« Home | Bö! Það er soldið deprimerandi að skrifa óralanga... » | Þreyta Nú er Jarlaskáldið þreytt, en glatt, enda ... » | Merkilegur dagur Dagurinn í dag, 24. október, er ... » | Um tungumálakunnáttu Jarlaskáldsins Samkvæmt Molu... » | Frægð á næsta leyti? Það var barasta sett met á s... » | Um furðufuglinn mig Maður er nefndur Viðar Pálsso... » | Massahelgarblogg Jarlaskáldið var ekki aðgerðalau... » | Djöfull erum við góð í fótbolta! Við unnum Lithau... » | AF KOMMÚNISTUM, SKOTUM, OG SNILLINGNUM ATLA MIKSON... » | KFC VANN! Síðustu dagar í lífi Jarlaskáldsins haf... » 

miðvikudagur, október 30, 2002 

Jarlaskáldið jeppast

Jarlaskáldið var á faraldsfæti liðna helgi, ásamt félögum sínum í VÍN. Voru ferðalangar sex, á tveimur fjallabílum, og var ferðatilhögun nokkurn veginn á þá leið að á föstudagskvöldið var byrjað á að aka upp í Emstrur, og var farin leiðin frá Fljótshlíðinni. Var sú ferð heldur tíðindalítil, smá stuð að fara yfir ár fullar af ís og krapa, en ekkert ógurlegt jepperí, og ekki sást nokkur skapaður hlutur, enda svartamyrkur. M.a. það gerði það að verkum að Stefáni og Þverbrekkingi tókst að villast, og urðu ca. hálftíma á eftir öðrum á áfangastað. Ekki höfðu hinir miklar áhyggjur af þeim félögum, fyrir utan Jarlaskáldið, en það var einvörðungu vegna þess að farangur þess var í bíl villinganna. Í Emstrur voru allir komnir upp úr 12, og tók þá við létt spjall og dreypt á smá söngvatni, en eftir nokkra hríð var gengið til náða, enda þurfti að vakna snemma.

Ferðalangar héldu svo frá Emstrum á tólfta tímanum (það telst snemma í þessum hópi) eftir að hafa ritað í gestabók nr. 1, og var ekið austur eftir Fjallabaksleið syðri að Mælifelli. Smá sandstormur heilsaði ferðalöngum á sandinum, bara til að gera þetta skemmtilegra. Við Mælifell var beygt inn að Skófluklifi og heilsað upp á fólk sem var að byggja þar skála, það tók okkur fagnandi, og þar var ritað í gestabók nr. 2. Eftir þessa heimsókn var svo ekið inn í Álftavatnskrók, og þá fyrst byrjaði alvöru jepperí, fyrst í Hólmsá þar sem reynt var að kanna kafsundseiginleika Toggapabbabíls, og svo víðar þar sem tilefni gáfust. Þegar í skálann í Álftavatnskróki var komið var klukkan ekki orðin neitt og því ákveðið að halda lengra, eftir að hafa ritað í gestabók nr. 3. Stefnan var tekin upp í Skælinga, ekki það að nokkur maður vissi nákvæmlega hvar þeir væru. Lá leiðin fyrst upp í Eldgjá, sem er ekkert mjög ljót gjá, og eftir talsverða leit fannst loksins afleggarinn til Skælinga. By the way, ekki fara eftir því sem segir í Hálendishandbókinni hvað þetta varðar, Páll Ásgeir veit ekkert hvað hann er að tala um. Í Skælinga voru ferðalangar svo komnir um fimmleytið, og var ákveðið að gista þar. Tók svo við almenn skemmtan og svall. Að sjálfsögðu grilluðu menn ket og meððí, og því skolað niður með tilheyrandi vökvum. Slík var reyndar áfergjan að allir göróttir drykkir kláruðust um miðnætti, og voru menn þá sumir orðnir allslompaðir, en þó einn sýnu meir en aðrir. Reis sá aðili þó upp frá dauðum (nú ættu allir dyggir lesendur að vita um hvern er rætt) og var manna hressastur uns stuð var úti og menn héldu í bólið. Gerðist það óvenju snemma að þessu sinni, og má þar bæði kenna um vanáætlaðri brennivínsþörf og því hve dagurinn var tekinn snemma. Verða þessi mistök, og þá sérstaklega þau fyrrnefndu, ekki endurtekin.

Aftur vöknuðu menn í fyrra fallinu daginn eftir, og merkilegt nokk allir í góðu ásigkomulagi. Kannski það sé góður þynnkubani að sofa í fimm stiga frosti? Eftir að hafa skrúbbað skálann og ritað í gestabók nr. 4 héldu VÍN-liðar svo áfram för sinni, og var ekinn í fyrstu slóði sem hvergi fannst á korti, sem sagt ekið út í bláinn. Var það hin mesta skemmtan, þó sérstaklega þegar slóðinn lá ofan í stöðuvatn eitt sem lagt hafði, og virkaði Toggapabbabíll þá sem hinn besti ísbrjótur. Verður hann nefndur Ísbrjótur héðan í frá. Stuttu síðar lá slóði þessi inn á veginn inn að Langasjó, og var stefnan tekin þangað. Þaðan var svo haldið að skálanum við Sveinstind, hvar nesti var etið og ritað í gestabók nr. 5. Leist mönnum afar vel á þann skála, verður hann jafnvel nýttur síðar. Eftir át og ritun var svo ekið til baka og inn á Fjallabaksleið nyrðri, og stefnan tekin heim á leið. Á leiðinni mátti hafa mikið gaman af því að hlusta á talstöðina, hvar tveir afar amerískir náungar tjáðu sig ótt og títt með hinum amerískasta hreim. Var svo áð í Landmannalaugum, og að sjálfsögðu brugðið sér í laugina. Reyndar hafði Jarlaskáldið gleymt sundfötum, en það er nú ekki vant að láta slíkt stöðva sig. Í Landmannalaugum var ritað í gestabók nr. 6. Svo var ekið sem leið lá vestur Fjallabak nyrðra í Hrauneyjar, hvar ritað var í síðustu gestabók ferðarinnar, hina sjöundu. Heim var svo komið á áttunda tímanum á sunnudagskveldi. (Lýsingu á ferð þessari má einnig lesa hér, læt lesendur um að dæma hvað kemst næst sannleikanum.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates