föstudagur, ágúst 30, 2002 

...góð vinkona Jarlaskáldsins, Hrafnhildur Dóra Hrafnkelsdóttir, hafði samband fyrir skemmstu og kvartaði yfir afar leiðinlegu bloggi í síðustu færslu. Þar væri einvörðungu verið að rifja upp íþróttaúrslit (ekki einu sinni alvöru úrslit, heldur í tölvuleik) sem væru lítt spennandi aflestrar. Jarlaskáldið vill því benda Hrafnhildi og öðrum sem fett hafa fingur út í umrætt blogg að það var eingöngu ætlað einum manni, Guðmundi Arnlaugssyni, eins og sagt var í upphafi bloggs, en illu heilli virðist sem Gvendur sé fjarri bloggheimum þessa dagana, eflaust vant við látinn í Minnasóti, og því ekki gefist tími til að lesa bloggið, sem ég efast ekki um að vekti mikla kátínu hjá honum. En víkjum að öðru...

...því eflaust eru þeir ófáir sem undra sig á tímasetningu þessa bloggs sem hér er ritað. Hví er Jarlaskáldið statt við tölvu sína þegar senn líður að miðnætti á föstudagskvöldi, hví situr það eigi að sumbli eins og lesendur eiga að venjast? Hefir Jarlaskáldið bætt sitt ráð, orðið nýtur þjóðfélagsþegn? Onei, líklega verður Jarlaskáldið seint til einhverra nytsamlegra hluta nýtt, en svo er málum farið að skáldinu hefir verið boðið í brullaup, sem fram fer í Dómkirkjunni og síðar sal Ferðafélags Íslands á morgun, en þá verða gefin saman þau Björg og Ástmundur í heilagt hjónaband. Þar hefir Jarlaskáldinu verið falið verðugt verkefni, það að sjá um tónlistarflutning svo unnt sé að iðka dansmenntir, en á báðum þessum sviðum stendur skáldið framarlega eins og kunnugt er. Að vísu mun Jarlaskáldið ekki hefja upp eigin raust, nema um það sé sérstaklega beðið, sem verður að teljast líklegt, heldur mun það mæta með sína helstu diska sem innihalda danstónlist og verða til ráðgjafar um tónlistarval. Til þess að Jarlaskáldið geti sinnt þessum skyldum sínum af ábyrgð og alúð ákvað það að ganga afar hægt um gleðinnar dyr í kvöld, eða jafnvel að sleppa því alveg að fara um þær dyr, svo að höfuðpínsl eður magaseyðingur sem óhjákvæmilega fylgja sumbli yrðu ekki til trafala við skyldustörfin. Einnig grunar skáldið að matur allgóður verði á boðstólum í brullaupinu og því vissara að mæta með matarlystina í góðu lagi. Svo þarf skáldið einnig að vakna í fyrra fallinu (um hádegi) til þess að kaupa gjöf handa verðandi hjónunum, því alltaf skal það verða með seinni skipunum þegar kaupa þarf gjafir. Á ég að skrifa eitthvað meira? Nei, ég ætla að fara og ná mér í pizzu......

fimmtudagur, ágúst 29, 2002 

..undur og stórmerki, já segi og skrifa, aumingjabloggarinn er loks vaknaður af værum bloggblundi, sem var með lengra móti að þessu sinni. Betur má þó ef duga skal til að losa sig við aumingjabloggsstimpilinn, alveg eins víst að hann tjái sig ekkert aftur fyrr en í október. Enda hefur frá engu að segja. Nema náttúrlega að við fórum á KFC, það er alltaf gott.

Mumma skal tjáð að leikurinn gekk nokkuð vel, Boston höfðu sigur með 134 stigum gegnm 91 stigi Lakers manna. Kenny átti góðan leik, með 18 stig (4-9 þriggja, 7-13 total), 3 stolna og 13 stoðsendingar. Flestar þessara stoðsendinga rötuðu í hendur Antoine Walker, sem átti stórleik með 45 stig, þar af 9-13 í þriggja, og 11 fráköst. Samtals hitti liðið mitt 21 af 37 þriggja, og var ég þó að spila á All-Star leveli. Paul Pierce var svo með 29 stig, aðrir allmiklu minna. Hjá Lakers var Glen Rice fremstur meðal aumingja með 32 stig, í ca. 40 skotum. Shaq var haldið niðri með konstant double-team, skoraði aðeins 20 stig og flest í garbage time. Kobe var aftur á móti með 6 stig, hitti 3-17, heheheheh...

miðvikudagur, ágúst 28, 2002 

...Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar vestur yfir haf til Mumma í tilefni af breyttu lúkki á síðunni hans, og langþráðri mynd af vini hans Kenny Anderson. Auk þess þakkar það linkinn. Mumma til heiðurs ætla ég núna að fara í NBA Live 2000, spila Boston á móti Lakers og láta Kenny taka öll skotin...

 

...það fór eins og ég óttaðist. Þegar ég varð orðinn frekar þreyttur á aðgerðaleysinu í gærkvöldi álpaðist ég til þess að senda inn umsókn um vinnu á netinu, sem einhvers konar lager/sölumaður í raftækjaverslun, þó ekki væri nema til að friða aðeins samviskuna. Og viti menn, klukkan níu í morgun hringir síminn og ég er boðaður á ráðningarstofuna med det samme. Á svo að mæta í starfsviðtal næsta mánudag. Ef allt fer á versta veg er s.s. hætta á því að ferill minn sem atvinnulaus aumingi og róni verði með stysta móti, og ég gerist þess í stað heiðvirður launþegi sem borgar sína skatta í stað þess að þiggja bætur. Það þykja mér vond skipti. En ég hef a.m.k. fram á mánudag...

mánudagur, ágúst 26, 2002 

...einhverjir munu hafa haft áhyggjur af afdrifum Jarlaskáldsins, þar eð ekki var staðið við áform um ritun ferðasögu síðast liðinn föstudag, og skal því lesendum til hugsvölunar tilkynnt að Jarlaskáldið er við hestaheilsu, ef frá er talin nokkuð illa brotin fingurnögl. Sakir tölvuvandræða (og síðar bloggleti) var ekki unnt að greina frá afrekum uppi á Heiði fyrr en nú, og fyrst við erum byrjuð á því væri ekki úr vegi að greina frá öðrum afrekum helgarinnar, þótt ekki væru þau mikil.

Ferðin upp á Heiði var bara hin ágætasta. Þar setti ég upp skilti með skemmtilegum sögufróðleik á stöðum eins og Draugatjörnum, Kolviðarhóli, við Búastein, við Ölkelduhálsrétt og víðar. Ef þið eigið leið þarna um skora ég eindregið á ykkur að líta dýrðina augum. Svo fór ég í bæinn um hádegi (Meistarinn gafst upp) og snöflaði í ca. þrjá tíma, en þá stimplaði ég mig út og varð med det samme atvinnulaus aumingi og róni. Hef ég notið mín nokkuð vel í þessu nýja hlutverki, og gæti jafnvel hugsað mér þetta til langtíma. Að vísu hófst rónaferillinn minn frekar illa, því á föstudagskvöldið horfði ég bara á video, Good Advice með Carlos Estevez(**/****) og Ocean's Eleven, sem skartar flestum öðrum leikurum (***/****). Videoglápið var að vísu truflað í smástund um tólfleytið þegar Gunni Beib hringdi í mig alldrukkinn og vildi fá mig á djammið með sér. Hvers vegna hringja alltaf fullir menn í mig og vilja fá mig á djammið þau örfáu skipti sem ég ákveð að fara snemma í rúmið? Aldrei gerist þetta þegar mig langar að fara á djammið!

Á laugardaginn horfði ég á fótbolta (Go El-Hadji!), og gerði síðan ekkert. Um kvöldið plataði ég svo Magnús með mér í bæinn, átti bara að verða eittvað létt, en að sjálfsögðu komum við heim undir morgun talsvert fátækari. Til allrar hamingju slapp Magnús ómeiddur að þessu sinni, sama verður ekki sagt um mig, sem smallaði á mér putta með hjálp leigubílshurðar. Tókst samt að klára Hlöllann,sem betur fer!

Sunnudagurinn fór í þynnku, en um kvöldið brá ég mér í kvikmyndahús, í það fúla bíó Regnbogann. Sá þar snilldina Goldmember, og hef ekki hlegið jafnmikið í bíó í lengrilengrilengri tíma. Segir kannski meira um mig en myndina, gef henni engu að síður ****/****.

Og nú er kominn mánudagur, og ég hef ekki gert neitt í dag. Þvílíkt sældarlíf! Hef á vísu á tilfinningunni að ég verði kominn með talsvert leið á aðgerðaleysinu eftir svona þrjá daga, og geri þá einhverja vitleysu eins og að finna mér nýja vinnu. Ef þið vitið um einhverja vinnu sem borgar vel fyrir að gera nánast ekki neitt (svona svipað og vinnan mín í sumar), þá endilega skrifið í kommentin.

Að endingu sendir Jarlaskáldið sínar bestu kveðjur til hjónaleysanna Gunnars og Védísar sem eignuðust lítinn strák (að vísu ekkert svo lítill, 17 merkur) á laugardaginn, og bendir á að Arnór Gunnarsson hljómar alls ekkert illa ef þau vantar nafn. Til hamingju...




föstudagur, ágúst 23, 2002 

...jæja, þá er ég á leiðinni upp á Heiði, djöfull líst mér á það. Ferðasagan seinna i dag...

fimmtudagur, ágúst 22, 2002 

...æææ, ég verð ekki skrifstofublók á morgun, heldur á ég að labba fleirifleiri kílómetra uppi á Hellisheiði og setja upp skilti með sögulegum fróðleik. Hvernig er annars veðurspáin? Úfff, hljómar ekki vel....

 

...þá fer annasömum vinnudegi að ljúka, og ég að tölta heim á leið með hamingju í hjarta yfir góðu dagsverki. Ég held að ég sé búinn að ýta 19 sinnum á print-takkann síðan við heyrðumst síðast, og bæta tvisvar við pappír í prentarann, geri aðrir betur. Svo þurfti ég að raða öllum blöðunum, gata þau og setja í möppu, kannski 100 blöð, ekkert skrýtið að maður sé þreyttur. Geri því væntanlega fátt í kvöld, er hvort sem er svo staurblankur að ég hef ekki einu sinni efni á að fara á Kentucky Fried lengur, s.s krítískt ástand. En það styttist í fyrsta sept, þá verður gaman, fyrst brúðkaup, svo bústaður, jibbíjei...

 

...bloggara hefur verið tjáð að afar áhugavert sé að lesa um hvað fram fer í vinnunni hjá honum, og því ætla ég að rita hér fáein orð um athafnir mínar í dag. Venju samkvæmt mætti ég klukkan 07:40, aðeins tíu mínútum of seint í þetta skiptið. Einnig venju samkvæmt byrjaði ég á því að skutlast heim til Meistarans, því hann þarf alltaf að skila bílnum heim á morgnana svo frúin komist í vinnuna, og ég sæki hann svo á Land Rovernum. Ég er ekki viss um að forstjóri Orkuveitunnar leggi blessun sína yfir þessa iðju, en hverjum er ekki sama! Þegar við komum til baka upp úr 8 fór Meistarinn út að fá sér kaffi, og sagði mér að gera slíkt hið sama. Ég fór á Select, og afgreiðslukonan byrjaði að hita pulsubrauðið um leið og hún sá mig, ég er víst ansi fyrirsjáanlegur að þessu leyti. Pulsan var góð eins og ávallt, kannski síðasta pulsan í sumar, hver veit? Ég kom aftur á skrifstofuna korter í níu, fór þá á Netið, og Meistarinn kom ca. kl. 9. Hann sagði mér þá að klára að pikka inn tölur úr GPS-mælingunum hans Mumma (sem ætti að fara í loftið til Ameríku seinna í dag), en fór svo sjálfur upp á Heiði og sagðist verða þar í allan dag. Ég kláraði þessar GPS tölur á svona hálftíma, eða upp úr hálftíu. Þá voru verkefni mín í dag búin. Þá fór ég aftur á Netið, skoðaði allt sem mér gat hugsanlega dottið í hug, en gafst upp klukkan 11:30 og fór heim í mat. Þar skellti ég Seinfeldspólu í tækið, og Haukur Lillebror var svo almennilegur að fara á Mekong og kaupa mat handa okkur á meðan ég glápti. Um klukkan eitt var ég svo orðinn vel mettur og fór aftur í vinnuna, það gæti nefnilega einhver tekið eftir því ef bíllinn minn væri aldrei á stæðinu, og las commentin hans Magga, sem skipaði mér að blogga. Sem ég og gerði ...

 

...að öllu eðlilegu ætti ég að vera orðinn atvinnulaus aumingi as we speak, en ég fékk smá gálgafrest, því Meistarinn ákvað að hafa mig í tvo daga í viðbót a.m.k., því hann heldur að ég sé tölvuséní (fátt er jafn fjarri sanni). Mummi náði ekki að klára sitt djobb áður en hann hætti (farvel Mummi), svo ég þarf að þrífa upp skítinn eftir hann. Það felst í því að pikka inn tölur í Excel, sem telst nú ekki flókið, en Meistaranum þótti vissara að láta mig gera það. Ég er s.s. aum skrifstofublók þessa dagana. Á mánudaginn verð ég svo líklega loksins orðinn atvinnulaus, mikið hlakka ég til...

miðvikudagur, ágúst 21, 2002 

...jájá, þetta er mun betra, nú er ég nördinn...


Which My So-Called Life Character Are You? Find out @ She's Crafty

 

...áttu þessir þættir ekki að vera rosa góðir? Og af hverju er ég bleslindi gæinn? Ég ætti að sjálfsögðu að vera nördinn!


Which My So-Called Life Character Are You? Find out @ She's Crafty

þriðjudagur, ágúst 20, 2002 

...aftur mættur í vinnuna, brjálað að gera sem fyrr. Átti að fara upp á Heiði að setja upp skilti, við það var hætt, eyði tímanum því í blogg og að rifja upp Seinfeldþætti með Mumma, topptíulistinn er á leiðinni...

mánudagur, ágúst 19, 2002 

...og þá er best að halda áfram þar sem frá var horfið, bíddu nú við hvar vorum við jú á leiðinni niður í bæ. Á leið okkar niður Bankastrætið verður okkur litið á gamla fangelsið við Lækjargötu, sem nú hýsir annars konar glæpamenn en í gamla daga. Telur Jarlaskáldið þá tilvalið að klifra upp á húsið, sem það og gerði af miklum myndarbrag hratt og örugglega. Magnús, sem telur sig mikla klifurgeit, ákvað að fylgja í fótspor skáldsins, og gekk það sosum sæmilega á leiðinni upp. Það sem fer upp verður víst að koma aftur niður að lokum, og það gerði Magnús, á fljótasta mögulega hátt. Varð hann sár nokkuð við að hrynja niður af þakinu, en sennilega var nú stoltið verst leikið. Það er víst ekki það sama, klettaklifur og fasteignaklifur. Var sjúklingurinn leiddur inn á eðalbúlluna Nonnabita, hvar gert var að sárum hans, og fannst skáldinu tilvalið að fá sér eins og einn Pepperonibát fyrst maður var nú á staðnum. Einhverra hluta vegna var skáldið orðið eitt á ferð þegar báturinn var tilbúinn, svo það skemmti sér bara við að horfa á ungdóm landsins lúberja hvert annað, og útskýra fyrir nærstöddum Norðmanni að þetta væri hin eðlilegasta hegðan á Menningarnótt. Einhverju síðar leit Jarlaskáldið svo inn á staðinn sem eitt sinn hét Sólon, eitt sinn Hús Málarans og nú aftur Sólon. Þar hitti það samferðamenn sína frá því fyrr um kvöldið, og fannst tilvalið að kynna þá fyrir dansmennt, sem endaði með þeim ósköpum að nánast fullt bjórglas skáldsins splundraðist í þúsund mola þegar einn viðstaddra missti stjórn á skönkum sínum í hamagangnum . Ekki góð helgi glasalega séð. Sá Magnús þá aumur á skáldinu og bauð því upp á romm í kók, guð má vita hvers vegna sú ólyfjan varð fyrir valinu. Eins og öll regn styttir upp um síðir varð endir á djamminu á áttunda tímanum, þegar fullreynt þótti að komast inn á öldurhús eftir að hafa verið fleygt út víða, við reyndum m.a.s. við Glaumbar, slík var skemmtanagleðin, og lauk fjörinu að sjálfsögðu á pulsuáti, áður en Hreyfill sá um að drösla lýðnum heim...

 

...núna er bara einn og hálfur tími eftir af mínum vinnudegi, og ég er ekki búinn að gera neitt eftir hádegi nema að bögga Mumma, sem er ólíkt mér að vinna eitthvað, þótt það sé nú lítil vinna að slá tölur inn í tölvu, þar tala ég af reynslu. Lúlli kom að vísu í heimsókn, þurfti undirskrift Meistarans til að geta sótt um atvinnuleysisbætur, kannski geri ég það líka ef ég fæ enga vinnu í vetur, og gerist fulltime róni. Þangað til verð ég bara helgarróni, og fyrst ég minnist á það þá er ekki úr vegi að rita næsta kafla í ævintýrum Jarlaskáldsins:

Á föstudaginn var síðasti official dagurinn í vinnunni, en þá hættu allir nema við Mummi. Dagurinn fór í rolluhlaup, bara létt enda hné Jarlaskáldsins enn í lamasessi eftir fyrri afrek á sama vettvangi. Til að fagna vinnulokum fórum við svo í Nesbúð þar sem Mummi og Lúlli fengu sér tvo bjóra hvor og urðu nánast fullir. Ég sýndi þá stillingu að fá mér bara kók.

Um kvöldið var svo e.k. vinnupartý hjá Hersteini og Palla, en þó voru verkfræðingar þar í meirihluta framan af kveldi. Jarlaskáldið tók lífinu með ró, og varð sér ekki til minnkunnar að neinu marki. Þó varð skáldið fyrir því óláni að stúlka ein vart af barnsaldri sem við skulum kalla Fjólu (kalla hana Fjólu? Hún heitir Fjóla!(innsk. ritstj.)) sveiflaði svo glasi sínu fylltu rósavíni að árekstur varð við glas Jarlaskáldsins, einnig fyllt rósavíni í boði stúlkunnar, og varð skáldið allblautt eftir slysið. Er það því rangt sem ónefndir aðilar hafa haldið fram í þá veru að Jarlaskáldið hafi í ölæði sínu átt sök á slysinu. En að öðru. Þegar syfja fór að hrjá skáldið (alvöru syfja, ekki yfirvofandi áfengisdauði) brá það undir sig betri fætinum og arkaði heim á leið, með viðkomu á Select, dágóður spölur sem var afar hressandi.

Fátt markvert gerðist framan af laugardegi, eins og laugardaga er von og vísa. Þegar kvölda tók hafði Jarlaskáldið komið sér makindalega fyrir framan sjónvarpsskjáinn og var að horfa á nostalgíuna Honey, I Shrunk the Kids, sem reyndist enn verri en minnið hafði haldið fram, þegar Magnús frá Þverbrekku hringir og býður til gleðskaps. Þrátt fyrir áfengisleysi hélt skáldið á vit ævintýranna, og átti sú ákvörðun eftir að draga dilk á eftir sér. Í Þverbrekkunni var skáldinu boðið upp á heimabrugg, og var það þegið með þökkum. Þaðan var útsýni gott yfir flugeldasýninguna, sem hefði að ósekju mátt vera klukkutíma seinna á ferðinni, ef maður ætlar að spreða milljónum af skattpeningum í svona á a.m.k. að gera það í myrkri. Þegar allt áfengi í húsinu var búið var haldið í bæinn, og byrjað á Kofa Tómasar frænda. Ekki fyrsti kostur, en þar var engin röð. Þar var byrjað á Tequilablasti, sem hafði þær afleiðingar að tveir heltust úr lestinni og fóru heim. Fólk ætti nú að vita betur en að vera að etja kappi við Jarlaskáldið í drykkju! Af Kofanum var farið á Vegamót, og beðið í röð ca. endalaust, því VIP -röðin var lengri en plebbaröðin (þar vorum við), og nutum við lítils forgangs. Eftir ítrekaðar líflátshótanir hleypti dyravörðurinn okkur loks inn, og þrátt fyrir leiðindi á staðnum stöldruðum við aðeins við, ekki hægt að fara strax út eftir alla biðina.
Það sem eftir er af frásögninni gerðist allt, en tímaröðin er eitthvað á reiki. A.m.k. fórum við næst á Kaupfélagið, þar var líklega stoppað um hríð. Því næst héldum við í bæinn og nú vill Mummi komast í tölvuna og fara að blogga frh. síðar...

 

...subinn var góður (eftir nokkra diskúsjón varð þessi stafsetning ofan á í stað söbbinn eða subbinn)...

 

...Mummi var að senda mér sms, strætónum hans seinkaði, svo fyrirhuguðum hádegisverði okkar seinkar einnig. Það er slæmt, því ég er svangur. Það er svona þegar maður hefur vanið sig á að fara alltaf á Select á morgnana og fá sér pulsu í morgunmat, en í dag var ekkert Select og ég því ekki fengið neitt að éta enn þá. Subway, here I come...

 

...Ármann segist aðeins linka á bloggara sem hafa bloggað eitthvað af viti síðustu tvo mánuði. Engu að síður linkar hann á mig. Ekki vissi ég að ég hefði skrifað eitthvað af viti síðustu tvo mánuði (eða yfirhöfuð nokkuð tímann!)...

 

...bíddu nú við, hvers vegna í ósköpunum er ég að blogga um hádegisbil, á ég ekki að vera í vinnunni? Það er nú það fyndna við þetta, ég er í vinnunni, og hef absólútlí ekkert að gera. Mætti fyrir rúmum fjórum tímum, og hef á þeim tíma teiknað ca. 15 cm langa línu á kort, það tók tæpar 2 mínútur, og farið yfir tímaskýrslurnar mínar, sem er kannski 15 mínútna djobb. Ég er reyndar allur af vilja gerður til að vinna meira, það er bara dáldið erfitt þegar bossinn lætur sig hverfa og ég á bara að finna mér eitthvað að gera. Það tókst, ég er að blogga. Að vísu er von á Mumma í vinnuna á næstunni, þá verðum við tveir að bora í eyrun og væntanlega rífast um körfubolta þess á milli. Best að byrja þá sennu á því að dissa Kenny, þá verður Mummi alltaf brjálaður. Ef ég mögulega finn tíma til þess ætla ég svo að skrifa um ævintýri Jarlaskáldsins liðna helgi, og er þar af nógu að taka. En nú verð ég að fara að vinna, ég er að hugsa um að raða öllum kortunum eftir aldri, það er aldeilis kominn tími til, adios...

föstudagur, ágúst 16, 2002 

...var áðan að koma af kaffihúsi, Kaffi Vín á Laugavegi, afar þægilegur staður, þar sem ég hitti beibsfjölskylduna og Kjartan, sem fékk loksins afmælisgjöfina sína, forláta Liverpooltreyju. Treyjan tengdist annars töluvert aðalumræðuefni kvöldsins, sem er fyrirhuguð ferð á leik Liverpool gegn skíthælunum frá Manchester í byrjun desember. Það er víst best að spá í slíkum hlutum snemma, enda hægara sagt en gert að redda miðum að fróðra manna sögn. En það reddast, þannig er það alltaf...

 

...liðin vika er bara búin að vera hin ágætasta. Við erum fimm eftir í vinnunni eins og fyrr segir og keyrum um á forláta Hilux pallbíl, og erum því hinir rauðhálsalegustu. Annars pössum við okkur vel á því að ofreyna okkur ekki, með ágætis árangri, og að fara sem oftast á Kentucky Fried eða í ísbúð. Það er ekki nema þegar við förum í körfu sem við náum að svitna. Á morgun er svo Meistarinn í fríi, og ég því aðal. Það boðar ekki gott...

...sá að Ármann er búinn að endurnefna linkinn á mig, og heitir hann nú partíblogg. Líklega er það réttnefni...

...sá einnig að Hjörtur var búinn að fá link á sig á Tilverunni vegna frægðarfarar sinnar niður fossa. Óskum honum til hamingju með það...

...sá aukinheldur að Mummi var búinn að fá link á sig á síðu Doktorsins, og skilur hann jafnlítið og ég í því, enda þekkjast þeir ekki neitt. Mér finnst nú að ég ætti þá upphefð frekar skilið, ég hef nú einu sinni hitt manninn ódrukkinn og átt við hann spjall, auk þess sem doktorsritgerðin hans hefði ekki verið upp á marga fiska ef ég hefði ekki eytt 160 klukkutímum af ævi minni í að finna myndir í hana. Auk þess er hatur mitt á Oasis engu minna en hatur Mumma. Ég verð víst bara að bíta í það súra epli að verða aldrei frægur bloggari eins og Katrín og Betarokk, og að Sigurjón Kjartansson mun aldrei lesa bloggið mitt í beinni og gera grín að mér. En er það svo slæmt?

mánudagur, ágúst 12, 2002 

...allur lurkum laminn labbaði ég allt annað en leiður heim til mín síðasta laugardagskvöld. Var þá búinn að vera vakandi nálægt sólarhring og afreka ýmislegt. En byrjum á byrjuninni:

Á föstudaginn var síðasti dagurinn í vinnunni, a.m.k. fyrir flesta. Ég, Mummi, Oddi, Gulli og Lúlli höldum áfram næstu viku, og ég jafnvel eitthvað lengur. Guð má vita hvað við eigum að gera! Eins og venjulega fór dagurinn í týpískan frágang, auk þess sem Meistarinn vakti mikla lukku með því að splæsa pizzu á lýðinn. Eins og vera ber lauk svo deginum á því að við Oddi bleyttum allar stelpurnar um leið og bíllinn var þrifinn, og var ýmsum aðferðum beitt í þeim efnum, bæði ofbeldi og slægð. Að vísu urðum við Oddi manna blautastir, en það er ásættanlegur fórnarkostnaður.

Um kvöldið var mér svo boðið í ein 3 partý. Ég byrjaði á að kíkja í afmæli til Gísla, sem að vísu fæddist í apríl að ég held. Þar var heldur róleg stemmning, þrátt fyrir ókjör af áfengi í boði afmælisbarnsins, sem reyndi ítrekað að fá Jarlaskáldið til að þjóra sem mest, en án árangurs. Þaðan hélt ég út á Nes, sem var lítið og lágt að vanda, í vinnupartý hjá Tomma. Gerði að vísu stuttan stans þar, því ég þurfti að vakna snemma morguninn eftir. Um það partý getið þið lesið frekar hér. Í þriðja partýið komst ég ekki, en það var haldið hjá félaga Kjartani Björgvinssyni, og má lesa frekar um það hér. Ég vona að Kjartan fyrirgefi mér fjarveruna, ég lofa að mæta næst. Ég var svo kominn heim og sofnaður fyrir klukkan eitt. Að vísu vaknaði ég í eins og eina mínútu einhvern tímann um nóttina, þegar félagi Sverrir vakti mig með símhringingu og vildi ólmur fá mig með sér á djammið. Þegar ég sagði honum frá ástandi mínu féll hann samstundis frá þeim kröfum, og baðst innilega afsökunar, sem var auðsótt mál.

Vekjaraklukkan byrjaði svo að hringja á afar óguðlegum tíma á laugardagsmorguninn, eða um rismál (6 fyrir þá sem ekki þekkja eyktamörk, sjá Lesbók Morgunblaðsins 10. ágúst 2002). Mér tókst engu að síður að vakna, og um 50 mínútum síðar var ég staddur á Seljabrautinni með 8 öðrum karlmönnum, og ruddumst við þar inn í svefnherbergi Ástmundar Níelssonar, sem skyldi steggjaður þennan dag. Eftir að hafa bölvað okkur í sand og ösku fór strákurinn á fætur, og um hálftíma síðar vorum við staddir í smábátahöfninni í Keflavík, sem er ljótur bær ekki langt frá flugvellinum. Þar var meiningin að skella sér í sjóstangveiði, og var lagt af stað út á spegilsléttan sjóinn á bátnum Hvalbaki. Þegar komið var út fyrir hafnargarðinn hætti sjórinn skyndilega að vera spegilsléttur, og byrjaði allur að bylgjast svo gusurnar stóðu yfir bátinn á köflum. Ekki löngu síðar fóru nokkrir bátsverja að verða heldur kindarlegir í framan, og tóku að kvarta undan seyðingi í maga. Spýjan stóð svo út úr þeim út fyrir borðstokkinn, og urðu það örlög þeirra Gests, Ármanns og Ásmundar. Eftir klukkustíma stím hófst svo veiðin, og voru aflabrögð með miklum ágætum, þó svo að sá stóri virtist einhverra hluta vegna alltaf sleppa hjá sumum. Þá var brottkast stundað af miklum móð, enda þjóðaríþrótt. Sjálfur setti ég í tvo golþorska og einn aðeins minni, og veiddi fjölmarga aðra sem lentu í brottkasti. Eftir ca. tveggja tíma veiði var svo haldið í land, og sakir heilsuleysis nokkurra bátsverja var siglt í næstu höfn, sem var í Sandgerði, og mönnum skutlað þaðan til Keflavíkur. Þess ber að geta að Jarlaskáldið bar sig vel eftir ferðina, enda vant öldugangi eftir að hafa keyrt Land Rover í mest allt sumar.

Í Keflavík var snætt á veitingastað með þeim hógværa titli Langbest, sem stóð ekki alveg undir nafni, og þar bættust þeir Oddbergur og Steini í hópinn. Oddbergur hafði ekki treyst sér í veiðina, og bar fyrir sig aumum afsökunum eins og ofnæmi. Þaðan var haldið í go-kart, og efnt til keppni. Voru fyrst eknir upphitunarhringir, svo var tímataka og loks eknir 12 hringir. Sigurvegari varð að sjálfsögðu Steggurinn, enda hafði hann hótað að fara heim ef hann ynni ekki, og var það sérstaklega kurteist af Arnari að hleypa honum fram úr á lokasprettinum. Sjálfur varð ég í fimmta sæti, sem ég var nokkuð sáttur við, enda bara bílanördar á undan mér, auk þess sem ég var á druslu. Keppandi mótsins að öðrum ólöstuðum var þó örugglega hann Oddbergur. Hann var svo langsíðastur að annað eins hefur sjaldan sést, lauk aðeins 7 hringjum af 12, sem sagt hringaður fjórum sinnum, og ók að öllu leyti eins og versta kelling, hleypti m.a.s. mönnum fram úr sér með því að víkja til hliðar, hreint ótrúleg framkoma! Tókst svo þrátt fyrir lúsarhraðann að keyra út af, enginn veit hvernig. Sjálfur ók ég aldrei út af, en Ármann keyrði þó einu sinni allhressilega á mig þegar hann var að reyna að taka fram úr, fínir Schumachertaktar sem ég sýndi þar með því að svína fyrir hann. Núna er ég svo allur í margblettum á bakinu og hliðunum eftir þessi átök, ekki þægilegustu bílar sem ég hef keyrt!

Úr kappakstrinum var svo farið í Bláa lónið, þann daunilla forarpytt, og þá loks gat drykkja hafist. Eftir veruna í drullupollinum var svo keyrt í Depluhóla 1, þar sem Indriði bróðir Ása grillaði lambakjöt oní liðið og bauð upp á ógrynni af bjór. Var svo setið og drukkið langa hríð, en svo kom óvænta elementið, Indriði hafði án vitorðs annarra pantað fyllibyttukeilu í Öskjuhlíðinni, og var því haldið þangað. Ég byrjaði á fellu í fyrsta kasti, en eftir það lá leiðin aðeins niður á við, náði ekki einu sinni 100 stigum þegar upp var staðið. Man ekkert hver vann, og er alveg sama. Þaðan löbbuðum við í bæinn, og komum við á fjölda staða. Á Hverfisbarnum tókst mér í fyrsta sinn að komast fram fyrir röð, ekki á eigin verðleikum mind you, heldur þekkti Gestur dyravörðinn. Hann (Gestur, ekki dyravörðurinn) bauð mér einnig upp á Rússneskt kókaín á Celtic Cross, mæli ekki með því. Seint um nóttina gáfust menn svo upp, enda þreytan tekin að gera vart við sig eftir sólarhringsvöku, en þó ekki fyrr en eftir heimsókn á Nonnann, sem var eins gott því eflaust bjargaði hann mér frá þynnku í dag. Vaknaði að vísu ekki fyrr en klukkan þrjú, sem útskýrir af hverju ég er enn þá vakandi. Þessi dagur kostaði mig líklega um 20.000 kall, en ég held bara að það hafi verið þess virði, þrátt fyrir almenn blankheit...

miðvikudagur, ágúst 07, 2002 

...jæja, nú er ég hættur að elta þessar helvítis rollur í vinnunni. Náði aftur að eyðileggja á mér hnéð í dag, og núna almennilega, þannig að ég þarf líklega að taka mér frí á morgun og kannski lengur, einmitt þegar á að fara í Reykjadal og grilla og liggja í heitu ánni. Just my luck! Vona bara að ég verði kominn í lag um helgina, því þá stendur talsvert til, en það er enn þá leyndó, segi frá því seinna...

 

...jahá, þá er þessi fræga helgi bara búin og ríflega það, og lífsins alvara tekur við. Á slíkum stundum er oft gott að líta um öxl og rifja upp góðar stundir og slæmar, já, við skulum gera það.

Föstudagurinn var hinn bærilegasti framan af, í vinnunni lögðum við okkur sérstaklega fram við að gera sem allra minnst, með allgóðum árangri þangað til Meistarinn mætti á svæðið og fór að skipta sér af, þá þurftum við a.m.k. að þykjast vera að vinna. Við Oddi fengum þó sæmilega macho verkefni, svona miðað við ýmislegt annað, skiptum um glugga á klósettunum á meðan stelpurnar sáu um garðinn og þrifin.

Um kvöldið fékk ég mér gott að borða, og henti svo pollagallanum, kraftgallanum, flísfötunum og öllum útilegubúnaðinum inn í bíl, því ekki var veðurútlitið gott, og stefnan sett á útihátíð. Byrjaði á að líta við á Útihátíð Andans manna í Þrastarlundi, kom það ýmsum á óvart sem þar voru. Gerði þó stuttan stans þar, en dreif mig fljótlega á Útihátíð fjöllistahópsins 600 kindur, sem reyndist mér til mikillar gleði vera innihátíð, haldin í félagsheimilinu Þjórsárverum, sem er ekki langt frá Selfossi. Þar var staddur fjöldi manna, miklu fleiri en ég bjóst við, og þekkti ég þó nokkuð marga. Var mér tekið fagnandi, og svo hófst drykkja. Merkasta afrek næturinnar hjá skáldinu var afar glæsilegt fótboltafagn, sem fólst í því að koma á harða spretti og renna sér á hnjánum eftir endilöngu dansgólfinu, sem var í stærra lagi. Eins og við mátti búast endaði skáldið með glæsileg brunasár á báðum hnjám, og m.a.s. gat á buxunum öðru megin, en það var þess virði enda vakti uppátækið lukku.

Upp úr hádegi á laugardag öðlaðist skáldið meðvitund að nýju, en það hafði einmitt tapað henni einhverjum tímum áður. Þá voru einhverjir enn þá að frá því kvöldið áður, en höfðu verið svo myndarlegir að þrífa allt pleisið um leið og djammað var. Eftir stutta ferð á Selfoss til að kaupa á grillið var svo drykkja hafin að nýju, og hafði þá heldur fjölgað í kotinu, sennilega nálægt hundrað manns á staðnum. Spilaði flöskustút, sem byrjaði sakleysislega, en gerðist æ vafasamari er á leið og minnkaði í flöskunum. Grillaði svo í úrhellinu, svaka stuð. Hringdi í Odda, reyndi að sannfæra hann um að kíkja á staðinn, sem hann gjörði ásamt frú sinni og vinkonu hennar. Hann entist að vísu ekki út nóttina, og kem ég að mögulegri ástæðu þess núna. Þannig var að þegar æskilegri ölvun var náð var efnt til glímukeppni, og var lítt þjóðlegur bragur á þeim fangbrögðum. Keppnin fólst í því að karlmenn þeir er þorðu beruðu sig ofanverða, fengu íðilfagrar snótir til að bera á sig Johnson's Baby Oil, og öttu svo kappi við andstæðing sinn. Að sjálfsögðu lét Jarlaskáldið sig ekki vanta í keppni þessa, þrátt fyrir að teljast seint heljarmenni að burðum, enda var fyrsti og eini andstæðingur þess einhverjum þyngdarflokkum fyrir ofan. Varð rimman allsnörp, og hart tekist á, en skáldið varð þó að játa sig sigrað að lokum, enda fætur orðnir allvaltir einhverra hluta vegna. Þrátt fyrir tapið bar lið Jarlaskáldsins sigur úr býtum, og varð Indriði bróðir Ása sigurvegari í einstaklingskeppninni, Mudking 2002. Hvort tengsl séu milli sjónarspils þessa og brottfarar Odda veit ég ekki, en a.m.k. lét hann sig hverfa stuttu síðar. Það gerði að vísu Jarlaskáldið líka, en sú ferð var að vísu ekki lengri en inn í draumalandið, liggjandi í stól á miðju dansgólfinu að minnugra manna sögn.

Ekki varð dvölin á útihátíð 600 kinda lengri að þessu sinni en fram að kaffileyti næsta dag, þegar heilsan leyfði að aka heim á leið, sem var gjört í ausandi rigningu og þoku. Um kvöldið bauð svo Dengsi fluggarpur, sem hafði tekið þá skynsamlegu ákvörðun að reyna ekkert að fljúga til Eyja, skáldinu og fleirum í teiti litla í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli, athyglisverð staðsetning það. Þaðan var haldið á skemmtistaðinn Nasa, og sannfærði sú reynsla skáldið um að reyna slíkt ekki aftur. Til dæmis var verðlag þar inni fáránlegt, gestirnir af allt öðru sauðahúsi en skáldið, eitthvert djöfuls glanslið sem fannst bara kúl að borga 700 kall fyrir lítinn bjór, og ekki var tónlistin upp á marga fiska. Staðnæmdust við Gunni enda stutt þar inni, fórum svo á Hlöllann og röltum áleiðis heim. Solla skutlaði mér svo heim frá Gunna, og á þakkir skildar fyrir. Á mánudaginn var ég að vísu alveg þynnkulaus, svo eitthvað gott hafði þetta verðlag á skítastaðnum í för með sér...


föstudagur, ágúst 02, 2002 

...dagurinn í dag (gær skv. tímatali bloggers) var engu síðri en í gær (eða fyrradag), en samt allt öðru vísi. Fyrir það fyrsta vann ég eins og skepna í dag, en það var bara gaman, af því ég fékk að nota sleggju, sem er karlmannlegt. Ekki skemmdi fyrir að þetta gula í loftinu sýndi sig loksins eftir ca. mánaðar fjarveru. Þá fór ég á Subway í dag, þetta er orðin dáldil skyndibitavika í vinnunni, við eigum bara makkinn eftir á morgun. Svo fór ég á kaffihús aftur í kvöld, að þessu sinni á Kaffi Vín, einkar kósí stað ofarlega á Laugarvegi. Ég var í 11 manna hópi, 5 pör og ég, sem var ekki hressandi. Andskotann er fólk að binda sig svona í blóma lífsins? Vonandi hætta þau öll saman sem allra fyrst (einn ekki bitur)

Hvert á svo að fara um helgina? Hversu oft hef ég heyrt þessa spurningu síðustu daga? Ég hef ekki enn svar við þessu, en ýmsar hugmyndir. Á föstudagskvöldið er ég að spá í að heilsa upp á Mumma og Hjört á árshátíð Andans manna, ætti að vera stuð. Svo kíki ég kannski á Hrafnhildi í Þjórsárverum (sem er nota bene ekki uppi á hálendi eins og ég hélt fyrst, heldur bara einhver skáli nálægt Selfossi) og félaga hennar, sem ku vera allskemmtiglaðir. Á laugardaginn geri ég sennilega ekkert, en á sunnudaginn er meiningin að fljúga til Eyja ef veðrið leyfir með Dengsa ofurhuga, en hann er einmitt flugmaður, heppilegt mjög. Það gæti orðið ágætt, hitti þar Blöndahlinn og Vín-liða, alaglegt...

fimmtudagur, ágúst 01, 2002 

...í dag var góður dagur. Í fyrsta lagi tókst mér að standa við yfirlýsingu gærdagins um að gera andskotann ekkert í vinnunni í dag. Að vísu leiddi það til þess að sex aðrir gerðu ekki neitt heldur, þar sem ég er yfirmaður og það er regla að það vinnur enginn meira en yfirmaðurinn, but so what! Að auki tókst mér að fara tvisvar á KFC í dag, fyrst í vinnunni í dag á Selfossi (vonandi les Meistarinn ekki blogg) og svo aftur í kvöld. Fór fyrst í körfu fyrir utan Kárastaði (Decode) með stærðfræðinördum, þarf víst ekki að taka það fram að ég var bestur, þrátt fyrir bum knee og alles. Fór svo í sund í Vesturbæjarlaug, þangað hafði ég ekki komið í ca. 15 ár, leit samt alveg eins út. Sá tvo fræga, en ekki svo fræga að ég nenni að nefna þá. Því næst Ken eins og fyrr segir (fékk stærsta hotwings ever, sem reyndist svo vera tveir fastir saman við nánari skoðun) og því næst á Arann að skola niður eins og einum köldum. Kom svo heim í kvöld og opnaði póstinn minn. Þar voru góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar voru að ég fékk laun, að vísu ekki eins mikið og ég vildi, en hjá Orkuveitunni er það alger lúxus að fá launin á réttum tíma. Slæmu fréttirnar voru að einhver gæi sem kallar sig Tollstjóra heldur því fram að ég skuldi honum pening. Ég veit ekki af hverju, hef aldrei hitt hann held ég. Og svo rukkar hann mig um gjald í framkvæmdasjóð aldraðra. Ég er nú bara 24 ára enn þá, af hverju þarf ég að borga í einhvern framkvæmdasjóð aldraðra?! Alls voru þetta 60.000 krónur sem ég þarf að borga, sem þýðir að eftir að ég borga alla reikninga á ég ekki krónu. Til hvers er maður eiginlega að þessu? Því meira sem ég vinn, þeim mun meira skulda ég. Best að vinna bara ekki neitt...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates