« Home | ..undur og stórmerki, já segi og skrifa, aumingjab... » | ...Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar vestur ... » | ...það fór eins og ég óttaðist. Þegar ég varð orði... » | ...einhverjir munu hafa haft áhyggjur af afdrifum ... » | ...jæja, þá er ég á leiðinni upp á Heiði, djöfull ... » | ...æææ, ég verð ekki skrifstofublók á morgun, held... » | ...þá fer annasömum vinnudegi að ljúka, og ég að t... » | ...bloggara hefur verið tjáð að afar áhugavert sé ... » | ...að öllu eðlilegu ætti ég að vera orðinn atvinnu... » | ...jájá, þetta er mun betra, nú er ég nördinn... ... » 

föstudagur, ágúst 30, 2002 

...góð vinkona Jarlaskáldsins, Hrafnhildur Dóra Hrafnkelsdóttir, hafði samband fyrir skemmstu og kvartaði yfir afar leiðinlegu bloggi í síðustu færslu. Þar væri einvörðungu verið að rifja upp íþróttaúrslit (ekki einu sinni alvöru úrslit, heldur í tölvuleik) sem væru lítt spennandi aflestrar. Jarlaskáldið vill því benda Hrafnhildi og öðrum sem fett hafa fingur út í umrætt blogg að það var eingöngu ætlað einum manni, Guðmundi Arnlaugssyni, eins og sagt var í upphafi bloggs, en illu heilli virðist sem Gvendur sé fjarri bloggheimum þessa dagana, eflaust vant við látinn í Minnasóti, og því ekki gefist tími til að lesa bloggið, sem ég efast ekki um að vekti mikla kátínu hjá honum. En víkjum að öðru...

...því eflaust eru þeir ófáir sem undra sig á tímasetningu þessa bloggs sem hér er ritað. Hví er Jarlaskáldið statt við tölvu sína þegar senn líður að miðnætti á föstudagskvöldi, hví situr það eigi að sumbli eins og lesendur eiga að venjast? Hefir Jarlaskáldið bætt sitt ráð, orðið nýtur þjóðfélagsþegn? Onei, líklega verður Jarlaskáldið seint til einhverra nytsamlegra hluta nýtt, en svo er málum farið að skáldinu hefir verið boðið í brullaup, sem fram fer í Dómkirkjunni og síðar sal Ferðafélags Íslands á morgun, en þá verða gefin saman þau Björg og Ástmundur í heilagt hjónaband. Þar hefir Jarlaskáldinu verið falið verðugt verkefni, það að sjá um tónlistarflutning svo unnt sé að iðka dansmenntir, en á báðum þessum sviðum stendur skáldið framarlega eins og kunnugt er. Að vísu mun Jarlaskáldið ekki hefja upp eigin raust, nema um það sé sérstaklega beðið, sem verður að teljast líklegt, heldur mun það mæta með sína helstu diska sem innihalda danstónlist og verða til ráðgjafar um tónlistarval. Til þess að Jarlaskáldið geti sinnt þessum skyldum sínum af ábyrgð og alúð ákvað það að ganga afar hægt um gleðinnar dyr í kvöld, eða jafnvel að sleppa því alveg að fara um þær dyr, svo að höfuðpínsl eður magaseyðingur sem óhjákvæmilega fylgja sumbli yrðu ekki til trafala við skyldustörfin. Einnig grunar skáldið að matur allgóður verði á boðstólum í brullaupinu og því vissara að mæta með matarlystina í góðu lagi. Svo þarf skáldið einnig að vakna í fyrra fallinu (um hádegi) til þess að kaupa gjöf handa verðandi hjónunum, því alltaf skal það verða með seinni skipunum þegar kaupa þarf gjafir. Á ég að skrifa eitthvað meira? Nei, ég ætla að fara og ná mér í pizzu......

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates