess mánaðar. Strax aðra helgi októbermánaðar dró síðan til tíðinda, því þá var haldin hin árlega La Grande Buffe veisla. Var það mikil veisla og góð, matur frábær og skemmtiatriði ekki mikið síðri. Opinn Ólsen er furðulega gefandi spil.
Jarlaskáldið hélt sig í þéttbýlinu næstu tvær vikurnar, og ekki voru þær ýkja tíðindamiklar. Á þessum tíma fór Skáldið í teiti til Manna, ammili til Mumma og hóf störf að nýju hjá fyrirtæki því er þá hét Norðurljós, en heitir núna eitthvað allt annað. Sunnudaginn 24. október fagnaði Jarlaskáldið svo 21 árs ammili sínu (sjöunda árið í röð) en tók reyndar forskot á sæluna og bauð nokkrum drykkjurútum til veislu kveldið áður. Hún var að mestu skrílslátalaus.
Síðasta helgi októbermánaðar var án efa hin eftirminnilegasta í þeim mánuði, og á eflaust eftir að endast alllengi í minninu. Þá fór Skáldið í mikinn jeppatúr sem endaði í allsherjarvitleysu. Engu að síður helvíti gaman, a.m.k. í minningunni.

Nóvember
Fjandinn hafi það, en svo virðist sem Jarlaskáldið hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut allan nóvembermánuð. Það lét það a.m.k. alveg vera að bregða sér út fyrir bæjarmörkin, en var reyndar þeim mun duglegra að kanna lendur skemmtanalífsins. Hluta nóvembermánaðar var Jarlaskáldið algerlega án "parental supervision" þegar gömlu brugðu sér út fyrir landssteinana, en nýtti samt ekki tækifærið til að halda villtar veislur. Það reyndi jú, en það mættu bara þrír. Í nóvembermánuði gerðist það að Skáldið hóf að venja komur sínar á þann gamla kynvillingastað 22, sakir illra áhrifa klækjakvendis nokkurs, og hefur ekki enn látið af þeim ljóta sið. Kynvillingarnir eru reyndar löngu farnir annað.
Annars gerði Jarlaskáldið ekkert af sér í nóvember, sem þarft þykir að nefna. Þetta hefur verið ljóti mánuðurinn.

Desember
Það fór eitthvað aðeins að lagast ástandið í desember, enda annað erfitt. Strax fyrstu helgina mætti Skáldið á jólahlaðborð í vinnunni og hélt síðar það kvöld á dansleik á Nasa með sómapiltunum í Sálinni hans Jóns míns. Það var prýðilegasta kvöld, eða nótt öllu heldur.
Hvað svo? Næstu tvær vikurnar voru haldnir reglulegir fundir, og var fundarefnið skipulagning 18. desember, en þá var Magnús nokkur Andrésson tekinn og steggjaður. Það var fjörugur dagur svo ekki sé meira sagt, af virðingu við hlutaðeigandi verður ekki frekar farið út í það.
Stuttu eftir þetta komu jól líkt og lög gera ráð fyrir, og síðan áramót. Í millitíðinni lenti Jarlaskáldið líka í wannabe-celebapartíi. Jarlaskáldið kvaddi árið á heimaslóðum, og lýkur þar pistli.

Það verður að viðurkennast að síðasti ársfjórðungur 2004 var þeirra daprastur, líkt og kannski oft áður. Það er bara einhvern veginn alltaf þannig að maður gerir ekkert af viti vikum saman á þessum árstíma. Að vísu var október ágætur með tveim flottum ferðalögum og svo að sjálfsögðu ammili, nóvember var með eindæmum aðgerðalítill og desember sömuleiðis fyrir utan eitt steggjapartí og svo hefðbundið jólastúss. Ekki svo að skilja að þetta hafi verið eitt allsherjarþunglyndi, bara talsvert rólegra en t.d. mánuðirnir á undan. Einkunnin verður því ekki alslæm:

Einkunn október-desember 2004: 7.3.

Einkunnir eru því sem hér segir

Janúar-mars: 8.3.
Apríl-júní: 8.5.
Júlí-september: 9.1.
Október-desember: 7.3.

Samkvæmt útreikiningum færustu stærðfræðinga ætti þetta að gefa oss meðaleinkunn sem hljóðar upp á 8.3 fyrir árið 2004. Það er ekki svo slæmt, er það?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates