« Home | ...urrrrr, ég var búinn að semja langan pistil þar... » | ...ég var að gera smá breytingar, núna eru t.d. ko... » | ...þetta er skárra... Take the What Type of F... » | ...þetta er ekki gott... Take the What High Sc... » | ...humm, þetta er orðinn greinilegur tendens hjá m... » | ...jújú, ennþá til, hellingur gerst, best að fara ... » | ...kommentin eru eitthvað í ólagi, en það er einhv... » | ...jahéddna, ég er bara farinn að nálgast það að v... » | ...hell yeah, R-ið vann! Verst að þeir fengu ekki ... » | ...JESS!!!!!!!!!!!!!! » 

miðvikudagur, júní 12, 2002 

...nú eru allir að verða vitlausir út af einhverjum Kínamönnum sem stunda að því mér skilst einhverjar stórhættulegar leikfimisæfingar sem kollvarpað gætu Alþýðulýðveldinu Kína ef ekkert er að gert, og vilja koma til Íslands í þeim tilgangi. Flestum finnst það hið besta mál, en samt mega þeir ekki koma. Þá er um að gera að mótmæla svolítið, það er svo asskoti gott að komast aðeins út í góða veðrinu og hitta fólk. Það er samt eitthvað að ef Heimdellingar og Ungkommar eru sammála um að mótmæla einhverju, þó svo það sé á algjörlega ólíkum forsendum að þeirra sögn. Mikið eru ungliðar annars oft leiðinlegir, þeir eru svona ýktar útgáfur af gömlu pólitíkusunum, og ekki eins fyndnir. Úbbs, ég er farinn að tala um pólitík, lofaði víst að gera það aldrei. Þetta Falun Gong-Kínamál tengist mér annars persónulega, því á laugardaginn á ég að mæta í vinnuna í orkuverið á Nesjavöllum, en þangað ætlar víst Jang blessaður að kíkja í heimsókn með fríðu föruneyti, og ég á að sjá um ásamt öðrum að allt fari fram með frið og spekt. Vil ég því hvetja alla sem enn nenna að mótmæla að mæta á Nesjavelli á laugardagsmorguninn og valda usla, það er svo leiðinlegt að hafa ekkert að gera í vinnunni. Ég vona samt að lífverðirnir reyni ekki að skjóta mig ef ég geri einhverja vitleysu, það er víst hætt við því, t.d. ef maður „missir“ eitthvað, eins og t.d. egg, í áttina að honum Jang blessuðum.

Síðustu daga hef ég verið nokkuð ánægður með að hafa farið í útivinnu enn eitt sumarið, +20 stiga hiti og brakandi sól og ég er allverulega farinn að líkjast bónda (þið vitið, kúkabrúnn á handleggjunum, fótleggjunum, hálsinum og andlitinu en næpuhvítur annars staðar). Á föstudaginn er svo meistarinn í fríi, og ég hæstráðandi á svæðinu. Ætli það verði unnið mikið þá?

Félagi Sverrir Guðmundsson, minjavörður með meiru hjá Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur, mun vera meðal dyggra lesenda þessarar síðu. Honum er hér með þakkað skeytið, og skal það útskýrt að „ísleifska“ er mállýska kennd við Ísleif nokkurn bílaáhugamann sem gert hefur garðinn frægan í þættinum Mótor á Skjá Einum, hvar hann telur upp kosti og (sjaldnar) galla hinna ýmsu bílategunda. Felst ísleifskan einkum í því að telja upp hvað finna má í bílnum, og ef það telst bílnum til tekna að segja að það sé gott. Dæmi: „Í þessum bíl eru þriggja punkta öryggisbelti, sem er gott. Í honum er fimm þrepa sjálfskipting, sem er gott. Dekkin eru 17 tommu, sem er gott.“ Ekki eru aðrar leiðir færar innan ísleifskunnar til að hampa bílum (eða öðru ef svo ber undir) á neinn hátt. Vona ég að útskýring þessi dugi félaga Sverri (sem er nota bene ekki leiðinlegur ungliði, hafi einhver haldið það).

Nú hef ég ekki meira að segja, nema það að Shaq er feitur...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates