« Home | Jólin jólin alstaðar Þá er þessi geðveiki að verð... » | Helgarbloggið góða Eitt og annað í gangi, oseisei... » | Huh? Samkvæmt Molunum er Jarlaskáldið aftur byrja... » | Pizza og bjór Jarlaskáldinu tókst ekki að sofa af... » | Miðvikublogg II Þá er komið að öðru miðvikubloggi... » | Af ammælum, óðum frændum, og kjúklingaáti Fastir ... » | Allir stuði í! Jarlaskáldið er með hellu fyrir ey... » | Prentvillupúkinn aftur á ferð Prentvillupúkinn ge... » | Vinsældirnar aukast Síðustu daga hefur aðsókn að ... » | Miðvikublogg hið fyrsta Jarlaskáldið tekur upp ný... » 

mánudagur, desember 30, 2002 

„Enginn helvítis öræfaótti hér!“

Jarlaskáldið gerði víðreist um helgina, og voru ekki færri en fjögur krummaskuð sótt heim. Byrjum á því fyrsta:

Á föstudagskvöldið var Skáldinu boðið í innflutningspartý hjá þeim sæmdarhjónaleysum Eyfa og Ríkeyju. Þakkir eiga þau skildar fyrir gott reisugilli, vel var veitt og Skáldið fór sátt heim. Eða svo minnir það...

Á laugardagsmorguninn var Skáldið vakið fyrir allar aldir, eða um tvöleytið, og var ekki laust við að gærkvöldið væri enn eitthvað að vefjast fyrir Skáldinu. Var þar á ferð Magnús nokkur frá Þverbrekku, sem hermdi upp á Jarlaskáldið loforð um að halda til öræfa í félagi við fleiri góða menn. Fyrir kraftaverk og heitbænir öðlaðist Skáldið styrk til að standa við loforðið, og réttum tveimur tímum síðar var það komið um borð í Willys jeppa Stefáns frá Logafold, hver skartaði 38 þumlunga gúmmítúttum negldum (jeppinn, ekki Stefán!), sem sló nokkuð á öræfaóttann. Ekki voru fleiri um borð í Willysnum, en með Magnúsi í 4-Runner jeppa hans voru frænka hans Helga og tveir menn Skáldinu ókunnugir, er reyndust heita Haukur og Ingó, prýðispiltar báðir tveir. Var stefnan sett á skála á Hlöðuvöllum við Hlöðufell, og reiknaðist Skáldinu til að lending yrði á níunda tímanum. En það varð nú aldeilis ekki svo!

Byrjað var á því að birgja sig upp af votu og þurru, og var bjartsýnin slík að keypt voru einnota grill og hamborgarar. Því næst ekið sem leið lá til Þingvalla, upp að Uxahryggjum og áleiðis að Kaldadal uns komið var að afleggjaranum inn á Haukadalsheiði. Þar var beygt inn, og enn sem komið er aðeins snjóföl á slóðanum, andskotann var maður að taka þessi skíði með! Átti það eftir að breytast eins og allt annað í ferðinni. Eftir því sem lengra var ekið inn á Haukadalsheiðina jókst alltaf snjórinn, en þó ekkert til vandræða, þurftum bara að kippa Magnúsi upp úr sköflum einu sinni eða tvisvar. Gekk því ferðin eins og í sögu, og voru ferðalangar komnir að afleggjaranum inn að Hlöðufelli á níunda tímanum, og aðeins spölkorn eftir samkvæmt kortinu. En þá tóku leikar að æsast. Fyrst varð á vegi okkar brekka ein allbrött, glerhál og full af snjó. Eftir ítrekaðar tilraunir við hana, og eftir að hafa hleypt úr dekkjum og heitið á Óðin og fleiri góða Æsi fundum við hjáleið, sem reyndist síðan hið mesta forað. Til að gera langa sögu stutta tók það ferðalanga á annan tíma að komast fram hjá hindrun þessari. En eins og í öllum góðum sögum var þetta bara byrjunin. Við tók enn meiri snjór, og fyrst byrjaði Magnús að festa sig reglulega, og síðan báðir bílarnir. Til að gera þetta enn skemmtilegra byrjaði að blása allkröftuglega og skafa, og útlitið því ekki byrlegt. Að vísu hætti að blása jafnsnögglega og það byrjaði og datt á dúnalogn, skrýtin þessi veðrátta, en þegar ferðalangar voru loksins komnir þangað sem þeir töldu vera áfangastað, þegar klukkan var að nálgast miðnætti, fannst enginn slóði sem leiða myndi að skálanum. Voru því góð ráð dýr. Eftir nokkra reikistefnu og ljóst varð að skálinn fyndist tæplega var ákveðið að halda för bara áfram. Áfram var því fetaður slóðinn, enn festu menn sig reglulega, mikið gaman, mikið fjör, mikið voru menn svangir, en loks birtist sæmilegur slóði svo kílómetrahraðinn komst á annan tuginn, og endaði hann niðri á Lyngdalsheiði. Það var s.s. ca. búið að keyra hringinn í kringum Skjaldbreið. Var þá næsta mál á dagskrá að finna sér næturgistingu, enda klukkan orðin ca. tvö. Fyrst var reynt við sumarbústað í eigu skyldmenna þeirr Magnúsar og Helgu, en þar var komið að rammlæstu hliði. Úr varð að gista á Selfossi.

(Nú súpa dyggir lesendur eflaust hveljur. Jarlaskáldið, sá maður sem lengst hefur gengið í því að níða Selfoss og allt sem selfysskt er og ata það auri, leggst svo lágt að eiga þar næturgistingu! Sér til málsbóta vill Jarlaskáldið taka fram að það átti einskis annars úrkosti, nema þá að labba heim. Auk þess voru þetta örugglega aðfluttir Selfyssingar sem gist var hjá, a.m.k. var hvorki strípur, eipkött, træbaltattú né Hondu Civic með spoiler að sjá á staðnum. Málið var að foreldrar áðurnefnds Hauks bjuggu á staðnum og voru svo almennilegir að skjóta skjólshúsi yfir ferðalangana. Auk þess buðu þeir öllu liðinu í staðgóðan morgunverð (hangikjöt er jú staðgott!), og eiga miklar þakkir skildar fyrir. Kannski var þetta fólk bara undantekningin sem sannar regluna.)

Á Selfossi fékk liðið loksins að éta, og sýndi Jarlaskáldið löngu gleymda takta í hamborgarasteikingum. Stórkostlegt hvað Season-All getur bjargað öllum mat! Auk þess var nokkrum ölkollum stútað, og þykir það með seinna móti að byrja á slíku um hálfþrjú að nóttu til. Ekki entust menn enda lengi, þó sýnu síst Magnús sem setti ný glæsileg heimsmet bæði í því að sofna hratt og í háværum hrotum, sem vöktu m.a.s. hann sjálfan. Þegar lagt var af stað að nýju hafði bæst einn ferðalangur í hópinn, Níels að nafni, og var hann á Hilux-pallbíl. Var ákveðið að gera atlögu að Hveravöllum og bregða sér þar í pottinn, og jafnvel klára Kjölinn ef sá gállinn yrði á liðinu. Var ferðin upp á Hveravelli heldur tíðindalítil, a.m.k. sé miðað við daginn áður, og tókst engum að festa sig, enda hefði það orðið afrek í snjóleysinu á Kili. Voru ferðalangar komnir upp á Hveravelli á fjórða tímanum, og var byrjað á því að kæla pottinn, og fá sér í gogginn. Að áti loknu var potturinn orðinn passlegur, en þar eð kvendi var með í för var umferð í Heimsmeistaramótinu í sprellahlaupi frestað, þess í stað fékk stúlkan að sjá íðilfagra karlmannslíkamana á brókinni.

Ekki þótti tækt að fara sömu leið til baka og því aðeins eitt að gera, keyra norður í land. Var ferðin sú jafnvel enn tíðindaminni, enda beinn og breiður vegur alla leið, þökk sé Landsvirkjun, og endaði hún á Blönduósi, þriðja krummaskuðinu þessa helgi (Kópavogur, Selfoss, Blönduós). Þaðan var það bara þjóðvegur númer eitt, með smákjaftstoppi í Staðarskála og bensínstoppi í Borgarnesi (krummaskuð 4), og heim voru ferðalangar komnir um tíu, lúnir en glaðir. Ekki amaleg helgi þetta!

Ps. Einnota grillin eru enn á Selfossi, ónotuð.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates