fimmtudagur, október 31, 2002 

Jarlaskáldið spáir í spilin

(VARÚÐ! Þeir sem ekki hafa sjúklegan áhuga á NBA, lesið ei meir! Oddi og Mummi, njótið vel, og Jarlaskáldið væntir álíka pistils frá ykkur)

Eins og öllum ætti að vera kunnugt, en þó kannski einna helst Mumma og Odda, er NBA-boltinn byrjaður að rúlla. Í upphafi leiktíðar er algengt að spekingar setjist niður og spái í spilin, hverjir verði nú bestir og verstir og þar fram eftir götunum. Þar sem Jarlaskáldið hefur fylgst af athygli með boltanum gegnum árin, og hefur fátt annað að gera, ætlar það að varpa fram af ómældri visku sinni nokkrum spádómum um komandi leiktíð. Vessgú:

Versta lið ársins (Lebron James liðið)
Hér væri eflaust hægt að tilnefna mörg lið. Af trúarástæðum myndi Jarlaskáldið helst vilja tilnefna Los Angeles Fakers, en staðreyndirnar styðja víst varla það álit. Reyndar virðast tvö lið hafa lagt allt kapp á það að verða sem lélegust í ár, með það að markmiði að krækja í fyrsta valrétt í draftinu að ári og velja nýjasta Jordaninn, sem er 17 ára pjakkur er gegnir nafninu Lebron James (fæddur 1985, pælið í því!). Þetta eru Denver Nuggets og Cleveland Cavaliers. Er það skoðun Jarlaskáldsins að Denver verði ögn lélegra, en hvorugt fær þó fyrsta valrétt, það verður auðvitað Chicago.

Varamaður ársins
Hér er valið afar einfalt, fyrst Michael Jordan ákvað að verða varamaður í ár fær hann automatískt þennan titil, hvort sem hann skorar 3 eða 30 stig í leik. Það eina sem gæti hindrað þetta væru alvarleg meiðsli eða að honum leiddist þófið og færi að byrja inni á.

Varnarmaður ársins
Hér hallast Jarlaskáldið verulega að því að varnarmaður síðasta árs, Ben Wallace, verji titilinn. Klikki hann veðjar skáldið á Tim Duncan.

Nýliði ársins
Úff, þetta er ekki létt, svo margir nýliðar sem maður veit lítið sem ekkert um. Miðað við pre-season er við litlu að búast frá kínverska ljósastaurnum, helst koma til greina þeir Jay Williams, Drew Gooden, Caron Butler og Dajuan Wagner, fyrir utan alla þessa útlendinga. NBA-deildin fer nú tæplega að núa salti í sár sín með því að velja útlending aftur í ár, Jarlaskáldið veðjar á Drew Gooden, hann hefur farið algerlega hamförum fram að þessu.

Þjálfari ársins

Þetta er nú titill sem fæstir hafa mikinn áhuga á, en einhvern þarf víst að velja, segjum bara Paul Silas, Jarlaskáldið hefur á tilfinningunni að New Orleans geri góða hluti í ár.

Framkvæmdastjóri ársins

Þetta verður ár Jerry Krause, hann á það skilið eftir allt dissið í gegnum árin.

Leikmaður ársins

Í fyrsta lagi, Lakers skúnkarnir tveir fá þetta ekki. Jarlaskáldið telur að baráttan muni standa milli Tim Duncan og Tracy McGrady. Veltur það nokkuð á heilsu Grant Hill, ef hann verður heill og Orlando vinnur einhverja leiki hlýtur McGrady þetta, annars ætti Duncan að hirða það. Jarlaskáldið veðjar á hið fyrrnefnda, Tracy McGrady, maðurinn er skuggalega góður.

Lið ársins

F: Tim Duncan
F: Dirk Nowitski
C: Feita fíflið
G: Jason Kidd
G: Tracy McGrady

NBA-meistarar

Enn sem fyrr ber vesturdeildin höfuð og herðar yfir austurdeildina, sennilega munu fjögur bestu liðin koma þaðan. Jarlaskáldið hyggur að í fjögurra liða úrslitum vestanmegin muni Sacramento vinna Lakers og Dallas vinna San Antonio, og að sigurvegarinn í úrslitum vesturdeildarinnar verði meistari. Það verður Sacramento.


 

Breytingar

Í tilefni þess að Kjartan og Laufey hafa nú ekki bloggað í rúmt ár sér Jarlaskáldið ekki lengur ástæðu til þess að hafa link á þau hér á ágætri síðu sinni. Síðast þegar til þeirra spurðist í bloggheimum voru þau á leið í afmæli Jarlaskáldsins, og ef Skáldið man rétt var það hin ágætasta skemmtan.

 

Jarlaskáldið liggur banaleguna

Já, kæru lesendur, Jarlaskáldið hefur tekið sótt eina mikla, og er vart hugað líf. Að vísu er það eingöngu persónulegt mat Jarlaskáldsins, aðrir vilja meina að þetta sé bara einhver smápest, en Jarlaskáldið veit betur. Fyrst varð vart við sótt þessa þegar Skáldið sat með félögum sínum á Sportkaffi í gærkvöld og horfði á Liverpool tapa fyrir Valencia. Vakti það nokkra undrun og um leið áhyggjur samferðamanna Jarlaskáldsins að það skyldi ei fá sér öl meðan á leik stóð, því sjaldan hefur Skáldið því floti neitað. Voru þetta fyrstu alvarlegu merkin um sóttina, sem efldist með hverri mínútu og þegar Skáldið var komið heim eftir leik var það byrjað að skjálfa af hrolli og fór því beint í rúmið. Þar sofnaði það um ellefuleytið undir blíðum tónum nýju Sigur Rósar plötunnar (hvað svo sem menn vilja kalla hana, Jarlaskáldinu líst persónulega vel á tillögu Gneistans, „Innan sviga“). Aftur vaknaði Skáldið svo ekki fyrr en fjórtán tímum síðar, sæmilegt það, og eyðir nú tímanum í hangs eins og sjónvarpsgláp og netbrimreið þangað til sóttin leggur það að velli, nema kraftaverkið gerist og Jarlaskáldið lifi af. Eigum við ekki að vona það?

miðvikudagur, október 30, 2002 

Jarlaskáldið jeppast

Jarlaskáldið var á faraldsfæti liðna helgi, ásamt félögum sínum í VÍN. Voru ferðalangar sex, á tveimur fjallabílum, og var ferðatilhögun nokkurn veginn á þá leið að á föstudagskvöldið var byrjað á að aka upp í Emstrur, og var farin leiðin frá Fljótshlíðinni. Var sú ferð heldur tíðindalítil, smá stuð að fara yfir ár fullar af ís og krapa, en ekkert ógurlegt jepperí, og ekki sást nokkur skapaður hlutur, enda svartamyrkur. M.a. það gerði það að verkum að Stefáni og Þverbrekkingi tókst að villast, og urðu ca. hálftíma á eftir öðrum á áfangastað. Ekki höfðu hinir miklar áhyggjur af þeim félögum, fyrir utan Jarlaskáldið, en það var einvörðungu vegna þess að farangur þess var í bíl villinganna. Í Emstrur voru allir komnir upp úr 12, og tók þá við létt spjall og dreypt á smá söngvatni, en eftir nokkra hríð var gengið til náða, enda þurfti að vakna snemma.

Ferðalangar héldu svo frá Emstrum á tólfta tímanum (það telst snemma í þessum hópi) eftir að hafa ritað í gestabók nr. 1, og var ekið austur eftir Fjallabaksleið syðri að Mælifelli. Smá sandstormur heilsaði ferðalöngum á sandinum, bara til að gera þetta skemmtilegra. Við Mælifell var beygt inn að Skófluklifi og heilsað upp á fólk sem var að byggja þar skála, það tók okkur fagnandi, og þar var ritað í gestabók nr. 2. Eftir þessa heimsókn var svo ekið inn í Álftavatnskrók, og þá fyrst byrjaði alvöru jepperí, fyrst í Hólmsá þar sem reynt var að kanna kafsundseiginleika Toggapabbabíls, og svo víðar þar sem tilefni gáfust. Þegar í skálann í Álftavatnskróki var komið var klukkan ekki orðin neitt og því ákveðið að halda lengra, eftir að hafa ritað í gestabók nr. 3. Stefnan var tekin upp í Skælinga, ekki það að nokkur maður vissi nákvæmlega hvar þeir væru. Lá leiðin fyrst upp í Eldgjá, sem er ekkert mjög ljót gjá, og eftir talsverða leit fannst loksins afleggarinn til Skælinga. By the way, ekki fara eftir því sem segir í Hálendishandbókinni hvað þetta varðar, Páll Ásgeir veit ekkert hvað hann er að tala um. Í Skælinga voru ferðalangar svo komnir um fimmleytið, og var ákveðið að gista þar. Tók svo við almenn skemmtan og svall. Að sjálfsögðu grilluðu menn ket og meððí, og því skolað niður með tilheyrandi vökvum. Slík var reyndar áfergjan að allir göróttir drykkir kláruðust um miðnætti, og voru menn þá sumir orðnir allslompaðir, en þó einn sýnu meir en aðrir. Reis sá aðili þó upp frá dauðum (nú ættu allir dyggir lesendur að vita um hvern er rætt) og var manna hressastur uns stuð var úti og menn héldu í bólið. Gerðist það óvenju snemma að þessu sinni, og má þar bæði kenna um vanáætlaðri brennivínsþörf og því hve dagurinn var tekinn snemma. Verða þessi mistök, og þá sérstaklega þau fyrrnefndu, ekki endurtekin.

Aftur vöknuðu menn í fyrra fallinu daginn eftir, og merkilegt nokk allir í góðu ásigkomulagi. Kannski það sé góður þynnkubani að sofa í fimm stiga frosti? Eftir að hafa skrúbbað skálann og ritað í gestabók nr. 4 héldu VÍN-liðar svo áfram för sinni, og var ekinn í fyrstu slóði sem hvergi fannst á korti, sem sagt ekið út í bláinn. Var það hin mesta skemmtan, þó sérstaklega þegar slóðinn lá ofan í stöðuvatn eitt sem lagt hafði, og virkaði Toggapabbabíll þá sem hinn besti ísbrjótur. Verður hann nefndur Ísbrjótur héðan í frá. Stuttu síðar lá slóði þessi inn á veginn inn að Langasjó, og var stefnan tekin þangað. Þaðan var svo haldið að skálanum við Sveinstind, hvar nesti var etið og ritað í gestabók nr. 5. Leist mönnum afar vel á þann skála, verður hann jafnvel nýttur síðar. Eftir át og ritun var svo ekið til baka og inn á Fjallabaksleið nyrðri, og stefnan tekin heim á leið. Á leiðinni mátti hafa mikið gaman af því að hlusta á talstöðina, hvar tveir afar amerískir náungar tjáðu sig ótt og títt með hinum amerískasta hreim. Var svo áð í Landmannalaugum, og að sjálfsögðu brugðið sér í laugina. Reyndar hafði Jarlaskáldið gleymt sundfötum, en það er nú ekki vant að láta slíkt stöðva sig. Í Landmannalaugum var ritað í gestabók nr. 6. Svo var ekið sem leið lá vestur Fjallabak nyrðra í Hrauneyjar, hvar ritað var í síðustu gestabók ferðarinnar, hina sjöundu. Heim var svo komið á áttunda tímanum á sunnudagskveldi. (Lýsingu á ferð þessari má einnig lesa hér, læt lesendur um að dæma hvað kemst næst sannleikanum.

mánudagur, október 28, 2002 

Bö!

Það er soldið deprimerandi að skrifa óralanga ferðasögu, sem Blogger ákveður síðan að sé ekki birtingarhæf og eyðir upp á sitt einsdæmi. Ef marka má aðra bloggara hefur Blogger reyndar verið sérlega önugur undanfarna daga. Jarlaskáldið reynir aftur á morgun...
 

Þreyta

Nú er Jarlaskáldið þreytt, en glatt, enda mikið ævintýri að baki. Ferðasagan bíður því til morguns, góðar stundir!

fimmtudagur, október 24, 2002 

Merkilegur dagur

Dagurinn í dag, 24. október, er fyrir margra hluta sakir afar merkilegur. Má því til stuðnings nefna ýmsa fræga atburði úr mannkynssögunni sem gerðust á þessum degi. Árið 1648 lauk 30 ára stríðinu með Westfalen-friðinum, árið 1857 var fyrsta knattspyrnufélagið, Sheffield F.C. stofnað, árið 1935 réðust Ítalir inn í Eþíópíu, 1956 réðust Sovétmenn inn í Ungverjaland, 1973 lauk Yom Kippur stríðinu, og árið 1975 var Kvennafrídagurinn haldinn „hátíðlegur“. Greinilegt að 24. október hefur í gegnum tíðina þótt heppilegur bæði til að hefja og ljúka stríðum, spurning í hvorn flokkinn Kvennafrídagurinn fellur.
Á þessum dýrðardegi hafa ýmsir frægir menn og konur einnig fæðst. Má þar t.d. nefna hollenska náttúrufræðinginn Antony van Leeuwenhoek (1632), Rollinginn Bill Wyman (1936), leikarana F. Murray Abraham (1939) og Kevin Kline (1947), og síðast og líklega síst ungstirnið Wayne Rooney (1985). Einnig hefur frægt fólk tekið upp á því að kveðja þennan heim á þessum dásemdardegi, t.d. Jane Seymour (1537), þriðja eiginkona Henry III, stjörnufræðingurinn Tycho Brahe (1601), franski tískuhönnuðurinn Christian Dior (1957), og Jackie Robinson (1972), fyrsti svarti hafnarboltaleikmaðurinn í atvinnumannadeildinni.
Allir þessir heimssögulegu atburðir blikna þó í samanburði við þau undur og stórmerki eru gerðust á þessum drottins degi fyrir nákvæmlega 25 árum síðan. Hvaða atburður skyldi það nú vera? Vegleg verðlaun í boði fyrir rétt svar, segulbandsspóla stútfull af skemmtilegri tónlist frá öndverðum 10. áratug síðustu aldar, ekki amalegt það!

þriðjudagur, október 22, 2002 

Um tungumálakunnáttu Jarlaskáldsins

Samkvæmt Molunum hefur Jarlaskáldið bloggað á portúgölsku í gríð og erg undanfarinn sólarhring. Þetta vekur nokkra furðu Jarlaskáldsins, sem hvorki kannast við verknaðinn né að vera mjög sleipt í portúgölsku. Skrýtið. Var Jarlaskáldið að blogga í svefni, og af hverju á portúgölsku? Gaman væri að fá svör við þessu.

 

Frægð á næsta leyti?

Það var barasta sett met á síðunni í gær, 80 hræður mættu á staðinn. Það er tvöföldun á meðalfjölda á ca. tveimur vikum. Ef þessi aukning heldur áfram með sama hraða ætti þessi síða að verða lesin af öllum Íslendingum eftir ekkert svo langan tíma, og allri heimsbyggðinni eftir aðeins lengri tíma. Sæmilegt það!

mánudagur, október 21, 2002 

Um furðufuglinn mig

Maður er nefndur Viðar Pálsson, jafnan kenndur við dýr það er köttur nefnist. Kötturinn hefur ritað margan góðan pistilinn á ágæta bloggsíðu sína, en jafnvel honum fatast stundum flugið (að vísu geta kettir ekki flogið, kannski ekki alveg nógu góð líking hjá Jarlaskáldinu. Kettir eru hins vegar þekktir fyrir að lenda alltaf á löppunum, kannski væri betra að segja að jafnvel hann lendi stundum á bakinu, æ, nú er Jarlaskáldið byrjað að steypa). Í nýjasta pistli Kattarins gerir hann bæjarfélagið Selfoss að umtalsefni, og ber því ekki vel söguna. Á margt sem Kötturinn ritar getur Jarlaskáldið fallist, sérstaklega hvað bæjarfélagið sjálft og íbúa þess varðar, en neyðist þó til að bera í bætifláka fyrir sjálft sig þegar talinu víkur að þeim ágæta veitingastað KFC. Jarlaskáldið er sem kunnugt er meðal dyggustu gesta þess staðar, oftar en ekki í félagi við aumingjabloggarann, og á margar góðar minningar þaðan. Hefur það heimsótt öll útibú veitingastaðarins, sem eru sem betur fer öll á suðvesturhorni landsins, og sjaldan orðið fyrir vonbrigðum. Kötturinn aftur á móti virðist bera mikið hatur til staðarins, og þá sérstaklega Selfossútibúsins, væntanlega tengist það umræddri Kentuckysögu sem Kötturinn neitar að rifja upp. Eftir mikinn reiðilestur um ömurleika KFC klykkir Kötturinn út með þeim orðum að Jarlaskáldið sé furðufugl fyrir að vera á öndverðum meiði við Köttinn. Þessu mótmælir Jarlaskáldið harðlega, og vísar í könnun eina sem haldin var á síðum þessarar ágætu bloggsíðu, þar sem KFC bar öruggan sigur úr býtum í vinsældakeppni þynnkuveitingastaða. Margur er þá furðufuglinn ef Jarlaskáldið er furðufugl! Að vísu getur Jarlaskáldið skrifað undir það að Selfossútibúið er sýnu síst útibúanna, og er það einvörðungu af þeirri ástæðu að þar vinna Selfyssingar, sem eins og menn vita eru FM-hnakkar og þaðan af verra fólk upp til hópa. Kjúklingurinn stendur alltaf fyrir sínu, þótt heimskt afgreiðslufólk sé til trafala. Vonar Jarlaskáldið að Kötturinn beri gæfu til þess að sjá ljósið í þessum efnum, og megi njóta unaðs þess sem Kentuckykjúklingabitaáti fylgir í framtíðinni.

sunnudagur, október 20, 2002 

Massahelgarblogg

Jarlaskáldið var ekki aðgerðalaust þessa helgina, onei, og brallaði ýmislegt, bæði uppbyggilegt og síður uppbyggilegt. Byrjum á því óuppbyggilega.

Á föstudaginn hafði hugmyndin verið sú að Jarlaskáldið færi í félagi við góða menn í stuttan jeppatúr. Sakir tímaskorts varð ekkert úr því, og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk einhver, sem við skulum kalla M. Bl., þá fáránlegu hugmynd að brúka lappirnar í stað hestaflanna og klífa upp á fjall í svartamyrkri og skítakulda. Að sjálfsögðu gat Jarlaskáldið ekki skorast undan, og fór því ásamt fjórum öðrum á kunnuglegar slóðir, nefnilega upp á perlu íslenskra fjalla, sjálfan Hengilinn. Eins og kunnugt er hefur Jarlaskáldið unnið á þeim slóðum síðustu 200 sumur eða e-ð álíka, og nú átti að láta reyna á stór orð Jarlaskáldsins um að þekkja svæðið eins og handarbakið á sér. Fjallgönguliðar voru mættir á svæðið um níuleytið, og var lagt af stað frá Sporhelludal, og farin leiðin gegnum Skeggjadal og stefnan tekin beint upp á Skeggja, sem er einmitt hæsti tindur Hengilsins, 803 metrar yfir sjávarmáli. Til allrar hamingju var nánast fullt tungl og heiðskírt, svo nánast var hægt að lesa bók á leiðinni, svo bjart var, en því miður varð ekki eins stjörnubjart fyrir vikið. Norðurljósin bættu það reyndar upp, þau voru nokkuð snotur svo ekki sé meira sagt. Á leiðinni var samstarfsmönnum Jarlaskáldsins í Fjallamönnum bölvað allhressilega fyrir að skilja eftir gaddavírsdruslur og annað drasl meðfram girðingunni sem farið var eftir, muna að láta þá hreinsa þetta næsta sumar. Ferðin upp gekk annars bara nokkuð vel, svona miðað við aðstæður, en ekki var dvalið lengi uppi á toppi sakir skítakulda og roks. Einnig var súrefnisleysið farið að segja til sín, eða var það bjórleysið? Ferðin niður gekk einnig bærilega, það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem einhver datt, en þá tókst Stebba að detta tvisvar á ca. fimm metra kafla á jafnsléttu. Nei, hann var ekki byrjaður á bjórnum. Niður voru menn svo komnir um hálftólfleytið og var brunað med det samme á Select og svo sem einni pulsu troðið í smettið á sér. Hún var góð. Heim var Jarlaskáldið svo komið um hálfeittleytið, og sofnaði yfir sjónvarpinu ekki svo löngu síðar. En víkjum að uppbyggilegri fréttum helgarinnar.

Laugardagurinn var afspyrnugóður dagur, og þá helst í knattspyrnulegu tilliti. Liverpool vann, og Leeds tapaði, og það besta var að þetta gerðist í sama leiknum. Svo tapaði Arsenal (ekki oft sem Jarlaskáldið fagnar mörkum Everton gríðarlega), og Manure tapaði stigum, svo Liverpool var á toppnum og hefur aldrei byrjað betur, þrátt fyrir að flestir svokallaðir sparkspekingar eigi ekki orð yfir hve lélegt og leiðinlegt þetta lið sé. Goes to show what they know!

Um kvöldið var afar fátt í spilunum hjá Jarlaskáldinu, enginn búinn að bjóða því í partý og flestir búnir að ráðstafa tíma sinum í eitthvað sem ekki innihélt Jarlaskáldið. Jarlaskáldið sat því stillt og prútt fyrir framan sjónvarpið fyrri hluta kvölds og horfði á Popppunkt og fleira gott. En enginn má sköpum renna, um tíuleytið byrjuðu boðin að streyma inn, og úr varð að Jarlaskáldið hélt í Grafarvoginn í eins konar kojufyllerí með Stefáni þeim er við Twist er kenndur, a.m.k. voru ekki fleiri á staðnum fyrr en Alda mætti síðar um kvöldið, sem var kærkomið, sérstaklega hvað pyngjuna varðar þar eð stúlkan var akandi. Eftir drykklanga (bókstaflega) stund fóru partýgestir, allir þrír, svo upp í sveit, nánar tiltekið á skemmtistaðinn Players í Kópavogi. Til allrar hamingju var ætlunin ekki að gera þar stans, heldur bara að sækja félaga Vigni, sem fannst eftir nokkra leit, allslompaður. Hafði hann verið á endurfundasamkomu (reunion), en það eru sem kunnugt er verstu samkomur sem fyrirfinnast á þessu jarðríki. Var för svo haldið aftur í siðmenninguna, nánar tiltekið í miðbæ Reykjavíkur, a.m.k. þann hluta hans sem ekki var í ljósum logum. Fyrst var gerð tilraun til að sækja heim Hverfisbarinn, en sakir raðar og kulda var hætt við það. Þar týndist Vignir. Var þess í stað farið á Kaubbfélagið, hvar engin röð var, og bar fátt til tíðinda þar. Seint og síðar meir rataði Vignir þangað inn, og Magnús Blöndahl mætti einnig með konu upp á arminn, sem hann sýndi mun meiri áhuga en okkur félögunum, og er það skiljanlegt. í sannleika sagt var þessi samkoma öll í daufara lagi, og sá Jarlaskáldið sér þann kost vænstan að sinna öðrum þörfum með smá æðakítti, var það gert á Nonnanum, og svo haldið heim á leið. Þegar Jarlaskáldið var svo komið heim, í kringum fimmleytið, og ætlaði að ganga til hvílu sinnar hringdi sími þess stundarhátt. Á hinum endanum var stúlkukind nokkur, náði Jarlaskáldið að greina, en það samtal entist ca. þrjár sekúndur áður en samband rofnaði. Fannst Jarlaskáldi þetta heldur súrt í broti, að vita ekki einu sinni hver stúlkukindin var, gæti hafa verið draumadísin! Til allrar hamingju hringdi stúlkan aftur, nafngreindi sig og kannaðist Jarlaskáld við hver væri þar á ferð. Lýsti stúlkan yfir miklum söknuði að Jarlaskáldinu í miðbænum, bæði persónulegum og almennum. Til að gæta velsæmis verður ekki farið í annað efni samtalsins, hehe...

Dagurinn í dag kemst líklega seint í sögubækurnar, hefur honum aðallega verið eytt í sjónvarpsgláp og át. Í kvöld hefur Jarlaskáldið svo stundað ólöglega iðju með því að stela tónlist í massavís á alnetinu, t.d. nýju Queens of the Stone Age plötunni, sem er að gera afar góða hluti, og einnig stærstum hluta nýju Sigur Rósar plötunnar, sem á að vísu ekki að koma út fyrr en eftir viku. Hún hljómar bara alls ekki illa, að vísu eru þetta allt lög sem hafa heyrst í ár eða meira á tónleikum, og Jarlaskáldið var löngu búið að redda sér upptökum af þeim. Til að friða samviskuna ætlar Jarlaskáldið samt að kaupa plötuna þegar hún kemur út.

Jahá, that's all folks...

miðvikudagur, október 16, 2002 

Djöfull erum við góð í fótbolta!

Við unnum Lithauga í kvöld, sem er betra en á laugardaginn, þegar þeir töpuðu fyrir Hálendingunum. Að vísu var mótspyrnan ekki upp á marga fiska, nema e.t.v. bókstafleg mótspyrna eins leikmanna Lithauga sem varð til þess að hann komst inn í hlýjuna fyrr en aðrir. Jarlaskáldið hefði gert það sama, ómögulegt að spila fótbolta í svona kulda, miklu betra að horfa bara á imbann.

Annars er nú lítið títt af Jarlaskáldinu, hápunktur vikunnar er líklega spilakvöldið í gær, sem verður að teljast heldur sorglegt. Fjórir 25 ára gæjar að hittast heima hjá þeim eina sem ekki býr hjá mömmu sinni og spila Kana, maður ætti nú eiginlega ekki að vera að segja frá þessu. Jú víst, Jarlaskáldið varð í öðru sæti, en spilaði afar djarft, ólíkt sauðnum honum Gunna, sem spilaði eins og kelling og vann nauman sigur (helmings munur er ekkert svo mikið!). Æ, best að hætta þessu tali, ímynd Jarlaskáldsins sem kúl og töff gæi gæti nefnilega beðið hnekki annars.

Aðsókn virðist nokkuð hafa aukist upp á síðkastið hér á þessari ágætu síðu, og met slegin nánast daglega. Skyldi Jarlaskáldið bráðum verða frægt? Eru draumar þess að rætast? Kannski óþarfi að æsa sig um of, þetta eru nú ennþá bara 40 hræður á dag, og flestir sem eru bara að villast. Líklega einhverjir sem hafa villst hér inn eftir að Jarlaskáldið tók að auglýsa sig á Molunum, og mælir það eindregið með þeirri þjónustu.

Helgin er nokkuð óráðin enn sem komið er, ef vel viðrar eins og lítur út fyrir er hugsanlegt að Jarlaskáldið bregði sér einhverja Fjallabaksleið á föstudaginn, í félagi við háæruverðuga VÍN-liða. Á laugardaginn er svo allt opið, um að gera að bjóða Jarlaskáldinu í selskap...

mánudagur, október 14, 2002 

AF KOMMÚNISTUM, SKOTUM, OG SNILLINGNUM ATLA MIKSON

Maður er nefndur Magnús, af ætt Blöndahls, frá bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi. Magnús er af ýmsu þekktur, en lesendum þessarar síðu væntanlega best kunnur sem öflugur „sidekick“ Jarlaskáldsins við hinar ýmsu svaðilfarir, svona eins konar Robin ef Jarlaskáldið er Batman. Magnús er einnig meðal dyggustu lesenda þessarar síðu, og lét Jarlaskáldið aldeilis heyra það þegar mánudagspistillinn var hvergi sjáanlegur í morgun. Auk þess sakaði Þverbrekkingur Jarlaskáldið um slælega frammistöðu um helgina. Við slíkt getur Jarlaskáldið ekki unað, og birtist því hér síðbúinn mánudagspistill, Magnúsi sem og landslýð öllum til glöggvunar og skemmtunar.

Frásögn vor hefst síðdegis á föstudag. Hélt þá Jarlaskáldið vestur fyrir læk, uns í Lynghagann var komið, hvar Ormurinn hafði boðað til veislu, og voru boðsgestir Nördarnir þrír frá '96, þ.e. þeir Gvendur og Kjartan inn rauði auk Jarlaskáldsins. Bakaði Ormurinn afar gómsæta flatböku ofan í liðið, með dyggri hjálp Gvendar, og svo var vanilluskafís í eftirrétt. Umræðuefni voru eins og vera ber nostalgísk með afbrigðum, og oftar en ekki óprenthæf, svo nóg um það.
Frá Orminum var haldið að Hallveigarstöðum um níuleytið, þar sem kommarnir í Múrnum höfðu boðað til skemmtikvölds. Var þar margt um manninn, a.m.k. ef miðað er við höfðatöluna góða. Þekkti Jarlaskáldið ansi marga, og vakti það nokkra athygli hve gríðarstór hluti gesta taldist til bloggara, svo að í raun mætti tala um komma/bloggarapartý.
Þar sem um skemmtikvöld var að ræða þótti við hæfi að hafa skemmtiatriði, og voru þau án undantekninga vel heppnuð. Bar þar e.t.v hæst uppfærslan á Atómstöðinni, og voru leiksigrarnir þar svo margir að tölu verður ekki komið á. Erpur flutti nokkrar rímur, sem að sögn áttu að sýna mýkri hlið hans. Jarlaskáldið á erfitt með að ímynda sér hvernig hans harðari hlið er, ef þetta var sú mýkri. Sigtryggur Magnason las upp úr bók, sem virtist bara nokkuð fyndin, og var í mjög flottum jakka, sem Jarlaskáldið hrósaði við tækifæri. Freyr úr Geirfuglunum lauk svo prógramminu með gítarspili og söng, og stóð sig með miklum ágætum. Að skemmtiatriðum loknum gerðist Jarlaskáldið plötusnúður, það entist nákvæmlega tvö lög, þá var öllum hent út. Sá stutti tími dugði samt til að Jarlaskáldið náði einum ástríðufullum vangadansi, og það við stúlku! Að vísu var stúlkan Katrín Jakobsdóttir, svo Jarlaskáldið deildi nú ekkert rekkju sinni síðar um nóttina.

Þegar út var komið sáu Ormurinn og Jarlaskáldið sig tilneydda til að framfylgja fánalögum, sem segja að ekki megi flagga í myrkri og alls ekki eftir miðnætti. Að vísu var fáninn kanadískur, og ekki kunnu þeir lagsbræður kanadísk fánalög til hlítar. Í algjörlega ótengdum fréttum má nefna að Kristján IX skartaði skömmu síðar kanadískum fána á handleggnum, hvernig sem það vildi til.

Gríðarlegt fjölmenni var í bænum, og töluðu flestir eins og Taggart sálugi. Voru það skoskir menn að sögn, íklæddir pilsum. Íslenskum karlpeningi til léttis virtust skoskir karlmenn í pilsum ekki eiga mikið upp á pallborðið hjá íslenskum yngismeyjum, það væri nú annað ef hingað kæmu Ítalir eða Spánverjar. Sem betur fer eru Íslendingar í riðli með Skotum, Þjóðverjum, Litháum og Færeyingum, lítil hætta á ferð. Átti Jarlaskáldið í nokkrum samræðum við Skota þessa er leið á nóttina, voru þeir viðræðugóðir með afbrigðum, og sögusagnir um nísku þeirra greinilega stórlega ýktar, a.m.k. borgaði skáldið ekki bjórinn sinn. Draga tók af Jarlaskáldinu þegar undir morgun var komið (hafði að vísu fengið sér smá kríu fyrr um nóttina, að sögn), svo Nonninn varð síðasta stopp uns heim var haldið.

Á laugardaginn var landsleikur. Ekki er orðum á hann eyðandi, en þó leggur Jarlaskáldið til að Atli Mikson fari bara heim til Eistlands og kjafti þar.

Að landsleik loknum fór Jarlaskáldið í félagi við Beibfjölskylduna í heimsókn til þeirra Gunnars og Védísar til að heilsa upp á Sölva Gunnarsson, og færa honum gjöf. Jarlaskáldinu sýndist ungi maðurinn vera bara nokkuð ánægður með gjöfina, þótt hann virtist ekki ánægður með neitt annað. Börn eru best þegar þau sofa.

Á laugardagskvöldið hélt Jarlaskáldið svo að bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi, til Magnúsar af Blöndahlsætt. Var sú ferð löng og ströng, en hafðist að lokum. Þar var rólegheitastemmning, aðallega vegna brennivínsleysis flestra á staðnum, og var því farið heldur snemma í bæinn. Kaffibrennslan varð fyrsti áfangastaður, voru þar eigi allfáir, og flestir af skosku bergi brotnir. Eitthvað var ákefðin hjá Jarlaskáldinu fullmikil að komast á barinn, svo því varð á í þrengslunum að rekast utan í Skota einn, sem tók stjakinu sem grimmilegri árás á sig og sitt þjóðerni, og stefndi allt í blóðugar milliríkjadeilur þegar hér var komið sögu. Jarlaskáldinu tókst sem betur fer að lægja ófriðaröldurnar áður en andstæðum fylkingum sló í brýnu, og voru menn orðnir mestu mátar áður en yfir lauk. Spurning að senda Jarlaskáldið til Palestínu, ætti að geta settlað mál þar léttilega?
Þar sem VÍN-liðar voru með í för var að sjálfsögðu haldið á Hverfisbarinn síðar um kvöldið. Þar tók við röð ein löng og hægfara, og tók Jarlaskáldið því þann kost að þiggja far heimleiðis með frk. Hrafnhildi í stað þess að eyða síðustu aurunum í eitthvað sem það myndi hvort sem er aldrei muna eftir. Þetta kallar Magnús frá Efri-Þverbrekku lélega frammistöðu hjá Jarlaskáldinu, og lái honum hver sem vill. Það sama má reyndar segja um Jarlaskáldið, lái því hver sem vill!


Rekum Atla!!!

föstudagur, október 11, 2002 

KFC VANN!

Síðustu dagar í lífi Jarlaskáldsins hafa verið heldur aðgerðalitlir, en manni má ekki verða bloggfall, því þá er stutt í aumingjabloggið og hver vill það? Best að skrifa eitthvað hérna.

Könnun Jarlaskáldsins á því hvað best sé að snæða þegar neyðin er mest hefur gengið framar vonum, 19 atkvæði hafa skilað sér þegar þetta er ritað. Kjúllinn er með nokkuð afgerandi forystu (gruna reyndar aumingjabloggarann um „ballot-stuffing“) með sex atkvæði, en Dominos og Nonninn eru jafnir í öðru sæti með þrjú atkvæði. Tveir kjósa lifrarpylsu, sem verður einmitt í boði í mötuneyti OSS á morgun, namminamm! Enn er séns að kjósa, notið tækifærið!

Annað kvöld verður Jarlaskáldið þess heiðurs aðnjótandi að sækja matarboð að Orminum, hvar ítölsk flatbaka að hætti Ormsins verður væntanlega borin fram. Jarlaskáldið hreinlega iðar í skinninu eftir bökunni, enda mun hún einungis af góðu kunn. Að snæðingi loknum munu svo Ormurinn og Jarlaskáldið í félagi við marga góða menn, sem ættir eiga að rekja til ákveðins Menntaskóla, skunda á skemmtun þá er Múrverjar hafa boðað til að Hallveigarstöðum. Þar ku verða boðið upp á margvísleg skemmtiatriði (og vonandi eitthvað fleira), meðal annars leikverk byggt á Atómstöðinni, sem Jarlaskáldið hlakkar mjög til að sjá, enda margir frægir leikarar í helstu hlutverkum. Að skemmtun lokinni er svo aldrei að vita hvað Jarlaskáldið tekur sér fyrir hendur, en eitt er víst að alltaf verður, ákaflega gaman þá...

Fleira er það ekki í bili, Jarlaskáldið þarf að vakna eftir tæpa sex tíma, og því mál að linni. Sjáumst bara síðar...þriðjudagur, október 08, 2002 

HÚNGUR

Nú er minn orðinn svangur. Ætla að fara út að ná mér í eitthvað nógu djöfulli óhollt og gott. Af því tilefni ætlar Jarlaskáldið að efna til könnunar.
Subb og drulla

Hvað er nú best þegar þörfin er mest?


Kentucky Fried Chicken

McDonalds

Dominos flatbaka

Hlöðver

Lifrarpylsa

Austurlenskt gums

Subway

Nonninn

Pulsa með chiliCurrent Results
 

GÓÐ HUGMYND

Sá hjá Orminum að Kvennaskólanemendur luma stundum á góðum hugmyndum. Í þessum sama anda legg ég til að ef Arsenal verða meistarar í ár þá falli þeir niður í fyrstu deild, annað væri ósanngjarnt. Sama á við um MUFC, ef svo ólíklega færi. Ef hins vegar Liverpool vinnur falli þeir ekki, því það er svo langt síðan þeir unnu síðast. Döh!

sunnudagur, október 06, 2002 

NÝTT GLÆSILEGT ÍSLANDSMET!

Jarlaskáldið ákvað að hafa skemmtilegt þema á djamminu þessa helgina, en það var að fara í partý í litlum íbúðum, og tókst skáldinu að sækja heim einar fjórar slíkar, hverja annarri minni. En byrjum á byrjuninni:

Á fimmtudagskvöldið fór Jarlaskáldið á Kaffi Vín að kveðja Dengsa, sem hélt af landi brott í morgun til borgarinnar Bath á Englandi, hvar hann hyggur á nám í flugumferðarfræðum. Síðast þegar pilturinn lagði í slíka reisu byrjaði hann að drekka, spurning hverju hann tekur upp á núna. Er fyrirhugað að heimsækja pilt á vetrarmánuðum og gera sér glaða daga. Jarlaskáldið skorar hér með á Dengsa að stíga fram á ritvöll bloggsins hið snarasta, hann er greinilega penni góður, ekki síst þegar hann er drukkinn, eins og sannaðist svo eftirminnilega í afmælinu góða.
Eitthvað urðu krúsirnar fleiri þetta kvöld en fyrirhugað var, og alveg hreint yndislegt að þurfa að hjóla í vinnuna klukkan sjö daginn eftir, þar eð bíllinn varð eftir í bænum (Eftir tvo ei aki neinn, heyriði það krakkar!). Þegar að bílnum var komið á föstudaginn var svo búið að brjóta spegilinn bílstjóramegin. Helvítis miðbæjarhyski!

Þegar dagur var að kveldi kominn hófst svo þemað góða með því að fara í heimsókn til Elfu, sem helst mun fræg fyrir að leggja Jarlaskáldið að velli í Tequilablasti í afmæli aldarinnar í sumar, og var íbúðin sú eflaust sú minnsta sem heimsótt var þessa helgina. Var þar margt um manninn (virkaði allavega þannig í þrengslunum), og góðmennt að auki. Þaðan var svo haldið síðar um kveldið yfir í litlu stærri íbúð í næsta húsi, hverri Gunni og Solla bjuggu í um árið, og tók þar við gítardjamm ágætt. Enn síðar héldu svo fulltrúar VÍN á svæðinu, Jarlaskáldið, Þverbrekkingur og Twistarinn á kunnuglegar slóðir, nebbnilega Hverfisbarinn, en stemmning þar var heldur súr svo Nonninn varð fljótt fyrir valinu, hann sveik ekki frekar en fyrri daginn.

Þegar laugardagur rann upp bjartur og fagur (eða bara ekki) minnti Jarlaskáldið óljóst að ákveðið hefði verið kvöldið áður að gera eitthvað það kvöldið, en mundi ómögulega hvað. Eftir stutt spjall við Þverbrekking kom í ljós að Skáldið hafði boðað komu sína í afmæli Dýrleifar, spúsu Togga VÍN-liða. Þangað mætti Skáldið ásamt Twistaranum upp úr tíu, við dynjandi fagnaðarlæti eins og venjulega. Var ei drukkið við sleitur þar. Fór fögnuðurinn fram í enn einni smáíbúðinni, í þetta skiptið einstaklingsíbúð á Skerjagarði. Ekki kunni Jarlaskáldið deili á mörgum gesta, sem voru því til talsverðrar ánægju aðallega af hinu kyninu, og upp til hópa snoppufríðir og limafagrir með eindæmum. Tókust því góð kynni milli Jarlaskáldsins og annarra gesta. Ekki fannst þó álitlegt kvonfang, þrátt fyrir góða viðleitni bæði Skáldsins en þó einkum eins annars gests, norðlenskrar stúlku sem ku vinna á þungavinnuvélum (umm, hljómar spennandi), en hún sýndi einsemd Skáldsins mikla samúð og gerði sitt ítrasta til að bæta þar úr, við fremur dræmar undirtektir. Nú kynni einhver lesanda að skilja þessi orð á þá leið að einhver trukkalessa hafi verið að reyna við Jarlaskáldið, en ónei, stúlkan var hin snotrasta, að sjálfsögðu harðgift, og var ekki að reyna við skáldið heldur að stunda svonefnt „matchmaking“. Undirtektirnar dræmu voru s.s. ekki skáldsins, heldur annarra stúlkna. Ojæja. Jarlaskáldið tók bara lagið í staðinn, og urðu undirtektirnar heldur betri þá. Um það leyti birtist Þverbrekkingur á svæðinu, nokkuð slompaður en í góðum fíling. Stuttur stans var gerður í teiti hinum megin við ganginn, og lauk þar með þemanu góða. Svo var rölt í bæinn, og hvert haldiði, jú, á Hverfisbarinn, og gerðust menn nú svo frægir að komast fram fyrir röð með hjálp góðra manna. Stemmningin var öllu betri þetta kvöldið og voru dansmenntir iðkaðar fram eftir nóttu uns þeir félagar Hlöðver og Hreyfill bundu endi á gleðina. Fjörinu lauk þó ekki alveg þar, því Jarlaskáldið náði að horfa á ca. einn og hálfan Simpsons þátt áður en draumalandsins var vitjað, aldeilis fínt.

Ekki var Jarlaskáldið til stórræðanna í dag, en tókst þó að rífa sig fram úr rúminu og fara á Champions til að sjá Liverpool stela sigrinum af Chelsea á síðustu mínútunni. Það var ágætt, en þó ekki eins gott og pulsurnar sem Jarlaskáldið og Þverbrekkingur fengu sér á Select skömmu eftir leik.

Til að grein þessi sé í samræmi við fyrirsögnina, sem er mikilvægt eins og áður hefur komið fram, skal að lokum nefna að Jarlaskáldið bætti eigið Íslandsmet í Stjórnarráðsklifri um ca. 32 hurndraðshluta úr sekúndu um helgina. Hér er átt við að komast upp á húsið. Íslandsmetið í að koma sér niður af Stjórnarráðinu á hins vegar Þverbrekkingur, sælla minninga. Það met verður líklega seint slegið, en hugsanlega jafnað.

miðvikudagur, október 02, 2002 

BA

Nei sko, það er minnst á BA-ritgerðina mína á musik.is, mikið er það nú gaman. Það er m.a.s. svona „new!“-blaðra við hana, svona blaðra eins og var alltaf í gömlu Batman-þáttunum, uppáhaldi Bloggara dauðans, þegar þurfti að tákna barsmíðar og óhljóð. Tjekkit át! Mikið er þetta nú gaman! Þetta minnir mig reyndar á að ég á alltaf eftir að sækja ritgerðina mína til Sveins Yngva, ætlaði að gera það í júní, en þið vitið hvernig þetta er. Kannski ég sæki flámælisritgerðina mína til Eiríks rauða í leiðinni, henni skilaði ég haustið 1997 og hef ekki enn sótt hana...

 

AF GLERAUGUM OG KNATTSPYRNULEIKJUM

Já, ég held að þessar fyrirsagnir séu komnar til að vera. Ætli sé þá ekki við hæfi að skrifa eitthvað sem er í samræmi við fyrirsögnina, það er ekki eins og BLOGGEDÍBLOGG sé eitthvað Séð og heyrt, þar sem fyrirsagnirnar hafa yfirleitt ekkert með efni „fréttarinnar“ að gera. Dæmi: „ER EKKI KOMIN MEÐ TYPPI!“ Jarlaskáldið minnir að meðfylgjandi frétt hafi verið um legnámsaðgerð á einhverju nobody eða eitthvað álíka spennandi. Einnig telur Jarlaskáldið vart fréttnæmt að eitthvað hafi ekki gerst. Úbbs, þar féll Jarlaskáldið í fúlan pytt, gagnrýnin hittir það sjálft fyrir, því þessi færsla hefur hingað til ekkert tengst fyrirsögninni, best að koma sér að efninu.

Jarlaskáldið hefur nú fjárfest í nýjum gleraugum, í stað þeirra sem hinn bíræfni þjófur stal á Hverfisbarnum (endurtek, hver stelur gleraugum!?), að öllum líkindum fer sá maður til helvítis. Kostuðu þau litlar 31.000 krónur, og er það mál manna að Jarlaskáldið hafi sjaldan eða aldrei tekið sig betur út en með nýju gleraugun. Að vísu hefur Jarlaskáldið aldrei heyrt nokkurn mann segja: „Hei, djöfull ertu með ljót gleraugu,“ jafnvel þótt öllum sé ljóst að svo sé, en er þó fullvisst um guðdómlega fegurð dásamlegrar ásjónu þess með nýju gleraugun. Í kvöld fór svo Jarlaskáldið og prufukeyrði gleraugun á Sportkaffi, hvar það horfði á sína menn í Liverpool kjöldraga rússneska björninn, 5-0. Gleraugun stóðu sig með prýði. Jarlaskáldið vill einnig nota tækifærið og hrósa staðnum fyrir alveg hreint prýðilega kjúklingasamloku, rann hún ljúflega niður með ölinu...Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates