« Home | Konsert Jarlaskáldið virðist hafa meðfædda hæfile... » | Biskupinn bloggar Biskupinn hefur hafið blogg, og... » | Jarlaskáldið Smjörkúkur? Þegar síðast heyrðist ti... » | Uppreisn æru Maður er nefndur Oddbergur Eiríksson... » | Enn þá boring Þessi bévítans pest ætlar að verða ... » | Nýir bloggarar Jarlaskáldið býður tvo nýja liðsme... » | Boring Nú reka margir lesenda eflaust upp stór au... » | The Beibs Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar... » | Spurning Veit einhver hvað bjórinn kostar þarna? » | Ítalía Jarlaskáldið er á leiðinni til Ítalíu. For... » 

laugardagur, nóvember 30, 2002 

Njósnari hennar hátignar, og gömul bíóhús

Jarlaskáldið var að koma heim eftir að hafa glápt á nýjustu myndina um Bondarann, Dey síðar meir. Bondarinn er alltaf ákveðinn viðburður, og hefur Jarlaskáldið afrekað að hafa séð allar Bondmyndir síðan Octopussy í bíó, en þá mynd sá Jarlaskáldið einmitt í Nýja Bíói í kringum 1984 og var það líklega fyrsta alvörumyndin sem það sá í bíó, 7 ára að aldri. Yngri lesendur hvá eflaust núna, hvað er þetta Nýja Bíó? Þeim til glöggvunar var það staðsett í Lækjargötu, þar sem Topshop er víst núna. Jarlaskáldið man eftir fleiri bíóum sem nú heyra sögunni til, eins og Tónabíó, þar sem Skáldið sá m.a. þá frábæru mynd BMX Bandits með Nicole Kidman barnungri í einu aðalhlutverkanna. Það þótti stórkostleg mynd á sínum tíma, en þyldi tæplega áhorf núna. Einnig man Jarlaskáldið eftir bíói sem var í Kópavogi, við Smiðjuveg eða þar nálægt. Þar sá það eitt sinn mynd um ofurhund nokkurn, en ekki man það hvað myndin hét. Svo man Jarlaskáldið líka eftir Stjörnubíói og Austurbæjarbíói/Bíóborginni, en maður þarf nú að vera sæmilega klikkaður til að gera það ekki.
Annars var Bondarinn í kvöld hinn ágætasti, a.m.k. á köflum. Stundum fannst manni þetta vera 2 tíma auglýsing, svo miklu af vörumerkjum er troðið inn í myndina. Einnig hefði verið heppilegra að skilja heilann eftir heima í vissum atriðum, og á það sérstaklega við um atriði sem eiga að gerast á Fróni. Heldur hefur ásýnd Jökulsárlóns breyst síðan Jarlaskáldið var þar síðast ef marka má myndina. Jarlaskáldinu sveið þó mest að í myndinni er hvergi minnst á frændfólk þess frá bænum Hala, sem byggði upp og rak til margra ára ferðaþjónustu við Jökulsárlón. Algjörlega út í hött, og jaðrar við sögufölsun (sögufölsun í Bondaranum! Nei, nú lýgurðu!). Þó sveið það ekki eins mikið og nýjasta tölublað Fókus, en að því verður vikið síðar.
Það merkilega er það eru einmitt þessir „gallar“ á Bondmyndum sem gera þær svo frábærar. Það væri bara út í hött ef plottið gengi upp, illmennin væru ekki ofleikin, náttúrulögmál væru við lýði og Bondgellur væru ekki með brókarsótt. Dey síðar meir uppfyllir allar þessar kröfur og vel það, og er ekki ólíklegt að hún sé með heimskulegasta plott Bondmynda hingað til. Er það vel. Eina sem vantar er meiri karlremba a la Sean Connery, en það er víst ekki nógu PC. Mikið er Jarlaskáldinu illa við allt sem heitir PC.
Það verður víst ekki meira hér í bili, sæl veriði...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates