« Home | Djöfull erum við góð í fótbolta! Við unnum Lithau... » | AF KOMMÚNISTUM, SKOTUM, OG SNILLINGNUM ATLA MIKSON... » | KFC VANN! Síðustu dagar í lífi Jarlaskáldsins haf... » | HÚNGUR Nú er minn orðinn svangur. Ætla að fara út... » | GÓÐ HUGMYND Sá hjá Orminum að Kvennaskólanemendur... » | NÝTT GLÆSILEGT ÍSLANDSMET! Jarlaskáldið ákvað að ... » | BA Nei sko, það er minnst á BA-ritgerðina mína á ... » | AF GLERAUGUM OG KNATTSPYRNULEIKJUM Já, ég held að... » | AF AMMÆLUM OG ÖÐRUM MERKILEGHEITUM - ANNAR KAPÍTUL... » | ...ég er að hugsa um að byrja að nota fyrirsagnir:... » 

sunnudagur, október 20, 2002 

Massahelgarblogg

Jarlaskáldið var ekki aðgerðalaust þessa helgina, onei, og brallaði ýmislegt, bæði uppbyggilegt og síður uppbyggilegt. Byrjum á því óuppbyggilega.

Á föstudaginn hafði hugmyndin verið sú að Jarlaskáldið færi í félagi við góða menn í stuttan jeppatúr. Sakir tímaskorts varð ekkert úr því, og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk einhver, sem við skulum kalla M. Bl., þá fáránlegu hugmynd að brúka lappirnar í stað hestaflanna og klífa upp á fjall í svartamyrkri og skítakulda. Að sjálfsögðu gat Jarlaskáldið ekki skorast undan, og fór því ásamt fjórum öðrum á kunnuglegar slóðir, nefnilega upp á perlu íslenskra fjalla, sjálfan Hengilinn. Eins og kunnugt er hefur Jarlaskáldið unnið á þeim slóðum síðustu 200 sumur eða e-ð álíka, og nú átti að láta reyna á stór orð Jarlaskáldsins um að þekkja svæðið eins og handarbakið á sér. Fjallgönguliðar voru mættir á svæðið um níuleytið, og var lagt af stað frá Sporhelludal, og farin leiðin gegnum Skeggjadal og stefnan tekin beint upp á Skeggja, sem er einmitt hæsti tindur Hengilsins, 803 metrar yfir sjávarmáli. Til allrar hamingju var nánast fullt tungl og heiðskírt, svo nánast var hægt að lesa bók á leiðinni, svo bjart var, en því miður varð ekki eins stjörnubjart fyrir vikið. Norðurljósin bættu það reyndar upp, þau voru nokkuð snotur svo ekki sé meira sagt. Á leiðinni var samstarfsmönnum Jarlaskáldsins í Fjallamönnum bölvað allhressilega fyrir að skilja eftir gaddavírsdruslur og annað drasl meðfram girðingunni sem farið var eftir, muna að láta þá hreinsa þetta næsta sumar. Ferðin upp gekk annars bara nokkuð vel, svona miðað við aðstæður, en ekki var dvalið lengi uppi á toppi sakir skítakulda og roks. Einnig var súrefnisleysið farið að segja til sín, eða var það bjórleysið? Ferðin niður gekk einnig bærilega, það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem einhver datt, en þá tókst Stebba að detta tvisvar á ca. fimm metra kafla á jafnsléttu. Nei, hann var ekki byrjaður á bjórnum. Niður voru menn svo komnir um hálftólfleytið og var brunað med det samme á Select og svo sem einni pulsu troðið í smettið á sér. Hún var góð. Heim var Jarlaskáldið svo komið um hálfeittleytið, og sofnaði yfir sjónvarpinu ekki svo löngu síðar. En víkjum að uppbyggilegri fréttum helgarinnar.

Laugardagurinn var afspyrnugóður dagur, og þá helst í knattspyrnulegu tilliti. Liverpool vann, og Leeds tapaði, og það besta var að þetta gerðist í sama leiknum. Svo tapaði Arsenal (ekki oft sem Jarlaskáldið fagnar mörkum Everton gríðarlega), og Manure tapaði stigum, svo Liverpool var á toppnum og hefur aldrei byrjað betur, þrátt fyrir að flestir svokallaðir sparkspekingar eigi ekki orð yfir hve lélegt og leiðinlegt þetta lið sé. Goes to show what they know!

Um kvöldið var afar fátt í spilunum hjá Jarlaskáldinu, enginn búinn að bjóða því í partý og flestir búnir að ráðstafa tíma sinum í eitthvað sem ekki innihélt Jarlaskáldið. Jarlaskáldið sat því stillt og prútt fyrir framan sjónvarpið fyrri hluta kvölds og horfði á Popppunkt og fleira gott. En enginn má sköpum renna, um tíuleytið byrjuðu boðin að streyma inn, og úr varð að Jarlaskáldið hélt í Grafarvoginn í eins konar kojufyllerí með Stefáni þeim er við Twist er kenndur, a.m.k. voru ekki fleiri á staðnum fyrr en Alda mætti síðar um kvöldið, sem var kærkomið, sérstaklega hvað pyngjuna varðar þar eð stúlkan var akandi. Eftir drykklanga (bókstaflega) stund fóru partýgestir, allir þrír, svo upp í sveit, nánar tiltekið á skemmtistaðinn Players í Kópavogi. Til allrar hamingju var ætlunin ekki að gera þar stans, heldur bara að sækja félaga Vigni, sem fannst eftir nokkra leit, allslompaður. Hafði hann verið á endurfundasamkomu (reunion), en það eru sem kunnugt er verstu samkomur sem fyrirfinnast á þessu jarðríki. Var för svo haldið aftur í siðmenninguna, nánar tiltekið í miðbæ Reykjavíkur, a.m.k. þann hluta hans sem ekki var í ljósum logum. Fyrst var gerð tilraun til að sækja heim Hverfisbarinn, en sakir raðar og kulda var hætt við það. Þar týndist Vignir. Var þess í stað farið á Kaubbfélagið, hvar engin röð var, og bar fátt til tíðinda þar. Seint og síðar meir rataði Vignir þangað inn, og Magnús Blöndahl mætti einnig með konu upp á arminn, sem hann sýndi mun meiri áhuga en okkur félögunum, og er það skiljanlegt. í sannleika sagt var þessi samkoma öll í daufara lagi, og sá Jarlaskáldið sér þann kost vænstan að sinna öðrum þörfum með smá æðakítti, var það gert á Nonnanum, og svo haldið heim á leið. Þegar Jarlaskáldið var svo komið heim, í kringum fimmleytið, og ætlaði að ganga til hvílu sinnar hringdi sími þess stundarhátt. Á hinum endanum var stúlkukind nokkur, náði Jarlaskáldið að greina, en það samtal entist ca. þrjár sekúndur áður en samband rofnaði. Fannst Jarlaskáldi þetta heldur súrt í broti, að vita ekki einu sinni hver stúlkukindin var, gæti hafa verið draumadísin! Til allrar hamingju hringdi stúlkan aftur, nafngreindi sig og kannaðist Jarlaskáld við hver væri þar á ferð. Lýsti stúlkan yfir miklum söknuði að Jarlaskáldinu í miðbænum, bæði persónulegum og almennum. Til að gæta velsæmis verður ekki farið í annað efni samtalsins, hehe...

Dagurinn í dag kemst líklega seint í sögubækurnar, hefur honum aðallega verið eytt í sjónvarpsgláp og át. Í kvöld hefur Jarlaskáldið svo stundað ólöglega iðju með því að stela tónlist í massavís á alnetinu, t.d. nýju Queens of the Stone Age plötunni, sem er að gera afar góða hluti, og einnig stærstum hluta nýju Sigur Rósar plötunnar, sem á að vísu ekki að koma út fyrr en eftir viku. Hún hljómar bara alls ekki illa, að vísu eru þetta allt lög sem hafa heyrst í ár eða meira á tónleikum, og Jarlaskáldið var löngu búið að redda sér upptökum af þeim. Til að friða samviskuna ætlar Jarlaskáldið samt að kaupa plötuna þegar hún kemur út.

Jahá, that's all folks...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates