« Home | Prentvillupúkinn aftur á ferð Prentvillupúkinn ge... » | Vinsældirnar aukast Síðustu daga hefur aðsókn að ... » | Miðvikublogg hið fyrsta Jarlaskáldið tekur upp ný... » | Af yfirheyrslum, konsertum og hálfvitum Jarlaskál... » | Jarlaskáldið - Góðkunningi lögreglunnar? Sunnudag... » | „I'm back“ Útlegð Jarlaskáldsins úr bloggheimum e... » | Viltu vinna milljón? þekkja ekki sinn Seinfeld Ja... » | Jarlaskáldið færir út kvíarnar Jarlaskáldinu var ... » | Svindl Eins og frá var greint hér að ofan sveið J... » | Njósnari hennar hátignar, og gömul bíóhús Jarlask... » 

laugardagur, desember 14, 2002 

Allir stuði í!

Jarlaskáldið er með hellu fyrir eyrunum. Af völdum hávaða. En yndislegur var sá hávaði. Hávaðinn var Sigur Rós.

Jarlaskáldið er sumsé nýkomið heim af tónleikum Sigur Rósar í Háskólabíói. Er því komið að tónleikagagnrýni, öðru sinni í þessari viku. Góð vika það.

Jarlaskáldið mætti niður í Háskólabíó ásamt félaga þess Stefáni er við Twist er kenndur rétt rúmlega níu, og var upphitarinn Siggi Ármann þá þegar byrjaður á fyrsta laginu sínu (eða öðru eða þriðju, hef ekki hugmynd). Stundvís maður Siggi! Sætin þeirra félaga voru rétt fyrir ofan miðju hægra megin, með ágætis útsýni yfir sviðið, hvorki of nálægt né fjarlægt. Spilaði Siggi Ármann á kassagítar og naut í sumum lögum aðstoðar þeirra Orra og Kjartans og einnar stelpunnar í Aminu. Tók hann ca. 8 lög, sem voru flest keimlík, Siggi er greinilega nokkuð fær gítarleikari, ágætis lagasmiður, arfaslakur söngvari, og jafnvel enn verri textasmiður. Siggi hafði þó húmor fyrir þessu öllu, og manni leiddist ekkert yfir honum, þótt hann hafi nú ekki beint verið að trylla lýðinn. Fær stóran plús fyrir að yfirhöfuð þora þessu, að hita upp fyrir eina hæpuðustu hljómsveit allra tíma.

Og Sigur Rós sannaði að hún er ekki bara hæp. Steig hún á svið eftir ekkert svo langt hlé, og hóf leikinn með fyrstu þremur lögunum af ( ). Öll eru þau í rólegri kantinum, og voru flutt af mikilli innlifun, lag 3 (Samskeyti) þótti Jarlaskáldinu þó sýnu best. Skipti hljómsveitin svo aðeins um gír, og spilaði næst óútgefið lag (Salka mun vera vinnuheiti þess), sem var ágætt en ekkert stórvirki, og síðan frábæra útgáfu af Nýjum batteríum, þar sem Jónsi fór langleiðina með að eyðilegga sellóbogann sinn með hamaganginum í sér. Lokakaflinn var sunginn á „vonlensku“, gaman að því!

Því næst var flutt lag 4 af ( ) (Njósnavélin, Nothing Song). Snilldarlega gert, þó fullítið hafi á köflum heyrst í gítarnum hans Jónsa. Lítill skaði af því. Svo kom lagið Svefn-g-englar, sem var sennilega síst af þeim lögum sem hljómsveitin flutti. Kannski af því maður hefur heyrt það svo rosalega oft, en Jarlaskáldinu fannst lagið einhvern veginn ekki hljóma rétt, t.d. virkaði það ekkert þegar Jónsi söng í gítarinn sinn, það hljómaði alveg eins. Ekki að lagið hafi verið slæmt, onei, en það þarf alltaf einhver að vera sí(ða)stur.

Þessu næst kom annað óútgefið lag (Mílanó heitir það víst), asskoti gott lag við fyrstu hlustun, mikill kraftur í því, lofar góðu. Að því loknu kom svo líklega næstbesta lag kvöldsins. Hafssól heitir það, tekið af fyrstu plötunni (Von), og er það talsvert breytt síðan þá. Gríðarlegur kraftur í því, maður var farinn að hálfvorkenna strengjasveitinni í lokin, þvílík keyrsla á þeim! Að því loknu kom svo annað kunnuglegt lag, Ólsen Ólsen. Var það sama marki brennt og Svefn-g-englar, maður hefur heyrt það ansi oft, en engu að síður var það þrælgott, enda allt annað að heyra það á tónleikum en í græjum.

Þá var bara eitt lag eftir, og allir í salnum vissu að þetta væri lokalagið þegar fyrstu tónarnir heyrðust. Popplagið er einfaldlega langbesta tónleikalag allra tíma (segir maður sem farið hefur á ca. tíu tónleika, but waysany), og sveik það ekki í kvöld frekar en fyrri daginn. Ætlar Jarlaskáldið ekkert að reyna að lýsa því, það verður aðeins upplifað. Trylltust enda áhorfendur þegar Sigur Rós henti frá sér hljóðfærunum og stormaði út, en kom svo tvisvar aftur til að hneigja sig eins og hennar er siður.

To sum up, þá voru þessir tónleikar hreint út sagt frábærir. Hljómsveitin var greinilega vel upplögð þrátt fyrir langan túr og gaf allt í þetta. Ansi góð vika þetta, tveir bestu tónleikar ever í lífi Skáldsins, alveg þess virði að fara á hausinn fyrir það. Einkunnagjöf: ****/****





Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates