laugardagur, nóvember 30, 2002 

Svindl

Eins og frá var greint hér að ofan sveið Jarlaskáldinu nokkuð umfjöllun í því arma blaði Fókus í gær. Eins og alkunna er hefur það löngum verið yfirlýst takmark Jarlaskáldsins að vera getið í Hverjir voru hvar? í Fókus, fá grein um sig í Séð og heyrt undir yfirskriftinni Jarlaskáldið (25) enn við sama heygarðshornið og lenda í viðtali í Maður er nefndur hjá Hannesi Gissurarsyni. Enn hefur ekkert af þessu tekist, að vísu var Skáldsins einu sinni getið í Hverjir voru hvar? í Stúdentablaðinu, en á móti kom að Skáldið var ekki einu sinni á þeim stað sem það var sagt hafa verið. Bömmer.
Í þeirri von að fyrsti draumurinn hafi ræst les Skáldið alltaf Fókus á föstudögum, og gærdagurinn var engin undantekning. Var það nokkuð vongott að þessu sinni, þar eð það hafði bæði mætt í Sjallapartý á Sportkaffi og á Hverfisbarinn helgina á undan. Hófst lesturinn, og eins og við mátti búast var talin upp mikil romsa celeba sem hafði verið á Sportkaffi. Grípum hér niður í umfjöllun blaðsins:
„...Þá sást til þeirra Erps, Bents og hinna Rottweilerhundanna, fótboltamannanna Veigars Páls, Sverris Sverrissonar og Helga Sigurðssonar, kvikmyndagerðarmannsins Júlla Kemp, sálfræðingsins Magnúsar Blöndal, Gumma Jóns úr Sálinni, Huldu Bjarna útvarpskonu, Heiðars Austmanns...“ Sálfræðingsins Magnúsar Blöndal!!!!!!!!!!!! Hvur andskotinn er hér á seyði!!!!!
Eins og við er að búast er Jarlaskáldið allt annað en sátt við þessa umfjöllun. Ekki nóg með það að Jarlaskáldsins sé hvergi minnst, heldur bíta þeir höfuðið úr skömminni með því að nefna til sögunnar „sálfræðinginn Magnús Blöndal“. Maðurinn leit þarna inn í ca. korter og eyddi öllum tímanum í að væla í ritstjóra Fókus um að vera nefndur í Hverjri voru hvar? Og núna er helvítið orðið svo merkilegt með sig að það fer bara beint í celebaröðina á skemmtistöðum bæjarins á meðan við hinir ómerkilegu hírumst úti í kulda og trekki, bíðandi eftir því að heiladauðir dyraverðir aumki sig yfir okkur. Sveiattan!!

 

Njósnari hennar hátignar, og gömul bíóhús

Jarlaskáldið var að koma heim eftir að hafa glápt á nýjustu myndina um Bondarann, Dey síðar meir. Bondarinn er alltaf ákveðinn viðburður, og hefur Jarlaskáldið afrekað að hafa séð allar Bondmyndir síðan Octopussy í bíó, en þá mynd sá Jarlaskáldið einmitt í Nýja Bíói í kringum 1984 og var það líklega fyrsta alvörumyndin sem það sá í bíó, 7 ára að aldri. Yngri lesendur hvá eflaust núna, hvað er þetta Nýja Bíó? Þeim til glöggvunar var það staðsett í Lækjargötu, þar sem Topshop er víst núna. Jarlaskáldið man eftir fleiri bíóum sem nú heyra sögunni til, eins og Tónabíó, þar sem Skáldið sá m.a. þá frábæru mynd BMX Bandits með Nicole Kidman barnungri í einu aðalhlutverkanna. Það þótti stórkostleg mynd á sínum tíma, en þyldi tæplega áhorf núna. Einnig man Jarlaskáldið eftir bíói sem var í Kópavogi, við Smiðjuveg eða þar nálægt. Þar sá það eitt sinn mynd um ofurhund nokkurn, en ekki man það hvað myndin hét. Svo man Jarlaskáldið líka eftir Stjörnubíói og Austurbæjarbíói/Bíóborginni, en maður þarf nú að vera sæmilega klikkaður til að gera það ekki.
Annars var Bondarinn í kvöld hinn ágætasti, a.m.k. á köflum. Stundum fannst manni þetta vera 2 tíma auglýsing, svo miklu af vörumerkjum er troðið inn í myndina. Einnig hefði verið heppilegra að skilja heilann eftir heima í vissum atriðum, og á það sérstaklega við um atriði sem eiga að gerast á Fróni. Heldur hefur ásýnd Jökulsárlóns breyst síðan Jarlaskáldið var þar síðast ef marka má myndina. Jarlaskáldinu sveið þó mest að í myndinni er hvergi minnst á frændfólk þess frá bænum Hala, sem byggði upp og rak til margra ára ferðaþjónustu við Jökulsárlón. Algjörlega út í hött, og jaðrar við sögufölsun (sögufölsun í Bondaranum! Nei, nú lýgurðu!). Þó sveið það ekki eins mikið og nýjasta tölublað Fókus, en að því verður vikið síðar.
Það merkilega er það eru einmitt þessir „gallar“ á Bondmyndum sem gera þær svo frábærar. Það væri bara út í hött ef plottið gengi upp, illmennin væru ekki ofleikin, náttúrulögmál væru við lýði og Bondgellur væru ekki með brókarsótt. Dey síðar meir uppfyllir allar þessar kröfur og vel það, og er ekki ólíklegt að hún sé með heimskulegasta plott Bondmynda hingað til. Er það vel. Eina sem vantar er meiri karlremba a la Sean Connery, en það er víst ekki nógu PC. Mikið er Jarlaskáldinu illa við allt sem heitir PC.
Það verður víst ekki meira hér í bili, sæl veriði...

mánudagur, nóvember 25, 2002 

Konsert

Jarlaskáldið virðist hafa meðfædda hæfileika til að fá fólk til að bíða í röð fyrir sig. Í dag stóð litli bróðir í röð á Skólavörðustígnum í tæpa tvo tíma eða svo eftir miðum á tónleika Sigur Rósar, en þar var einmitt múgur og margmenni í sömu erindagjörðum og því eins gott að strákurinn mætti tímanlega. Það verður því góð önnur vikan í desember, Nick Cave á mánudeginum og Sigur Rós á föstudeginum, ekki amalegt það. Kostar að vísu hátt á sjöunda þúsund, en það reddast, það gerir það yfirleitt á endanum.

 

Biskupinn bloggar

Biskupinn hefur hafið blogg, og þar sem hann er svo almennilegur að linka á Jarlaskáldið að fyrra bragði er réttast að veita Biskupnum sama heiður. Biskupinn hefur lýst bloggi Jarlaskáldsins sem „stórkostlegum ærumeiðingum á sjálfum sér.“ Eflaust eitthvað til í því...

 

Jarlaskáldið Smjörkúkur?

Þegar síðast heyrðist til Jarlaskáldsins var það enn að glíma við pest eina þráláta og var afar tvísýnt um lífslíkur þess. Lesendum eflaust til mikillar gleði hefur Jarlaskáldið nú náð fullri heilsu eða því sem næst, og tekið aftur upp fyrri siðu, sukk og svínarí. Lesendur eru líkast til spenntir að vita hvað drifið hefur á daga Skáldsins undanfarna viku, og hér hafiði það:

Sem fyrr var frá greint varð Beibfjölskyldan lögleg í síðustu viku, og af því tilefni boðaði hún til mikils fögnuðar á miðvikudaginn. Þrátt fyrir að vera enn með snert af pestinni þrálátu lét Jarlskáldið sig ekki vanta í þann fögnuð, sem fram fór í sumarbústað í Ölfusi, en sá staður er hættulega nálægt Selfossi. Þangað var Skáldið mætt um sjöleytið á miðvikudag ásamt sérlegum bílstjóra sínum, og fljótlega bættust fleiri í hópinn. Fólst fögnuðurinn einkum í því að sporðrenna flatbökum, og síðan að spila, og varð Trivial Pursuit fyrst fyrir valinu. Þegar það hafði verið spilað drykklanga stund án þess að úrslit fengjust var ákveðið að hætta því og bregða sér í heitan pott. Þar var einnig setið góða stund, og síðan fóru gestir að halda heim á leið. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta varð Jarlaskáldið eftir í bústaðnum ásamt hjónunum, Magnúsi frá Þverbrekku og sérlegum bílstjóra Skáldsins, og það sem eftir lifði nætur dundaði karlpeningurinn sér við að hella öllu áfengi í húsinu ofan í sig, og varð það magn heldur meira en heppilegt þykir á miðvikudagskvöldi. Urðu það því heldur súrir piltar sem héldu heimleiðis morguninn eftir, en hinn sérlegi bílstjóri Skáldsins varð eftir og svaf svefni hinna réttlátu. Eins og nærri má geta vakti ástand Jarlaskáldsins mikla lukku þegar það mætti loks til vinnu á ellefta tímanum (þó ekki elleftu stundu, hehe), en það þraukaði þó út vinnudaginn, ólíkt ýmsum öðrum sem þar hafa mætt í svipuðu ástandi.

Af þessum og öðrum orsökum varð Jarlaskáldið hið spakasta á bæði fimmtudags- og föstudagskvöld, og notaði tímann til að rifja upp kynnin við sinn gamla vin sjónvarpið. Voru þau kynni hin ágætustu. Horfði Skáldið m.a. á tvær kvikmyndir á föstudaginn, annars vegar About a Boy og hins vegar My Big Fat Greek Wedding. About a Boy var nokkuð smellin, mætti alveg skella svona þrem stjörnum á hana ef mann langar til. My Big Fat Greek Wedding var ekki alveg jafngóð, erfitt að skilja af hverju Ameríkanar eru að missa þvag og saur yfir þessari mynd, hún fengi varla meira en tvær stjörnur hjá þessum áhorfanda. Alls ekkert slæm mynd, en ekkert spes heldur. Sýnir bara hvað Ameríkanar eru heimskir!

Á laugardaginn var Jarlaskáldinu heldur farið að leiðast aðgerðaleysið og byrjaði að hugsa sér til hreyfings út á lendur skemmtanalífsins. Heldur erfitt reyndist til að byrja með að sannfæra aðra um að slást með í þá för, og fór svo að lokum að Jarlaskáldið heimsótti Hrafnhildi og tók í nokkur spil ásamt henni, systur hennar og vinum þeirra, hverja Jarlaskáldið þekkti ekki. Skemmst er frá því að segja að Jarlaskáldið bar sigur úr býtum í öllum spilum þetta kvöldið, sem reyndist gefa nokkra vísbendingu um aflabrögð í kvennamálunum síðar um kvöldið.
Þegar nálgast tók miðnætti þótti Jarlaskáldinu svo tilhlýðilegt að heimsækja miðbæ Reykjavíkur, og fyrir einhverra undarlegra hluta sakir gekk það stuttu síðar inn á þann arma stað Sportkaffi, en þar fór þá fram prófkjörssamkoma Sjálfstæðismanna. Eins og margir væntanlega vita hefur Jarlaskáldið verið lítið fyrir að taka hægri beygjur í pólitík, og því eðlilegt að fólk spyrji hvern andskotann Skáldið var að gera þarna. Þarna var ekki einu sinni frír bjór eða neitt! Hummm....
Hvað sem því líður var Jarlaskáldið mætt, og þeir fáu sem það þekkti á staðnum voru einmitt heldur hissa á veru þess þar. Þó ekki eins hissa og Jarlaskáldið þegar Birgir Ármannsson heilsaði því með virktum að fyrra bragði, enda þekkir það manninn ekki neitt. Hann hefur kannski verið orðinn svona fullur, hver veit?
Á staðnum hitti Skáldið þá fóstbræður Stefán og Vigni, og voru þeir hinir hressustu, en Stefán þó sýnu hressari, enda nefið hans í góðu lagi. Stuttu síðar bættist Magnús frá Þverbrekku á staðinn, og voru öll fyrri orð um slappleika hans og aumingjaskap gleymd og grafin med det samme. Þegar síldartunnustemmningin á Sportkaffi var orðin fullmikil, og sýnt þótti að sjálfstæðiskvensur hefðu lítinn áhuga á félagsskap Jarlaskáldsins og meðreiðarsveina þess var ákveðið að halda á fornar slóðir, nefnilega Hverfisbarinn. Þar biðu menn í röð langalengi eins og venjulega, en komust inn um síðir og höfðu þar inni nokkuð gaman. Einhverju síðar varð það samkomulag að fara á Nonnann, og því arkað niður Laugaveginn í þeim erindagjörðum. Á móts við Kofa Tómasar frænda varð gerður stuttur stans til að ræða málin, og þá urðu skrýtnir atburðir. Magnús frá Þverbrekku varð skyndilega sannfærður um að Jarlaskáldsins biði bráður bani ef það tæki ekki þátt í kappdrykkju, og var Skáldið dregið inn á Kofann og því færðir nokkrir lítrar af blávatni sem því var gert að drekka á mettíma. Þrátt fyrir að átta sig ekki á því hvaða yfirvofandi hætta steðjaði að því ákvað Jarlaskáldið að tefla ekki á tvær hættur heldur svolgraði í sig blávatninu og hafði í raun bara gaman af. Enn veit Jarlaskáldið ekki hvað Magnúsi gekk til með þessu athæfi, né hvort meint feigð þess hafi átt við rök að styðjast. Gaman væri að fá á þessu útskýringar, því skrýtið var þetta!
Að lokinni kappdrykkjunni var hadlið sem leið lá á Nonnann og sluppu matargestir inn rétt fyrir lokun. Hafði þá Ríkey ektafrú Eyjólfs VÍN-verja bæst í hópinn, og áttu hún og Jarlaskáldið í miklum rökræðum um plagíóklasa og önnur jarðfræðileg efni. Var þetta samtal nokkuð merkilegt í ljósi þess að Jarlaskáldið hefur ekki hundsvit á jarðfræði. Að áti loknu var svo haldið heim á leið í leigubíl, sem var á við rútu að stærð, og dýr eftir því. Mætti segja að sparnaðarátak Jarlaskáldsins hafi ekki gengið mjög vel þessa helgi, en þá er bara að hækka yfirdráttarheimildina, er það ekki?

þriðjudagur, nóvember 19, 2002 

Uppreisn æru

Maður er nefndur Oddbergur Eiríksson, oft kenndur við aumingjablogg. Hefur Oddbergur í gegnum tíðina verið bæði samfélaginu og samferðamönnum sínum til llítils gagns, og jafnvel óþurftar þegar verst lætur. En jafnvel gagnslausustu menn geta öðlast uppreisn æru. Það tókst Oddbvergi í dag, þegar hann lét hvorki úrhelli né fimbulkulda hindra sig í að bíða í röð í lengri tíma eftir miðum á tónleika þess ágæta listamanns Nick Cave. Það sem gerir þetta afrek svo glæsilegt er það að stuttu áður en miðasalan opnaði mundi Oddbergur eftir sínum minnsta bróður, Jarlaskáldinu, hringdi í það og bauðst til að kaupa fyrir það miða. Þetta kallar Jarlaskáldið mikinn öðlingshátt, og hefur í þakklætisskyni ákveðið að sæma Oddberg virðingartitlinum Rokkarabloggari. Svo er bara að vona að Nick blessaður verði í betra ástandi en síðast þegar hann kom á Klakann...

 

Enn þá boring

Þessi bévítans pest ætlar að verða eitthvað þrautseig. Jarlaskáldið taldi sig á góðum batavegi á sunnudaginn og fór m.a.s. í ammæli til Hrafnhildar og allt, en um kvöldið gaus pestin upp grimmari en nokkru sinni fyrr, og Jarlaskáldið rúmfast med det samme. Fer þetta mál allt að verða hið skrýtnasta, og er jafnvel talið líklegt að ill álög hafi verið sett á Jarlaskáldið. Er sá sem kynni að hafa sett þau álög vinsamlegast beðinn um að aflétta þeim hið fyrsta. Málið verður þó fyrst alvarlegt ef pestin hefur sig ekki á brott fyrir miðvikudag, því þá er Jarlaskáldinu boðið í e.k. brúðkaupsveislu, en veislan sú felst í því að drekka bjór, éta pizzu og liggja í heitum potti í einhverjum bústað úti á landi. Svona eiga brúðkaupsveislur að vera, og það skal engin helvítis pest halda Jarlaskáldinu frá slíkum fögnuði!

laugardagur, nóvember 16, 2002 

Nýir bloggarar

Jarlaskáldið býður tvo nýja liðsmenn velkomna í tengslalistann. Þetta eru þau Líney og Sigurgeir. Líney ættu margir lesenda að þekkja, en fyrir ykkur hina lætur Skáldið nægja að segja að hún er frænka Aumingjabloggarans og stundar nám í University of Washington í Seattle. Sigurgeir þekkja örugglega færri, líklega bara lesendur úr vinnunni, sem eru fáir en dyggir. Sigurgeir er einmitt vinnufélagi Jarlaskáldsins og drengur góður, og því öll ástæða til að bæta honum á listann. Auk þess er hann oft með skemmtilegar pælingar, sem er meira en hægt er að segja um þessa síðu...

 

Boring

Nú reka margir lesenda eflaust upp stór augu þegar þeir sjá tímasetningu þessa bloggs. Hví skyldi Jarlaskáldið vera að nördast á netinu klukkan 11 á laugardagskveldi? Allt á þetta sínar eðlilegu skýringar. Að vísu mætti segja að skýringarnar séu afar óeðlilegar. Jarlaskáldið hefur nefnilega tekið sótt eina ferðina enn, og liggur því banaleguna í þriðja sinn í haust. Að vísu eru horfur orðnar nokkuð góðar núna á því að Jarlaskáldið lifi af, en allur er varinn góður og því vissara að halda sig heima og sleppa öllu sukki og svínaríi. Annars er þetta heilsuleysi Jarlaskáldsins undanfarna mánuði hin mesta ráðgáta. Skáldið hefur löngum montað sig af heilsu sinni og vart orðið misdægurt alla sína ævi, en núna virðist hver einasta pest eiga greiða leið inn fyrir varnirnar. Öllu furðulegra er þó hve reglulega þetta hefur gerst. Þetta hefur s.s. gerst einu sinni í hverjum mánuði, og alltaf byrjað á miðvikudagskvöldi, sem hefur valdið því að Jarlaskáldið hefur verið frá vinnu næstu tvo daga, en mætt svo hresst aftur á mánudegi. Ætli það sé alger tilviljun að starfsmenn Osta- og smjörsölunnar fá greidda tvo veikindadaga í mánuði? Vonandi fara yfirmenn Jarlaskáldsins ekki að gruna það um græsku...

En víkjum þá að titli þessa greinarkorns. Ólíkt því sem Jarlaskáldið hafði löngum haldið meðan það hafði sína góðu heilsu er það allt annað en skemmtilegt að vera veikur. Hafði það séð fyrir sér mikla dýrðartíma þar sem stjanað yrði við það á allan hátt, því færðar allar þær veitingar sem það lysti, það fengi að horfa á sjónvarp og vídjó tímunum saman og nyti meðaumkunar allra nærstaddra. Raunin er allt önnur. Manni líður nefnilega ekkert svo vel þegar maður er veikur, og því nokkuð erfitt að njóta allra þessara fríðinda ef þeirra nyti við, sem þau gera að sjálfsögðu ekki. Þess í stað liggur maður hálfósjálfbjarga í fleti sínu nær allan sólarhringinn og engist um af kvölum, að sjálfsögðu enginn heima til að sjá um mann, og það eina sem hægt er að gera er að láta tímann liða hægt og bítandi og bíða eftir ljúfri lausn dauðans.

Að vísu er þetta ekki svona slæmt hjá Skáldinu, það þjáist aðeins af smásótthita og hálsbólgu, en það er þó nóg til að gera undan farna daga einhverja þá leiðinlegustu í Skáldsins minni. Það hefur því tekið þá ákvörðun að veikjast aldrei aftur, því það er bara ekki eins gaman og maður hélt...

föstudagur, nóvember 15, 2002 

The Beibs

Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar til Beib-fjölskyldunnar, sem getur nú talist alvöru fjölskylda í lagalegum skilningi. Fyrir þau ykkar sem ekki skilja svona flókið lagamál þá voru Mr. and Mrs. Beib að gifta sig. Núna eru þau víst að honnímúnast á ótilteknum stað á landinu, eða svo sagði a.m.k. Mr. Beib í stuttu spjalli við Jarlaskáldið fyrir nokkrum mínútum. Þau lengi lifi, húrra, húrra, húrra, HÚRRA!!!

þriðjudagur, nóvember 12, 2002 

Spurning

Veit einhver hvað bjórinn kostar þarna?

 

Ítalía

Jarlaskáldið er á leiðinni til Ítalíu. Forsaga málsins er sú að í sögulegri sumarbústaðarferð VÍN um liðna helgi (en sú ferð náði einmitt á síður Fréttablaðsins, geri aðrir betur!) datt Jarlaskáldinu í hug þegar nokkuð var liðið á laugardagskvöld og dómgreindin orðin hin ágætasta að mikið snjallræði yrði ef það slægist með í fyrirhugaða för fimm VÍN-liða til Ítalíu í janúar, hvar meiningin væri að renna sér á skíðum niður snævi þaktar fjallshlíðar. Ekki gat það séð neina meinbugi á þessu ráði sínu.
Líður svo nóttin. Á sunnudeginum áttaði Jarlaskáldið sig á þeirri staðreynd að e.t.v. væri það ekki skíðamaður hinn besti, í ljósi þess að það hafði ekki staðið á slíkum prikum ca. hálfan annan áratug, og aldrei sýnt mikla takta á slíkum farskjótum. Auk þess á Jarlaskáldið engin skíði. Aftur á móti státar það af því að eiga forláta snjóbretti, ca. árgerð 1991 af Burton tegund, og var áður fyrr þekkt fyrir nokkra hæfileika á slíkum farartækjum, enda mun léttara að ráða við eitt prik en tvö, er það ekki svo? Það vandamál var því úr sögunni, farið skyldi með snjóbrettið og vonast til að eitthvað leyndist enn af fornri færni í búk Jarlaskáldsins. Þá kom annað vandamál til sögunnar. Skíðaferðir til Ítalíu eru víst ekki alveg ókeypis, og ekki telst Jarlaskáldið til efnamanna, enda á það hvorki bjórverksmiðjur í Rússlandi né lyfjafabrikkur í Búlgaríu. Voru því góð ráð dýr. Magnús Blöndahl kom með lausnina á þessu vandamáli; að borga þetta bara einhvern tímann seinna! Hvað skammsýnin hefur oft komið manni til bjargar!
Þar sem engin ljón voru lengur í veginum dreif Jarlaskáldið sig niður á ferðaskrifstofu í dag og borgaði staðfestingargjald, litlar 16.000 krónur sem það fékk lánaðar hjá þeim góðu mönnum í Europay, og er brottför fyrirhuguð þann 15. janúar. Núna er því bara að vona að grána taki í fjöllum svo Jarlaskáldið geti nú æft sig örlítið áður en í alvöruna kemur. Maður má nú ekki verða landi sínu og þjóð til skammar eins og einhver Kristinn Björnsson með því að vera sífellt á rassgatinu!

 

Klikk!

Jæja, þá eru foreldrarnir komnir heim aftur, og mátti ekki seinna vera, megavikunni lauk í gær. Komu þau að vanda færandi hendi, en Jarlaskáldinu til nokkurrar furðu var þar um fátt annað en ost að ræða. Talandi um að sækja vatnið yfir lækinn, vita þau ekki hvar Jarlaskáldið vinnur?

Annars var liðin helgi ekki laus við tíðindi, myndi jafnvel teljast til hinna tíðindameiri, en illu heilli er Óminnishegrinn eitthvað að þvælast fyrir Jarlaskáldinu. Reynum samt:

Um helgina var sem kunnugt er haldin árleg átveisla VÍN, Le Grand Buffet, og tókst hún afar misvel. Byrjum á því sem vel gekk. Maturinn var ein allsherjar snilld, enda ekki við öðru að búast þegar aðrir eins meistarakokkar eru í eldhúsinu. Snædd var rjómalöguð blaðlaukssúpa í forrétt, og var Toggi heilinn á bak við það. Í aðalrétt voru svo grillaðar svína- og folaldalundir með öllu því gúmmulaði sem slíku fylgir, en helst ber þó að geta framlags Jarlaskáldsins, sem var fetaosturinn í salatið. Í eftirrétt var svo súkkulaðikaka og ís.
Potturinn var einnig hinn ágætasti, og var drjúgum stundum eytt þar. Þá vöktu úrslit fyrri knattspyrnuleiks laugardagsins mikla lukku, þótt horft væri á hann að mestu ruglaðan. Seinni knatspyrnuleikurinn vakti ekki eins mikla lukku, en bakan á Pizza 67 var góð. Verst hvað það eru margir Selfyssingar á Selfossi!
Minnsta lukku vakti þó eflaust útspil vistmanns í nágrannabústað. Sá virtist hafa sloppið út af Sogni fyrr um kvöldið, og notað nýfengið frelsi til að hella óheyrilegu magni af áfengi í sig. Eftir kurteisisheimsókn VÍN-liða í téðan bústað sem gekk að öllu leyti vel fyrir sig taldi fyrrnefndur geðsjúklingur sig eitthvað hlunnfarinn hvað handklæði varðar og varð hinn æstasti. Þegar félagi Vignir reyndi svo að róa óbótamanninn niður skipti engum togum að hann vippaði Vigni yfir girðingu og réðst á hann. Hlaut Vignir þó nokkrar skrámur af og þurfti að kalla til fulltrúa skerfara Árnessýslu. Varð þetta síst til að hressa upp á stemmninguna, og mun Jarlaskáldið hafa dregið sig í hlé stuttu síðar, og kann því ekki frá fleiru að segja þá nóttina.
Ekki fóru menn á fætur fyrr en seint og um síðir á sunnudeginum, og þegar þessi orð eru rituð er Jarlaskáldið enn að glíma við eftirköst þessarar veislu. Nokkuð merkilegt í ljósi þess að það er kominn þriðjudagur!

föstudagur, nóvember 08, 2002 

Bless

Jæja gott fólk, nú heldur Jarlaskáldið á vit örlaga sinna. Vonandi sleppa flestir heilir á húfi úr þeim hildarleik sem fram undan er, og við sjáumst bara síðar.

( Til hamingju með daginn Mummi!)

 

Snilld

Nú er Jarlaskáldið búið hlusta ca. 800 sinnum á ( ), og hefur komist að niðurstöðu. Þessi diskur er snilld. Ekki bara snilld, heldur jaðrar hann við gargandi snilld. Það er greinilegt að Jarlaskáldið þarf að fara á tvenna tónleika í desember, Nick Cave og Sigur Rós. Nick Cave er líka snilld, veit ekki hvort hann er gargandi snilld, en hann fer ansi nærri því stundum. Vonandi að hann verði í betra ásigkomulagi en síðast...

 

Blogg að kröfu Mumma

Jarlaskáldið hitti Mumma á Messanum í gær, og kvartaði hann sáran yfir bloggleysi. Úr því skal bætt, þótt efni til þess séu lítil.

Vikan hefur verið hin rólegasta fram til þessa, á öllum vígstöðvum. Jarlaskáldið er nú eitt í koti sínu, eða því sem næst, þar eð foreldrar þess sýndu af sér það vítaverða ábyrgðarleysi að skreppa til útlanda og skilja Jarlaskáldið eftir án barnfóstru. Eins gott að það er megavika hjá Dominos, annars myndi Jarlaskáldið eflaust svelta heilu hungri. Blessunarlega er það vel mett.

Að vísu nýtti Jarlaskáldið einveru sína í slotinu til þess að boða til spilakvölds. Skemmst er frá því að segja að úrslit urðu meira og minna eftir bókinni, aumingjabloggarinn tapaði feitt (þó ekki eins feitt og Chicago gegn Boston, þessi var fyrir Mumma) en Jarlaskáldið varð í öðru sæti. Kjarri vann, en Lilja hlaut bronsið. Spilaður var Kani að vanda, og eins og venjulega fór langmestur tíminn í að ræða gang spilsins, hvað hefði klikkað í þessu spili og hvers vegna þessi sagði 10 en ekki 11 og af hverju þessi aftrompaði ekki þennan og svo framvegis og svo framvegis.

Í þessum skrifuðu orðum var Hrafnhildur frá Hvanneyrum að senda Jarlaskáldinu ástar- og saknaðarkveðjur með SMS, og þakkar Jarlaskáldið af heilum hug fyrir. Með skeytinu fylgi m.a.s. myndrænt faðmlag, eða „knús“, eins og það kallast víst meðal almúgamanna. Meðfylgjandi kveðja var reyndar á dönsku, hvað sem því veldur.

Hrafnhildur þessi (ábendingarfornafnið er hér notað ef ske kynni að einhver lesenda þekki ekki stúlkuna, þeir sem þekkja hana vinsamlegast leiði ábendingarfornafnið hjá sér) mun um helgina ásamt Jarlaskáldinu verða þess heiðurs aðnjótandi að verða boðið á Le Grand Buffet, sem er einmitt átveisla ein mikil haldin af þeim merka félagsskap VÍN, og fer hún jafnan fram í sumarhúsi, að þessu sinni að Ölfusborgum. Má búast við að gaman verði þar nokkurt, og jafnvel glens þegar líða tekur á. Snædd verða íslensk húsdýr af ýmsum tegundum, ásamt ýmsu öðru góðgæti, sem of langt mál yrði að telja upp.

Að lokum þetta: Jarlaskáldinu hefur borist til eyrna að það merka rit Ratatoskr, sem gefið er út af íslenskunemum og Jarlaskáldið ritstýrði við góðan orðstír áður fyrr, hafi í kjölfar skipanar nýrrar ritstjórnar (öll kvenkyns hvort sem það skiptir máli eður ei) breytt titli blaðsins í Ratatoskur. Ef satt er hljóta þetta að teljast váleg tíðindi, og er það von Jarlaskáldsins að þeir góðu menn er nú fylla kaffistofu Árnagarðs sjái til þess að þessu verði snúið við hið fyrsta. Ekkert helvítis u-innskot í Ratatoski!

sunnudagur, nóvember 03, 2002 

Af árshátíðum, skírnum og sörpræsum

Æðri máttarvöld ákváðu greinilega að sjá aumur á Jarlaskáldinu í veikindum þess, því Skáldið var orðið hið brattasta á föstudaginn, og því ekkert til fyrirstöðu að leita út á lendur skemmtanalífsins eins og svo oft áður. Var stefnan það kvöldið tekin á gamlingjastaðinn Kaffi List, hvar Magnús frá Þverbrekku hafði komið sér makindalega fyrir ásamt yfirmanni sínum, og bættust Jarlaskáldið, Stefán frá Logafoldum og síðar Hrafnhildur frá Hvanneyri í þann ágæta hóp. Fóru þar fram gáfulegar samræður í bland við léttara hjal, uns yfirmaðurinn hélt heim á leið, en aðrir tóku þá stefnuna á þann margrómaða stað Hverfisbarinn. Var þar glaumur mikill og gleði, ekki síst hjá félaga vorum Frosta, sem m.a. velti húsgögnum í kæti sinni, en við litla kátínu annarra. Beibstandardinn var með hæsta móti þetta kvöld, en aflabrögð ekki jafngóð. Líklega vorum við ekki nógu fullir, það virtist virka vel hjá öðrum. Annars endaði kvöldið með Hlölla í annarri og kók í hinni, allt er gott sem endar vel.

Á laugardaginn var blásið til hátíðar, nánar tiltekið Árshátíðar Osta og Smjörsölunnar . Þar gat Jarlaskáldið að sjálfsögðu ekki látið sig vanta, og hófst gleðin að Urriðakvísl um fimnmleytið, hvar yngri starfsmenn hittust í for-fordrykk. Þaðan var haldið í Sunnusal Hótels Sögu, og var þar í fyrstu boðið upp á væminn krapakokkteil, lítt áfengan og óspennandi. Maturinn reyndist svo vera hinn ágætasti, hlaðborð með alls kyns gúmmulaði, og svo ís og kaffi og koníak og tilbehör. Einhver voru skemmtiatriði, sum þeirra voru skemmtileg, veislustjórinn var Helga Braga, sem fór með sína velæfðu rullu ágætlega. Að sjálfsögðu vann Jarlaskáldið ekkert í happdrættinu, það mun ekki gerast í þessu jarðlífi. Áfengi var dýrt, 600 kall fyrir lítinn bjór, og tók því Jarlaskáldið upp á því að lepja sterkt áfengi í staðinn. Ekki sniðugt. Annars fór lítið fyrir dansmennt hjá Skáldinu, en þeim mun meira af pólitískum rökræðum. Um eittleytið var samkoman orðin nokkuð súr, og því brá Skáldið sér austur yfir Suðurgötu í partý hjá Villa Naglbít, hvar Magnús og Stefán voru staddir. Var svo stefnan tekin á fornar slóðir, og fer ekki frekari sögum af því kvöldi, en Jarlaskáldið vaknaði á gólfinu heima hjá sér daginn eftir, humm...

Þrátt fyrir nokkurn heilsubrest dreif Skáldið sig á fætur upp úr hádegi í dag, þar eð því hafði verið boðið að vera viðstatt skírn Sölva Gunnarssonar. Varð sú skírn söguleg. Jarlaskáldið var mætt niður í Dómkirkju klukkan tvö, og fór þar fram hefðbundin skírnarathöfn, fyrir utan það að Sölvi grenjaði ekkert. Voru þarna viðstaddir nánustu fjölskyldumeðlimir hjónaleysanna ásamt nánustu vinum. Þegar búið var að skíra sagði prestur fólki að setjast niður og hlusta á smá tónlist. Byrjuðu svo að hljóma nokkuð kunnuglegir tónar, og urðu gestir allhvumsa þegar þeir áttuðu sig á því að þetta var brúðarmars. Fuðulegt að spila þetta í skírn! Urðu gestir þó öllu hvumsari þegar hjónaleysin röltu upp að altarinu og fengu sér þar sæti. Það átti sem sagt bara að nota tækifærið og gifta sig, án þess að nokkur maður fyrir utan prestinn vissi hvað til stæði. Og nú eru þau sem sagt gift, jammogjá, Jarlaskáldið óskar þeim til hamingju með það. Oseiseijú...


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates