« Home | Huh? Samkvæmt Molunum er Jarlaskáldið aftur byrja... » | Pizza og bjór Jarlaskáldinu tókst ekki að sofa af... » | Miðvikublogg II Þá er komið að öðru miðvikubloggi... » | Af ammælum, óðum frændum, og kjúklingaáti Fastir ... » | Allir stuði í! Jarlaskáldið er með hellu fyrir ey... » | Prentvillupúkinn aftur á ferð Prentvillupúkinn ge... » | Vinsældirnar aukast Síðustu daga hefur aðsókn að ... » | Miðvikublogg hið fyrsta Jarlaskáldið tekur upp ný... » | Af yfirheyrslum, konsertum og hálfvitum Jarlaskál... » | Jarlaskáldið - Góðkunningi lögreglunnar? Sunnudag... » 

sunnudagur, desember 22, 2002 

Helgarbloggið góða

Eitt og annað í gangi, oseiseijú, byrjum á byrjuninni.

Jarlaskáldið fékk að hætta fyrr í vinnunni á föstudaginn, eða um tvöleytið, og notaði tækifærið til að moka út úr þeim sorphaugi sem eitt sinn var herbergi þess. Við moksturinn fannst margt skemmtilegt, m.a. fundust fornar hljóðsnældur sem innihéldu snilld á borð við útvarpsþáttinn Heimsendi (m.a. hið goðsagnakennda leikrit Hótel Volkswagen), urmul af Radíusflugum, og eldgamla pistla úr þættinum Sætt og sóðalegt sem Páll Óskar samdi fyrir ca. tíu árum. How time goes by! Maður ætti kannski að hreinsa út oftar, aldrei að vita hvað finnst.
Ekki var mikið á seyði á föstudagskvöldið, raunar ekki rassgat, Jarlaskáldið eyddi tímanum í að horfa á gamla Friends-þætti, heldur sorglegt það. Gekk Skáldið því til náða í fyrra fallinu, enda vinna daginn eftir, en eins og hefð er komin fyrir þá sjaldan Jarlaskáldið lyftir sér ekki upp um helgar var það vakið með símhringingum djammara, í þetta sinn þeirra Gunnars og Lilju, og kann Jarlaskáldið þeim bestu þakkir fyrir.
Vaknaði Jarlaskáldið fyrir allar aldir á laugardaginn til þess að mæta í vinnuna, og afrekaði það að afgreiða tvær pantanir á sex tímum, sæmilegt það! Að vísu voru þær samanlegt vel á annan tug tonna, ekki það að sú stærð segi hinum venjulega lesanda mikið.
Eftir vinnu fór Skáldið í Kringluna og hitti þar fyrir áðurnefndan Gunnar, þunnan mjög, auk aumingjabloggarans. Þrátt fyrir gefin loforð þeirra um að engin tilraun til jólagjafakaupa yrði gerð var byrjað á því að arka inn í ******** og kaupa þar ****** handa ****** (það væri nú ljótt að eyðileggja sörpræsið fyrir einhverjum). Sem betur fer varð næsti viðkomustaður Subway, annars hefði Skáldið bara farið heim í fýlu! Að sjálfsögðu verslaði Jarlaskáldið ekki neinar jólagjafir, enda enn þrír dagar til jóla, ekkert óþarfa stress í gangi á þeim bænum frekar en fyrri daginn.
Um kvöldið horfði Jarlaskáldið á úrslit Popppunkts, og var harla ánægt með úrslit, sem því þóttu fyllilega verðskulduð. Þó svíður Skáldinu enn nokkuð að drengjsveitinni Hlégesti skuli ekki hafa verið boðin þátttaka, þeir piltar hefðu rúllað þessu upp! Félagi Magnús frá Þverbrekku gerði vart við sig í miðju áhorfi, og var Jarlaskáldið boðað í Bryggjuhverfið, strákapartý hjá Togga. Þangað mætti Skáldið ásamt áðurnefndum Magnúsi og þeim Stefáni Twist og Dengsa. Ekki voru fleiri í teiti þessari, utan húsráðanda. Tókst húsráðanda að æsa upp spenning Ítalíufara að suðumarki með því að sýna þeim ógrynni mynda af skíðasvæðinu þar auk korta. Mikið djöfulli helvíti á þetta eftir að vera gaman!
Var haldið niður í bæ heldur snemma miðað við þennan hóp, og stefnan eins og venjulega tekin á Hverfisbarinn. Á leiðinni þangað tók Jarlaskáldið létta kennslustund í fasteignaklifri, og varð Stjórnarráðið fyrir valinu að þessu sinni. Hitti einnig þá bræður Skúla og Mumma, Mummi nýkominn heim frá Minnasóti, voru þeir nokkuð sælir að sjá. Þegar að Hverfisbarnum var komið blasti við röð ein svo stór að enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Var því ákveðið, a.m.k. af sumum, að líta við á Celtic Cross. Var þar margt góðra gesta, m.a. hitti Skáldið félaga Guðjón ásamt frú, Einar skálaglamm, og ritstjórn Deiglunnar. Eru það vænstu drengir, þrátt fyrir allt. Ákvað Jarlaskáldið að gera aðra atlögu að Hverfisbarnum þegar í ljós kom að félagar þess hefðu farið þangað. Ekki hafði röðin styst nema síður sé, og sá Skáldið því þann kost vænstan að fara bara fremst í röðina, við furðulítil mótmæli þeirra sem þar voru, í raun var skáldinu tekið með kostum og kynjum. Ekki var vistin þar góð að öðru leyti, slíkur var troðningurinn í röðinni að Jarlaskáldið var farið að sjá fyrir sér annan Hillsborough-harmleik um tíma. Sem betur fer komst það inn um síðir, en ber nú vistarinnar merki með fallegum marblettum á bakinu eftir keðjuna sem umlykur röðina.
Þegar inn var komið fann Skáldið félaga sína, reyndar höfðu þeir Toggi og Dengsi helst úr lestinni, og hafði félagi Magnús tekið sér stöðu inni á klósetti og bauð/skipaði mönnum þar í nefið. Vældi hann svo í eiganda staðarins um að fá celebapassa, en allt kom fyrir ekki. Eftir klósettvistina þustu menn út á dansgólfið og hafa önnur eins tilþrif og þeir félagar sýndu vart sést áður. Var beibstandardinn með besta móti þetta kvöldið, gaman gaman. Hitti Jarlaskáldið m.a. gamla bekkjarsystur sína úr tólf ára bekk, Gunnhildi að nafni, sem bjó síðast er Skáldið vissi í Keflavík. Til allrar óhamingju var hún í félagsskap Keflvíkinga, allra karlkyns, og voru þeir heldur óhressir með þá athygli er stúlkan sýndi Jarlaskáldinu, við mikla kátínu þess. Ekki reyndi Jarlaskáldið að landa þessum feng, ómögulegt að leggja lag sitt við sveitavarginn! Félagi Stefán spurði allar stúlkur hvort þær væru haldnar öræfaótta, miðað við árangur ætti hann að finna sér betri pikköpplínu. Af Magnúsi frá Þverbrekku er fátt að frétta, a.m.k. fékk hann ekki annað eins kostaboð og um síðustu helgi.
Engu að síður var þrusustuð á mannskapnum, og margt brallað sem ekki telst rithæft. Að endingu fóru félagarnir þrír kvenmannslausir út í kuldann og trekkinn, og var för heitið á Hlöllann. Því næst leigari, og heim var komið um hálfsjö. Og það merkilegasta er að Jarlaskáldið man eftir þessu öllu!
Í dag var Skáldið með hressara móti þegar það vaknaði, og boðaði samstundis þá Magnús og Stefán á Kentucky Fried. Var það gott. Að áti loknu fór Jarlaskáldið á Champion´s Café að horfa á knattspyrnu, ekki var það mjög gaman. Fór svo í Smáralind og byrjaði þar á jólagjafakaupum. Var þeim lokið ca. korteri síðar. Nema mamma gamla, vonlaust að kaupa eitthvað handa henni, hún fær líklega bara einhvern geisladisk sem Skáldið langar í. Ætli hún fíli ekki Megas?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates