AF KOMMÚNISTUM, SKOTUM, OG SNILLINGNUM ATLA MIKSON
Maður er nefndur Magnús, af ætt Blöndahls, frá bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi. Magnús er af ýmsu þekktur, en lesendum þessarar síðu væntanlega best kunnur sem öflugur „sidekick“ Jarlaskáldsins við hinar ýmsu svaðilfarir, svona eins konar Robin ef Jarlaskáldið er Batman. Magnús er einnig meðal dyggustu lesenda þessarar síðu, og lét Jarlaskáldið aldeilis heyra það þegar mánudagspistillinn var hvergi sjáanlegur í morgun. Auk þess sakaði Þverbrekkingur Jarlaskáldið um slælega frammistöðu um helgina. Við slíkt getur Jarlaskáldið ekki unað, og birtist því hér síðbúinn mánudagspistill, Magnúsi sem og landslýð öllum til glöggvunar og skemmtunar.
Frásögn vor hefst síðdegis á föstudag. Hélt þá Jarlaskáldið vestur fyrir læk, uns í Lynghagann var komið, hvar Ormurinn hafði boðað til veislu, og voru boðsgestir Nördarnir þrír frá '96, þ.e. þeir Gvendur og Kjartan inn rauði auk Jarlaskáldsins. Bakaði Ormurinn afar gómsæta flatböku ofan í liðið, með dyggri hjálp Gvendar, og svo var vanilluskafís í eftirrétt. Umræðuefni voru eins og vera ber nostalgísk með afbrigðum, og oftar en ekki óprenthæf, svo nóg um það.
Frá Orminum var haldið að Hallveigarstöðum um níuleytið, þar sem kommarnir í Múrnum höfðu boðað til skemmtikvölds. Var þar margt um manninn, a.m.k. ef miðað er við höfðatöluna góða. Þekkti Jarlaskáldið ansi marga, og vakti það nokkra athygli hve gríðarstór hluti gesta taldist til bloggara, svo að í raun mætti tala um komma/bloggarapartý.
Þar sem um skemmtikvöld var að ræða þótti við hæfi að hafa skemmtiatriði, og voru þau án undantekninga vel heppnuð. Bar þar e.t.v hæst uppfærslan á Atómstöðinni, og voru leiksigrarnir þar svo margir að tölu verður ekki komið á. Erpur flutti nokkrar rímur, sem að sögn áttu að sýna mýkri hlið hans. Jarlaskáldið á erfitt með að ímynda sér hvernig hans harðari hlið er, ef þetta var sú mýkri. Sigtryggur Magnason las upp úr bók, sem virtist bara nokkuð fyndin, og var í mjög flottum jakka, sem Jarlaskáldið hrósaði við tækifæri. Freyr úr Geirfuglunum lauk svo prógramminu með gítarspili og söng, og stóð sig með miklum ágætum. Að skemmtiatriðum loknum gerðist Jarlaskáldið plötusnúður, það entist nákvæmlega tvö lög, þá var öllum hent út. Sá stutti tími dugði samt til að Jarlaskáldið náði einum ástríðufullum vangadansi, og það við stúlku! Að vísu var stúlkan Katrín Jakobsdóttir, svo Jarlaskáldið deildi nú ekkert rekkju sinni síðar um nóttina.
Þegar út var komið sáu Ormurinn og Jarlaskáldið sig tilneydda til að framfylgja fánalögum, sem segja að ekki megi flagga í myrkri og alls ekki eftir miðnætti. Að vísu var fáninn kanadískur, og ekki kunnu þeir lagsbræður kanadísk fánalög til hlítar. Í algjörlega ótengdum fréttum má nefna að Kristján IX skartaði skömmu síðar kanadískum fána á handleggnum, hvernig sem það vildi til.
Gríðarlegt fjölmenni var í bænum, og töluðu flestir eins og Taggart sálugi. Voru það skoskir menn að sögn, íklæddir pilsum. Íslenskum karlpeningi til léttis virtust skoskir karlmenn í pilsum ekki eiga mikið upp á pallborðið hjá íslenskum yngismeyjum, það væri nú annað ef hingað kæmu Ítalir eða Spánverjar. Sem betur fer eru Íslendingar í riðli með Skotum, Þjóðverjum, Litháum og Færeyingum, lítil hætta á ferð. Átti Jarlaskáldið í nokkrum samræðum við Skota þessa er leið á nóttina, voru þeir viðræðugóðir með afbrigðum, og sögusagnir um nísku þeirra greinilega stórlega ýktar, a.m.k. borgaði skáldið ekki bjórinn sinn. Draga tók af Jarlaskáldinu þegar undir morgun var komið (hafði að vísu fengið sér smá kríu fyrr um nóttina, að sögn), svo Nonninn varð síðasta stopp uns heim var haldið.
Á laugardaginn var landsleikur. Ekki er orðum á hann eyðandi, en þó leggur Jarlaskáldið til að Atli Mikson fari bara heim til Eistlands og kjafti þar.
Að landsleik loknum fór Jarlaskáldið í félagi við Beibfjölskylduna í heimsókn til þeirra Gunnars og Védísar til að heilsa upp á Sölva Gunnarsson, og færa honum gjöf. Jarlaskáldinu sýndist ungi maðurinn vera bara nokkuð ánægður með gjöfina, þótt hann virtist ekki ánægður með neitt annað. Börn eru best þegar þau sofa.
Á laugardagskvöldið hélt Jarlaskáldið svo að bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi, til Magnúsar af Blöndahlsætt. Var sú ferð löng og ströng, en hafðist að lokum. Þar var rólegheitastemmning, aðallega vegna brennivínsleysis flestra á staðnum, og var því farið heldur snemma í bæinn. Kaffibrennslan varð fyrsti áfangastaður, voru þar eigi allfáir, og flestir af skosku bergi brotnir. Eitthvað var ákefðin hjá Jarlaskáldinu fullmikil að komast á barinn, svo því varð á í þrengslunum að rekast utan í Skota einn, sem tók stjakinu sem grimmilegri árás á sig og sitt þjóðerni, og stefndi allt í blóðugar milliríkjadeilur þegar hér var komið sögu. Jarlaskáldinu tókst sem betur fer að lægja ófriðaröldurnar áður en andstæðum fylkingum sló í brýnu, og voru menn orðnir mestu mátar áður en yfir lauk. Spurning að senda Jarlaskáldið til Palestínu, ætti að geta settlað mál þar léttilega?
Þar sem VÍN-liðar voru með í för var að sjálfsögðu haldið á Hverfisbarinn síðar um kvöldið. Þar tók við röð ein löng og hægfara, og tók Jarlaskáldið því þann kost að þiggja far heimleiðis með frk. Hrafnhildi í stað þess að eyða síðustu aurunum í eitthvað sem það myndi hvort sem er aldrei muna eftir. Þetta kallar Magnús frá Efri-Þverbrekku lélega frammistöðu hjá Jarlaskáldinu, og lái honum hver sem vill. Það sama má reyndar segja um Jarlaskáldið, lái því hver sem vill!
Rekum Atla!!!
Maður er nefndur Magnús, af ætt Blöndahls, frá bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi. Magnús er af ýmsu þekktur, en lesendum þessarar síðu væntanlega best kunnur sem öflugur „sidekick“ Jarlaskáldsins við hinar ýmsu svaðilfarir, svona eins konar Robin ef Jarlaskáldið er Batman. Magnús er einnig meðal dyggustu lesenda þessarar síðu, og lét Jarlaskáldið aldeilis heyra það þegar mánudagspistillinn var hvergi sjáanlegur í morgun. Auk þess sakaði Þverbrekkingur Jarlaskáldið um slælega frammistöðu um helgina. Við slíkt getur Jarlaskáldið ekki unað, og birtist því hér síðbúinn mánudagspistill, Magnúsi sem og landslýð öllum til glöggvunar og skemmtunar.
Frásögn vor hefst síðdegis á föstudag. Hélt þá Jarlaskáldið vestur fyrir læk, uns í Lynghagann var komið, hvar Ormurinn hafði boðað til veislu, og voru boðsgestir Nördarnir þrír frá '96, þ.e. þeir Gvendur og Kjartan inn rauði auk Jarlaskáldsins. Bakaði Ormurinn afar gómsæta flatböku ofan í liðið, með dyggri hjálp Gvendar, og svo var vanilluskafís í eftirrétt. Umræðuefni voru eins og vera ber nostalgísk með afbrigðum, og oftar en ekki óprenthæf, svo nóg um það.
Frá Orminum var haldið að Hallveigarstöðum um níuleytið, þar sem kommarnir í Múrnum höfðu boðað til skemmtikvölds. Var þar margt um manninn, a.m.k. ef miðað er við höfðatöluna góða. Þekkti Jarlaskáldið ansi marga, og vakti það nokkra athygli hve gríðarstór hluti gesta taldist til bloggara, svo að í raun mætti tala um komma/bloggarapartý.
Þar sem um skemmtikvöld var að ræða þótti við hæfi að hafa skemmtiatriði, og voru þau án undantekninga vel heppnuð. Bar þar e.t.v hæst uppfærslan á Atómstöðinni, og voru leiksigrarnir þar svo margir að tölu verður ekki komið á. Erpur flutti nokkrar rímur, sem að sögn áttu að sýna mýkri hlið hans. Jarlaskáldið á erfitt með að ímynda sér hvernig hans harðari hlið er, ef þetta var sú mýkri. Sigtryggur Magnason las upp úr bók, sem virtist bara nokkuð fyndin, og var í mjög flottum jakka, sem Jarlaskáldið hrósaði við tækifæri. Freyr úr Geirfuglunum lauk svo prógramminu með gítarspili og söng, og stóð sig með miklum ágætum. Að skemmtiatriðum loknum gerðist Jarlaskáldið plötusnúður, það entist nákvæmlega tvö lög, þá var öllum hent út. Sá stutti tími dugði samt til að Jarlaskáldið náði einum ástríðufullum vangadansi, og það við stúlku! Að vísu var stúlkan Katrín Jakobsdóttir, svo Jarlaskáldið deildi nú ekkert rekkju sinni síðar um nóttina.
Þegar út var komið sáu Ormurinn og Jarlaskáldið sig tilneydda til að framfylgja fánalögum, sem segja að ekki megi flagga í myrkri og alls ekki eftir miðnætti. Að vísu var fáninn kanadískur, og ekki kunnu þeir lagsbræður kanadísk fánalög til hlítar. Í algjörlega ótengdum fréttum má nefna að Kristján IX skartaði skömmu síðar kanadískum fána á handleggnum, hvernig sem það vildi til.
Gríðarlegt fjölmenni var í bænum, og töluðu flestir eins og Taggart sálugi. Voru það skoskir menn að sögn, íklæddir pilsum. Íslenskum karlpeningi til léttis virtust skoskir karlmenn í pilsum ekki eiga mikið upp á pallborðið hjá íslenskum yngismeyjum, það væri nú annað ef hingað kæmu Ítalir eða Spánverjar. Sem betur fer eru Íslendingar í riðli með Skotum, Þjóðverjum, Litháum og Færeyingum, lítil hætta á ferð. Átti Jarlaskáldið í nokkrum samræðum við Skota þessa er leið á nóttina, voru þeir viðræðugóðir með afbrigðum, og sögusagnir um nísku þeirra greinilega stórlega ýktar, a.m.k. borgaði skáldið ekki bjórinn sinn. Draga tók af Jarlaskáldinu þegar undir morgun var komið (hafði að vísu fengið sér smá kríu fyrr um nóttina, að sögn), svo Nonninn varð síðasta stopp uns heim var haldið.
Á laugardaginn var landsleikur. Ekki er orðum á hann eyðandi, en þó leggur Jarlaskáldið til að Atli Mikson fari bara heim til Eistlands og kjafti þar.
Að landsleik loknum fór Jarlaskáldið í félagi við Beibfjölskylduna í heimsókn til þeirra Gunnars og Védísar til að heilsa upp á Sölva Gunnarsson, og færa honum gjöf. Jarlaskáldinu sýndist ungi maðurinn vera bara nokkuð ánægður með gjöfina, þótt hann virtist ekki ánægður með neitt annað. Börn eru best þegar þau sofa.
Á laugardagskvöldið hélt Jarlaskáldið svo að bænum Efri-Þverbrekku í Kópavogshreppi, til Magnúsar af Blöndahlsætt. Var sú ferð löng og ströng, en hafðist að lokum. Þar var rólegheitastemmning, aðallega vegna brennivínsleysis flestra á staðnum, og var því farið heldur snemma í bæinn. Kaffibrennslan varð fyrsti áfangastaður, voru þar eigi allfáir, og flestir af skosku bergi brotnir. Eitthvað var ákefðin hjá Jarlaskáldinu fullmikil að komast á barinn, svo því varð á í þrengslunum að rekast utan í Skota einn, sem tók stjakinu sem grimmilegri árás á sig og sitt þjóðerni, og stefndi allt í blóðugar milliríkjadeilur þegar hér var komið sögu. Jarlaskáldinu tókst sem betur fer að lægja ófriðaröldurnar áður en andstæðum fylkingum sló í brýnu, og voru menn orðnir mestu mátar áður en yfir lauk. Spurning að senda Jarlaskáldið til Palestínu, ætti að geta settlað mál þar léttilega?
Þar sem VÍN-liðar voru með í för var að sjálfsögðu haldið á Hverfisbarinn síðar um kvöldið. Þar tók við röð ein löng og hægfara, og tók Jarlaskáldið því þann kost að þiggja far heimleiðis með frk. Hrafnhildi í stað þess að eyða síðustu aurunum í eitthvað sem það myndi hvort sem er aldrei muna eftir. Þetta kallar Magnús frá Efri-Þverbrekku lélega frammistöðu hjá Jarlaskáldinu, og lái honum hver sem vill. Það sama má reyndar segja um Jarlaskáldið, lái því hver sem vill!
Rekum Atla!!!