...og þá er best að halda áfram þar sem frá var horfið, bíddu nú við hvar vorum við jú á leiðinni niður í bæ. Á leið okkar niður Bankastrætið verður okkur litið á gamla fangelsið við Lækjargötu, sem nú hýsir annars konar glæpamenn en í gamla daga. Telur Jarlaskáldið þá tilvalið að klifra upp á húsið, sem það og gerði af miklum myndarbrag hratt og örugglega. Magnús, sem telur sig mikla klifurgeit, ákvað að fylgja í fótspor skáldsins, og gekk það sosum sæmilega á leiðinni upp. Það sem fer upp verður víst að koma aftur niður að lokum, og það gerði Magnús, á fljótasta mögulega hátt. Varð hann sár nokkuð við að hrynja niður af þakinu, en sennilega var nú stoltið verst leikið. Það er víst ekki það sama, klettaklifur og fasteignaklifur. Var sjúklingurinn leiddur inn á eðalbúlluna Nonnabita, hvar gert var að sárum hans, og fannst skáldinu tilvalið að fá sér eins og einn Pepperonibát fyrst maður var nú á staðnum. Einhverra hluta vegna var skáldið orðið eitt á ferð þegar báturinn var tilbúinn, svo það skemmti sér bara við að horfa á ungdóm landsins lúberja hvert annað, og útskýra fyrir nærstöddum Norðmanni að þetta væri hin eðlilegasta hegðan á Menningarnótt. Einhverju síðar leit Jarlaskáldið svo inn á staðinn sem eitt sinn hét Sólon, eitt sinn Hús Málarans og nú aftur Sólon. Þar hitti það samferðamenn sína frá því fyrr um kvöldið, og fannst tilvalið að kynna þá fyrir dansmennt, sem endaði með þeim ósköpum að nánast fullt bjórglas skáldsins splundraðist í þúsund mola þegar einn viðstaddra missti stjórn á skönkum sínum í hamagangnum . Ekki góð helgi glasalega séð. Sá Magnús þá aumur á skáldinu og bauð því upp á romm í kók, guð má vita hvers vegna sú ólyfjan varð fyrir valinu. Eins og öll regn styttir upp um síðir varð endir á djamminu á áttunda tímanum, þegar fullreynt þótti að komast inn á öldurhús eftir að hafa verið fleygt út víða, við reyndum m.a.s. við Glaumbar, slík var skemmtanagleðin, og lauk fjörinu að sjálfsögðu á pulsuáti, áður en Hreyfill sá um að drösla lýðnum heim...