« Home | ...úfff, kominn heim af djamminu, Hlöllinn bíður, ... » | ...og bróðir hans líka... » | ...sumir eru farnir að nálgast það ískyggilega að ... » | ...á morgun (í dag samkvæmt blogger) rennur stóra ... » | ...fór í bæinn í kvöld, djöfuls skítaveður, menn f... » | ...Hverjir vinna? <!-- Begin Sparklit HTML Code -... » | ...hæhóogjibbíjei, það er kominn sautjándi júní, e... » | ...ný comment komin inn, tjáið ykkur endilega... » | ...ég náði, ég mun útskrifast. Fimm ára þrautagöng... » | ...nú eru allir að verða vitlausir út af einhverju... » 

sunnudagur, júní 23, 2002 

...eitthvað afrekaði maður í gær, eins og síðasta færsla sýnir kom ég heim undir morgun, vel slompaður með Hlöllabát í farteskinu. Hafði þá talsvert yfir mig dunið.

Dagurinn hófst eins og lög gera ráð fyrir á því að vakna. Það hef ég gert oft áður, svo það gekk bara ágætlega. Eigi svo löngu síðar var ég kominn niður í Laugardalshöll í þeim erindagjörðum að útskrifast. Illu heilli voru þar 714 aðrir í sömu hugleiðingum. Þeirri serímóníu tókst að vísu að ljúka á tveimur og hálfum tíma, en ósköp var þessi samkoma samt leiðinleg. Páll Skúlason er með slepjulegasta handtak í heimi. Leit á prófskírteinið mitt, og uppgötvaði þá í fyrsta sinn að lægstu einkunnirnar mínar eru í þeim tveimur kúrsum sem Ármann kenndi. Á því eru tvær hugsanlegar skýringar. Önnur er sú að hann hafi verið svona lélegur kennari. Hin er sú að honum hafi einum kennara tekist að sjá í gegnum mig og leti mína. Ég læt ykkur um að ákveða hvort er líklegra. Sat við hliðina á Villa Naglbít á útskriftinni, alltaf gaman að mingla við „fræga“ fólkið.

Ekki nenntu foreldrar mínir að halda mér veislu, en buðu mér þess í stað út að borða á Tapas-barinn. Það þóttu mér ágætis sárabætur, enda er maturinn á þessum stað algjör snilld, gef honum næsthæstu einkunn, eða *** á penguin-kvarðanum.

Að áti loknu var svo haldið í teiti í Engjaselinu hjá þeim hjónum Jóhannesi og Láru, miklu öðlingsfólki sem fagna mér ávallt sem týnda syninum þegar ég kem í heimsókn. Þar flaut bjórinn svo ölvun kom skjótt yfir menn og konur, og ekki leið á löngu áður en Jarlaskáldið og aumingjabloggarinn hófu upp söngraust sína við mikinn fögnuð viðstaddra, að vísu mismikinn. Reyndust fullyrðingar þeirra um að kunna ALLA texta í heiminum þó úr lausu lofti gripnar. Þá leikar stóðu hæst lét Jarlskáldið sig svo hverfa án þess að kveðja nokkurn mann eins og því er tamt, og var för þess heitið vestur í bæ, í aðra teiti og ekki síðri heima hjá Kjartani inum rauða. Þar var margt um manninn, og góðmennt þar að auki, og undi Jarlskáldið hag sínum vel þar (glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að söguhetjan breyttist úr því að vera „ég“ yfir í „Jarlaskáldið“ án nokkurra útskýringa. Skal það því útskýrt hér að „ég“ breytist ávallt í „Jarlaskáldið“ þá ölvun kemur yfir söguhetjuna. Er það vel þekkt minni úr bókmenntum að skáldgáfan komi yfir menn um leið og ölvunin, sbr. Suttungamjöður). Einna helst man Jarlaskáldið eftir miklu hláturskasti sem það og fleiri tóku þar, en ekki man skáldið hvað var svona fyndið.

Frá Kjartani var svo för heitið í bæinn, hvar við tók bið í röð fyrir utan skemmtistaðinn Sirkus. Þar var lítið gaman þá loksins biðin var á enda, en Jarlskáldið ílengdist þó þar um stund, hálffúlt að fara strax út eftir langa bið. Komst það þar í kynni við ágæta menn, og kynnti þeim síðar um nóttina klifuríþróttir ölvaðra, sem lauk á því að klifra upp á Stjórnarráðið. Einhverju síðar var svo skáldið komið með Hlölla í hönd í leigubíl á leið heim. Góður endir á góðu kvöldi...


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates