sunnudagur, júní 30, 2002 

...gestkvæmt var hjá Jarlaskáldinu í gærkvöld. Það þykir vart í frásögur færandi, og mun það því ekki gert hér. Þá loksins liðið hypjaði sig út var haldið í bæinn, en þá voru aðeins eftir tveir, Jarlaskáldið og Gunni. Stóð þá til að hitta Blöndahlinn og þjóra með honum. Þar sem Gunni hafði ekki farið á djammið í Reykjavík í næstum tvö ár tók ég það að mér að sýna honum „nýjustu“ staðina. Byrjuðum við á að fara á Hverfisbarinn (bíddu, er þetta ekki bílastæðahús?), hvar ég sýndi honum Jóhönnu, sem hann var sammála mér um að væri forkunnarfögur og eflaust vænsta stúlka. Frá Hverfisbarnum var svo haldið á Kaupfélagið (ha, er kominn pöbb hér?). Þar rákumst við fljótlega á Óskar Pál, og urðu það miklir fagnaðarfundir, sem að sjálfsögðu þurfti að skála vel yfir, enda long time no see. Ræddum við svo málin, og eins og oft vill verða á svona stundum voru stóru orðin ekkert spöruð um ágæti okkar og ömurlegheit ýmissa annarra. Þegar Gunni og Óskar Páll voru orðnir vel heitir veitti ég því svo athygli að stúlka ein sem sat við hlið mér fylgdist að því er virtist spennt með, en sagði mér svo í trúnaði að henni þættu „svona gæjar svo ógeðslega ömurlegir“. Æ æ, þarna rauf ég trúnaðinn! Ég ákvað að vera algjörlega sammála henni, enda stúlkan nokkuð snotur. Það bar þó lítinn árangur eins og oft áður. Á Kaupfélaginu birtist svo Blöndahlinn með fríðu föruneyti, og náði hann að plata mig með sér í Mörkina næstu helgi. Samkvæmt bestu heimildum fórum við næst á Vegamót (eða var það Prikið, ég er ekki viss?), e.t.v. var gaman þar, því næst klifraði skáldið upp á Ingólf eins og þess er siður, og lauk svo djamminu hjá Hlölla eins og svo oft áður. Eins gott að ég fékk útborgað í dag, það er ekkert ódýrt að taka leigubíl einn upp í Breiðholt...

 

...sem og þetta...

Find your inner Smurf!

 

...þetta hef ég alltaf vitað...

~Find Your Inner Supermodel~

föstudagur, júní 28, 2002 

...þetta var erfiður dagur. Í heimsku minni ákvað ég að hjóla í vinnuna í morgun. Það var sosum lítið mál, enda mest niðrámóti, en mér hefndist þó heimskan á heimleiðinni, enda virtist reglan „what goes down must go up“ í fullu lýði. Auk þess var íþróttaiðkun með mesta móti í dag. Í vinnunni ákvað ég að leyfa pakkinu að fara í fótbolta fyrst ekki var von á Meistaranum, og eins og vera ber fór ég þar á kostum, þótt mér tækist ekki að skora mark var ég potturinn og pannan í öllu spili míns liðs, sem tapaði með einungis eins marks mun, geri aðrir betur. Eftir vinnu skapaði Gunni svo stemmningu fyrir því að fara í körfu, á velli dusilmennanna í Íslenskri erfðagreiningu, hvar Gunni einmitt vinnur. Völlur sá er sérstakur að því leyti að við aðra hlið hans er tjörn ein mikil, hvert boltinn rataði gjarnan. Mættu þangað aumingjabloggarinn Oddi, næstumþvíaumingjabloggarinn Mummi, Lúlli (ekki Júlli eins og ranghermt var hér), Gísli og Gunni, auk Magnúsar frá Þverbrekku, sem lét þó körfuboltaiðkun alveg í friði. Spiluðum við nokkra leiki, þar sem ég bar vitaskuld höfuð og herðar yfir aðra í færni og elegans. Var ég sérstaklega öflugur í stoðsendingunum, en þó þótti bjórsendingin mín við lok síðasta leiksins einna best heppnuð, enda er fátt betra en ylvolgur bjór eftir gott basket. Þetta var s.s. erfiður dagur, en endaði vel, og allt er gott sem endar vel...

fimmtudagur, júní 27, 2002 

...kemur ekkert mjög á óvart, að vísu er ég ekki rolla, en ég elti þær mér til gamans...

Sjáðu hvaða týpa þú ert

þriðjudagur, júní 25, 2002 

...ójá, ekki dauður úr öllum æðum enn.

Á mánudaginn hélt ég að ég myndi losna við aumingjabloggarann í vinnunni en því var nú öðru nær. Að vísu er hann farinn úr bílnum mínum og kominn með eigin flokk, fullan af gelgjum, en samt er hann alltaf á sama stað og ég. Verð að fara að gera eitthvað í þessu.

Í kvöld prófaði ég hjólið mitt í fyrsta sinn almennilega. Hjól þetta keypti lille bror í Ammríku fyrir skitna 170$, svo ég bjóst ekki við miklu þegar það kom til landsins í byrjun mánaðarins. Það reyndist hins vegar mikill kostagripur, með fullt af dempurum og égveitekkihvað, og reyndist svona líka vel á malarvegunum. Ég hjólaði í kringum Elliðavatn, og upplifði svolitla nostalgíu þegar ég hjólaði göngustíginn sem ég vann við í Unglingavinnunni fyrir níu árum síðan. Hann var í góðu standi, enda fagmenn þar á ferð. Kannski nenni ég einhvern tímann að hjóla í vinnuna, hef ekki meikað það hingað til.

Helsti kosturinn við það að vera bara að vinna til 17:30 í sumar en ekki 19:00 eins og áður er að ég get alltaf verið kominn heim kl. 18:05 og skellt spólu í tækið og ýtt á rec. Nei, ekki eru það Nágrannar sem ég held svona mikið upp á, þó vissulega séu þeir allra góðra gjalda verðir, heldur hinn frábæri Seinfeld. Sá þáttur og Simpsons eru í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér (og ýmsum öðrum), og á ég vel á annað hundrað Simpsons þætti á spólum, en geri þó enn betur hvað Seinfeld varðar, því ég hef í allan vetur og til dagsins í dag verið mættur heim á fyrrgreindum tíma hvern virkan dag utan föstudaga til að ýta á rec, með aðeins einni undantekningu (það var jólaglögg, 'nough said). Ég á s.s. alla Seinfeld þættina NEMA EINN, og það er ekkert smá pirrandi. Þetta er svona eins og þegar maður safnaði fótboltamyndum í gamla daga og átti alla kallana nema Altobelli (það er svo langt síðan), og gerði nánast allt til að eignast hann. Vil ég því skora á alla þá lesendur þessarar síðu sem kynnu að eiga 12. þátt 4. seríu (Gerist um borð í flugvél, kallast The Airport) að setja sig í samband við mig, mér finnst ég varla heill né hálfur maður fyrr en ég eignast þennan þátt.

HM að verða búið og ég hef varla minnst á það. Ojæja, fullseint að byrja núna, segjum bara að Brassarnir taki þetta...

sunnudagur, júní 23, 2002 

...eitthvað afrekaði maður í gær, eins og síðasta færsla sýnir kom ég heim undir morgun, vel slompaður með Hlöllabát í farteskinu. Hafði þá talsvert yfir mig dunið.

Dagurinn hófst eins og lög gera ráð fyrir á því að vakna. Það hef ég gert oft áður, svo það gekk bara ágætlega. Eigi svo löngu síðar var ég kominn niður í Laugardalshöll í þeim erindagjörðum að útskrifast. Illu heilli voru þar 714 aðrir í sömu hugleiðingum. Þeirri serímóníu tókst að vísu að ljúka á tveimur og hálfum tíma, en ósköp var þessi samkoma samt leiðinleg. Páll Skúlason er með slepjulegasta handtak í heimi. Leit á prófskírteinið mitt, og uppgötvaði þá í fyrsta sinn að lægstu einkunnirnar mínar eru í þeim tveimur kúrsum sem Ármann kenndi. Á því eru tvær hugsanlegar skýringar. Önnur er sú að hann hafi verið svona lélegur kennari. Hin er sú að honum hafi einum kennara tekist að sjá í gegnum mig og leti mína. Ég læt ykkur um að ákveða hvort er líklegra. Sat við hliðina á Villa Naglbít á útskriftinni, alltaf gaman að mingla við „fræga“ fólkið.

Ekki nenntu foreldrar mínir að halda mér veislu, en buðu mér þess í stað út að borða á Tapas-barinn. Það þóttu mér ágætis sárabætur, enda er maturinn á þessum stað algjör snilld, gef honum næsthæstu einkunn, eða *** á penguin-kvarðanum.

Að áti loknu var svo haldið í teiti í Engjaselinu hjá þeim hjónum Jóhannesi og Láru, miklu öðlingsfólki sem fagna mér ávallt sem týnda syninum þegar ég kem í heimsókn. Þar flaut bjórinn svo ölvun kom skjótt yfir menn og konur, og ekki leið á löngu áður en Jarlaskáldið og aumingjabloggarinn hófu upp söngraust sína við mikinn fögnuð viðstaddra, að vísu mismikinn. Reyndust fullyrðingar þeirra um að kunna ALLA texta í heiminum þó úr lausu lofti gripnar. Þá leikar stóðu hæst lét Jarlskáldið sig svo hverfa án þess að kveðja nokkurn mann eins og því er tamt, og var för þess heitið vestur í bæ, í aðra teiti og ekki síðri heima hjá Kjartani inum rauða. Þar var margt um manninn, og góðmennt þar að auki, og undi Jarlskáldið hag sínum vel þar (glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að söguhetjan breyttist úr því að vera „ég“ yfir í „Jarlaskáldið“ án nokkurra útskýringa. Skal það því útskýrt hér að „ég“ breytist ávallt í „Jarlaskáldið“ þá ölvun kemur yfir söguhetjuna. Er það vel þekkt minni úr bókmenntum að skáldgáfan komi yfir menn um leið og ölvunin, sbr. Suttungamjöður). Einna helst man Jarlaskáldið eftir miklu hláturskasti sem það og fleiri tóku þar, en ekki man skáldið hvað var svona fyndið.

Frá Kjartani var svo för heitið í bæinn, hvar við tók bið í röð fyrir utan skemmtistaðinn Sirkus. Þar var lítið gaman þá loksins biðin var á enda, en Jarlskáldið ílengdist þó þar um stund, hálffúlt að fara strax út eftir langa bið. Komst það þar í kynni við ágæta menn, og kynnti þeim síðar um nóttina klifuríþróttir ölvaðra, sem lauk á því að klifra upp á Stjórnarráðið. Einhverju síðar var svo skáldið komið með Hlölla í hönd í leigubíl á leið heim. Góður endir á góðu kvöldi...


 

...úfff, kominn heim af djamminu, Hlöllinn bíður, heyrumst seinna..

laugardagur, júní 22, 2002 

...og bróðir hans líka...

 

...sumir eru farnir að nálgast það ískyggilega að vera aumingjabloggarar...

 

...á morgun (í dag samkvæmt blogger) rennur stóra stundin upp, ég fæ að „njóta" þess að sitja 3-4 tíma í Höllinni, hlusta á ræður og söng, en þó aðallega að bíða meðan viðskiptafræðingar og annar óþjóðalýður tefur mig frá því að hljóta nafnbótina B.A. Það hefur reyndar tekið 5 ár, munar svo sem ekki mikið um nokkra tíma í viðbót. Að vísu þykja 5 ár alls ekki svo langur tími til þess að ná sér í gráðu í minni ætt, stóra systir tók fimm ár í þetta og stóri bróðir byrjaði fyrir átta árum, en hefur enga gráðu enn. Litli bróðir vann að vísu, fékk gráðu á þremur árum, en það var í Ameríku, svo það telst ekki með. Ég fæ enga veislu, í stað þess fer öll familían út að borða saman, en það mun ekki hafa gerst síðan sjómannadaginn 1984, þegar við fórum á einhvern stað sem þá var í Ármúlanum og ég man ekki hvað hét, en þar var mikil sjóræningjastemmning innandyra, og kista ein mikil full af fimmeyringum sem vakti mikla athygli mína á sínum tíma. Ef þið munið nafnið á staðnum megið þið endilega láta mig vita.

Um kvöldið verður svo væntanlega farið á skrall, enda hefur vinkona mín Lilja Rós, sem einmitt útskrifast úr ferðamálafræði á morgun, boðið mér í teiti eina mikla, og er hún höfðingi heim að sækja, svo víst má telja að Jarlaskáldið muni kneyfa ölið annað kvöld. Lilja er þó ekki sú eina úr kunningjahópi mínum sem útskrifast á morgun. Telst þar fyrst til tíðinda að Gettu Betur lið Menntaskólans 1996, sem Jarlaskáldið var einmitt hluti af sælla minninga, útskrifast allt á morgun úr Háskólanum. Kjartan Björgvinsson inn rauði ku vera að útskrifast úr lögfræði, og Strandamaðurinn sterki, Guðmundur „Gvendur“ Björnsson, mun vera að útskrifast úr sagnfræði. Óskar Jarlaskáldið þeim allra heilla og velfarnaðar í framtíðinni. Auk þeirra útskrifast með mér úr íslenskunni Skagamaðurinn Sævar, Hafnfirðingurinn Haukur, Breiðhyltingurinn Úlfhildur, og Halldór fyrirlestur, sem ég veit ekki hvaðan er. Þeim eru og færðar árnaðaróskir Jarlaskáldsins.

Úr vinnunni er það helst að frétta að ég er loksins laus við aumingjabloggarann, a.m.k. um stundarsakir. Hann var hækkaður í tign, eins óskiljanlegt og það er, og fær sex nýja liðsmenn til umráða. Eftir sit ég einn með mínar sex stelpur. Allar munu þær lofaðar (eða á annan hátt óheppilegar), og því lítið á þeim að græða. Stendur því leit mín að 18-30 ára konu til að sjá um mig enn yfir. Ég vona bara að B.A. gráðan hjálpi eitthvað til í þeim efnum...

þriðjudagur, júní 18, 2002 

...fór í bæinn í kvöld, djöfuls skítaveður, menn fuku hver um annan þveran. Fann mig mun betur á Ingólfstorgi en Arnarhóli, maður er nú orðinn helvíti gamall þegar maður kýs Hljóma frekar en Mínus. Stoppaði að vísu stutt í bænum, enda ekki verandi þar vegna hvassviðris, kíkti þess í stað á félaga Gunnar, sem er nýkominn heim frá USA. Hann bauð upp á áfengi í massavís, en auðvitað var ég á bíl, alltaf þannig þegar frítt bús stendur til boða. Hitti Mumma í bænum, hann var með öl í poka, vonandi hefur hann einhverja heilsu á morgun. En nú ætla ég að setja Paradísarfuglinn með Megasi yfir geislann og fara að sofa, það er ekki til betri diskur til að sofna út frá...

mánudagur, júní 17, 2002 

...Hverjir vinna?

Heimsmeistarar

Hverjir verða heimsmeistarar?


Brasilía

England

Þýskaland

Senegal

Bandaríkin

Ítalía

Japan

Suður-Kórea

Tyrkland

SpánnCurrent Results
 

...hæhóogjibbíjei, það er kominn sautjándi júní, enda byrjað að rigna. Var kannski kominn tími til, maður verður nú að hugsa um plönturnar líka, er það ekki?

Það varð ekkert vesen á laugardagsmorguninn, mér til sárrar armæðu. Við mættum upp á Nesjavelli rétt fyrir 9, klæddir í bláar peysur og hvít vesti, mjög professional eða hitt þó heldur. Þar var saman kominn einhver stærsti lögreglufloti sem ég hef séð, átti greinilega ekki að taka neina sjensa. Löggan sagði okkur að leggja bara við veginn og fylgjast með, og koma okkur svo í burtu þegar Jang mætti, svo við yrðum nú örugglega ekki skotnir (án gríns!). Svo spiluðum við Kana í þrjá tíma inni í bíl, gerðum fátt annað. Ég held að Jang hafi veifað mér þegar hann kom, kannski var það einhver annar, þessir Kínverjar líta allir eins út. Úbbs, var þetta kannski soldill rasismi, maður verður að passa sig. Skemmtilegast fannst mér þegar víkingasveitin stoppaði hjá okkur til að ganga úr skugga um að við værum ekki með neina gula fána eða annað sem gæti valdið Kínverjunum hugarangist, þeir voru í góðum fíling, fannst þetta allt álíka fyndið og okkur. Þetta var a.m.k. alveg örugglega léttasti 5000 kall sem ég hef unnið mér inn.

Á laugardaginn fór ég svo í útilegu upp í Húsafell, afar hressandi. Mikið drukkið, mikið gaman. Ég gerði mitt ýtrasta til að koma aumingjabloggaranum í kynni við kvenfólk, en án árangurs. Ekki tókst mér sjálfum neitt betur upp, þrátt fyrir góðan ásetning. Leit mín að góðhjartaðri konu til að sjá um mig stendur því enn yfir. Lunganum af nóttinni eyddum við í félagsskap Karólínu sagnfræðiskutlu og vina hennar. Afar hresst fólk, gaman að því. Frammistöðu næturinnar átti þó Harpa mágkona mín, sem var stödd þarna með vinkonum sínum. Fregnir herma að hún hafi verið allþunn á sunnudagsmorguninn, og var þá búin að stela símanum mínum, en láta mig hafa sinn í staðinn. Furðulegasta mál, sem hún hafði litlar skýringar á þegar ég innti eftir þeim í dag.

Mér finnst að 17. júní eigi alltaf að vera á mánudögum. Það sama ætti að gera við 1. maí, uppstigningardag, sumardaginn fyrsta og aðra frídaga sem nýtast ekkert til að lengja helgina. Þetta ætti að gera að kosningamáli...

 

...ný comment komin inn, tjáið ykkur endilega...

laugardagur, júní 15, 2002 

...ég náði, ég mun útskrifast. Fimm ára þrautagöngu minni er lokið, eftir eina viku get ég loksins kallað mig Íslenskufræðing. Fékk 8.5 fyrir BA-ritgerðina mína, er ekki viss um að ég hafi átt það skilið. Mér fannst þessi ritgerð algert krapp, en hvað veit ég? Ég er s.s. að fatta að ég er ekki að fara í skóla næsta haust, heldur að vinna. Það hræðir mig óskaplega, það þýðir að ég sé orðinn fullorðinn, sem mér finnst ég alls ekki vera. Bráðum þarf ég að flytja að heiman og sjá um mig sjálfur, ég sem kann ekki einu sinni á örbylgjuofn, hvað þá meira! Ég held að ég þurfi bara að finna mér góða konu til að sjá um mig, guð veit að ég get það ekki sjálfur, og lýsi ég því hér með eftir góðhjartaðri konu á aldrinum 18-30 ára sem vill sjá um mig. Reynsla er ekki nauðsynleg.

Ég þarf að vakna eftir 6 tíma og fara í vinnuna á Nesjavöllum, auminga Jiang Zemin treystir víst á mig, ég á að hjálpa löggunni að tryggja öryggi hans. Hann verður þarna milli 9 og 11, hafi einhver áhuga á að mæta og vera með vesen...


miðvikudagur, júní 12, 2002 

...nú eru allir að verða vitlausir út af einhverjum Kínamönnum sem stunda að því mér skilst einhverjar stórhættulegar leikfimisæfingar sem kollvarpað gætu Alþýðulýðveldinu Kína ef ekkert er að gert, og vilja koma til Íslands í þeim tilgangi. Flestum finnst það hið besta mál, en samt mega þeir ekki koma. Þá er um að gera að mótmæla svolítið, það er svo asskoti gott að komast aðeins út í góða veðrinu og hitta fólk. Það er samt eitthvað að ef Heimdellingar og Ungkommar eru sammála um að mótmæla einhverju, þó svo það sé á algjörlega ólíkum forsendum að þeirra sögn. Mikið eru ungliðar annars oft leiðinlegir, þeir eru svona ýktar útgáfur af gömlu pólitíkusunum, og ekki eins fyndnir. Úbbs, ég er farinn að tala um pólitík, lofaði víst að gera það aldrei. Þetta Falun Gong-Kínamál tengist mér annars persónulega, því á laugardaginn á ég að mæta í vinnuna í orkuverið á Nesjavöllum, en þangað ætlar víst Jang blessaður að kíkja í heimsókn með fríðu föruneyti, og ég á að sjá um ásamt öðrum að allt fari fram með frið og spekt. Vil ég því hvetja alla sem enn nenna að mótmæla að mæta á Nesjavelli á laugardagsmorguninn og valda usla, það er svo leiðinlegt að hafa ekkert að gera í vinnunni. Ég vona samt að lífverðirnir reyni ekki að skjóta mig ef ég geri einhverja vitleysu, það er víst hætt við því, t.d. ef maður „missir“ eitthvað, eins og t.d. egg, í áttina að honum Jang blessuðum.

Síðustu daga hef ég verið nokkuð ánægður með að hafa farið í útivinnu enn eitt sumarið, +20 stiga hiti og brakandi sól og ég er allverulega farinn að líkjast bónda (þið vitið, kúkabrúnn á handleggjunum, fótleggjunum, hálsinum og andlitinu en næpuhvítur annars staðar). Á föstudaginn er svo meistarinn í fríi, og ég hæstráðandi á svæðinu. Ætli það verði unnið mikið þá?

Félagi Sverrir Guðmundsson, minjavörður með meiru hjá Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur, mun vera meðal dyggra lesenda þessarar síðu. Honum er hér með þakkað skeytið, og skal það útskýrt að „ísleifska“ er mállýska kennd við Ísleif nokkurn bílaáhugamann sem gert hefur garðinn frægan í þættinum Mótor á Skjá Einum, hvar hann telur upp kosti og (sjaldnar) galla hinna ýmsu bílategunda. Felst ísleifskan einkum í því að telja upp hvað finna má í bílnum, og ef það telst bílnum til tekna að segja að það sé gott. Dæmi: „Í þessum bíl eru þriggja punkta öryggisbelti, sem er gott. Í honum er fimm þrepa sjálfskipting, sem er gott. Dekkin eru 17 tommu, sem er gott.“ Ekki eru aðrar leiðir færar innan ísleifskunnar til að hampa bílum (eða öðru ef svo ber undir) á neinn hátt. Vona ég að útskýring þessi dugi félaga Sverri (sem er nota bene ekki leiðinlegur ungliði, hafi einhver haldið það).

Nú hef ég ekki meira að segja, nema það að Shaq er feitur...

mánudagur, júní 10, 2002 

...urrrrr, ég var búinn að semja langan pistil þar sem ég svaraði fyrir skítkast undirsáta míns, en auðvitað hrundi bloggerinn áður en ég náði að pósta, nenni ekki að gera þetta aftur, undirsátinn fær það bara óþvegið í vinnunni á morgun...

 

...ég var að gera smá breytingar, núna eru t.d. komnir íslenskir stafir hér til vinstri, þökk sé Netþýðandanum hans Kristjáns, mæli með honum fyrir þá sem eru jafnlélegir í svona html-drasli og ég. Breytti einnig uppröðuninni þannig að hver dagur er í réttri tímaröð niður á við, ég vona að þetta skiljist betur svona. Þá er kominn linkur á Skúla, litla bróður hans Mumma og fyrrverandi blómasala, sem einnig vinnur á Nesjavöllum. Á döfinni er svo að redda nýjum kommentum inn á síðuna, þau eru búin að vera temporarily disabled ansi lengi...

 

...þetta er skárra...


Take the What Type of Friend are
You?
quiz, and visit mutedfaith.com.
[Me.]

 

...þetta er ekki gott...

Take the What High School
Stereotype Are You?
quiz, by Angel.

 

...humm, þetta er orðinn greinilegur tendens hjá mér, að láta alltaf nokkra daga líða á milli þess sem ég tjái mig, en ég er þó skárri en sumir.

Á föstudaginn var fyrsta vinnupartýið haldið, hjá þeim BogguSolluHelguogfeitumketti, Þangað mætti ég fyrstur manna ásamt henni Hrafnhildi, sem var gott (ísleifska), því ekki var pleisið stórt. Lunganum af kvöldinu eyddi ég í megaNBAnördabesserwissi með Mumma, hreint út sagt konungleg skemmtun, þó svo að öðrum viðstöddum hafi ekki þótt það. Svo virðist sem sumum þyki það ekki skemmtilegt að fara yfir dröftin frá 1990 til dagsins í dag, ótrúlegt!

Á laugardaginn gerði ég absólútlí ekkert, nema að kynnast betur mínum gamla vini sjónvarpinu, sem ég naut samvista við mest allan daginn og fram á nótt. Sá m.a. hluta úr öllum Rockymyndunum og Lennox lemja Tyson í buff. Leiddist það ekki.

Á sunnudaginn gerðust svo þau undur og stórmerki að liðið mitt í fótbolta vann leik, og ég sá alla dýrðina. Já, Frammararnir náðu loksins að vinna, og það sem betra er að þeir unnu Akureyringa, 3-1. Hefðu að vísu átt að vinna svona 5-0, en þetta eru jú Frammarar. Sérstaka lukku vakti nýr leikmaður, Tommy Rutter, enskt hörkutól sem kom inn á á 75. mínútu og tæklaði allt sem hreyfðist. Núna er bara að vinna illmennin úr vesturbænum í næsta leik, og mín heitasta ósk er að Tommy nái að leggja Þormóð inn á spítala, ég man enn eftir svindlinu um árið...

miðvikudagur, júní 05, 2002 

...jújú, ennþá til, hellingur gerst, best að fara yfir það:

Á laugardaginn var 5 ára reunion hjá MR, hitti gamla bekkinn minn, fórum út að borða og í smá partý, furðu góð mæting hjá bekknum, 67% (10 af 15). Man að við töluðum heilmikið um silikonbrjóst, og að ég drakk einhvern ógeðslegan bjór sem átti að vera með tequilabragði en bragðaðist hvorki eins og bjór né tequila, heldur eitthvað annað og verra. Mæli ekki með þeim hroða. Svo var farið í Kiwanissal við Engjateig, þar sem allir bekkirnir hittust. Þar var drukkið og horft á vond skemmtiatriði, uns haldið var í bæinn og kann ég ekki frekar frá að segja. Ofur-Sjonni segir að ég hafi farið á Næsta Bar, treysti því bara.

Skilaði BA-ritgerðinni minni á mánudagsmorgun, það var léttir. Kennarinn veitti mér frest yfir helgina að fyrra bragði, en það breytti engu, helgin fór í fótboltagláp og fyllerí. Líklega get ég skráð mig íslenskufræðing í símaskrána eftir 18 daga, en ég er að hugsa um að gera það ekki.

Vinnan byrjaði fyrir alvöru hjá mér á mánudaginn, fékk þá glæsilegan Land Rover, Odda aumingjabloggara og sex yndisfríðar stúlkur til umráða. Get líklega losnað við Odda, þá verður þetta fínt. Ég vinn nota bene utandyra, í náttúruparadísinni á Nesjavöllum, og er því sólbrenndur mjög þessa stundina. Ætli maður geti samt kvartað?

Ein pæling í lokin:

Hvers vegna mætir lögreglan alltaf strax á staðinn og stöðvar fjörið þegar einhver er að skemmta sér án leyfis (sjá Árshátíð Bónuss, útskriftarfagnað MS-inga, húsa- og styttuklifur Jarlaskáldsins), en hún sést hvergi þegar menn eru barðir til ólífis í Hafnarstrætinu?


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates