« Home | Viltu vinna milljón? þekkja ekki sinn Seinfeld Ja... » | Jarlaskáldið færir út kvíarnar Jarlaskáldinu var ... » | Svindl Eins og frá var greint hér að ofan sveið J... » | Njósnari hennar hátignar, og gömul bíóhús Jarlask... » | Konsert Jarlaskáldið virðist hafa meðfædda hæfile... » | Biskupinn bloggar Biskupinn hefur hafið blogg, og... » | Jarlaskáldið Smjörkúkur? Þegar síðast heyrðist ti... » | Uppreisn æru Maður er nefndur Oddbergur Eiríksson... » | Enn þá boring Þessi bévítans pest ætlar að verða ... » | Nýir bloggarar Jarlaskáldið býður tvo nýja liðsme... » 

fimmtudagur, desember 05, 2002 

„I'm back“

Útlegð Jarlaskáldsins úr bloggheimum er lokið, a.m.k. í bili. Enn hefur Skáldið ekki hugmynd um hvað olli því mótþróaskeiði sem tölva þess lenti í og lýsti sér í algjörri andstöðu hennar við að hlýða skipunum Skáldsins, auk þess sem hún sakaði það sí og æ um ólöglegt athæfi. Kannski er tölvan komin á gelgjuskeiðið, a.m.k. var hegðunin svipuð.
Þetta hefði e.t.v. verið hið versta mál ef Jarlaskáldið hefði haft eitthvað til að blogga um, en svo var nú aldeilis ekki. Liðnum dögum mætti lýsa með fjórum orðum: vinna, borða, sjónvarp, sofa. Orðum er því ekki frekar eyðandi á það. Skynsamlegra væri að líta fram á veginn, og útlista fyrir lesendum hvað til stendur í lífi Skáldsins, og er þar af nógu að taka.
Um helgina var fyrirhuguð mikil jeppareisa með þeim ágæta félagsskap VÍN. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að það sé bókstaflega fokið út í veður og vind, enda lítið gaman að jeppast í þoku, roki og rigningu, þá kýs maður nú frekar snjóinn, sem maður ætti að öllu jöfnu að geta gengið að sem vísum í desember. En ekki núna, onei, hvergi snjókorn að sjá! Að vísu er enn möguleiki á því að æðri máttarvöld sjái til þess að jeppafært verði, en verður að teljast ólíklegt.
Þó jeppaferðin detti upp fyrir er Jarlaskáldið síður en svo á flæðiskeri statt hvað dægrastyttingu varðar. Talandi um dægrastyttingu, birti eitthvað í dag!? Waysany, annað kvöld verður jólaglögg OSS haldið í matsal Ostogsmjör að Bitruhálsi, og verði ekki jeppast verður að teljast afar líklegt að Jarlaskáldið líti þar við, enda ekki vant því að láta sig vanta þegar ákveðnar veitingar eru í boði. Samkvæmt auglýstri dagskrá á þetta að vera svona sambland af litlu jólunum og jólaglöggi, menn eiga s.s að skiptast á smágjöfum eins og á litlu jólunum og halda svo fram hjá með vinnufélögunum inni í kústaskáp eins og í jólaglöggi. Þetta með framhjáhaldið var að vísu ekki auglýst, en maður kann nú að lesa á milli línanna. Þetta gæti orðið hin ágætasta skemmtun, en gæti líka orðið algjört disaster. Hvort tveggja er skemmtilegt.
Á laugardaginn má svo búast við að neyðarástandi verði lýst yfir hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þar sem von er á sjálfum Dengsa heim frá Bretlandseyjum. Dengsi er btw byrjaður að blogga, eða er allavega að reyna. Má því búast við að fyrirsögnin „Ofurölvaður flugumferðarstjóri veldur gífurlegu eignatjóni“ verði á forsíðum allra helstu blaðanna eftir helgina, ef eitthvað er að marka fyrirætlanir Dengsa. Jarlaskáldið mun að sjálfsögðu bjóða strákinn velkominn.
Í næstu viku verður svo nóg að gera. Fyrsta mál á dagskrá er að fara í bankann og grenja út peninga hjá honum til þess að borga Ítalíuferðina. Á mánudagskvöldið ætlar Jarlaskáldið svo að heiðra meistara Nick Cave með nærveru sinni á tónleikum hins síðarnefnda, og aldrei að vita nema þeir taki lagið saman. Við skulum samt vona ekki. Á föstudaginn eru það svo aðrir tónleikar, í það sinnið hjá gleðipinnunum í Sigur Rós. Ætti það að vera mikill galsi og fjör, enda annálaðir stuðboltar þar á ferð.

Ein getraun að lokum: Í orð hvaða manns og við hvaða tilefni er vitnað í titli þessa bloggs? Vegleg verðlaun í boði fyrir rétt svar.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates