« Home | Jól, krakki og ammili Jamm, jól. Til hamingju me... » | Maggi tekinn í bakaríið Hann var með erfiðari sun... » | 101 Selva Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti... » | Bjáni Sturla Böðvarsson heitir maður, einkum þekk... » | Tot Frásagnir af andláti Jarlaskáldsins eru stórl... » | Gaman Jarlaskáldið vildi bara koma á framfæri þak... » | Aumingjabloggari vaknar Jarlaskáldið hefur barast... » | Óhappaskáldið Ojæja, þá er maður loksins búinn að... » | Það held ég nú » | NBA-spádómur Jarlaskáldsins 2004-2005! Það gekk ý... » 

sunnudagur, desember 26, 2004 

Kjöt og fiskur

Jarlaskáldið hefur sjaldan verið talið þreklega vaxið, en það er ekki frá því að það hafi bæst einhver grömm á kroppinn undanfarna daga, a.m.k. ef jafnan óhóflegt kjötát+algert hreyfingarleysi=þyngdaraukning er enn í gildi. Gott mál. Það er víst orðið ansi langt síðan Skáldið sagði af sér fréttir, tæpum á því helsta:

Laugardaginn 18. desember var Magnús Andrésson steggjaður, sælla minninga. Það var góður dagur sem er flestu leyti horfinn í óminni, en þó hafa varðveist heimildir sem sýna að þar var á ferð ágætis djamm. Eftir því sem Skáldið kemst næst var pilti stolið úr Smáralind undir hádegi og þaðan ekið með hann niður í Kringlu. Þar var honum gert að klæðast jólasveinabúningi og síðan sendur til að versla í matinn. Því næst var steggur sendur út af örkinni til að gleðja gesti Kringlunnar, ungviðið fékk frá honum mandarínur en gamlingar kartöflur. Stóð piltur sig með sóma og gladdi unga sem aldna. Eftir nokkurt labb lá svo leiðin í brennivínsbúð og var Höskuldur ca. 24.000 kr ríkari eftir þau viðskipti. Ekki þótti piltur nógu jólalegur í framan svo að úr því var bætt að endingu áður en leiðin lá út. Næst á dagskrá var að bæta á belginn, og var Potturinn og pannan næsti viðkomustaður. Flestir fengu þar snilldarhamborgara, en steggurinn steikta borðtusku í brauði. Vakti það kátínu.
Þegar allir voru mettir (borðtuskur eru furðuseðjandi) var farið með pilt niður Laugaveg þar sem hann söng með kór, lét draga sig með kaðli og lét öllum illum látum. Því næst lá leiðin upp í Sleggjubeinsskarð þar sem steggur var sendur niður fjallið tjóðraður við snjóbretti. Hann er þó nokkuð betri á skíðum en snjóbretti. Þegar þessu var loks lokið lá leiðin í gufu á Laugarvatni og síðan bústað í Brekkuskógi og eftir það er Skáldið bundið þagnareiði. Myndir segja enda meira en mörg orð.
Sunnudagurinn eftir þetta var algert helvíti. Þegar Skáldið sá síðast til samferðamanna sinna stefndu þeir á Goldfinger, var það um tvöleytið á sunnudegi. Engum sögum fer af þeirri ferð, Skáldið fór heim og svaf þann dag allan og meirihluta vikunnar á eftir.

Svo gerðist fátt í nokkra daga. Hugum að jólunum:

Þolláksmessa

Þennan dag mætti Skáldið næstsíðasta sinni (ef Óðinn lofar) í vinnu hjá bændum. Þar var sem víðar skata í hádeginu, svo Skáldið fór á KFC og bauð m.a.s. kellingunum í vinnunni með. Þá er nú Twister skárri en skata.
Eftir vinnu byrjaði Skáldið jólagjafainnkaupin og lauk þeim að mestu fimmtán mínútum síðar. Snemma í því þetta árið. Um kvöldið fór það svo ásamt Stefáni Twist niður í bæ og hitti þar fjölda fólks sem það skalf með einhverja stund. Eftir þá stund lá leiðin svo í árvissa (annað árið í röð a.m.k.) heimsókn til Reynis í heitt kakó. Snilldarkakó, enda stóð Eyfi við eldavélina. Skáldið tók myndir 1 2 3.

Aðfangadagur jóla

Skáldið reis óhóflega snemma úr rekkju, enda átti það eftir að kaupa eina jólagjöf og eina ammilisgjöf og bara opið til hádegis. Því verki var fljótsinnt og þá var næst að pakka draslinu inn. Upp úr tvö mætti svo áðurnefndur Stefán á svæðið og við héldum upp í Þverbrekku þar sem móðir Blöndudals bauð upp á heitt kakó í tilefni af ammili einkasonarins. Færðum við honum af því tilefni góða gjöf, geisladisk með þokkadísunum í Nylon sem hann þóttist ekki kunna að meta. Við vitum betur, hann var mjög glaður. Dvöldum við góða stund þarna og drukkum mikið kakó, vorum einnig kynntir fyrir snót nokkurri sem kvað vera góð vinkona Blöndudals, en upp úr fjögur héldum við svo heimleiðis, með viðkomu hjá þeim Jónasi og Stefáni Geir sem báðir buðu upp á góðar veitingar. Ágætis jólarúnt þetta.

Um kvöldið var svo étið. Og étið. Og étið. Hamborgarhryggur að vanda (að þessu sinni í boði Gunnars Smára Egilssonar). Skáldið fékk góðar gjafir, skíðahanska og gleraugu, myndavélatösku, heildarsafn Monty Python Flying Circus og uppistand Jerrys Seinfeld á DVD, glæstan Ítalíubol, og e-ð fleira sem það man ekki í svipinn. Skáldið gaf brósa Popppunktsspilið, og flengdi hann og hinn bróðurinn í því spili síðar um kvöldið. Snilldarspil reyndar, þó prófarkarlestri hafi greinilega verið töluvert ábótavant við vinnslu þess.

Jóladagur

Étið meira. Hangikjöt, restin af hamborgarhryggnum, ís og konfekt og u.þ.b. allt sem tönn á festi. Jíha!

Annar dagur jóla

Étið enn meira. Restin af ketinu, og auk þess grillaður humar með alls kyns meðlæti. Gerist ekki mikið betra. Skáldið horfði á Nóa albinóa um kvöldið, hafði heyrt góða hluti. Artí-fartí rusl. Má þá heldur biðja um Old School...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates