« Home | ...dagurinn í dag (gær skv. tímatali bloggers) var... » | ...í dag var góður dagur. Í fyrsta lagi tókst mér ... » | ...orð dagsins í dag er orðið draumkunta. Þeir sem... » | ...urrrr, ég er að drepast í hnénu eftir eltarollu... » | ...í dag sagði ég vondan brandara. Ég spurði Odda ... » | ...ég vil vera eins og allir hinir, og segi því: M... » | ...þetta er nú meiri andskotans ólifnaðurinn á man... » | ...ekki er skáldið dautt úr öllum æðum enn. Það he... » | ...Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar til Ber... » | ...furðulegt, í ca. annað hvert skipti sem ég skrá... » 

miðvikudagur, ágúst 07, 2002 

...jahá, þá er þessi fræga helgi bara búin og ríflega það, og lífsins alvara tekur við. Á slíkum stundum er oft gott að líta um öxl og rifja upp góðar stundir og slæmar, já, við skulum gera það.

Föstudagurinn var hinn bærilegasti framan af, í vinnunni lögðum við okkur sérstaklega fram við að gera sem allra minnst, með allgóðum árangri þangað til Meistarinn mætti á svæðið og fór að skipta sér af, þá þurftum við a.m.k. að þykjast vera að vinna. Við Oddi fengum þó sæmilega macho verkefni, svona miðað við ýmislegt annað, skiptum um glugga á klósettunum á meðan stelpurnar sáu um garðinn og þrifin.

Um kvöldið fékk ég mér gott að borða, og henti svo pollagallanum, kraftgallanum, flísfötunum og öllum útilegubúnaðinum inn í bíl, því ekki var veðurútlitið gott, og stefnan sett á útihátíð. Byrjaði á að líta við á Útihátíð Andans manna í Þrastarlundi, kom það ýmsum á óvart sem þar voru. Gerði þó stuttan stans þar, en dreif mig fljótlega á Útihátíð fjöllistahópsins 600 kindur, sem reyndist mér til mikillar gleði vera innihátíð, haldin í félagsheimilinu Þjórsárverum, sem er ekki langt frá Selfossi. Þar var staddur fjöldi manna, miklu fleiri en ég bjóst við, og þekkti ég þó nokkuð marga. Var mér tekið fagnandi, og svo hófst drykkja. Merkasta afrek næturinnar hjá skáldinu var afar glæsilegt fótboltafagn, sem fólst í því að koma á harða spretti og renna sér á hnjánum eftir endilöngu dansgólfinu, sem var í stærra lagi. Eins og við mátti búast endaði skáldið með glæsileg brunasár á báðum hnjám, og m.a.s. gat á buxunum öðru megin, en það var þess virði enda vakti uppátækið lukku.

Upp úr hádegi á laugardag öðlaðist skáldið meðvitund að nýju, en það hafði einmitt tapað henni einhverjum tímum áður. Þá voru einhverjir enn þá að frá því kvöldið áður, en höfðu verið svo myndarlegir að þrífa allt pleisið um leið og djammað var. Eftir stutta ferð á Selfoss til að kaupa á grillið var svo drykkja hafin að nýju, og hafði þá heldur fjölgað í kotinu, sennilega nálægt hundrað manns á staðnum. Spilaði flöskustút, sem byrjaði sakleysislega, en gerðist æ vafasamari er á leið og minnkaði í flöskunum. Grillaði svo í úrhellinu, svaka stuð. Hringdi í Odda, reyndi að sannfæra hann um að kíkja á staðinn, sem hann gjörði ásamt frú sinni og vinkonu hennar. Hann entist að vísu ekki út nóttina, og kem ég að mögulegri ástæðu þess núna. Þannig var að þegar æskilegri ölvun var náð var efnt til glímukeppni, og var lítt þjóðlegur bragur á þeim fangbrögðum. Keppnin fólst í því að karlmenn þeir er þorðu beruðu sig ofanverða, fengu íðilfagrar snótir til að bera á sig Johnson's Baby Oil, og öttu svo kappi við andstæðing sinn. Að sjálfsögðu lét Jarlaskáldið sig ekki vanta í keppni þessa, þrátt fyrir að teljast seint heljarmenni að burðum, enda var fyrsti og eini andstæðingur þess einhverjum þyngdarflokkum fyrir ofan. Varð rimman allsnörp, og hart tekist á, en skáldið varð þó að játa sig sigrað að lokum, enda fætur orðnir allvaltir einhverra hluta vegna. Þrátt fyrir tapið bar lið Jarlaskáldsins sigur úr býtum, og varð Indriði bróðir Ása sigurvegari í einstaklingskeppninni, Mudking 2002. Hvort tengsl séu milli sjónarspils þessa og brottfarar Odda veit ég ekki, en a.m.k. lét hann sig hverfa stuttu síðar. Það gerði að vísu Jarlaskáldið líka, en sú ferð var að vísu ekki lengri en inn í draumalandið, liggjandi í stól á miðju dansgólfinu að minnugra manna sögn.

Ekki varð dvölin á útihátíð 600 kinda lengri að þessu sinni en fram að kaffileyti næsta dag, þegar heilsan leyfði að aka heim á leið, sem var gjört í ausandi rigningu og þoku. Um kvöldið bauð svo Dengsi fluggarpur, sem hafði tekið þá skynsamlegu ákvörðun að reyna ekkert að fljúga til Eyja, skáldinu og fleirum í teiti litla í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli, athyglisverð staðsetning það. Þaðan var haldið á skemmtistaðinn Nasa, og sannfærði sú reynsla skáldið um að reyna slíkt ekki aftur. Til dæmis var verðlag þar inni fáránlegt, gestirnir af allt öðru sauðahúsi en skáldið, eitthvert djöfuls glanslið sem fannst bara kúl að borga 700 kall fyrir lítinn bjór, og ekki var tónlistin upp á marga fiska. Staðnæmdust við Gunni enda stutt þar inni, fórum svo á Hlöllann og röltum áleiðis heim. Solla skutlaði mér svo heim frá Gunna, og á þakkir skildar fyrir. Á mánudaginn var ég að vísu alveg þynnkulaus, svo eitthvað gott hafði þetta verðlag á skítastaðnum í för með sér...


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates